Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 610. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1047  —  610. mál.
Tillaga til þingsályktunarum vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.


Flm.: Þór Saari.    Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.
    Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið eigi síðar en 28. febrúar 2013 og efnt til almennra þingkosninga 13. apríl 2013. Fram að kjördegi sitji starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.

Greinargerð.

    Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún fær ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.
    Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.
    Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd. Lagt er til að fram að kjördegi sitji starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.