Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 544. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1065  —  544. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða nefndir, þ.m.t. ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa, hefur ráðuneytið sett á stofn á tímabilinu 20. mars 2012 – 20. janúar 2013?
     2.      Hvað sitja margir í framangreindum nefndum? Hvert er hlutverk þeirra, er skipun þeirra samkvæmt heimild eða fyrirmælum í lögum, hver er skipunartíminn og hverjar þeirra hafa lokið störfum? Hver er launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum?
     3.      Hvað hefur hver nefnd marga starfsmenn, hver er launakostnaður þeirra og eru einhverjir starfsmenn þeirra verktakar og ef svo er, hvað heita þeir og hvað hafa þeir fengið greitt úr ríkissjóði?
    Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða einstaklingar hafa verið skipaðir, tilnefndir eða valdir með öðrum hætti til setu í þessum nefndum, ráðum, verkefnisstjórnum og starfshópum, hver hafi skipað eða eftir atvikum tilnefnt þá og hvort störfin eru launuð eða ólaunuð.


Samráðshópur um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir fórnarlömb kynferðisbrota.
    Hinn 18. janúar sl. skipaði forsætisráðherra samráðshóp um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir fórnarlömb kynferðisbrota samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar. Í nefndinni eru Ágúst Ólafur Ágústsson, tilnefndur af forsætisráðherra, formaður, Halla Gunnarsdóttir, tilnefnd af innanríkisráðherra, Þórunn J. Hafstein, tilnefnd af innanríkisráðherra, og Ingibjörg Broddadóttir, tilnefnd af velferðarráðherra. Hlutverk samráðshópsins er að koma með tillögur um aðgerðir sem miði að því að treysta samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna, að efla lögreglu og ákæruvald til þess að takast á við rannsóknir og saksókn í þessum málum, hvernig tryggja megi framkvæmd skráningar og eftirlit með dæmdum kynferðisbrotamönnum og hvernig best verði staðið að meðferðarúrræðum fyrir kynferðisbrotamenn. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfar Sindri Kristjánsson, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu, og er hann hvorki verktaki né er greitt aukalega fyrir störf hans fyrir nefndina.

Verkefnastjórn um eflingu græna hagkerfisins.
    Hinn 26. september 2012 skipaði forsætisráðherra verkefnastjórn um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Í nefndinni voru Sigurður Örn Guðleifsson, fulltrúi forsætisráðuneytis, formaður, Danfríður Skarphéðinsdóttir, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Elvar Knútur Valsson, fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Guðrún Þórdís Guðmundsdóttir, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytis, og Skúli Helgason, án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar var að undirbúa gerð aðgerðaáætlunar um eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Verkefnastjórninni var ætlað að forgangsraða þeim verkefnum sem fram koma í 50 töluliðum í þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem samþykkt var á 140. löggjafarþingi, ásamt því að leggja mat á umfang verkefnanna og þann kostnað sem vinna við þau útheimtir. Nefndin hefur nýlega lokið störfum. Nefndin var ólaunuð. Enginn starfsmaður starfaði með nefndinni.

Nefnd um neytendavernd á fjármálamarkaði.
    Hinn 26. desember 2012 skipaði forsætisráðherra nefnd um neytendavernd á fjármálamarkaði á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi. Í nefndinni eru Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, tilnefndur af forsætisráðherra, Einar Árnason, tilnefndur af innanríkisráðherra, Björg Fenger, tilnefnd af velferðarráðuneyti, Aðalsteinn Sigurðsson, fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna, og Jónas Guðmundsson, fulltrúi Neytendasamtakanna. Hlutverk nefndarinnar er að gera úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setja fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Í ályktuninni kemur fram að nefndin skuli skoða verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Nefndin er ólaunuð. Með nefndinni starfar Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneyti, og starfar hún hvorki sem verktaki né er greitt aukalega fyrir störf hennar fyrir nefndina.