Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 449. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1118  —  449. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum (heimild til rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár).


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.



    Nefndin fékk á sinn fund Hermann Sæmundsson og Hjördísi Stefánsdóttur frá innanríkisráðuneyti og Höllu Björgu Baldursdóttur frá Þjóðskrá til að kynna frumvarpið. Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Auðkenni ehf., Dalvíkurbyggð, Fljótsdalshéraði, Hagstofu Íslands, Hrunamannahreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti heimilað sveitarfélögum, að beiðni þeirra, að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn.
    Frumvarp þetta snertir öll sveitarfélög landsins enda er markmið þess m.a. að þróa tæki eða aðferðir til þess að auðvelda sveitarfélögum að kanna vilja íbúa þeirra til ýmissa mála, en um leið snertir frumvarpið íbúa þessara sömu sveitarfélaga þar sem því er ætlað að auðvelda þeim að hafa áhrif á stjórnun og stefnumótun sveitarfélaganna. Við gerð frumvarpsins var litið til nágrannalanda, sérstaklega Noregs, og reynsla þeirra í þessu efni skoðuð. Auk þess var hliðsjón höfð af þeim skýrslum og gögnum sem unnin hafa verið hér á landi varðandi rafrænt lýðræði. Frumvarpið var unnið í góðri samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá Íslands.
    Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir gagnvart frumvarpinu.
    Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á að það sé mjög í anda nýrra sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórnir geti valið að íbúakosningar, sem fram fari samkvæmt sveitarstjórnarlögum fari, eingöngu fram með rafrænum hætti.
    Hagstofan telur að verði rafrænar kjörskrár að veruleika yrði Hagstofunni gert kleift að birta tölur um kosningaþátttöku með mun ítarlegri, nákvæmari og fjölbreyttari hætti en hingað til hafi tíðkast. Einnig mundi mikil vinna sparast bæði hjá kjörstjórnum við framkvæmd kosninga og hjá Hagstofunni við skýrslugerð. Nokkrir umsagnaraðilar ræða styrkleika auðkenningar og benda á mikilvægi þess að gengið sé úr skugga um að móttakandi auðkennisins sé sá sem hann segist vera og réttur móttakandi þess.
    Dalvíkurbyggð gagnrýnir að einungis þeir sem eigi kosningarrétt til sveitarstjórnar geti tekið þátt í íbúakosningu. Íbúasamsetning sé mjög breytileg og víða búi fólk af ólíkum uppruna sem ekki eigi rétt á að kjósa til sveitarstjórna fyrr en eftir tiltekinn búsetutíma í sveitarfélaginu. Það sé mikilvægt að sveitarfélög geti ákveðið hverjir séu á kjörskrá við íbúakosningar og að sá möguleiki sé gefinn að allir íbúar, án tillits til ríkisfangs og lengdar búsetu í sveitarfélagi, hafi kosningarrétt í íbúakosningum ef þær eiga að þjóna þeim tilgangi að gefa sveitarstjórn sem bestar upplýsingar um vilja íbúanna í tilteknum málum og um leið að virkja íbúa, líka af erlendum uppruna, til þátttöku um mál er varði þeirra nánasta umhverfi og aðstæður. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en telur á þessu stigi ekki ástæðu til að leggja til að aldurinn til íbúakosninga verði 16 ár en miði fremur við hefðbundinn kosningaaldur.
    Um er að ræða tímabundið þróunarverkefni sem nær yfir rúmlega fimm ára tímabil, til maí 2018. Gangi þetta þróunarstarf vel kann það að fela í sér tækifæri til að lækka til mikilla muna kostnað ríkissjóðs vegna kosninga bæði á sveitarstjórnarstigi og til Alþingis til lengri tíma litið. Með frumvarpinu er leitast við að þróa rafrænt lýðræði. Nefndin styður þá hagræðingu sem felst í rafvæðingu kosninga og atkvæðagreiðslna en leggur áherslu á að huga þarf sérstaklega vel að auðkenningarhluta í atkvæðagreiðslum og vernd persónuupplýsinga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðsins „janúar“ í 2. gr. komi: júní.

    Atli Gíslason, Birgir Ármannsson, Árni Johnsen og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2013.



Ólafur Þór Gunnarsson,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Róbert Marshall.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.