Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1196  —  664. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur,
með síðari breytingum (EES-reglur).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að endurskoðandi gæti að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Endurskoðendaráð hefur heimild til samvinnu við eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum félaga sem eru með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefa út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

2. gr.

    Við 32. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig eru innleidd ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 og 32/2012.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er unnið upp úr öðru frumvarpi sem verið hefur til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd, sbr. 503. mál (prófnefnd endurskoðenda, samvinna við erlenda eftirlitsaðila o.fl.). Í ljós hefur komið að ekki mun takast að afgreiða það mál til fulls á þessu þingi og hefur nefndin að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fallist á að flytja frumvarp er varðar afmarkaða þætti þess. Er um að ræða innleiðingu á EES-reglum.
    Lagðar eru til breytingar á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum, til innleiðingar á tilskipun 2005/60/EB um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkamanna og tveimur ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB og 2011/30/ESB.
    Með lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, voru innleidd flest ákvæði tilskipunar 2005/60/EB um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkamanna (e. Directive 2005/60/EC of the European Parliament and of the Council of 26 October 2005 on the prevention of the use of the financial system for the purpose of money laundering and terrorist financing). Tilskipunin er hluti EES-samningsins, tekin upp í hann með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 87/2006 frá 7. júlí 2006 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, 13. árgangur, hefti 52 (19.10.2006), bls. 19). Í g-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/2006 er sérstaklega tekið fram að endurskoðendur falli undir lögin. Í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 12. desember 2012, varðandi innleiðingu á tilskipun 2005/60/EB kemur fram að Ísland hafi ekki innleitt með fullnægjandi hætti ákvæði 1. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar hvað varðar eftirlit með fasteignasölum og endurskoðendum. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar kveður á um að aðildarríkin skuli krefjast þess að lögbær yfirvöld hafi a.m.k. virkt eftirlit með og geri nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni að tryggja að allar stofnanir og einstaklingar, sem tilskipunin tekur til, fari að kröfum tilskipunarinnar. Var Íslandi veittur tveggja mánaða frestur til að gera viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við. Með breytingunni sem hér er lögð til er komið til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Ákvörðun 2010/485/ESB miðar að því að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum. Ákvörðun 2011/30/ESB kveður á um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingarkerfa og rannsóknar- og viðurlagakerfa aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar. Með breytingunni verður endurskoðendaráði veitt heimild til að gera samning við eftirlitsaðila í tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um samvinnu við eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að endurskoðendaráð fylgist sérstaklega með því að endurskoðendur fari að ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, en í g-lið 1. mgr. 2. gr. þeirra laga er sérstaklega tekið fram að endurskoðendur falli undir lögin. Skv. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur, hefur endurskoðendaráð eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laganna, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda. Í 2. mgr. sömu greinar eru taldir upp í 1.–4. tölul. þættir í störfum endurskoðenda sem ráðið skal sérstaklega fylgjast með. Talið er eðlilegt að endurskoðendaráð verði falið þetta hlutverk. Því er lagt til að bætt verði nýjum tölulið við 2. mgr. til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 2005/60/EB sem snýr að opinberu eftirliti með endurskoðendum.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar til innleiðingar á tveimur ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar. Ákvörðun 2010/485/ESB miðar að því að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum. Ákvörðun 2011/30/ESB kveður á um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingarkerfa og rannsóknar- og viðurlagakerfa aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar. Með breytingunni verður endurskoðendaráði veitt heimild til samvinnu og gerðar samstarfssamninga við eftirlitsaðila í tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Um 2. gr.

    Gerðar eru breytingar á greininni vegna innleiðingar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 161/2011 og 32/2012.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.