Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 548. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1030  —  548. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða nefndir, þ.m.t. ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa, hefur ráðuneytið sett á stofn á tímabilinu 20. mars 2012 – 20. janúar 2013?
     2.      Hvað sitja margir í framangreindum nefndum? Hvert er hlutverk þeirra, er skipun þeirra samkvæmt heimild eða fyrirmælum í lögum, hver er skipunartíminn og hverjar þeirra hafa lokið störfum? Hver er launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum?
     3.      Hvað hefur hver nefnd marga starfsmenn, hver er launakostnaður þeirra og eru einhverjir starfsmenn þeirra verktakar og ef svo er, hvað heita þeir og hvað hafa þeir fengið greitt úr ríkissjóði?
    Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða einstaklingar hafa verið skipaðir, tilnefndir eða valdir með öðrum hætti til setu í þessum nefndum, ráðum, verkefnisstjórnum og starfshópum, hver hafi skipað eða eftir atvikum tilnefnt þá og hvort störfin eru launuð eða ólaunuð.


    Sá hluti fyrirspurnarinnar sem lýtur að starfsmönnum nefnda er túlkaður svo af hálfu ráðuneytisins að þar sé einungis spurt um fasta starfsmenn, þ.e. starfsmenn sem taka að fullu þátt í störfum nefndar og sitja fundi hennar. Er þannig ekki litið svo á að spurt sé um einstaklinga, hvort sem um er að ræða starfsmenn stjórnsýslunnar eða utanaðkomandi verktaka, sem einungis taka að sér að vinna tilfallandi störf fyrir nefnd.

Nefnd til að semja frumvarp um fjármálastöðugleikaráð.
    Hinn 28. nóvember 2012 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra að eigin frumkvæði nefnd til að semja frumvarp um fjármálastöðugleikaráð. Í nefndina voru skipuð Tryggvi Pálsson, formaður, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Jón Sigurgeirsson, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, Guðrún F. Þórðardóttir, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, Kjartan Gunnarsson, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, og Haraldur Steinþórsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti. Til vara: Sigríður Logadóttir, tilnefnd af Seðlabanka Íslands, Ragnar Hafliðason, tilnefndur af Fjármálaeftirlitinu, Valgerður R. Benediktsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Lilja Sturludóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti. Hlutverk nefndarinnar er að setja rammalöggjöf um fjármálastöðugleika og stofnun fjármálastöðugleikaráðs sem beri ábyrgð á mótun og framkvæmd stefnu um fjármálastöðugleika, kerfisstöðugleika. Skipunartími nefndarinnar er til 31. mars 2013. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð fyrir utan laun formanns, sem liggja ekki fyrir á þessum tímapunkti. Með nefndinni starfar einn starfsmaður ráðuneytisins, Steindór G. Jónsson. Honum er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina.

Nefnd um endurskoðun lagaákvæða á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.
    Hinn 8. janúar 2013 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra að eigin frumkvæði nefnd um endurskoðun lagaákvæða um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Í nefndina voru skipuð Gylfi Magnússon, formaður, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Lilja Sturludóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Valgerður R. Benediktsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Lúðvík Elíasson, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, Sara Sigurðardóttir, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, og Ólafur Sigurðsson, tilnefndur af Landssamtökum lífeyrissjóða. Hlutverk nefndarinnar er að líta sérstaklega til athugasemda nefndar sem ríkissáttasemjari skipaði að ósk Landssamtaka lífeyrissjóða og komu fram í skýrslu hennar „Úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008“. Þá er nefndinni falið að greina fjárfestingarkosti lífeyrissjóðanna til skemmri og lengri tíma, m.a. með vísan til áætlana um afnám gjaldeyrishafta og skýrslu Seðlabanka Íslands um varúðarreglur eftir fjármagnshöft, sem gefin var út í ágúst 2012, og hvort rétt sé að grípa til sérstakra breytinga á fjárfestingarheimildum vegna þess hvernig fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna er háttað um þessar mundir og til skemmri tíma. Skipunartími nefndarinnar er til 1. júní 2013. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð fyrir utan laun formanns, sem liggja ekki fyrir á þessum tímapunkti. Með nefndinni starfar einn starfsmaður ráðuneytisins, Guðmundur Pálsson. Honum er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina.

Nefnd um málefnalegar forsendur við mat á launamun kynjanna og fleira er varðar kynbundinn launamun hjá ríkinu.
    Hinn 16. nóvember 2012 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra, í samræmi við aðgerðaáætlun um launamun kynjanna, nefnd um málefnalegar forsendur við mat á launamun kynjanna og fleira er varðar kynbundinn launamun hjá ríkinu. Í nefndina voru skipuð Halldóra Friðjónsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður, Pétur Jónasson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðlaug Kristjánsdóttir, tilnefnd af BHM, Páll Halldórsson, tilnefndur af BHM, Helga Jónsdóttir, tilnefnd af BSRB, Guðrún H. Sveinsdóttir, tilnefnd af BSRB, Már Vilhjálmsson, tilnefndur af Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, og Ingibjörg S. Sverrisdóttir, tilnefnd af Félagi forstöðumanna ríkisstofnana. Hlutverk nefndarinnar er að fara yfir skráningu upplýsinga í launakerfi ríkisins og skilgreina hvaða stýribreytur teljast málefnalegar varðandi launamun kynjanna. Henni er einnig ætlað að skoða formgerð og uppbyggingu kjarasamninga með það fyrir augum að meta að hve miklu leyti megi rekja kynbundinn launamun til kerfislægra þátta. Þá skal nefndin útbúa leiðbeiningar fyrir forstöðumenn um hvernig beri að bregðast við leiði launagreiningar í ljós kynbundinn launamun. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundinn. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfar einn starfsmaður ráðuneytisins, Stefanía S. Bjarnadóttir. Henni er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir nefndina

Starfshópur Íslands og ESB um afnám gjaldeyrishafta.
    Í júní 2012 óskaði efnahags- og viðskiptaráðherra eftir tilnefningum í starfshóp Íslands og ESB um afnám gjaldeyrishafta í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda og ESB. Hinn 18. september 2012, vegna sameiningar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í starfshópinn. Í starfshópinn voru skipuð Björn Rúnar Guðmundsson, formaður, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Arnór Sighvatsson, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, og Unnur Gunnarsdóttir, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu. Fulltrúar Evrópusambandsins í hópnum eru Alexandra Cas Granje, DG Enlargement, Bertil Vagnhammer, DG Markt og Dirk Verbeken, DG Ecfin. Fulltrúi Seðlabanka Evrópu er Benjamin Vonessen og fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins Daria Zakharova. Skipunartími starfshópsins er ótímabundinn. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum. Starfshópurinn er ólaunaður.

Starfshópur til að fara yfir stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs.
    Hinn 13. september 2012 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra að tillögu ríkisstjórnar starfshóp til að fara yfir stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs. Í starfshópinn voru skipuð Þórhallur Arason, formaður, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Hanna S. Gunnsteinsdóttir, tilnefnd af velferðarráðuneyti, Sigurður Á. Snævarr, tilnefndur af forsætisráðuneyti, og Valdimar Halldórsson, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Hlutverk starfshópsins var að fara yfir stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs. Skipunartími starfshópsins var ótímabundinn. Starfshópurinn hefur lokið störfum. Starfshópurinn var ólaunaður. Með starfshópnum störfuðu sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og eftir atvikum velferðarráðuneytisins. Þeim var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn.

Starfshópur um skattlagningu ferðaþjónustugreina og málefni sem henni tengjast.
    Hinn 30. ágúst 2012 skipaði fjármálaráðherra að eigin frumkvæði starfshóp um skattlagningu ferðaþjónustugreina og málefni sem henni tengjast. Í starfshópinn voru skipuð Gunnar Tryggvason, formaður, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Guðrún Þ. Guðmundsdóttir, fjármálaráðuneytinu, án tilnefningar, Helga Haraldsdóttir, tilnefnd af iðnaðarráðuneyti, Jón Guðmundsson, tilnefndur af ríkisskattstjóra, Gunnlaugur Geirsson, tilnefndur af innanríkisráðuneyti, Erna Hauksdóttir, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar, og Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Miðbæjarhótela. Hlutverk starfshópsins var að fara yfir forsendur og áhrif þess að breyta álagningu virðisaukaskatts á gistiþjónustu; samkeppnisstöðu og jafnræði greina innan ferðaþjónustunnar í skattalegu tilliti, og leyfisveitingar til aðila sem bjóða gistiþjónustu og aðgerðir til að koma í veg fyrir undanskot frá skattgreiðslum og til að styrkja stöðu ferðaþjónustunnar. Skipunartími nefndarinnar var til 30. september 2012. Starfshópurinn hefur lokið störfum. Starfshópurinn var ólaunaður.

Starfshópur um skattlagningu skemmtiferðaskipa.
    Hinn 29. ágúst 2012 skipaði fjármálaráðherra að eigin frumkvæði starfshóp um skattlagningu skemmtiferðaskipa. Í starfshópinn voru skipuð Ögmundur H. Magnússon, formaður, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Íris Ingjaldsdóttir, tilnefnd af tollstjóra, og Óskar H. Albertsson, tilnefndur af ríkisskattstjóra. Hlutverk starfshópsins var að skila tillögum um skattalegt umhverfi skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum. Skipunartími nefndarinnar var til 30. september 2012. Starfshópurinn hefur lokið störfum. Starfshópurinn var ólaunaður.

Starfshópur um milliverðlagningu (Transfer Pricing).
    Hinn 13. september 2012 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra að eigin frumkvæði starfshóp um milliverðlagningu (Transfer Pricing). Í starfshópinn voru skipuð Elín Árnadóttir, formaður, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ása Ögmundsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingibjörg Helga Helgadóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Aðalsteinn Hákonarson, tilnefndur af ríkisskattstjóra, og Sigurður Jensson, tilnefndur af ríkisskattstjóra. Hlutverk starfshópsins er að gera tillögur að íslenskum milliverðlagningarreglum með hliðsjón af reglum OECD og reynslu annarra landa, auk þess að semja drög að frumvarpi. Starfshópurinn skal skila áfangaskýrslu í janúar 2013. Skipunartími starfshópsins er til 31. október 2013. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum. Starfshópurinn er ólaunaður. Með starfshópnum starfar einn starfsmaður ráðuneytisins, Margrét Á. Sigurðardóttir. Henni er ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn.

Nefnd til að tryggja samráð og samhæfingu við mótun og útfærslu stefnu um losun gjaldeyrishafta.
    Í ágúst 2011 skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd til að tryggja samráð og samhæfingu við mótun og útfærslu stefnu um losun gjaldeyrishafta og endurskipaði nefndina með bréfi, dags. 11. júní 2012, þar sem starfsumboð nefndarinnar er jafnframt framlengt ótímabundið. Vegna breytinga sem orðið hafa á Stjórnarráði Íslands síðan nefndin var skipuð og þar sem einstakir nefndarmenn hafa látið af nefndarsetu ákvað fjármála- og efnahagsráðherra að endurskipa í nefndina. Í nefndina voru skipaðir Arnór Sighvatsson, formaður, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, Guðmundur Árnason, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurður Á. Kjartansson, tilnefndur af Fjármálaeftirlitinu, Kristján Skarphéðinsson, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, og Ágúst Ó. Ágústsson, tilnefndur af forsætisráðuneytinu. Skipunartími nefndarinnar er ótímabundin. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð.

Starfshópur um endurskoðun vörugjalda.
    Hinn 21. maí 2012 skipaði fjármálaráðherra að eigin frumkvæði tvo starfshópa um endurskoðun vörugjalda. Hlutverk starfshópanna var að endurskoða álagningu þeirra vörugjalda sem lögð eru á samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald. Öðrum starfshópnum, starfshópi I, er ætlað að skoða álagningu vörugjalda á matvæli en hinum starfshópnum, starfshópi II, er ætlað að skoða álagningu vörugjalda á aðrar vörur en matvæli.
    Í starfshóp I voru skipuð Sigurður Guðmundsson, formaður, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Haraldur Jónsson, tilnefndur af Samtökum verslunar og þjónustu, Ragnheiður Héðinsdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Erna Bjarnadóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Jóhannes Gunnarsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum, og Hólmfríður Þorgeirsdóttir, tilnefnd af landlæknisembættinu. Skipunartími starfshóps I var til 1. september 2012. Starfshópur I hefur lokið störfum án sameiginlegrar niðurstöðu. Starfshóparnir voru ólaunaðir. Með starfshópi I starfaði einn starfsmaður ráðuneytisins, Ögmundur H. Magnússon. Honum var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn.
    Í starfshóp II voru skipuð Ögmundur H. Magnússon, formaður, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Pétur Andrésson, tilnefndur af Samtökum verslunar og þjónustu, Bjarni M. Gylfason, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, Helga Hákonardóttir, tilnefnd af Bílgreinasambandinu, Elías Blöndal Guðjónsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, og Þóra Guðmundsdóttir, tilnefnd af Neytendasamtökunum. Skipunartími starfshóps II var til 1. september 2012. Starfshópur II hefur lokið störfum. Með starfshópi II starfaði einn starfsmaður ráðuneytisins, Guðrún Þ. Guðmundsdóttir. Henni var ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín fyrir starfshópinn. Einnig lögðu tollstjóri og ríkisskattstjóri starfshópunum lið með sérfræðiþekkingu og gagnaöflun.