Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1032  —  607. mál.




Fyrirspurn



til innanríkisráðherra um FBI og mál sem er til rannsóknar
hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


     1.      Kom ráðherra, eða eftir atvikum utanríkisráðherra, þeirri kröfu á framfæri við bandaríska dómsmálaráðuneytið að bandaríska alríkislögreglan (FBI) þyrfti nýja formlega réttarbeiðni í máli sem er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra, sbr. orð ráðherra á fundi með embættismönnum 25. ágúst 2011? Ef svo var ekki, hvernig stendur þá á því?
     2.      Krafðist ráðherra á fyrrnefndum fundi að starfsmenn FBI færu strax úr landi?
     3.      Á grundvelli hvaða gagna og af samtölum við hverja er sú skoðun ráðherra byggð að einstaklingur sem hafði gefið sig fram til að ræða við FBI um hugsanleg tölvubrot hafi verið tálbeita á vegum FBI, sbr. ummæli ráðherra í sérstökum umræðum á Alþingi 14. febrúar sl.?
     4.      Á hvaða gögnum byggist sú niðurstaða ráðherra að um tvö aðskilin mál sé að ræða þegar bæði ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri eru annarrar skoðunar, en margoft hefur komið fram að hið sjálfstæða ákæruvald taldi að eitt og sama mál væri til rannsóknar hjá íslenskum yfirvöldum en ekki tvö líkt og ráðherra hefur fullyrt?
     5.      Telur ráðherra heppilegt að hið pólitíska vald hafi aðra sýn á málið en faglegt og sjálfstætt ákæruvald?
     6.      Telur ráðherra nokkuð því til fyrirstöðu að fram fari opinber rannsókn þar sem meðal annars öll gögn málsins verði skoðuð og lögð fram?


Skriflegt svar óskast.