Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 511. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1034  —  511. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur
um endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, og hvenær er að vænta niðurstaðna þeirrar endurskoðunar?
    
    Hinn 12. október 2011 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp sem falið var að kanna leiðir og leggja upp kosti um með hvaða hætti unnt yrði að samræma reglur um eignarráð yfir vatni sem nú standa í lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þeirri framsetningu sem niðurstaða varð um á Alþingi haustið 2011 varðandi vatnalög, nr. 15/1923.
    Í skipunarbréfi starfshópsins kom m.a. fram að þörf væri á endurskoðun laga nr. 57/1998 með það að markmiði að laga löggjöfina að öðrum lögum er snerta eignarrétt og nýtingu á auðlindum í jörðu. Með vísan til nýlegra breytinga á vatnalögum, nr. 15/1923, væri sérstaklega brýnt að kannað verði hvernig best verður náð því markmiði að samræma reglur um vatnsréttindi í anda vatnalaga, nr. 15/1923.
    Starfshópurinn lauk störfum í maí 2012 og skilaði iðnaðarráðherra skýrslu sinni. Var skýrsla starfshópsins lögð fram til kynningar á ríkisstjórnarfundi 8. júní 2012.
    Í framhaldi af skilum starfshópsins hefur á vegum iðnaðarráðuneytis, og nú ráðuneytis atvinnuvega og nýsköpunar, verið unnið að gerð frumvarps til laga í samræmi við tillögur starfshópsins. Er sú vinna á lokastigum og ráðgert er að frumvarp þess efnis verði lagt fyrir ríkisstjórn á allra næstu dögum, með það fyrir augum að unnt verði að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi löggjafarþingi.