Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1042, 141. löggjafarþing 106. mál: verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir (EES-reglur).
Lög nr. 12 6. mars 2013.

Lög um breyting á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði (lykilupplýsingar, markaðssetning, samrunasjóðir, Evrópupassi og höfuðsjóðir og fylgisjóðir).


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast fimm nýir töluliðir, 15.–19. tölul., svohljóðandi:
  1. Samruni: Samruni þar sem:
    1. einum eða fleiri verðbréfasjóðum (samrunasjóðum), eða einstökum deildum samrunasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., er slitið án skuldaskila og allar eignir og skuldbindingar samrunasjóðsins eru yfirfærðar til annars starfandi verðbréfasjóðs (yfirtökusjóðs), eða einstakra deilda yfirtökusjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðsins og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10% verðmætis þeirra hlutdeildarskírteina,
    2. tveimur eða fleiri verðbréfasjóðum (samrunasjóðum), eða einstökum deildum samrunasjóða séu þeir deildaskiptir skv. 12. gr., er slitið án skuldaskila og allar eignir og skuldbindingar samrunasjóðanna eru yfirfærðar í verðbréfasjóð (yfirtökusjóð) sem þeir stofna, eða til einstakra deilda yfirtökusjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðanna og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10% verðmætis hreinnar eignar þeirra hlutdeildarskírteina,
    3. einn eða fleiri verðbréfasjóðir (samrunasjóðir), eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., halda áfram starfsemi sinni en yfirfæra hreina eign sína til annarrar deildar sama verðbréfasjóðs eða yfir í verðbréfasjóð (yfirtökusjóð) sem stofnaður er eða einstakra deilda hans sé hann deildaskiptur skv. 12. gr.
  2. Innlendur samruni: Samruni verðbréfasjóða sem hafa staðfestu og staðfestingu hér á landi og hafa ekki markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  3. Millilandasamruni: Samruni verðbréfasjóða þar sem:
    1. að minnsta kosti tveir verðbréfasjóðanna eru með staðfestu og staðfestingu í mismunandi aðildarríkjum,
    2. verðbréfasjóðir með staðfestu og staðfestingu í sama aðildarríki renna saman í nýjan verðbréfasjóð með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki,
    3. verðbréfasjóðir með staðfestu og staðfestingu hér á landi, þar sem að minnsta kosti einn verðbréfasjóðanna hefur markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, renna saman.
  4. Fylgisjóður: Verðbréfasjóður, eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., sem hefur fengið heimild til að fjárfesta að minnsta kosti 85% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum höfuðsjóðs eða einstakra deilda hans sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., þrátt fyrir 1. mgr. 39. gr.
  5. Höfuðsjóður: Verðbréfasjóður, eða einstakar deildir verðbréfasjóðs sé hann deildaskiptur skv. 12. gr., sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
    1. hefur að minnsta kosti einn fylgisjóð úr hópi eigenda hlutdeildarskírteina,
    2. er ekki sjálfur fylgisjóður,
    3. er ekki eigandi hlutdeildarskírteina fylgisjóðs.


2. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Skrá yfir verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði skal birt opinberlega.

3. gr.

     Á eftir 1. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Verðbréfasjóðir geta fengið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins til þess að hefja starfsemi ef rekstrarfélög þeirra eru með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og uppfylla að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar, m.a. um umsókn rekstrarfélags með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins um staðfestingu verðbréfasjóðs hér á landi.

4. gr.

     Í stað orðanna „útdráttur úr útboðslýsingu“ í 5. gr. laganna og í stað sömu orða í 1., 2. og 3. mgr. og fyrirsögn 51. gr., 8. mgr. 52. gr., 1., 2., og 3. mgr. 53. gr. og 4. tölul. 2. mgr. 55. gr. kemur (í viðeigandi beygingarföllum): lykilupplýsingar; í stað orðanna „útdráttum úr þeim“ í 8. mgr. 52. gr. kemur: lykilupplýsingum; og í stað orðanna „skal boðinn“ og „aðgengileg“ í 1. og 3. mgr. 53. gr. kemur: skulu boðnar; og: aðgengilegar.

5. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     44. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Markaðssetning erlendra verðbréfasjóða með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi.
     Erlendum verðbréfasjóði með staðfestu og staðfestingu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að markaðssetja skírteini sín hér á landi eftir að Fjármálaeftirlitið hefur staðfest móttöku tilkynningar um fyrirhugaða starfsemi frá lögbærum eftirlitsaðila heimaríkis verðbréfasjóðsins.
     Fjármálaeftirlitið skal staðfesta móttöku tilkynningar eigi síðar en fimm virkum dögum eftir móttöku. Hið sama gildir um starfsemi svissneskra og færeyskra verðbréfasjóða, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til verðbréfasjóða með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
     Tilkynningu um markaðssetningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
  1. Yfirlýsing lögbærs eftirlitsaðila í heimaríki verðbréfasjóðsins um að hann hafi staðfestingu í því ríki og uppfylli að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
  2. Reglur verðbréfasjóðsins.
  3. Útboðslýsing og lykilupplýsingar.
  4. Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.

     Verðbréfasjóður skal gera ráðstafanir til að tryggja rétt eigenda hlutdeildarskírteina til útgreiðslu hagnaðar, innlausnar hlutdeildarskírteina og þeirra upplýsinga sem sjóðnum er skylt að miðla.
     Verði breytingar á áður tilkynntum atriðum skal verðbréfasjóður tilkynna breytinguna til Fjármálaeftirlitsins.
     Verðbréfasjóður skal þó upplýsa Fjármálaeftirlitið skriflega fyrir fram um breytingar á framkvæmd fyrirhugaðrar starfsemi eða markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins sem fram koma í tilkynningu um markaðssetningu. Verðbréfasjóður skal m.a. upplýsa hverjir munu annast sölu hlutdeildarskírteina og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd verðbréfasjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
  1. Í stað tilvísunar til „2.–6. tölul. 1. mgr. 44. gr.“ í 1. mgr. kemur: 2.–4. tölul. 3. mgr. 44. gr.
  2. Í stað tilvísunar til „6. tölul. 1. mgr. 44. gr.“ í 3. mgr. kemur: 4. mgr. 44. gr.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
  1. Við bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
  2.      Hafi Fjármálaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að erlendur verðbréfasjóður brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálastarfsemi skal Fjármálaeftirlitið gera lögbærum eftirlitsaðila verðbréfasjóðs viðvart, enda sé um að ræða brot gegn ákvæðum sem Fjármálaeftirlitinu er ekki falið eftirlit með sem gistiríki. Telji Fjármálaeftirlitið að ráðstafanir lögbærs eftirlitsaðila verðbréfasjóðs séu ófullnægjandi til að stöðva ólögmæta háttsemi verðbréfasjóðsins hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fjárfestum og heilbrigðri starfsemi fjármálamarkaða hér á landi. Í þessu felst m.a. heimild til að banna erlendum verðbréfasjóði að markaðssetja skírteini sín hér á landi. Fjármálaeftirlitið getur endurnýjað heimild verðbréfasjóðsins til markaðssetningar geti sjóðurinn sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði laga um starfsemi verðbréfasjóða.
  3. Orðin „verðbréfasjóði og“ og „verðbréfasjóður eða“ í 1. mgr. falla brott.


9. gr.

     48. gr. laganna orðast svo:
     Hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan Íslands skal hann tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það.
     Í tilkynningu vegna fyrirhugaðrar markaðssetningar verðbréfasjóðs skal vera lýsing á framkvæmd markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins, m.a. hverjir munu annast sölu hlutdeildarskírteina og hafa lögformlega heimild til innlausnar fyrir hönd verðbréfasjóðsins og hver væntanlegur markhópur fjárfesta verður. Tilkynningu skulu fylgja eftirfarandi gögn:
  1. Reglur verðbréfasjóðsins.
  2. Útboðslýsing og lykilupplýsingar.
  3. Endurskoðaður ársreikningur næstliðins árs, sé hann fyrirliggjandi, og síðari hálfsársuppgjör.

     Fjármálaeftirlitið skal staðfesta að framlögð gögn skv. 2. mgr. séu fullnægjandi.
     Fjármálaeftirlitið skal senda lögbærum eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð gögn skv. 2. mgr. ásamt yfirlýsingu um að verðbréfasjóðurinn hafi staðfestingu á Íslandi og uppfylli að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Gögn samkvæmt þessari málsgrein skulu send lögbærum eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning er fyrirhuguð eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að tilkynning ásamt fullnægjandi gögnum barst Fjármálaeftirlitinu.
     Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna verðbréfasjóðnum þegar lögbær eftirlitsaðili í því landi þar sem verðbréfasjóðurinn hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín hefur staðfest móttöku tilkynningarinnar og er verðbréfasjóðnum þá heimilt að markaðssetja sig í því landi.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 55. gr. laganna:
  1. Orðin „og í öðru kynningarefni einstakra sjóða“ í 1. málsl. falla brott.
  2. 2. málsl. fellur brott.


11. gr.

     Á eftir 56. gr. laganna koma sjö nýjar greinar, 56. gr. a – 56. gr. g, ásamt fyrirsögnum og millifyrirsögnum, svohljóðandi:
I. Samruni verðbréfasjóða.
     a. (56. gr. a.)
     Verðbréfasjóðir sem hyggjast renna saman skulu gera sameiginlega samrunaáætlun. Innlendir samrunar eru aðeins heimilir að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Millilandasamrunar eru aðeins heimilir að fengnu samþykki lögbærs eftirlitsaðila samrunasjóðs og skal samruni vera í samræmi við lög og reglur heimaríkis samrunasjóðs.
     
     b. (56. gr. b.)
Upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa.
     Eftir að Fjármálaeftirlitið hefur heimilað fyrirhugaðan samruna skulu verðbréfasjóðir sem hyggjast renna saman afhenda hlutdeildarskírteinishöfum samrunasjóðs og yfirtökusjóðs nákvæmar og fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðan samruna. Upplýsingarnar skulu gera hlutdeildarskírteinishöfum kleift að gera sér grein fyrir áhrifum fyrirhugaðs samruna á fjárfestingu þeirra og að nýta sér réttindi sín samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Upplýsingarnar skulu vera veittar eigi síðar en 30 dögum áður en innlausnarskyldu skv. 56. gr. c lýkur.
     Upplýsingar skal veita um eftirfarandi:
  1. Ástæður og aðdraganda fyrirhugaðs samruna.
  2. Þau áhrif sem álitið er að samruninn muni hafa á hlutdeildarskírteinishafa, m.a. breytingar á fjárfestingarstefnu, væntan árangur, reglubundnar skýrslur og, ef við á, viðvörun til fjárfesta um að skattaleg meðferð geti breyst vegna fyrirhugaðs samruna.
  3. Réttindi hlutdeildarskírteinishafa vegna fyrirhugaðs samruna, rétt hlutdeildarskírteinishafa til innlausnar og, ef við á, rétt þeirra til að skipta hlutdeildarskírteinum sínum endurgjaldslaust og innan hvaða tímamarka þeir geti nýtt þau réttindi sín.
  4. Atriði sem varða málsmeðferð og áætlaðan gildistökudag samrunans.
  5. Lykilupplýsingar yfirtökusjóðs.

     
     c. (56. gr. c.)
Innlausnarskylda.
     Hlutdeildarskírteini samrunasjóðs og yfirtökusjóðs skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðanna án annars gjalds en þess sem verðbréfasjóðurinn heldur eftir til að standa undir kostnaði við sölu eigna og, ef við á, skal eigendum hlutdeildarskírteina heimilt að óska eftir því að skipta hlutdeildarskírteinum sínum í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði með sambærilega fjárfestingarstefnu sem er stjórnað af sama rekstrarfélagi eða félagi sem rekstrarfélagið er tengt í gegnum sameiginlega stjórnun eða beint eða óbeint eignarhald.
     Innlausnarskyldan tekur gildi þegar hlutdeildarskírteinishafar hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um samrunann og gildir þar til fimm virkum dögum fyrir viðmiðunardag við útreikning á skiptihlutfalli samrunans.
     
     d. (56. gr. d.)
Reglugerð.
     Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla. Í henni skulu m.a. koma fram ákvæði um:
  1. heimild til samruna,
  2. umsókn um heimild til samruna,
  3. sameiginlega samrunaáætlun samrunasjóðs og yfirtökusjóðs,
  4. upplýsingagjöf til hlutdeildarskírteinishafa um heimild til samruna.

     
J. Höfuðsjóðir og fylgisjóðir.
     e. (56. gr. e.)
Umsókn fylgisjóðs til fjárfestingar í höfuðsjóði.
     Fylgisjóði er einungis heimilt að fjárfesta í höfuðsjóði að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal heimila fjárfestingu fylgisjóðs í höfuðsjóði ef fylgisjóður, vörslufyrirtæki fylgisjóðs, endurskoðandi fylgisjóðs og höfuðsjóður uppfylla skilyrði laga sem um þau gilda.
     Fylgisjóður skal leggja fram til Fjármálaeftirlitsins:
  1. Reglur fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
  2. Útboðslýsingu og lykilupplýsingar fylgisjóðs og höfuðsjóðs.
  3. Samkomulag á milli fylgisjóðs og höfuðsjóðs eða, ef við á, samkomulag um innri reglur.
  4. Upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs.
  5. Samning milli vörslufyrirtækja fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama vörslufyrirtæki.
  6. Samning milli endurskoðenda fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti ef fylgisjóður og höfuðsjóður hafa ekki sama endurskoðanda.

     Fjármálaeftirlitið skal tilkynna fylgisjóði hvort umsókn um fjárfestingar í höfuðsjóði sé samþykkt eigi síðar en 15 virkum dögum eftir móttöku fullnægjandi gagna samkvæmt þessari grein.
     Ef höfuðsjóður er með staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal fylgisjóður leggja fram yfirlýsingu lögbærs eftirlitsaðila höfuðsjóðsins um að hann hafi staðfestingu í því ríki og uppfylli að öðru leyti reglur sem settar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins um verðbréfasjóði um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og skilyrði skilgreiningar höfuðsjóðs.
     
     f. (56. gr. f.)
Fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.
     Þrátt fyrir 1. mgr. 39. gr. er fylgisjóði heimilt að fjárfesta að minnsta kosti 85% af eignum sínum í höfuðsjóði að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins.
     Fylgisjóði er heimilt að fjárfesta allt að 15% af eignum sínum í reiðufé eða auðseljanlegum eignum í samræmi við 2. mgr. 31. gr. og afleiðum til varna í samræmi við 5. tölul. 30. gr.
     
     g. (56. gr. g.)
Reglugerð.
     Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla. Í henni skulu m.a. koma fram ákvæði um:
  1. samkomulag milli fylgisjóðs og höfuðsjóðs,
  2. samkomulag um innri reglur fylgisjóðs og höfuðsjóðs,
  3. upplýsingar til hlutdeildarskírteinishafa fylgisjóðs,
  4. samning milli vörslufyrirtækja fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti,
  5. samning milli endurskoðenda fylgisjóðs og höfuðsjóðs um upplýsingaskipti,
  6. útboðslýsingu fyrir fylgisjóð með viðbótarupplýsingum,
  7. fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.


12. gr.

     Á eftir orðinu „Fjármálaeftirlitinu“ í 3. málsl. 2. mgr. 58. gr. laganna kemur: og hlutdeildarskírteinishöfum og tekur gildi við sendingu tilkynningar.

13. gr.

     Í stað orðanna „sbr. ákvæði laga um verðbréfasjóði“ í 2. mgr. 62. gr. laganna kemur: sbr. ákvæði laga um verðbréfaviðskipti.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 65. gr. laganna:
  1. Í stað „2. málsl. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. tölul. kemur: 2. málsl. 3. mgr. 4. gr.
  2. Í stað „3. mgr. 4. gr.“ í 3. og 22. tölul. kemur: 4. mgr. 4. gr.
  3. Við bætist nýr töluliður, 22. tölul., svohljóðandi: 56. gr. f um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
  1. Í stað „2. málsl. 2. mgr. 4. gr.“ í 1. tölul. kemur: 2. málsl. 3. mgr. 4. gr.
  2. Í stað „3. mgr. 4. gr.“ í 2. og 10. tölul. kemur: 4. mgr. 4. gr.
  3. Við bætist nýr töluliður, 10. tölul., svohljóðandi: 56. gr. f um fjárfestingarheimildir fylgisjóðs.


16. gr.

     72. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS). Tilskipun 2007/16/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007 sem birt var 21. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9/2008. Tilskipun 2009/65/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 sem birt var 3. mars 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12/2011.

17. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. febrúar 2013.