Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1189  —  152. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.


Frá velferðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Jóhannsson, sérfræðing í klínískri sálfræði, Braga Guðbrandsson og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá Barnaverndarstofu, Jónu Heiðu Pálmadóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Báru Sigurjónsdóttur og Elísabetu Guðnadóttur frá embætti umboðsmanns barna, Ástríði Jóhannesdóttur og Sólveigu J. Guðmundsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Heimi Hilmarsson og Lúðvík Börk Jónsson frá Félagi um foreldrajafnrétti og Gyðu Hjartardóttur og Svandísi Ingimundardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni hafa borist umsagnir um málið frá Ársæli Má Arnarssyni, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Benedikt Jóhannssyni, Bláskógabyggð, Félagi um foreldrajafnrétti, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Heimi Hilmarssyni, Hrunamannahreppi, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Árborg, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni barna og Þjóðskrá Íslands.
    Með tillögu þessari er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að skipa þriggja manna starfshóp sem semja muni skýrslu um það hvernig útfæra megi jafnt búsetuform barna sem búa jafnt og til skiptis hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum. Markmið með vinnu starfshópsins verði að leita leiða til að jafna þann aðstöðumun sem er á milli heimila þegar foreldrar barna sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp á tveimur heimilum til jafns og í því skyni skuli hópurinn m.a. taka afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar tvöfalda lögheimilisskráningu barna eða annað fyrirkomulag jafnrar búsetu.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni hefur það færst mikið í vöxt síðustu árin að þegar foreldrar skilja eða slíta samvistum er samið um að báðir foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eða barna sinna og að börnin dvelji um það bil jafn langan tíma hjá hvoru foreldri um sig. Hins vegar er það svo að hið opinbera styður misjafnlega við foreldra í þessari aðstöðu sem fara sameiginlega með forsjá barns þar sem ýmis réttaráhrif fylgja því hvar barnið á lögheimili. Þannig fylgir allur fjárhagsstuðningur hins opinbera lögheimili barnsins sem og réttur barnsins til ýmiss konar þjónustu á vegum sveitarfélaga. Þá er einnig ljóst að til að það geti verið barni fyrir bestu að búa í fyrirkomulagi sem felur í sér jafna búsetu hjá hvoru foreldri þurfa bæði heimilin að vera jafn vel búin að gæðum, þ.e. barnið þarf að hafa sína eðlilegu aðstöðu á báðum heimilum og í tilvikum fatlaðra barna þurfa oft að vera til staðar nauðsynleg hjálpartæki á tveimur heimilum sem er ekki í boði í dag með greiðsluþátttöku ríkisins. Nefndin telur rétt að taka fram að þegar foreldrum tekst við skilnað að semja um sameiginlega forsjá og nokkurs konar jafna umgengni beggja foreldra er augljóslega allgott samband milli foreldranna þó svo að þeir kjósi að slíta samvistum. Í raun er því fátt til fyrirstöðu að samið sé um að greiðslum frá hinu opinbera skuli skipta milli foreldranna. Slíkan samning er foreldrum alltaf heimilt að gera sín á milli en hafa verður í huga að t.d. meðlagskerfið styður ekki slíka samninga og þarf því að nokkru leyti að fara fram hjá því sem nefndin telur ekki til fyrirmyndar. Kerfið ætti að bjóða foreldrum upp á sem flesta möguleika á búsetuformi sem geta verið barni til hagsbóta án þess að fara þurfi í kringum lög og reglur. Þá þarf einnig að athuga að upplýsingagjöf til foreldra getur verið misjöfn eftir því hvar barnið á lögheimili, t.d. upplýsingar úr skólakerfinu og aðrar slíkar upplýsingar. Að þessu leyti telur nefndin rétt að skoðað verði hvernig koma megi því við að foreldrar verði sem jafnast settir hvað ýmis lögbundin réttindi varðar, með hliðsjón af því sem er barni fyrir bestu hverju sinni og fjárhagsstöðu hvors foreldris um sig.
    Flestir gestir sem komu fyrir nefndina töldu málið jákvætt sem og einnig má ráða af innsendum umsögnum. Fyrir nefndinni voru kynntar rannsóknir sem benda til að börnum sem búa við jafna umgengni beggja foreldra sinna farnist hið minnsta jafn vel og meira að segja betur í sumum tilfellum en börnum foreldra sem búa saman. Þá sýna rannsóknir einnig að eftir því sem börn búa við jafnari umgengni við báða foreldra sína eftir skilnað þeim mun betur farnast þeim. Það kann þó einnig að hafa áhrif að í þeim tilvikum þar sem samið er um jafna umgengni er samkomulag gott milli foreldranna. Það helst því í hendur líkt og ráða má af rannsóknum síðustu ára og breytingum á barnalögum með lögum nr. 61/2012, þar sem aukin áhersla var lögð á sáttameðferð, að börnum farnast þeim mun betur eftir skilnað foreldra sinna eftir því sem samkomulag milli foreldranna er betra. Nefndin telur því tillögu þessa mikilvæga þar sem tilgangur hennar er að styðja jafnt við þá foreldra þar sem samkomulagið er hvað best, barni til hagsbóta.
    Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fram athugasemdir varðandi möguleika á tvöföldu lögheimili barns og lagst gegn því m.a. á þeim forsendum að slík skráning geti flækt mjög stöðu barnsins. Hins vegar kemur fram af hálfu sambandsins að ástæða sé til að verkefni starfshópsins á grundvelli tillögu þessarar verði rýmri þar sem horft verði meira til fjárhagslegra þátta og að hvaða marki hið opinbera þarf að laga sig að breyttum þjóðfélagsaðstæðum með tilliti til raunverulegrar búsetu barns. Nefndin tekur undir þær áherslur sem fram koma hjá sambandinu og áréttar að í tillögugreininni kemur fram að markmið með starfi starfshópsins verði að kanna leiðir til að eyða þeim aðstöðumun sem er á milli heimila þegar foreldrar sem búa ekki saman kjósa að ala upp börn sín á tveimur heimilum. Þannig ber hópnum að líta til allra mögulegra leiða en ljóst er að fjárstuðningur hins opinbera er veigamikill þáttur í þeim aðstöðumun sem er milli heimila. Þá áréttar nefndin einnig að samkomulag um einhvers konar jafna búsetu eða annað slíkt fyrirkomulag sem verða kann afrakstur vinnu starfshópsins þarf að fela í sér að báðir foreldrar séu sáttir við það og að milli þeirra sé ríkur sáttavilji og að búseta þeirra sé með þeim hætti að ekki verði röskun á högum barnsins, t.d. að þeir búi í sama eða aðliggjandi skólahverfum, hvort sem um sama sveitarfélag er að ræða eða ekki. Áherslan í þessu sambandi liggur í þeirri samfellu sem er nauðsynleg í lífi hvers barns. Þá áréttar nefndin einnig að fyrirkomulag sem þetta er alls ekki óháð aldri eða vilja barns. Til margra sjónarmiða er því að líta þegar hugað er að útfærslu á því hvernig jafna megi aðstöðumun milli heimila og telur nefndin að starfshópurinn þurfi að nálgast viðfangsefni sitt út frá því að kanna allar þær leiðir sem eru í boði til að jafna aðstöðumuninn, taka saman yfirlit yfir kosti og galla þeirra leiða sem til greina koma og koma fram með tillögur um hvernig jafna megi aðstöðumuninn, hvort sem um minni háttar breytingar er að ræða eða efnismiklar breytingar. Ráðherra meti síðan niðurstöður starfshópsins og leggi fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. mars 2013.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,


frsm.


Þuríður Backman.Oddný G. Harðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.Birkir Jón Jónsson.


Guðmundur Steingrímsson.