Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 631. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1101  —  631. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aukna matvælaframleiðslu á Íslandi.

Flm.: Ásmundur Einar Daðason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Gunnar Bragi Sveinsson,
Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Höskuldur Þórhallsson, Birkir Jón Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að móta tillögur um hvernig megi auka matvælaframleiðslu á Íslandi á næstu árum. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi auk fulltrúa helstu hagsmunaaðila í landbúnaði og matvælavinnslu. Skal starfshópurinn skila tillögum fyrir 1. október 2013.

Greinargerð.


    Tillagan gerir ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem móti tillögur um aðgerðir til að auka matvælaframleiðslu á landinu á næstu árum. Gert er ráð fyrir því að starfshópurinn fari yfir lagaumgjörð er varðar landbúnað, matvælaframleiðslu og nýtingu lands. Mótaðar verði tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum sem ráðast þurfi í til að ná markmiði þingsályktunarinnar. Nýsköpun, markaðs- og sölumál verði einnig skoðuð sérstaklega og lagðar fram tillögur um aðgerðir.
    Landbúnaður og önnur matvælaframleiðsla er og hefur verið mikilvæg atvinnugrein á heimsvísu. Miklir möguleikar felast í að stórauka framleiðslu í íslenskum landbúnaði í ljósi núverandi þróunar matvælaverðs í heiminum, sem drifin er áfram af vaxandi eftirspurn eftir matvælum, loftslagsbreytingum og takmörkuðum aðgangi að lykilauðlindum matvælaframleiðslu heimsins.
    Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins var m.a. mótuð stefna í landbúnaðarmálum. Framsóknarflokkurinn vill að staðinn verði vörður um matvælaframleiðslu þjóðarinnar, hvatt verði til nýsköpunar í landbúnaði og leitað leiða til að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem felast í aukinni matvælaframleiðslu hér á landi. Í ljósi þessarar stefnu leggur þingflokkur Framsóknarflokksins fram tillögu um aukna matvælaframleiðslu á Íslandi.

200.000 fleiri í mat á hverjum degi.
    Það er sama hvort um er að ræða erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir eða vísindamenn, flestir eru sammála um að heimurinn muni breytast hratt á næstu áratugum og að matvælaframleiðsla verði veigameiri í allri pólitískri umræðu. Í skýrslu nefndar um landnotkun, sem skilaði af sér niðurstöðum í febrúar 2010, var farið yfir þróun matvælaframleiðslu heimsins á næstu árum og áratugum og stöðu Íslands í þessu sambandi.

Spá Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO)
um eftirspurn eftir matvælum.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Jarðarbúar eru í dag yfir sjö milljarðar talsins og spár gera ráð fyrir því að þeim fjölgi í níu milljarða til ársins 2050. Íbúum fjölgar um 200.000 dag hvern eða um 140 einstaklinga á hverri mínútu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gefið út yfirlýsingu um að vegna fólksfjölgunar og breytinga á neysluvenjum megi gera ráð fyrir því að matvælaþörf í heiminum aukist um 70% til ársins 2050. Á sama tíma hefur efnahagsleg framþróun aukið kaupgetu hundruða milljóna manna í Asíu og víðar. Í Asíu er t.d. gert ráð fyrir stóraukinni mjólkur- og kjötneyslu sem komi í stað neyslu á korni og hrísgrjónum. Nefna má í því samhengi að þrátt fyrir stóraukna mjólkurframleiðslu í Asíu gera spár ráð fyrir að árið 2025 muni innflutningsþörf Kínverja á mjólk nema heildarmjólkurframleiðslu Frakklands, Rússlands og Bandaríkjanna.

Þróun matvælaverðs í heiminum
samkvæmt gögnum Alþjóðabankans.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Samhliða þessari auknu eftirspurn eru ýmsir stórir þættir sem vinna gegn aukinni framleiðslu eða munu stuðla að mikilli hækkun matvælaverðs. Þar má t.d. nefna hækkandi orkuverð og notkun jurta til olíuframleiðslu. Besta ræktunarland heimsins er þegar fullnýtt og framboð á nýju ræktunarlandi fer minnkandi. Mikil fólksfjölgun veldur því að sífellt færri hektarar af ræktuðu landi eru á hvern jarðarbúa. Árið 1960 voru 1,45 ha af ræktuðu landi á hvern jarðarbúa en árið 2003 var þessi tala komin í 0,78 ha. Þetta er m.a. ástæða þess að Kínverjar kaupa stór landsvæði í Eþíópíu, Súdan, Kasakstan og víðar.
    Vatn er af skornum skammti og ljóst að það verður takmarkandi þáttur í matvælaframleiðslu víða í heiminum innan fárra ára. Sem dæmi má nefna að það þarf 15 m 3 af vatni til að framleiða 1 kg af nautakjöti og 0,4–3 m 3 af vatni til að framleiða 1 kg af korni. Talið er að jarðarbúar nýti rúmlega 50% af nýtanlegu ferskvatni heimsins og að þetta hlutfall verði komið í 90% árið 2050.
    Loftslagsbreytingar munu einnig hafa mikil áhrif á landbúnaðarframleiðslu og mörg fæðuframleiðslusvæði verða fyrir neikvæðum áhrifum, m.a. vegna þurrka og flóða. Þetta hefur hins vegar þau áhrif að köld og dreifbýl lönd í norðri hlýna og verða góð ræktunarlönd.

Sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað.
    Íslendingar eru fámenn þjóð sem á mikið ræktunarland, miklar orkulindir, mikið vatn. Jafnframt benda spár til þess að loftslagsbreytingar muni hafa jákvæð áhrif á landbúnað hér á landi. Hækkandi matvælaverð á heimsvísu og breytingar á veðurfari opna að öllum líkindum mikla möguleika fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Íslendingar hafa mikla reynslu í útflutningi á sjávarafurðum en reynslan varðandi sölu og markaðssetningu annarra matvæla er ekki jafnmikil. Mörg nágrannaríkja okkar hafa á undanförnum árum lagt aukinn kraft í framleiðslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða. Hvað sölu- og markaðsmál varðar horfa margir til vaxandi hagkerfa á borð við Kína, Rússland, Indland, Norður-Ameríku og fleiri svæði. Íslenskar landbúnaðarafurðir eru hágæðaframleiðsla og sem dæmi má nefna góðan árangur í sölustarfi í verslunum Whole foods í Bandaríkjunum og vaxandi eftirspurn eftir íslenskum hágæðamatvælum bæði í Rússlandi og Asíu.
    Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands er framleiðsluverðmæti landbúnaðarins 51,8 milljarðar kr. árið 2011 og jókst það um 10,2% að nafnverði frá fyrra ári. Aukning framleiðsluverðmætis nytjaplantna var 2,2% og framleiðsluverðmæti afurða búfjárræktar jókst um 13,2%. Útflutningstekjur af landbúnaði voru tæpir 11,4 milljarðar kr. árið 2012. Með meiri framleiðslu og aukinni hagræðingu er mögulegt að stórauka bæði framleiðsluverðmæti landbúnaðarins og útflutningstekjur þjóðarinnar á næstu árum. Með aukinni matvælaframleiðslu mundu einnig skapast ný atvinnutækifæri, sérstaklega í dreifbýlum héruðum sem hafa mátt þola mikla fólksfækkun vegna samdráttar í atvinnulífi og fækkunar atvinnutækifæra. Yfirlit yfir nokkur þessara sóknarfæri má sjá í fylgiskjali með þessari tillögu.


Fylgiskjal.


Yfirlit yfir ýmis sóknarfæri.


Kornrækt og önnur akuryrkja.
    Ríkisstjórnir þjóða í Asíu hafa í auknum mæli keypt upp kornræktarlönd í Afríku og víðar í þeim tilgangi að tryggja nægilegt framboð fyrir korn í heimalöndum sínum. Flestir spá hækkandi verði á korni, maís og öðrum sambærilegum afurðum. Í skýrslunni „Kornrækt á Íslandi – tækifæri til framtíðar“ sem unnin var fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og skilað var í febrúar 2009 kemur fram að mögulegt væri að tvöfalda kornframleiðslu á Íslandi á 2–3 árum og að sú aukning næmi um 15.000 tonnum. Skýrsluhöfundar telja að á 5–7 árum sé ekkert því til fyrirstöðu að þrefalda kornframleiðslu og að hún fari í 45.000 tonn. Til þess þyrfti að efla ýmsa innviði, byggja þurrkstöðvar, efla fóðurframleiðslu úr innlendu hráefni, nýta korn til manneldis og koma upp virkum markaði með korn.

Ylrækt og önnur garðyrkja.
    Vegna þess að Ísland á mikið af heitu vatni og vistvænni raforku eru mikil sóknarfæri í framleiðslu og útflutningi á grænmeti. Nýlegar fréttir um byggingu gróðurhúss við Hellisheiðarvirkjun, sem hefja á starfsemi haustið 2013, er einungis eitt af fjölmörgum tækifærum sem Íslendingar eiga. Fyrsti áfangi þessa einstaka verkefnis felur í sér byggingu 50.000 m 2 ylræktarvers og áætlað er að það skapi um 50 störf.

Mjólkurafurðir.
    Eftirspurn eftir mjólk eykst hratt og sömuleiðis viðskipti með mjólkurafurðir. Sem dæmi má nefna að evrópski mjólkurrisinn Arla hefur í nokkur ár unnið að markaðssetningu mjólkurvara í Kína. Eftirspurnin eftir matvælum hefur vaxið mjög þar í landi. Runólfur Sigursveinsson, fagstjóri í rekstrarráðgjöf hjá ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins, hefur fjallað um þessi mál, m.a. í blaðagreinum og fyrirlestrum. Hann telur að auðveldlega sé hægt að auka mjólkurframleiðslu um allt að 20% án þess að ráðast í nýbyggingar á fjósum, bæði með betri nýtingu hvers fjóss og því að lyfta afurðastiginu frá því sem nú er, t.d. um 10%. Framleiðslan núna er um 125 milljónir lítra (innanlandsneyslan er um 115 milljónir lítra). Heildarframleiðslan á ári gæti farið auðveldlega upp í 150 milljónir lítra án mikilla framkvæmda.

Kjötafurðir.
    Framboð á kjöti hefur vaxið hratt í heiminum undanfarna áratugi. Þessi vöxtur mun ekki verða jafnhraður til ársins 2020 og hægja mun á vexti eftirspurnar á sama tíma. Eftirspurn mun þó halda áfram að aukast í stóru hagkerfunum í Asíu, Suður-Ameríku og olíuríkjum Mið-Austurlanda. Ár hvert eru 56 milljarðar dýra alin vegna kjötframleiðslu og ljóst er að þessi framleiðsla verður erfiðari eftir því sem vatnsbirgðir heimsins minnka. Gagnrýni á kjötframleiðslu í heiminum er oft sú að til hennar er notað mikið af orku sem annars væri hægt að nýta til manneldis. Þetta á m.a. við þegar orka úr t.d korni, maís og sojabaunum er notuð til að framleiða kjöt frekar en að nota hana beint til manneldis. Ísland er í þeirri aðstöðu að hafa mikið landrými og mikið af þessu landi er ekki nýtanlegt nema sem beitiland. Slíkt land getum við notað til að framleiða mat, kjöt og mjólk.
    Nú í janúar kom út skýrsla starfshóps um nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Hún sýnir að unnt er að auka framleiðslu nautakjöts hér á landi ef vilji og nauðsynleg skipulagning er fyrir hendi. Eftirspurn eftir íslensku nautakjöti er mun meiri en innlendir framleiðendur anna. Ónýttir möguleikar felast ekki síst í auknum ásetningi nautkálfa og bættri nýtingu á vaxtargetu þeirra gripa sem nú eru nýttir til kjötframleiðslu.
    Eftirspurn eftir dilkakjöti fer vaxandi í Asíu og Mið-Austurlöndum. Það gerist samhliða því að að dilkakjötsframleiðsla hefur dregist saman víða í Evrópu. Vegna mikillar eftirspurnar eftir landi til mjólkurframleiðslu hefur framleiðsla dilkakjöts á Nýja-Sjálandi og Ástralíu ekki aukist jafnhratt og eftirspurnin. Íslendingar hafa flutt út dilkakjöt til Evrópulanda undanfarna áratugi. Vaxandi áhugi er á íslensku dilkakjöti og hliðarafurðum sauðfjár í Bandaríkjunum, Rússlandi og Asíu. Útflutningsaðilar á dilkakjöti gera því ráð fyrir því að með vinnu við markaðssetningu sé mögulegt að selja mun meira magn heldur en við gerum í dag. Með hagræðingu og auknum afurðum er mögulegt að auka dilkakjötsframleiðslu á næstu árum. Í því sem öðru er mikilvægt að gæta að sjálfbærni og að slík framleiðsla uppfylli skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
    Áhugi á ýmsum öðrum kjötafurðum hefur vaxið erlendis og þar má nefna aukinn útflutning á hrossakjöti og mögulegan áhuga Kínverja á því að kaupa íslenskt minkakjöt til manneldis.