Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1073  —  195. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003,
um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum (viðvarandi
starfsemi í fleiri en einu ríki og miðlun upplýsinga).


Frá velferðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Jafnréttisstofu, Persónuvernd og Samiðn.
    Frumvarpið er lagt fram í annað sinn en það var einnig lagt fram á 140. löggjafarþingi án þess að það hafi þá hlotið efnislega umræðu. Tilurð frumvarpsins má rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, hafi ekki verið innleidd réttilega í landsrétt hér á landi. Búast má við að höfðað verði mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum verði ekki brugðist við athugasemdunum.
    Með frumvarpinu eru því lagðar til þrenns konar breytingar. Í fyrsta lagi er horfið frá því skilyrði að atvinnurekandi þurfi að hafa staðfestu í fleiri en einu ríki til að lög um Ábyrgðasjóð launa beri ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki. Í frumvarpinu er lagt til, í samræmi við dómafordæmi Evrópudómstólsins sem vikið er að í greinargerð frumvarpsins, að nægilegt verði að atvinnurekandi hafi staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hafi jafnframt viðvarandi starfsemi hér á landi svo að kröfur launamanna hans njóti ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa. Eftirlitsstofnun EFTA hefur talið að skilyrðið eins og það er nú í lögunum sé of þröngt miðað við túlkun Evrópudómstólsins á tilskipun 2008/94/EB, um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota. Í annan stað er lagt til að lögð verði aukin upplýsingaskylda á Ábyrgðasjóð launa til stjórnvalda í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna krafna í bú gjaldþrota atvinnurekanda. Er tilgangur ákvæðisins að tryggja að launafólk fái þær kröfur sínar bættar sem það á rétt á sem og að koma í veg fyrir að sama krafan sé ekki tryggð og greidd í mörgum ríkjum.
    Nefndin fjallaði um orðalagið „viðvarandi starfsemi“ sem notað er í 1. gr. frumvarpsins sem þýðing á enska orðasambandinu „a stable economic presence“. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ekki væri mögulegt að setja ákveðinn lágmarkstíma sem atvinnurekandi þarf að vera starfandi hér á landi til að kröfur launamanna hans njóti verndar Ábyrgðasjóðs launa heldur er það háð mati hverju sinni hvort atvinnurekandi teljist hafa viðvarandi starfsemi hér á landi eða hvort um sé að ræða tilfallandi, tímabundin verkefni. Skv. VI. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, tekur sjóðurinn afstöðu til framkominna krafna og metur hvort lagaskilyrði séu uppfyllt. Verktaki, sem tekur að sér að vinna eitt verkefni hér á landi sem tekur tiltölulega skamman tíma, mundi almennt ekki teljast hafa hér viðvarandi starfsemi en stærri verktakar, sem taka að sér verkefni sem talin verða í mánuðum eða árum, mundu teljast hafa viðvarandi starfsemi hér á landi meðan á verkinu stendur. Hið sama á t.d. einnig við um starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækja og starfsmannaleigna sem vinna varanlega hér á landi en þeir sem hingað eru útsendir tímabundið til að vinna tiltekin verkefni sem taka skamman tíma mundu almennt ekki teljast vera hér vegna viðvarandi starfsemi atvinnurekandans. Þá þarf einnig að hafa í huga að það er aðeins sú starfsemi sem atvinnurekandi hefur hér á landi sem ræður því hvort hann teljist hafa viðvarandi starfsemi hér á landi eða ekki, en ekki t.d. skattgreiðslur starfsmanna hans þar sem ýmsar alþjóðlegar skattareglur og tvíhliða skattasamningar ákvarða hvar launafólk greiðir skatta af launum sínum óháð því ríki sem það innir vinnuna af hendi í. Tilgangur frumvarpsins er því að víkka ögn út ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA en þó aðeins þannig að sjóðurinn taki ábyrgð á þeim kröfum sem verða til vegna atvinnurekanda sem hefur hér viðvarandi starfsemi en ekki aðila sem hingað kemur í tímabundið verkefni og verður gjaldþrota meðan á því stendur. Markmiðið er að tekin sé ábyrgð á þeim sem eru í raun með starfsemi hér á landi.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að ekki verði talið að frumvarpið muni hafa veruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs vegna Ábyrgðasjóðs launa og raunar tekið fram að ekki hafi enn reynt á núgildandi ákvæði laganna.
    Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Einar K. Guðfinnsson og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. febrúar 2013.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Logi Már Einarsson.


Oddný G. Harðardóttir.


Unnur Brá Konráðsdóttir.



Birkir Jón Jónsson.