Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 606. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1190  —  606. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur,
með síðari breytingum.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneytinu, Halldór Grönvold frá ASÍ, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun. Þá hefur nefndinni borist umsögn um málið frá Samiðn.
    Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er afrakstur samstarfs velferðarráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins og ber þar helst að nefna ASÍ og Samtök atvinnulífsins. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, í því skyni að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB, en lögin eru að mestu leyti í samræmi við tilskipunina en nauðsynlegt er þó að gera tilteknar breytingar svo hægt sé að líta svo á að tilskipunin hafi verið innleidd með fullnægjandi hætti hér á landi. Með breytingunum er skerpt á gildissviði og skilgreiningum laganna þannig að það komi skýrt fram í texta laganna að þau gildi um starfsmannaleigur á innlendum markaði og starfsmenn þeirra og um skyldur notendafyrirtækja. Þá er lagt til að notendafyrirtæki og starfsmenn starfsmannaleigna verði sérstaklega skilgreindir í lögunum. Þá er lagt til að ákvæði um slysatryggingu starfsmanna skv. 7. gr. laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007, verði fellt brott í kjölfar laga nr. 114/2012, um breytingu á fyrrnefndum lögum, þar sem brugðist var við dómi EFTA-dómstólsins sem taldi ákvæðið brjóta í bága við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/71/EB, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Í 3.–5. gr. frumvarpsins eru síðan ákvæði um réttindi starfsmanna, að starfsmenn starfsmannaleigna skuli njóta sömu starfskjara og aðbúnaðar og aðrir fastráðnir starfsmenn notendafyrirtækis, að starfsmenn starfsmannaleigna hafi sömu tækifæri og starfsmenn notendafyrirtækis til að vera ráðnir ótímabundið í störf hjá notendafyrirtæki og að starfsmenn starfsmannaleigna hafi greiðan aðgang að starfsmenntun og starfsþjálfun. Síðastnefndu ákvæðin eru kjarni frumvarpsins og veita starfsmönnum starfsmannaleigna mikilvæg réttindi.
    Nefndin telur frumvarpið fela í sér mikilvæga breytingu á lögum um starfsmannaleigur sem koma muni í veg fyrir að hér á landi verði aftur vart þeirra félagslegu undirboða sem stunduð voru á uppgangstímanum þar sem starfsmenn starfsmannaleigna fengu ekki greidd samsvarandi laun og starfsmenn notendafyrirtækja og í sumum tilfellum afar lág laun. Með samþykkt frumvarpsins verða tryggð réttindi allra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt áréttuð meginregla íslensks vinnuréttar um ótímabundna ráðningarsamninga starfsmanna beint við vinnuveitendur sína en jafnframt viðurkennt að þörf getur verið á þeim sveigjanleika sem starfsmannaleigur bjóða upp á en að þær verði þá aðeins nýttar í þeim tilgangi en ekki til að greiða starfsfólki lægri laun. Þá tekur nefndin einnig fram að í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er vísað til launa og annarra starfskjara og er þar gengið lengra en gert er í tilskipuninni þar sem aðeins er vísað til launa. Önnur starfskjör geta til að mynda verið afkastatengt launakerfi sé það til staðar hjá notendafyrirtækinu. Þá tryggir 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins starfsmönnum aðgang að t.d. íþróttaaðstöðu sem starfsmenn notendafyrirtækisins hafa aðgang að.
    Nefndin telur frumvarpið fela í sér mikilvægar breytingar og að með því sé lokað fyrir glufur í lögum um starfsmannaleigur frá 2005 og staðið við alþjóðlegar skuldbindingar. Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Steingrímsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. mars 2013.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Magnús Orri Schram.


Oddný G. Harðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Birkir Jón Jónsson.