Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 551. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1052  —  551. mál.




Svar



umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa.


     1.      Hvaða nefndir, þ.m.t. ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa, hefur ráðuneytið sett á stofn á tímabilinu 20. mars 2012 – 20. janúar 2013?
     2.      Hvað sitja margir í framangreindum nefndum? Hvert er hlutverk þeirra, er skipun þeirra samkvæmt heimild eða fyrirmælum í lögum, hver er skipunartíminn og hverjar þeirra hafa lokið störfum? Hver er launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum?
     3.      Hvað hefur hver nefnd marga starfsmenn, hver er launakostnaður þeirra og eru einhverjir starfsmenn þeirra verktakar og ef svo er, hvað heita þeir og hvað hafa þeir fengið greitt úr ríkissjóði?
    Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða einstaklingar hafa verið skipaðir, tilnefndir eða valdir með öðrum hætti til setu í þessum nefndum, ráðum, verkefnisstjórnum og starfshópum, hver hafi skipað eða eftir atvikum tilnefnt þá og hvort störfin eru launuð eða ólaunuð.


    Eftirfarandi nefndir hafa verið skipaðar á tímabilinu 20. mars 2012–20. janúar 2013:

Ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila samkvæmt lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011.

    Nefndin var skipuð 11. maí 2012 og er starfstími ótilgreindur. Hún er skipuð skv. 9. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og 7. gr. reglugerðar nr. 935/2011 um stjórn vatnamála. Hlutverk nefndarinnar er að vera Umhverfisstofnun og vatnaráði til ráðgjafar um atriði sem undir lögin heyra. Umhverfisstofnun skal hafa náið samráð við nefndina og leggur henni til starfsmann sem hefur umsjón með starfi nefndarinnar.
    Í nefndinni sitja Bryndís Skúladóttir, formaður, Friðrik Friðriksson og Anna G. Sverrisdóttir, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður, tilnefnd af Samtökum útivistarfélaga, Borgar Páll Bragason, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Jón Ingimarsson, tilnefndur af Samorku, Bragi Vagnsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga, Gyða Steinsdóttir, tilnefnd af Hafnasambandi Íslands, Ragnhildur Sigurðardóttir, tilnefnd af Fuglaverndarfélagi Íslands, Jón S. Ólafsson, tilnefndur af Landvernd, Magnús Gunnarsson, tilnefndur af Skógræktarfélagi Íslands, Hilmar J. Malmquist, tilnefndur af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Helgi Kjartansson, tilnefndur af Landgræðslufélagi Biskupstungna, Sigurkarl Stefánsson, tilnefndur af Landgræðslufélagi Skógarstrandar og Ólafur Örn Haraldsson, tilnefndur af Þingvallanefnd. Ekki er greitt sérstaklega fyrir störf í nefndinni.

Ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila samkvæmt lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011.
    Nefndin var skipuð 22. maí 2012 og er starfstími ótilgreindur. Hún er skipuð skv. 9. gr. laga nr. 36/2011, um stjórn vatnamála og 7. gr. reglugerðar nr. 935/2011 um stjórn vatnamála. Hlutverk nefndarinnar er að vera Umhverfisstofnun og vatnaráði til ráðgjafar um atriði sem undir lögin heyra. Umhverfisstofnun skal hafa náið samráð við nefndina og leggur henni til starfsmann sem hefur umsjón með starfi nefndarinnar.
    Í nefndinni sitja Jórunn Harðardóttir, formaður, tilnefnd af Veðurstofu Íslands, Þóroddur F. Þóroddsson, varaformaður, tilnefndur af Skipulagsstofnun, Árni Einarsson, tilnefndur af Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn, Árni Ísaksson, tilnefndur af Fiskistofu, Árný Sigurðardóttir, tilnefnd af Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Brynhildur Bjarnadóttir, tilnefnd af Skógrækt ríkisins, Daði Þorbjörnsson, tilnefndur af Íslenskum orkurannsóknum, Elísabet Pálmadóttir, tilnefnd af Mannvirkjastofnun, Eydís Líndal Finnbogadóttir, tilnefnd af Landmælingum Íslands, Guðmundur Stefánsson, tilnefndur af Landgræðslu ríkisins, Guðrún Þóra Garðarsdóttir, tilnefnd af Vegagerðinni, Ingunn E. Jónsdóttir, tilnefnd af Siglingastofnun Íslands, Kristinn Einarsson, tilnefndur af Orkustofnun, Magnús Jóhannsson, tilnefndur af Veiðimálastofnun, Marianne Jensdóttir, tilnefnd af Náttúrufræðistofnun Íslands, Ólafur Arnalds, tilnefndur af Landbúnaðarháskóla Íslands, Sigrún Ólafsdóttir, tilnefnd af Matvælastofnun, Sólveig R. Ólafsdóttir, tilnefnd af Hafrannsóknastofnun, og Þorleifur Eiríksson, tilnefndur af Samtökum náttúrustofa. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í nefndinni.

Breiðafjarðarnefnd.
    Nefndin var endurskipuð 10. október 2012 til fjögurra ára. Hún er skipuð samkvæmt lögum nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar, og hefur það hlutverk að vera umhverfisráðherra til ráðgjafar um það sem lýtur að framkvæmd laganna. Jafnframt skal nefndin í samráði við sveitarfélögin láta gera verndaráætlun þar sem fram kemur hvernig ná skuli þeim markmiðum sem sett eru með vernd svæðisins og senda hana til ráðherra til staðfestingar. Í starfi sínu skal nefndin gæta samráðs við sveitarstjórnir, náttúruverndarnefndir, Umhverfisstofnun, minjaverði og yfirvöld þjóðminjavörslu. Skal nefndin gefa ráðherra skýrslu um störf sín árlega. Í nefndinni sitja Halla S. Steinólfsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar, Magnús A. Sigurðsson tilnefndur af Fornleifavernd ríkisins, Trausti Baldursson, tilnefndur sameiginlega af Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vesturlands og Náttúrustofu Vestfjarða, Erla Friðriksdóttir, tilnefnd af Héraðsnefnd Snæfellinga, Eiríkur Snæbjörnsson, tilnefndur af Reykhólahreppi, Sigurður Þórólfsson, tilnefndur af Dalabyggð, og Arnheiður Jónsdóttir, tilnefnd af Vesturbyggð. Nefndin hefur engan starfsmann. Greitt er fyrir nefndarstörf og eru laun og launakostnaður fyrir umrætt tímabil 869.968 kr.

Ofanflóðanefnd.
    Nefndin var endurskipuð 10. október 2012 til fjögurra ára. Hún er skipuð skv. 9. gr. laga nr. 49/1997, ásamt síðari breytingum, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Hlutverk hennar er að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórnar um varnarvirki fyrir hættusvæði sem þegar hafa verið byggð samkvæmt aðalskipulagi og um kaup eða flutning húseigna í stað þess að reisa varnarvirki eða beita öðrum varnaraðgerðum skv. 10. og 11. gr. laganna svo og að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði skv. 13. gr. laganna. Í nefndinni sitja Magnús Jóhannesson, formaður, skipaður án tilnefningar, Þráinn Sigurðsson, tilnefndur af innanríkisráðuneytinu, og Kristín Magnúsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Með nefndinni starfar einn starfsmaður ráðuneytisins, Hafsteinn Pálsson, og hefur hann fengið greitt 397.178 kr. fyrir störf sín á tímabilinu. Formaður nefndarinnar fær ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín í nefndinni en aðrir nefndarmenn fá greitt og eru laun og launatengdur kostnaður fyrir umrætt tímabil 794.357 kr.

Samvinnunefnd um málefni norðurslóða.
    Nefndin var endurskipuð 23. október 2012 til fjögurra ára. Hún er skipuð samkvæmt lögum nr. 81/1997, um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, og er hlutverk hennar að leitast við að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sbr. nánar 2. mgr. 5. gr. áðurnefndra laga og reglugerð nr. 554/2005 um samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Í nefndinni sitja Þorsteinn Gunnarsson, formaður skipaður án tilnefningar, Hulda Proppé, tilnefnd af Rannsóknarráði Íslands, Héðinn Valdimarsson, tilnefndur af Hafrannsóknastofnun, Joan Nymand Larsen, tilnefnd af Háskólanum á Akureyri, Gísli Pálsson, tilnefndur af Háskóla Íslands, Gunnlaug Einarsdóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun, María Harðardóttir, tilnefnd af Náttúrufræðistofnun Íslands, Þóroddur Sveinsson, tilnefndur af Landbúnaðarháskóla Íslands, Níels Einarsson, tilnefndur af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, og Jórunn Harðardóttir, tilnefnd af Veðurstofu Íslands. Nefndin hefur ekki sérstakan starfsmann. Greitt er fyrir nefndarstörf en enginn launakostnaður er á umræddu tímabili.

Fagráð Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
    Fagráðið var skipað 25. október 2012 til fimm ára. Ráðið er skipað skv. 4. gr. reglugerðar nr. 664/2012 um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn o.fl. sem sett er á grundvelli 7. og 8. gr. laga nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Fagráðið skal vera forstöðumanni Náttúrurannsóknastöðvarinnar til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknastefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á vatnasviði Mývatns og Laxár í samræmi við lög. Fagráðið skiptir með sér verkum. Forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar boðar ráðið til funda eftir því sem þurfa þykir, eigi sjaldnar en árlega, og situr fundi þess. Í ráðinu sitja Gísli Már Gíslason, tilnefndur af Háskóla Íslands, Erla Björk Örnólfsdóttir, tilnefnd af Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Halla Margrét Jóhannesdóttir, tilnefnd af Veiðimálastofnun, og Ólafur Karl Nielsen, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands. Ráðið hefur ekki sérstakan starfsmann og ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í fagráðinu.

Starfshópur um útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Starfshópurinn var skipaður skv. ákvörðun ráðherra 21. maí 2012 og mun skila af sér á næstu mánuðum. Starfshópurinn hefur það hlutverk að ræða mögulegar útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Honum er ætlað að taka saman yfirlit yfir helstu hugmyndir sem ræddar hafa verið, kosti þeirra og galla, sem og afstöðu aðila til þeirra en er ekki ætlað að skila af sér einni ákveðinni niðurstöðu um mögulegar leiðir. Í starfshópnum sitja Kjartan Ingvarsson, formaður og Sigurbjörg Sæmundsdóttir, skipuð án tilnefningar, Elsa Ingjaldsdóttir, tilnefnd af samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Guðjón Bragason, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnlaug Einarsdóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun, og Pétur Reimarsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Starfshópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann og ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í starfshópnum.

Stýrihópur um undirbúning á innleiðingu fugla- og vistgerðartilskipunar ESB.
    Stýrihópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 4. júlí 2012 og er starfstími hans ótilgreindur. Stýrihópurinn er skipaður vegna skoðunar á innleiðingu fuglatilskipunarinnar (Bird Directive) og vistgerðartilskipunarinnar (Habitat Directive) í samstarfi við og með IPA- stuðningi frá Evrópusambandinu. Hlutverk stýrihópsins er að tryggja samstarf um framkvæmd verkefnisins. Jafnframt hafi stýrihópurinn heildaryfirsýn yfir framgang verkefnisins og horfi sérstaklega til fjárhagslegra og faglegra þátta með hliðsjón af meginmarkmiðum verkefnisins ásamt þeim fjárhagslegu reglum sem um það gilda. Í stýrihópnum sitja Glóey Finnsdóttir, formaður, og Þorsteinn Sæmundsson, skipuð án tilnefningar, Jón Gunnar Ottósson, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristín Linda Árnadóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun, og Magnús Guðmundsson, tilnefndur af Landmælingum Íslands. Stýrihópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í stýrihópnum.

Starfshópur um úrgangsmál.
    Starfshópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 12. júlí 2012 og mun hann skila af sér fljótlega. Starfshópurinn hefur það hlutverk að meta að hvaða leyti endurskoða þurfi úrgangslöggjöfina samhliða innleiðingu úrgangstilskipunar 2008/98/EB. Ráðuneytið vinnur nú að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, vegna innleiðingar á úrgangstilskipuninni og er gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi næsta haust. Drög að frumvarpi var sent út til umsagnar sl. vor og af þeim umsögnum sem bárust má ráða að tiltekin atriði þarfnist frekari umræðu. Hlutverk starfshópsins er að leggja mat á hvaða atriði það eru sem rétt sé að taka upp í fyrirhugað frumvarp til innleiðingar á úrgangstilskipuninni og koma með tillögur í hvaða ferli önnur atriði sem kalla á frekari skoðun eigi að fara. Í starfshópnum sitja Kjartan Ingvarsson, formaður, skipaður án tilnefningar, Bryndís Skúladóttir, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Bragason og Elín Ósk Helgadóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur Kjartansson, tilnefndur af Úrvinnslusjóði, og Sigríður Kristjánsdóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun. Starfshópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í starfshópnum.

Vinnuhópur um stækkun austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Vinnuhópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 22. ágúst 2012 og er starfstími hans ótilgreindur. Hópurinn hefur það hlutverk að kanna möguleika og vinna að stækkun austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs með hliðsjón af upphaflegum tillögum um mörk þjóðgarðsins á austursvæði hans. Í vinnuhópnum sitja Guðríður Þorvarðardóttir, formaður, skipuð án tilnefningar, Agnes Brá Birgisdóttir, tilnefnd af Vatnajökulsþjóðgarði, og Sigvaldi Ragnarsson, tilnefndur af Fljótsdalshéraði. Vinnuhópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í vinnuhópnum.

Starfshópur um búfjárbeit og sjálfbæra landnýtingu.
    Starfshópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 29. ágúst 2012 og lauk störfum 10. janúar 2013. Hann var skipaður í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hlutverk hópsins var að fara yfir stjórn búfjárbeitar í landinu með tilliti til gróðurverndar og sjálfbærrar landnýtingar og vinna tillögur til ráðherranna með það markmið að efla stjórn búfjárbeitar með tilliti til gróður- og jarðvegsverndar, ágangs búfjár og sjálfbærrar landnýtingar og samhæfa aðgerðir ráðuneytanna á þeim sviðum. Lögð var áhersla á að starfshópurinn hefði samráð og samstarf við þá aðila sem málið varðar við undirbúning tillagna. Í starfshópnum sátu Jón Geir Pétursson, formaður, skipaður án tilnefningar, Bjarni Eyjólfur Guðleifsson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og Oddný Steina Valsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum sauðfjárbænda. Starfshópurinn hafði ekki sérstakan starfsmann. Ekki var sérstaklega greitt fyrir störf í starfshópnum.

Starfshópur um förgun úrgangs.
    Starfshópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 29. ágúst 2012 og mun skila af sér á næstu mánuðum. Hópurinn hefur það hlutverk að taka saman yfirlit um förgun úrgangs, sérstaklega förgun dýraleifa og sóttmengaðs úrgangs, og mögulegar leiðir til þess að úrganginum verði fargað í meira mæli í brennslustöðvum. Starfshópnum er jafnframt falið að meta hvort þörf sé á að breyta löggjöf til að tryggja að framangreindum úrgangi verði fargað í brennslustöðvum í meira mæli en nú er gert. Í starfshópnum sitja Kjartan Ingvarsson, formaður, skipaður án tilnefningar, Auður Lilja Arnþórsdóttir, tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Jón Norðfjörð, Lúðvík Gústafsson og Ólöf Vilbergsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Bryndís Skúladóttir, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins. Starfshópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í starfshópnum.

Hæfnisnefnd vegna ráðningar skrifstofustjóra skrifstofu landgæða.
    Nefndin var skipuð 11. september 2012 samkvæmt reglum 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfi umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Hún lauk störfum 29. október 2012.
    Nefndin hafði það hlutverk að fara yfir og leggja mat á umsóknir um starf skrifstofustjóra skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Í nefndinni sátu Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður, Anna Dóra Sæþórsdóttir og Sif Guðjónsdóttir, öll skipuð án tilnefningar. Með nefndinni starfaði Guðný Lára Ingadóttir, starfsmaður ráðuneytisins, og var henni ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín. Nefndarmenn fengu greitt fyrir störf sín og var kostnaður á umræddu tímabili 2.200.000 kr.

Samráðsnefnd um verndun hella á Íslandi.
    Nefndin var skipuð samkvæmt ákvörðun ráðherra 20. nóvember 2012 og mun skila af sér á næstu vikum. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu að stefnumörkun um verndun hella þar sem m.a. kemur fram forgangsröðun um friðlýsingu einstakra hella, ábendingar um hvaða hellum beri að loka fyrir almennri umferð og aðgerðir um bætt aðgengi almennings að hellum, sem æskilegt er að halda opnum, ásamt umgengnisreglum. Í nefndinni sitja Guðríður Þorvarðardóttir, formaður, og Árni B. Stefánsson, skipuð án tilnefningar, Inga Sóley Kristjönudóttir, tilnefnd af Fornleifavernd ríkisins, Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun, Kristján Jónsson, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, og Guðni Gunnarsson, tilnefndur af Hellarannsóknafélagi Íslands. Nefndin hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í nefndinni.

Ráðgjafarnefnd um úthlutun úr veiðikortasjóði.
    Nefndin var skipuð samkvæmt ákvörðun ráðherra 17. desember 2012 til tveggja ára.
    Umhverfisráðherra skipar ráðgjafarnefnd um úthlutun úr Veiðikortasjóði til tveggja ára í senn samkvæmt verklagsreglum umhverfisráðuneytisins fyrir Veiðikortasjóð dags. 1. nóvember 2010.
    Umsögn Umhverfisstofnunar um umsóknir úr Veiðikortasjóði svo og tillaga stofnunarinnar um úthlutun úr sjóðnum skal unnin í samráði ráðgjafarnefndina. Í nefndinni sitja Bjarni Pálsson, formaður, og Steinar Rafn Beck Baldursson, tilnefndir af Umhverfisstofnun, Snorri H. Jóhannesson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Sigríður Ingvarsdóttir, tilnefnd af Skotveiðifélagi Íslands, og Droplaug Ólafsdóttir, tilnefnd af frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfisverndar. Nefndin hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í nefndinni.

Vinnuhópur um málefni hafsins.
    Vinnuhópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 21. desember 2012 og mun skila af sér á næstu mánuðum. Hann hefur það hlutverk að gera stutta úttekt á helstu forgangsmálum í málefnum hafsins á komandi misserum og á verkaskiptingu og samráði hlutaðeigandi ráðuneyta. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ber ábyrgð á þessari vinnu en lögð verður áhersla á að hún sé unnin af ráðuneytunum á jafnréttisgrundvelli, þar sem fjögur ráðuneyti bera ábyrgð á ákveðnum þáttum málefna hafsins í forsetaúrskurði um málefni Stjórnarráðsins. Ekki er um nýja stefnumörkun í málefnum hafsins að ræða, heldur stutta úttekt í tilefni af breyttu skipulagi Stjórnarráðsins, til að kortleggja viðfangsefni, samstarf og helstu áherslur á komandi missirum.
    Í vinnuhópnum sitja Hugi Ólafsson, formaður, skipaður án tilnefningar, Björn Freyr Björnsson, tilnefndur af innanríkisráðuneytinu, Hrefna M. Karlsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Tómas H. Heiðar, tilnefndur af utanríkisráðuneytinu. Með vinnuhópnum starfar Sesselja Bjarnadóttir, starfsmaður ráðuneytisins, og er henni ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín í vinnuhópnum. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í vinnuhópnum.

Starfshópur um endurskoðun á stjórnfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Starfshópurinn var skipaður 7. janúar 2013 og á að skila niðurstöðu sinni fyrir 1. apríl 2013. Starfshópurinn hefur það hlutverk að fara yfir núverandi stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs, afla upplýsinga um reynsluna af því fyrirkomulagi, bæði kosti þess og galla og vinna skýrslu um málið til ráðherra, samanber ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 60/2007. Við vinnu sína skal starfshópurinn hafa samráð og leita eftir sjónarmiðum helstu aðila sem að stjórn garðsins koma, svo sem sveitarfélaga á starfssvæðinu, svæðisráða, útivistarsamtaka, umhverfisverndarsamtaka, stjórnar og framkvæmdastjóra auk annarra sjónarmiða sem starfshópurinn telur mikilvæg við stjórn þjóðgarðsins.
    Miðað er við að starfshópurinn gangi frá skýrslu til ráðherra eigi síðar en 1. apríl nk. Ráðuneytið mun síðan í framhaldinu gera tillögu um breytingar á stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðsins eftir því sem ástæða er talin til í samvinnu við sveitarfélög sem eiga land að þjóðgarðinum. Í starfshópnum sitja Jón Geir Pétursson, formaður, og Daði Már Kristófersson, skipaðir án tilnefningar, og Gunnþórunn Ingólfsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Starfshópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í starfshópnum.

Stýrihópur undirbúnings á innleiðingu vatna- og flóðatilskipunar ESB.
    Stýrihópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 7. janúar 2013 og er starfstími hans ótilgreindur. Hlutverk hans er að tryggja samstarf um framkvæmd undirbúnings á innleiðingu vatna- og flóðatilskipunar ESB í samstarfi við og með IPA-stuðningi frá Evrópusambandinu. Jafnframt hafi stýrihópurinn heildaryfirsýn yfir framgang verkefnisins og horfi sérstaklega til fjárhagslegra og faglegra þátta með hliðsjón af meginmarkmiðum verkefnisins ásamt þeim fjárhagslegu reglum sem um það gilda.
    Í stýrihópnum sitja Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar, Árni Snorrason, tilnefndur af Veðurstofu Íslands, og Kristín Linda Árnadóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun. Með stýrihópnum starfar Ingvar Kristinsson, starfsmaður Veðurstofu Íslands, og fær hann ekki sérstaklega greitt fyrir störf sín. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í stýrihópnum.

Hættumatsnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
    Nefndin var skipuð 8. janúar 2013 samkvæmt beiðni sveitarfélagsins og lýkur störfum þegar hættumat hefur verið staðfest af ráðherra. Nefndin er skipuð samkvæmd reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats að beiðni Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Í 3.– 6. gr. reglugerðarinnar er fjallað sérstaklega um starfssvið hættumatsnefnda.
    Gunnar Guðni Tómasson, formaður, og Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir eru fulltrúar ráðuneytisins í nefndinni, Vernharð Guðnason og Jón Örn Berndsen eru fulltrúar sveitarfélagsins. Nefndin hefur ekki sérstakan starfsmann. Fulltrúar ráðuneytisins fá greitt sem verktakar en enginn kostnaður er á umræddu tímabili. Sveitarfélagið sér um greiðslur til sinna fulltrúa ef einhverjar eru.

Hæfnisnefnd vegna ráðningar í stöðu ráðuneytisstjóra umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
    Nefndin var skipuð 8. janúar 2013 samkvæmt reglum 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfi umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Hún hefur það hlutverk að fara yfir og leggja mat á umsóknir um starf ráðuneytisstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í nefndinni sitja Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent, formaður, Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, og Brynhildur Davíðsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, öll skipuð án tilnefningar. Nefndin hefur ekki sérstakan starfsmann. Nefndarmenn fá greitt fyrir störf sín en enginn kostnaður er á umræddu tímabili.

Starfshópur um verndarsvæði í hafi.
    Starfshópurinn var skipaður samkvæmt ákvörðun ráðherra 16. janúar 2013 og er ætlað að skila tillögum sínum fyrir lok mars 2013. Hópurinn hefur það hlutverk að vinna að stefnumótun varðandi verndarsvæði í hafi. Hann skal vinna á grundvelli skýrslu og tillagna um vernd viðkvæmra hafsvæða frá 2005 og nýlegra samráðsfunda ráðuneyta og stofnana um verndarsvæði í hafi. Í starfshópnum sitja Hugi Ólafsson, formaður, skipaður án tilnefningar, Anna Pála Sverrisdóttir, tilnefnd af utanríkisráðuneyti, Ásta Einarsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, og Þorsteinn Sigurðsson, tilnefndur af Hafrannsóknastofnun. Starfshópurinn hefur ekki sérstakan starfsmann. Ekki er sérstaklega greitt fyrir störf í starfshópnum.