Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 194. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1040  —  194. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Margréti Magnúsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðmund Sigurðsson frá Samkeppniseftirlitinu, Ara Edwald frá 365 miðlum, Elfu Ýri Gylfadóttur frá fjölmiðlanefnd, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Hjálmar Jónsson og Sigurð Má Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Björn Geirsson og Hrafnkel Gíslason frá Póst- og fjarskiptastofnun, Hilmar Sigurðsson frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Björn Davíðsson frá Snerpu, Friðrik Friðriksson frá Skjánum, Pál Magnússon frá Ríkisútvarpinu, Einar Þorvarðarson frá Handknattleikssambandi Íslands og Finn Beck lögfræðing.
    Umsagnir bárust frá 365-miðlum ehf., Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði, Alþýðusambandi Íslands, áhugahópi um Ríkisútvarpið, Blaðamannafélagi Íslands, fjárlaganefnd Alþingis, fjölmiðlanefnd, Skjánum, Jafnréttisstofu, Knattspyrnusambandi Íslands, Neytendasamtökunum, Póst- og fjarskiptastofnun, Rithöfundasambandi Íslands, Ríkisútvarpinu, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Snerpu ehf., Tunnunni prentþjónustu ehf., Útvarpi Sögu og Viðskiptaráði Íslands. Nefndin kynnti sér einnig umsagnir sem fram komu um frumvarpið á 140. löggjafarþingi.
    Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram nefndarálit og breytingartillögu við frumvarpið á síðasta löggjafarþingi, en frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið er lagt fram að nýju með þeim breytingum sem lagðar voru til í breytingartillögu meiri hlutans.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlöggjöf um Ríkisútvarpið með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af gildandi lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007. Jafnframt er með frumvarpinu lagt til að brugðist verði við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um tilhögun ríkisaðstoðar. Þá er frumvarpinu ætlað að afmarka betur ákvörðun íslenskra stjórnvalda um hvað felist í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með það að leiðarljósi að skapa traustari starfsgrundvöll fyrir Ríkisútvarpið innan þess ramma sem reglur ESA frá árinu 2010 um ríkisstyrki til fjölmiðla í almannaþágu leyfa.

Fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu.
    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins og helstu markmið þess við rekstur fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
    Í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Jafnframt segir að Ríkisútvarpið skuli gera ráðstafanir til að hægt sé að flytja fréttir og framleiða efni utan höfuðborgarsvæðisins. Með ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið hafi starfsstöð eða starfseiningu utan höfuðborgarsvæðisins. Með hliðsjón af hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins telur meiri hlutinn engu síður mikilvægt að Ríkisútvarpið komi sér upp fastri starfsemi á völdum svæðum á landsbyggðinni. Það er mat meiri hlutans að það sé til þess fallið að efla og styrkja dagskrárgerð og fréttaflutning Ríkisútvarpsins frá landsbyggðinni og stuðli að því að Ríkisútvarpið uppfylli lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar skyldur sínar.
    Fram kemur í 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. að Ríkisútvarpið skuli í samvinnu við til þess bær stjórnvöld tryggja nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum. Í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar kom m.a. fram að ekki væri að finna í frumvarpinu skilgreiningu á tæknilegum gæðum þeirrar þjónustu sem Ríkisútvarpinu beri að veita, t.d. með tilliti til móttökuskilyrða. Jafnframt benti stofnunin á að í frumvarpinu skorti á að kröfur væru gerðar til Ríkisútvarpsins um að gera sérstakar ráðstafanir til þess að stuðla að öryggi og heildstæði dreifinetsins. Meiri hlutinn bendir á að fjallað er um öryggishlutverk Ríkisútvarpsins í gildandi samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu en þar kemur m.a. fram að Ríkisútvarpið starfræki öryggisþjónustu með hljóðvarpsútsendingum þegar náttúruvá eða aðrar sambærilegar ógnir steðja að. Meiri hlutinn tekur undir með Póst- og fjarskiptastofnun að eðlilegt sé með hliðsjón af öryggishlutverki Ríkisútvarpsins að stofnunin móti og fylgi öryggisstefnu, með áherslu á órofinn rekstur hljóðvarpsþjónustu um land allt og á næstu miðum. Hins vegar er það mat meiri hlutans að óraunhæft sé á þessu stigi að setja ítarlegar öryggiskröfur um samfellda þjónustu sjónvarps þar sem dreifikerfi sjónvarps er ekki byggt upp með það fyrir augum að standast þá álagsþætti sem fylgt geta náttúruvá.
    Í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að Ríkisútvarpið skuli varðveita hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar sem ætla má að hafi menningarlegt og sögulegt gildi. Nefndin ræddi nokkuð um nauðsyn þess að almenningur hefði aðgengi að safnefni Ríkisútvarpsins. Ljóst er að um gríðarleg menningarsöguleg verðmæti er að ræða og mikilvægt er að tryggja aðgengi almennings að því. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til þá breytingu að Ríkisútvarpið skuli tryggja sem greiðast aðgengi að safnefni, hvort sem er til einkanota eða til viðskiptalegrar hagnýtingar sjálfstæðra framleiðenda.
    Í 6. tölul. 3. mgr. 3. gr. segir að miðla skuli afþreyingar- og menningarefni við hæfi fólks á öllum aldri. Einnig segir að erlent efni skuli vera frá mismunandi menningarheimum og leggja skuli áherslu á efni frá Norðurlöndum og annað evrópskt efni. Frá umsagnaraðilum kom nokkur gagnrýni á að ekki væri vikið að sjálfstæðum framleiðendum íslensks efnis í þessu sambandi og bent var á nauðsyn þess að kveða á um að lágmarkshlutdeild af útsendu efni á kjörtíma skyldi vera frá sjálfstæðum framleiðendum. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur fram þá breytingartillögu að við 4. tölul. 3. mgr. 3. gr. bætist nýr málsliður sem kveður á um að í samningi sem ráðherra gerir við Ríkisútvarpið skv. 4. mgr. 2. gr. skuli mælt fyrir um lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt verði af sjálfstæðum framleiðendum. Það er álit meiri hlutans að eðlilegt sé að slíkt hlutfall skuli að lágmarki vera 10% en það mun vera í kringum 6% um þessar mundir.
    Í 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. er lögð skylda á Ríkisútvarpið um að kynna með vönduðum og hlutlægum hætti framboð og stefnur stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga. Ekki eru skráðar réttarreglur um tilhögun kynningar á framboðum í tilefni af almennum kosningum í gildandi lögum en með ákvæðinu er brugðist við ábendingum sem komu til íslenskra yfirvalda í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um mat á framkvæmd kosninga til Alþingis hér á landi árið 2009. Í kjölfar álits meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, nr. 38/2011 (599. mál), var stofnuð nefnd til að fjalla um athugasemdir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og móta af því tilefni reglur um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Sú nefnd hefur einnig haft til umfjöllunar gjaldfrjálsan útsendingartíma (e. free airtime) sem er þekkt og virkt úrræði í fjölmörgum ríkjum. Nefndin ræddi þetta úrræði töluvert og óskað eftir athugasemdum nefndarinnar í þeim efnum. Þar kom fram að ein hinna efnislegu athugasemda sem sett var fram í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunarinnar tengdist því hvernig Ríkisútvarpið hefði staðið að undirbúningi gjaldfrjáls útsendingartíma fyrir framboð í alþingiskosningum árið 2009. Það var mat stofnunarinnar að með nálgun sinni hefði Ríkisútvarpið gert stjórnmálaflokkum á þingi kleift að útiloka að ný framboð ættu kost á því að kynna framboð sín í sjónvarpi á eigin forsendum. Þá var í skýrslunni bent á að ástæða væri til að huga að setningu reglna um hvernig standa skyldi að úthlutun útsendingartíma og tryggja þannig samræmi milli kosninga. Í tilmælum ráðherranefndar Evópuráðsins (2007/15) til aðildarríkja um úrræði varðandi fjölmiðlaumfjöllun um kosningabaráttu er sérstaklega fjallað um úrræði vegna ljósvakamiðla. Fram kemur í 14. gr. tilmælanna að þau geri ráð fyrir því að ríki meti gildi þess að reglur um umfjöllun fjölmiðla um kosningar geri ráð fyrir því að ljósvakamiðlar í almannaþjónustu megi úthluta útsendingartíma án endurgjalds til flokka eða framboða meðan á kosningabaráttu stendur. Áréttað er að úrræðinu skuli beitt af sanngirni, jafnræði, gagnsæi og hlutlægni. Það er mat meiri hlutans að óumdeilt sé að frjáls útsendingartími í sjónvarpi hafi mikla þýðingu og yfir allan vafa hafið að sjónvarp sé ein áhrifaríkasta leiðin til að ná til kjósenda í kosningabaráttu. Hins vegar verði að hafa í huga ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins í þessum efnum. Það er mat meiri hlutans að ein grundvallarforsenda útvarps í almannaþjónustu sé ritstjórnarlegt sjálfstæði en það krefst þess einnig að jafnræðis sé gætt í aðgengi ólíkra pólitískra sjónarmiða og að tillit sé tekið til þeirra ólíku hópa sem eru móttakendur efnis. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að aðstöðumunur rótgróinna stjórnmálaflokka og nýrra framboða hvað varðar aðgengi að fjármagni og bakhjörlum kynni að leiða til óverjandi mismunar á gæðum og framsetningu þess efnis sem framboðin bæru ábyrgð á að framleiða til sýningar í Ríkisútvarpinu. Leggur meiri hlutinn því til eftirtaldar breytingar á ákvæðinu. Í upphafi ítrekar meiri hlutinn skyldu Ríkisútvarpsins til að halda áfram sem fyrr almennri kosningaumfjöllun í dagskrárgerð sem unnin er á faglegum forsendum þeirra sem hjá því starfa. Meiri hlutinn áréttar að skv. 1. málsl. 7. tölul. 3. gr. er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið mismuni ekki flokkum eftir kjördæmum né skuli sú krafa gerð að boðið sé fram í öllum kjördæmum til þess að flokkar fái að taka þátt í kappræðum í sínu kjördæmi. Meiri hlutinn leggur til að Ríkisútvarpinu verði gert skylt að veita öllum gildum framboðum til Alþingis, forsetakosninga og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín í sjónvarpi á hefðbundnum dagskrártíma. Einnig er lagt til að Ríkisútvarpið birti reglur þar að lútandi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að jafnræðis verði gætt meðal framboða og að þau fái tækifæri til að kynna stefnumál sín í hefðbundnum dagskrártíma í kvölddagskrá Ríkisútvarpsins. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að dagskrárefnið skuli lúta ritstjórnarvaldi Ríkisútvarpsins. Meiri hlutinn bendir einnig á að fyrir alþingiskosningar á undanförnum áratugum, síðast árið 2007, hafi stjórnmálaflokkum gefist kostur á því að kynna stefnumál sín á eigin forsendum í sérstökum 15 mínútna löngum þáttum sem sýndir voru að loknum seinni fréttum Sjónvarpsins. Meiri hlutinn áréttar þann skilning sinn að Ríkisútvarpið muni skapa sambærilegan vettvang þar sem öllum gildum framboðum gefist kostur á að kynna stefnumál sín á jafnræðisgrundvelli og á eigin forsendum. Jafnframt verði þess gætt að nægilegt rými gefist til að kynna stefnumál framboðanna, með hliðsjón af því fyrirkomulagi sem hafi tíðkast meðal nágrannaþjóða. Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu að framboð sem ekki bjóði fram í öllum kjördæmum fái úthlutað skemmri útsendingartíma. Þannig fái framboð sem býður fram í helmingi kjördæma helming þess útsendingartíma sem veittur er framboðum sem bjóða fram í öllum kjördæmum.

Textun og táknmálstúlkun.
    Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um textun og táknmálstúlkun. Í 2. mgr. 6. gr. er kveðið sérstaklega á um aðgengi heyrnarskertra að sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins en ákvæðið er nýmæli. Gerður er sá áskilnaður að Ríkisútvarpið skuli veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að tryggja heyrnarskertum greiðan aðgang að upplýsingum sem Ríkisútvarpið miðlar og auðvelda þeim þannig að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Meiri hlutinn bendir einnig á 3. gr. laga nr. 61/ 2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, en þar segir í 1. mgr. að íslenskt táknmál sé fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Jafnframt kemur fram að stjórnvöld skuli hlúa að því og styðja. Það er álit meiri hlutans með hliðsjón af framangreindu að rétt sé að leggja til þá breytingu að skylda Ríkisútvarpið til textunar á öllu fréttaefni og eftir atvikum öðru dagskrárefni þar sem um sé að ræða brýnt jafnréttismál fyrir hluta þjóðarinnar.

Viðskiptaboð.
    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um viðskiptaboð. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skilvirkar og gagnsæjar reglur svo draga megi úr umsvifum Ríkisútvarpsins á markaðnum enda er eitt af markmiðum frumvarpsins að draga úr vægi viðskiptalegra sjónarmiða í starfsemi þess og stuðla að eðlilegu samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu til samræmis við 1. mgr. 37. gr. fjölmiðlalaga að í ákvæðinu verði kveðið á um að viðskiptaboð skuli skýrt afmörkuð frá öðru dagskrárefni Ríkisútvarpsins en ekki vísað til auglýsinga. Samkvæmt fjölmiðlalögum falla bæði kostunartilkynningar og auglýsingar undir hugtakið viðskiptaboð en með þessari breytingu mundi framangreind regla líka eiga við um slíkar tilkynningar. Fram kemur í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins sú meginregla að Ríkisútvarpinu er ekki heimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins um að ákvæðið sé jákvætt í samkeppnislegu tilliti. Þó kom nokkur gagnrýni kom fram á ákvæðið, m.a. um að bann við kostun mundi hafa það í för með sér að sýnileiki ýmissa íþróttagreina mundi dragast saman og voru þá sérstaklega tekin sem dæmi mót kvenna og yngri iðkenda. Meiri hlutinn tekur að vissu leyti undir þessar áhyggjur en áréttar þó mikilvægi þeirrar reglu að Ríkisútvarpinu sé óheimilt af afla tekna með kostun dagskrárefnis. Með hliðsjón af þessu leggur meiri hlutinn til þær breytingar að víkja megi frá þessari reglu við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti, svo og við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá. Í greinargerð frumvarpsins er reifað hvaða dagskrárefni falli undir skilgreiningu á íburðarmiklum dagskrárliðum og eru þar nefndir til sögunnar alþjóðlegir viðburðir á borð við Ólympíuleika, heimsmeistara- og Evrópumót í knattspyrnu- og handknattleik og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þ.m.t. Söngvakeppni Sjónvarpsins. Það er álit meiri hlutans að þetta undanþáguákvæði beri að túlka þröngt og fyrst og fremst ná til þeirra viðburða sem að framan greinir.
    Í 7. mgr. 7. gr. segir að Ríkisútvarpið skuli setja reglur um viðskiptaboð í miðlum sínum og skuli þær birtar á vefsíðu þess. Í ljósi þeirra breytinga sem meiri hlutinn leggur til á 2. mgr. 7. gr. og með hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum er lagt til að ákvæðið verði gert skýrara þannig að Ríkisútvarpinu verði einnig gert að setja reglur um kostun dagskrárefnis samkvæmt ákvæðinu, þ.m.t. um rof á dagskrárefni vegna birtingar viðskiptaboða. Þessar reglur skulu birtar á vef Ríkisútvarpsins.

Stjórn Ríkisútvarpsins.
    Fjallað er um stjórn Ríkisútvarpsins í 9. gr. frumvarpsins. Fram kemur í 1. mgr. að stjórn Ríkisútvarpsins skuli skipuð sjö mönnum og jafnmörgum til vara. Það er álit meiri hlutans að jafnréttissjónarmið skuli gilda um Ríkisútvarpið eins og um aðrar stofnanir í eigu ríkisins. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi benda á 1. mgr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, en þar kemur fram að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og skuli hlutur hvors kyns ekki vera minni en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa sé að ræða.

Innra eftirlit og gæðamál.
    Fjallað er um innra eftirlit og gæðamál í 13. gr. frumvarpsins. Þar segir í 2. mgr. að niðurstöðum Ríkisútvarpsins um óskir um andmælarétt sé hægt að skjóta til fjölmiðlanefndar, sbr. lög um fjölmiðla, nr. 38/2011. Málskotsréttur er fjórar vikur frá því að niðurstöður Ríkisútvarpsins liggja fyrir. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að ákvæðið eigi aðeins við um athugasemdir og kvartanir sem lúti að efnismeðferð og umfjöllun um einstök málefni og óskir um andmælarétt, sem hægt er að skjóta til fjölmiðlanefndar, sbr. lög um fjölmiðla nr. 38/2011, þ.e. að málið heyri undir lögsögu fjölmiðlanefndar. Fram kom hjá umsagnaraðila að ákvæðið væri nokkuð óljóst, þ.e. hvort málskot nái einvörðungu til andmælaréttar eða það nái jafnframt til athugasemda og kvartana er lúta að efnismeðferð og umfjöllun um einstök ákvæði. Meiri hlutinn bendir á að lög nr. 38/2011 gilda um Ríkisútvarpið, sbr. 18. gr. laganna. Jafnframt segir í þeim, sbr. 36. gr. þeirra laga, að allir sem telja að lögmætir hagsmunir sínir hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir geti beint erindi til fjölmiðlanefndar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt þessu ber Ríkisútvarpinu að fylgja ákvæði 36. gr. vegna andsvarsréttar aðila. Einnig bendir meiri hlutinn á að í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um fjögurra vikna málskotsrétt en samkvæmt fjölmiðlalögum eru engir slíkir tímafrestir. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að 2. mgr. 13. gr. falli brott enda komi efnisatriði ákvæðisins fram í fjölmiðlalögum.

Eftirlit og mat.
    Kveðið er á um eftirlit og mat í 15. gr. frumvarpsins. Þar segir að fjölmiðlanefnd skuli árlega leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt skv. 3. gr. Samkvæmt ákvæðinu skal fjölmiðlanefnd afhenda stjórn Ríkisútvarpsins og ráðherra matið eigi síðar en þremur mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt. Nefndinni barst erindi frá fjölmiðlanefnd þar sem hún óskaði eftir meira svigrúmi til þess að skila slíku mati. Meiri hlutinn fellst á þetta og leggur til þá breytingu að fjölmiðlanefnd hafi fjóra mánuði til að vinna matið.

Mat á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
     Í 16. gr. frumvarpsins er fjallað um mat á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ákvæðið er nýmæli og kveður á um hvernig staðið skuli að svonefndu fyrirframmati áður en ákvörðun er tekin um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn bendir á að ákvæðið felur í sér endurskoðaðar reglur um mat á nýrri útvarpsþjónustu í almannaþágu en ákvæðinu er ætlað að koma í stað reglna um mat á útvarpsþjónustu í almannaþágu, nr. 275/2007. Það er mat meiri hlutans að við samanburð á 16. gr. frumvarpsins og þeim reglum sé ljóst að ákvæðið felur í sér íþyngjandi takmörkun gagnvart Ríkisútvarpinu vegna upptöku nýrrar þjónustu.
    Í 4. mgr. 16. gr. er Ríkisútvarpinu veitt heimild til að setja á fót nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til reynslu í allt að 24 mánuði. Annars vegar er um að ræða tímabundna þjónustu til að þjóna ákveðnum lýðræðislegum, menningarlegum eða samfélagslegum þörfum og hins vegar þjónustu sem áætlað er að þróa frekar. Ef ákveðið yrði, að reynslutíma loknum, að halda þjónustunni áfram þyrfti hún að gangast undir mat fjölmiðlanefndar. Þó skal tilkynna ráðherra og fjölmiðlanefnd um áætlaða þjónustu áður en hún hefst.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á ákvæðið, þ.e. að í því fælist heimild fyrir Ríkisútvarpið að reka nýja þjónustu í allt að 24 mánuði án sérstakrar heimildar. Meiri hlutinn bendir á að ef 4. mgr. 16. gr. væri felld brott yrði Ríkisútvarpinu einum fjölmiðla í Evrópu óheimilt að gera prófanir á nýrri fjölmiðlaþjónustu í samræmi við kafla 6.7 í leiðbeinandi reglum ESB og ESA um ríkisstyrki til útvarpsþjónustu í almannaþágu. Það er mat meiri hlutans að hér sé einkum um að ræða þjónustu sem hefur ekki viðskiptalegt gildi, fremur þjónustu sem eykur möguleika á að þróa nýmiðlun. Það er álit meiri hlutans að nauðsynlegt sé fyrir Ríkisútvarpið að geta hafið tilraunir með nýja þjónustu. Eigi að síður telur meiri hlutinn rétt að afmarka þessa þjónustu og leggur til breytingu á ákvæðinu í þá veru, í fyrsta lagi að þjónustan verði ætluð afmörkuðum fjölda þátttakenda eða íbúum á tilteknu landsvæði og í öðru lagi að reynslutíminn verði nýttur til að safna upplýsingum um hvort raunhæft sé að veita hina fyrirhuguðu þjónustu og um ávinning af þjónustunni fyrir lýðræðislegar, menningarlegar eða samfélagslegar þarfir þess markhóps sem þjónustan er sniðin að. Á fjölmiðlanefnd að leggja mat á hvort eftirtalin skilyrði séu uppfyllt fyrir fyrirhugaða tilraunaþjónustu. Meiri hlutinn leggur einnig til að Ríkisútvarpinu verði gert skylt að tilkynna um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til fjölmiðlanefndar áður en þjónustan er sett á fót. Þó verði heimilt að hefja slíka þjónustu þegar liðnir eru 30 dagar frá tilkynningu til fjölmiðlanefndar án þess að nefndin hafi gert athugasemdir eða sett frekari skilyrði. Meiri hlutinn leggur jafnframt til að óheimilt verði að nýta reynslutímabil til að koma upp umfangsmikilli nýrri og fullmótaðri hljóð- og myndþjónustu sem fellur undir 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn vill árétta að ákvæðið þetta beri að túlka þröngt.
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir um rekstur dreifikerfis og starfsemi á landsbyggðinni en m.a. voru tækjabúnaður og viðtökuskilyrði sögð ófullnægjandi. Meiri hlutinn áréttar í þessu sambandi að þess má vænta að bót verði gerð á þessum málum innan tveggja ára þegar stafrænt dreifikerfi leysir af hólmi hliðrænt dreifikerfi. Meiri hlutinn vill einnig árétta þau sjónarmið sem fram komu í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á 140. löggjafarþingi (þskj. 1542), að skynsamlegast sé að reynt verði að ná samkomulagi á markaði um samnýtingu á stafrænu dreifikerfi í stað þess að tvö dreifikerfi verði byggð upp með tilheyrandi kostnaði.
     Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Tryggvi Þór Herbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Siv Friðleifsdóttir ritar undir álitið með fyrirvara sem lýtur að því að hún styður að Ríkisútvarpið hafi ritstjórnarlegt sjálfstæði um kynningu á framboðum og stefnum stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga en telur að æskilegra hefði verið að stjórnmálaflokkarnir hefðu einnig fengið úthlutað tíma til að kynna stefnumál sín á hefðbundnum dagskrártíma án endurgjalds.

Alþingi, 18. febrúar 2013.Björgvin G. Sigurðsson ,


form.


Skúli Helgason,


frsm.


Þráinn Bertelsson.Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Siv Friðleifsdóttir,


með fyrirvara.Birgitta Jónsdóttir.