Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 287. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1117  —  287. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti
og mengunarvarnir (færanleg starfsemi og EB-gerðir:
umhverfismerki, loftgæði og efri losunarmörk).


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.



    Nefndin fékk á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Írisi Bjargmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti til að kynna frumvarpið. Einnig fékk nefndin á sinn fund Svövu Steinarsdóttur frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Kristínu Lindu Árnadóttur, Kristján Geirsson og Þorstein Jóhannsson frá Umhverfisstofnun, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins og Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Vesturlandssvæðis, Samtökum atvinnulífsins o.fl. (frá SA, SI, SF, SAF, LÍÚ og SVÞ) og Umhverfisstofnun.
    Frumvarpið tekur til fjögurra óskyldra efnisþátta, þ.e. umhverfismerkja, færanlegrar starfsemi, endurskoðunar starfsleyfa og innleiðingar EB-tilskipana um loftgæði. Megintilgangur frumvarpsins samkvæmt athugasemdum við það er að innleiða þrjár EB-gerðir og að styrkja framkvæmd norræna umhverfismerkisins hér á landi. Þær gerðir sem lagt er til að verði innleiddar eru reglugerð (EB) nr. 66/2010 um umhverfismerki Evrópusambandsins, tilskipun 2008/50/ EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu og tilskipun 2001/81/EB um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var sent ýmsum aðilum til kynningar á fyrri stigum og jafnframt sett á heimasíðu umhverfisráðuneytis, nú umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Unnið var úr umsögn sem barst frá Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og sameiginlegri umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva og Landssambandi íslenskra útvegsmanna og tók frumvarpið nokkrum breytingum í framhaldi af því. Það er því nú lagt fram í breyttri mynd.
    Grundvallarsjónarmið í umsögnum þeirra heilbrigðiseftirlita og heilbrigðisfulltrúa sem sent hafa umsagnir um frumvarpið er að mikilvægt sé að skilgreint verði hvaða aðkomu og aðgengi heilbrigðisnefndir hafi að loftgæðastjórnunarkerfi því sem Umhverfisstofnun muni kaupa og reka ef frumvarpið verður að lögum. Mikilvægt sé að heilbrigðisnefndir geti bæði sótt gögn í kerfið og eins lagt gögn í það. Nefndin leggur til að nánari útfærsla á þessu verði gerð í reglugerð og telur ekki þörf á breytingu á frumvarpinu.
    Einnig hafa verið gerðar athugasemdir við þá niðurstöðu kostnaðarmats í greinargerð að kostnaðarauki sveitarfélaga vegna frumvarpsins sé talinn óverulegur. Þá hefur verið bent á að kostnaður sveitarfélaga af mælingum sé umtalsverður og að með auknum kröfum sem lagabreytingarnar hafi í för með sér muni kostnaður aukast. Gerð aðgerðaáætlana krefjist mannafla sem feli í sér kostnað. Loftgæðamælingar hjá sveitarfélögunum séu misjafnlega langt komnar og því líklegt að einhver gætu þurft að leggja í kostnað til að uppfylla ákvæði laganna. Í umfjöllun um málið kom fram að ekki væri verið að leggja nýjar kvaðir kostnaðarlega á sveitarfélögin heldur hafi sum þeirra einfaldlega ekki uppfyllt skyldur sínar á þessu sviði.
    Í 4. gr. eru lagðar til ítarlegri reglur um endurskoðun starfsleyfa. Umsagnaraðilar úr atvinnulífinu gagnrýna ákvæðið og benda á að starfsleyfi eru gefin út til ákveðins tíma og telja að í lögum séu fullnægjandi ákvæði til endurskoðunar leyfanna hafi forsendur þeirra breyst. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið er ekki val um það þar sem ýmsar EB-gerðir sem eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið kveði á um að starfsleyfi skuli gefa út til tiltekins tíma. Í umsögn sinni bendir Umhverfisstofnun á að dæmi séu um að fyrirtæki óski eftir endurskoðun eða breytingu aðeins á tilteknum ákvæðum starfsleyfis vegna afmarkaðra breyttra aðstæðna og er stofnuninni þá tilkynnt um slíkar breytingar, svo sem fyrirhugaða breytta notkun á húsnæði eða tilhögun vinnslu. Dæmi séu um að starfsleyfismál hafi verið endurupptekin í þessu skyni og gerðar minni háttar breytingar á gildandi starfsleyfum. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er að störfum starfshópur sem hefur það hlutverk að ræða mögulegar útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfshópnum er ætlað að taka saman yfirlit yfir helstu hugmyndir sem ræddar hafa verið, kosti þeirra og galla, sem og afstöðu aðila til þeirra, en verði ekki ætlað að skila af sér einni ákveðinni niðurstöðu um mögulegar leiðir. Nefndin telur rétt að skoðun á því hvort breyta eigi gildistíma vegna útgáfu starfsleyfa fari fram innan þessa hóps og að hann verði óbreyttur í þessu frumvarpi þannig að ákvæði um að starfsleyfi skuli gefa út til tiltekins tíma verði óbreytt frá gildandi lögum. Nefndin beinir því jafnframt til ráðuneytisins að umræddur starfshópur skoði leiðir til að fækka starfsleyfum og einfalda ferlið.
    Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. b skal Umhverfisstofnun halda bókhald yfir losun tiltekinna efna sem menga andrúmsloftið, setja fram losunarspá og reka loftgæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Í umfjöllun um málið kom fram að Umhverfisstofnun telur nauðsynlegt að tryggja stofnuninni betri aðgang að upplýsingum um losun þeirra loftmengunarefna sem falla undir tilskipun 2001/81/EB um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Í 2. mgr. greinarinnar er tilgreind heimild ráðherra til að setja reglugerð um skyldu atvinnurekstrar sem háður er starfsleyfi skv. 5. gr. til að veita upplýsingar um loftgæði og losun mengandi efna út í andrúmsloftið. Umhverfisstofnun bendir á í umsögn sinni að ekki er allur atvinnurekstur sem losar slík efni háður starfsleyfi á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sem dæmi megi nefna að landbúnaður er stærsta uppspretta ammoníaklosunar. Gögn sem safnað sé fyrir loftslagsbókhald nýtist í þessu skyni en ekki sé hægt að ganga út frá því að þau séu fullnægjandi. Jafnframt telji stofnunin æskilegt að unnt sé að afla upplýsinga beint frá fyrirtækjunum til Umhverfisstofnunar óháð því hvort starfsleyfi er gefið út af stofnuninni sjálfri eða heilbrigðisnefnd. Nefndin tekur undir sjónarmið stofnunarinnar að þessu leyti og leggur til að bætt verði inn nýrri málsgrein á eftir 1. mgr. 5. gr. b, í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál.
    Umsagnaraðilar úr atvinnulífinu gagnrýna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun annist umsjón löggjafarinnar og daglegan rekstur umhverfismerkisins Svansins. Þeir telja að nauðsynlegt sé að Svanurinn verði sjálfstæð rekstrareining og að fjárhag merkisins sé ekki blandað saman við annan rekstur Umhverfisstofnunar. Í umfjöllun um málið kom fram að norræna umhverfismerkið Svanurinn hefur verið í notkun á Norðurlöndum í rúma tvo áratugi. Svaninum er stjórnað af sameiginlegri nefnd, norrænu umhverfismerkisnefndinni (NMN, Nordisk Miljömärkningsnämd). Nefndin mótar sameiginlega stefnu Svansins og ákveður fyrir hvaða vöruflokka og þjónustu skuli útbúa vottunarskilyrði. Í hverju landi er svo umhverfismerkisráð sem sér um stefnumótun í samræmi við norræna stefnu og þá stofnun sem hefur umsjón með daglegum rekstri Svansins. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Svaninum á Íslandi. Í því felst m.a. þátttaka í norrænu samstarfi, ráðgjöf og aðstoð við íslensk fyrirtæki sem sækja um Svaninn, vottun og leyfisveitingu, kynning á Svaninum ásamt skrásetningu á erlendum Svansmerktum vörum. Nefndin bendir á að það hafi aldrei verið markmið á norrænum vettvangi að Svanurinn mundi standa undir sér fjárhagslega og er hann í dag styrktur á ýmsan hátt af Norrænu ráðherranefndinni og viðkomandi stjórnvöldum. Nefndin telur hins vegar mikilvægt að rekstur Svansins sé fjárhagslega aðgreindur frá öðrum verkefnum Umhverfisstofnunar með sérstökum rekstrarreikningi.
    Umsagnaraðilar úr atvinnulífinu setja fram áhyggjur af ákvæðum frumvarpsins er fjalla um færanlega starfsemi og leggja til að ákvæðið verði fellt úr frumvarpinu og málinu vísað til umfjöllunar í starfshóp ráðuneytisins þar sem fjallað er um tilhögun og framkvæmd eftirlits sem og leyfisveitingar og hvernig þeim verður best fyrir komið til frambúðar. Rökin sem aðilarnir tilgreina eru þau að heilbrigðiseftirlitin séu sjálfstæð og geti lagt mismunandi mat á þær kröfur sem gerðar séu og þannig geti komið upp tilvik þar sem eitt heilbrigðiseftirlitssvæði meti tilteknar kröfur í starfsleyfi öðruvísi en ætlunin hafi verið að gert yrði af því umdæmi sem gefur leyfið út. Atvinnulífið geti tekið undir að á ferðinni sé ákveðinn vandi en telji að unnt sé að leysa hann á annan hátt en með því að fjölga þeim eftirlitsaðilum sem fjalli um tiltekna starfsemi sem eðli síns vegna getur færst á milli umdæma. Nefndin telur mikilvægt að koma þessu fyrirkomulagi á þannig að tryggt sé að færanleg starfsemi sé háð eftirliti hvar sem hún fer fram og að hægt sé að beita þeim þvingunarúrræðum sem lögin gera ráð fyrir sé þess þörf. Auk þess hafa framkvæmdastjórar heilbrigðiseftirlitssvæða og Umhverfisstofnun lagt ríka áherslu á að tryggt verði að heilbrigðisnefndir geti brugðist við frávikum einnig þegar um færanlega starfsemi er um að ræða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við b-lið 5. gr. (6. gr. d).
     a.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Umhverfisstofnun er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar sem þeir búa yfir varðandi starfsemi sína, rekstur og innflutning á vörum og stofnunin þarfnast vegna losunarbókhalds samkvæmt þessari grein. Umhverfisstofnun skal haga gagnasöfnun sinni á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Hún skal leitast við að afla gagna úr stjórnsýsluskrám og öðrum opinberum skrám og gagnasöfnum þegar því verður við komið. Skylt er að veita Umhverfisstofnun upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eftir eða um semst og innan þeirra tímamarka sem reglugerð skv. 3. mgr. kveður á um án þess að gjald komi fyrir. Umhverfisstofnun skal upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað.
     b.      Við 2. mgr. bætist: sem og skyldur annarra skv. 2. mgr.

    Atli Gíslason, Birgir Ármannsson, Árni Johnsen og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2013.



Ólafur Þór Gunnarsson,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Róbert Marshall.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.