Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1104  —  552. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar
um flutning réttargeðdeildar frá Sogni að Kleppi.

     1.      Hver var stofnkostnaður við flutning réttargeðdeildarinnar frá Sogni að Kleppi og var hann í samræmi við áætlaðan stofnkostnað þess verkefnis?
    Þegar áformað var að flytja réttargeðdeildina frá Sogni að Landspítala var gerð kostnaðaráætlun sem miðaði við að nýta sem mest af tiltæku húsnæði en með möguleika á frekari þróun síðar. Áætlaður kostnaður vegna breytinga á eldra húsnæði var 80–100 millj. kr. en ef byggð yrði nýbygging 350–400 millj. kr. Landspítalinn fékk 60 millj. kr. frá innanríkisráðuneytinu vegna yfirfærslu á húsnæðinu til innanríkisráðuneytisins (fangelsi). Kostnaðarábatagreining benti til að stofnkostnaðurinn ynnist upp á 2–3 árum. Þessu til viðbótar ákvað Landspítalinn að gera lagfæringar á eigin húsnæði þannig að heildarkostnaður varð 176 millj. kr. Mismunur var þannig greiddur af rekstrarfé Landspítalans. Nákvæm kostnaðar- og kostnaðarábatagreining var framkvæmd af Landspítalanum áður en farið var í framkvæmdina.
    Við framkvæmdir sem ráðist var í á Kleppi ákvað Landspítalinn að gera víðtækari lagfæringar á húsinu og einskorða ekki framkvæmdir við þá 800 m 2 sem fara áttu undir réttargeðdeildina. Ný byggingarreglugerð tók gildi í ársbyrjun 2012 og kallaði hún á meiri framkvæmdir en fyrirhugaðar voru. Kostnaði við réttargeðdeild og aðrar framkvæmdir sem tengjast öllum Kleppsspítala var ekki haldið aðskildum. Heildarkostnaður við allar framkvæmdirnar á Kleppi á árunum 2011 og 2012 reyndist vera 176 millj. kr.

     2.      Hver var áætlaður kostnaðarlegur ávinningur árið 2012 og hver var hann í reynd? Hver er áætlaður ávinningur árið 2013?
    Áætlaður kostnaðarlegur ávinningur flutningsins árið 2012 var 34 millj. kr. að undanskildum biðlaunakostnaði. Árangur fór fram úr áætlun og var ávinningur upp á rúmar 40 millj. kr. Helsta skýring á betri árangri er meiri lækkun yfirvinnukostnaðar en gert var ráð fyrir.
    Áætlaður kostnaðarlegur ávinningur flutnings árið 2013 var upphaflega 45 millj. kr. en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir ávinningi upp á 50 millj. kr.

     3.      Hvert er mat ráðherra á flutningnum að öðru leyti en kostnaðarlegum þáttum?

    Flutningurinn gekk vel. Deildin var tilbúin á réttum tíma, í lok febrúar 2012, nema sérvarinn garður sunnan við deildina var tilbúinn sumarið 2012. Þangað geta sjúklingar farið þegar þeir vilja og notið útiveru í skjóli, án hættu fyrir aðra. Sjúklingar voru sáttir frá fyrsta degi og aðlöguðust strax nýju umhverfi með meira rými. Í viðtölum hefur komið fram áframhaldandi ánægja þeirra með aðstæður. Aukin nálægð við heimabyggð auk sérútbúins fjölskylduherbergis hefur hjálpað við tengsl aðstandenda við sjúklinga sem er afar mikilvægt í bataferli.
    Þrettán starfsmenn af Sogni með búsetu í Árnessýslu unnu áfram á nýju réttargeðdeildinni. Sjö starfsmenn ákváðu að fylgja ekki með deildinni og taka út starfslok og áttu flestir rétt á biðlaunum. Nánd við öryggisgeðdeild Landspítalans skapar möguleika á fjölbreyttara vinnuumhverfi og dreifingu álags. Réttargeðdeildin nýtur nú nálægðar við háskólastarfsemi sem eykur möguleika á rannsóknum og framþróun sérgreinarinnar.
    Starfsumhverfiskannanir gerðar á Landspítala sýna að starfsfólk er ánægðara með starfsaðstöðuna eftir flutning (19% hækkun milli áranna 2010 og 2012).
    Skráðum ofbeldisatvikum á réttargeðdeildinni hefur fækkað um helming eftir flutning ef borin eru saman tímabilin mars–desember 2011 og 2012.
    Í heild er ljóst að flutningurinn hefur leitt til bættrar aðstöðu fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur. Öryggi er aukið, rými meira, tækifæri til faglegrar þróunar meiri og aðstaða deildarinnar til að gegna hlutverki sínu og taka við geðsjúkum afbrotamönnum dæmdum til dvalar á viðeigandi stofnun hefur batnað.
    Sogn nýtist núna sem fangelsi fyrir 22 einstaklinga í opnu úrræði. Þar voru samtals 7 einstaklingar á meðan þarna var réttargeðdeild. Hér er um að ræða jákvæða þróun í fangelsismálum og vistast þar einstaklingar sem hafa staðið sig vel og eru á leið út í lífið að nýju.