Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1178  —  445. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um stöðu erindis
vegna sjálfskuldarábyrgðar sem Mosfellsbær undirgekkst.


     1.      Hefur frá því 1. febrúar 2011 legið fyrir erindi hjá ráðuneytinu vegna sjálfskuldarábyrgðar sem Mosfellsbær undirgekkst 24. september 2009 vegna 246 millj. kr. láns sem Helgafellsbyggingar hf. tóku hjá NBI hf. (Landsbankanum)? Ef svo er, hvers vegna hefur ráðuneytið ekki afgreitt erindið?
    Í upphafi febrúarmánaðar 2011 barst ráðuneytinu erindi frá íbúa í Mosfellsbæ sem laut að lögmæti sjálfskuldarábyrgðar sem Mosfellsbær undirgekkst vegna láns sem NBI hf. veitti Helgafellsbyggingu hf. 24. september 2009. Eftir athugun málsins ákvað ráðuneytið að taka það til nánari skoðunar sem frumkvæðismál á grundvelli 1. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, sem nú eru fallin úr gildi. Lauk athugun ráðuneytisins með útgáfu álits, dags. 21. desember 2012.
    Vakin er athygli á því að málið var ekki í meðferð sem stjórnsýslukæra heldur laut athugun ráðuneytisins einungis að sveitarfélaginu sjálfu. Ráðuneytið greindi þeim er beindi erindinu til þess frá því með tölvubréfi, dags. 8. mars 2011, að ráðuneytið hefði ákveðið að taka málið til nánari skoðunar og á hvaða lagagrundvelli, en að það ætti hins vegar ekki aðild að slíku máli. Lauk afgreiðslu ráðuneytisins á erindinu því 8. mars 2011.

     2.      Hefur verið óskað eftir áliti ráðuneytisins á því hvort fyrrgreind sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar sé í samræmi við lög?
    
Já.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til þessara mála?

    Niðurstaða álits ráðuneytisins var sú að aðkoma Mosfellsbæjar að framangreindum löggerningi hefði ekki verið í samræmi við ákvæði 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/ 1998. Er álit ráðuneytisins að finna á heimasíðunni www.urskurdir.is.