Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 562. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1029  —  562. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um fullgildingu Íslands
á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi
gegn konum og heimilisofbeldi.


     1.      Hvað líður fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (CETS nr. 210, undirritaður í Istanbúl í maí 2011) af Íslands hálfu og hvenær er fyrirhugað að henni verði lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda?
    
Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúl-samningur, var opnaður til undirritunar í mars 2011 og var Ísland meðal fyrstu ríkja til að undirrita hann. Tyrkland hefur eitt ríkja fullgilt samninginn en hann tekur ekki gildi fyrr en tíu ríki hafa fullgilt hann. Samkvæmt upplýsingum frá Evrópuráðinu má ætla að hann taki gildi seint á árinu 2013 eða á árinu 2014.
    Ráðherra hefur þegar falið refsiréttarnefnd að hefja undirbúning lagafrumvarps til fullgildingar samningsins, en einnig þurfa velferðar- og innanríkisráðuneyti að eiga með sér samstarf við undirbúning fullgildingarinnar þar sem að hluti þeirra verkefna sem ráðast þarf í eru á málasviði velferðarráðuneytis.

     2.      Hefur efnisleg greining á áhrifum samningsins farið fram? Ef svo er, bendir hún til þess að geri þurfi umtalsverðar laga- eða skipulagsbreytingar áður en samningurinn er fullgiltur og þá á hvaða sviðum?
    Ráðuneytið hefur látið kanna ítarlega efni og ákvæði samningsins. Fyrsti fundur í fundaröð um mannréttindamál, sem efnt var til í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum, fjallaði um samninginn, ákvæði hans og áskoranir við fullgildingu hans. Á fundinn kom sérfræðingur frá Evrópuráðinu, en að auki héldu þar erindi fulltrúar stofnana og frjálsra félagasamtaka sem unnið hafa sérstaklega að framgangi málaflokksins. Á fundinum kom skýrt fram að fullgilding samningsins væri til þess fallin að styrkja varnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi á Íslandi.
    Í framhaldinu lét ráðuneytið gera yfirgripsmikla úttekt á efni Istanbúl-samningsins og aðlögun íslenskra laga og reglna svo að fullgilda mætti samninginn. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands annaðist úttektina. Ráðuneytið gerði skýrsluna aðgengilega á netinu til kynningar og óskaði eftir ábendingum og athugasemdum um hana í tengslum við undirbúning fullgildingar samningsins, en refsiréttarnefnd hefur efni hennar til hliðsjónar við vinnu sína við smíði lagafrumvarps.
    Af úttekt Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands má ráða að ekki sé um umfangsmiklar lagabreytingar að ræða svo að fullgilda megi samninginn. Í úttektinni má finna yfirlit yfir þær lagabreytingar sem talið er nauðsynlegt að ráðast í vegna fullgildingarinnar. Hvað varðar ákvæði hegningarlaga felur fullgilding samningsins meðal annars í sér að sérstakt ákvæði verði sett í lög um nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum. Fullgilding felur einnig í sér að stjórnvöld formfesti ramma um verkefni sem þau koma þegar að með einhverjum hætti, svo sem að hluta til varðandi rekstur kvennaathvarfa, starfrækslu neyðarnúmers, þjónustu við þolendur og meðferð fyrir gerendur.
    Ráðstafanir sem stjórnvöld þurfa að ráðast í svo að fullgilda megi samninginn eru ekki einskorðaðar við lagabreytingar. Tryggja þarf þjálfun og endurmenntun fagstétta og stuðla að breyttu hugarfari í samfélaginu. Þá þarf að endurskoða verklag og reglugerðir á grundvelli gildandi laga, m.a. hvað varðar meðferð mála hjá lögreglu.
    Þá telur ráðuneytið að í tengslum við fullgildingu samningsins þurfi, með hliðsjón af athugasemdum frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum með mannréttindaskuldbindingum Íslands og ábendingum frá lögreglu, að leiða í almenn hegningarlög sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi.