Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 666. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1201  —  666. mál.
Flutningsmenn.
Skýrslameiri hluta fjárlaganefndar til Alþingis um lánveitingu Seðlabanka Íslands
til Kaupþings hf. 6. október 2008.


Lánveiting Seðlabanka Íslands til Kaupþings hf. 6. október 2008.
    Hinn 21. mars 2012 var haldinn sameiginlegur fundur fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um þrautavaralán Seðlabanka Íslands til Kaupþings hf. í október 2008. Markmið fundarins var að afla nánari upplýsinga um forsendur lánveitingarinnar, þær aðstæður sem fyrir hendi voru þegar lánið var veitt, ástæður fyrir því að það var gert og um þau gögn, samþykktir, verklagsreglur og önnur atriði sem máli skipta við veitingu þrautavaralána. Seðlabankastjóri hafði áður veitt upplýsingar um að verklagsreglum hefði ekki verið fylgt og komið hafði í ljós að einu gögnin sem til voru um lánveitinguna var símtal milli þáverandi forsætisráðherra og þáverandi formanns bankaráðs um lánveitinguna rétt áður en lánið var veitt. Einnig fjallaði fjárlaganefnd nánar um málið á fundi sínum 21. september 2012.
    Málavextir eru þeir að 6. október 2008 samþykkti Seðlabanki Íslands að veita Kaupþingi lán sem nam 500 milljónum evra (um 77,5 ma.kr.) gegn veði í danska FIH-bankanum. Fyrr sama dag hafði Kaupþing hf. óskað eftir fyrirgreiðslu í erlendri mynt til skamms tíma hjá Seðlabanka Íslands. Fallist var á að lána Kaupþingi 500 milljónir evra á þeim degi gegn veði í öllu hlutafé Kaupþings í danska FIH-bankanum. Lánið sem Kaupþing fékk var til fjögurra daga og kjör að sögn bankans sambærileg og í reglulegum viðskiptum. Lánið til Kaupþings var án skilyrða og veitt gegn veði sem var án veðbanda og kvaðalaust.
    Ekki var gengið frá skriflegum lánssamningi á þessum degi en kjörin á láninu voru að öðru leyti ákveðin þessi: Dagsetning viðskipta 6. október 2008, gjalddagi 10. október 2008, lánstími í dögum fjórir, nafnvextir 9,40%.
    Tekin var ákvörðun um hádegisbil 6. október að ganga frá veðsamningi. Talsvert átak var að tryggja veðsetninguna þar sem tími til þess var naumur fyrir lok vinnudags í Danmörku. Veðsamningurinn var útbúinn sem allsherjarveð en ekki veð fyrir lánsfjárhæðinni. Á þeim tíma var reiknað með að verðmæti FIH gæti numið allt að milljarði evra. Bankastjórn Seðlabanka Íslands setti sig þennan dag í samband við bankastjórn danska seðlabankans til að fá upplýsingar um stöðu FIH, sem þá var sögð traust. Lánssamningurinn átti að fylgja í kjölfarið, en vegna þeirrar atburðarásar sem fór af stað eftir setningu neyðarlaganna var hann aldrei gerður. Lánveitingin og kjör lánsins voru hins vegar staðfest af skilanefnd og síðar slitastjórn Kaupþings og hafa kröfuhafar Kaupþings ekki mótmælt henni, enda hefur Seðlabankinn gengið að veðinu og selt það. Þegar lánið var veitt til Kaupþings var það grundvallaratriði til að tryggja hagsmuni Seðlabankans að tryggja réttarvernd veðsetningarinnar í FIH-bankanum. Lánið var greitt út af reikningum Seðlabankans í erlendum fjármálastofnunum inn á reikning Kaupþings í Deutsche Bank Frankfurt í evrum í þremur hlutum, 200.000.000, 85.000.000 og 215.000.000.
    Um ákvörðunina var ekki gerð sérstök bankastjórnarsamþykkt. Í tölvupósti frá núverandi seðlabankastjóra, sem sent var formanni efnahags- og viðskiptanefndar 1. mars 2012, segir um ákvörðun lánveitingarinnar: Mér er tjáð að formaður bankastjórnar hafi átt samráð við forsætisráðherra um lánveitinguna. Í svarbréfi við fyrirspurn formannsins, dags. 20. mars 2012, vegna fyrirspurnar hans um hvort til væru gögn, upptökur eða endurrit af því samráði formanns bankastjórnar og forsætisráðherra sem hann vísaði til í fyrirspurn sinni kom fram að í Seðlabankanum væri til upptaka af framangreindu símtali þáverandi formanns bankastjórnarinnar og þáverandi forsætisráðherra. Þá segir í svari seðlabankastjóra um hvort ekki hafi verið farið að verklagsreglum Seðlabankans um þrautavaralán við lánveitinguna: Þegar reglur um verklag í neyðarástandi eru samdar liggur ekki fyrir hvernig aðstæður munu raunverulega vera þegar á reynir. Aðstæður þann 6. október voru með þeim hætti að enginn tími var til að fylgja verklagsreglunum formlega eftir. Öll meðferð málsins og ákvarðanataka var hjá æðstu stjórn bankans. Öll áhersla var lögð á að tryggja réttarstöðu Seðlabankans með því að veðsetning tækist. … Lántaka Kaupþings þ. 6. október 2008 bar ákaflega brátt að og því vannst ekki tími til að kanna hver staða Seðlabankans væri varðandi fullnustu á veðinu, þ.e. að ganga að hlutafé bankans, enda var lánið veitt til að vinna bug á lausafjárerfiðleikum og það átti að endurgreiða 4 dögum síðar. Það má teljast ólíklegt að FIH bankinn hefði veitt Seðlabankanum aðgang að lánasamningum sínum við framkvæmd vegna trúnaðar við lánveitendur sína.
    Í bréfi formanna efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis, dags. 20. apríl 2012, var óskað eftir útskrift af símtali fyrrverandi forsætisráðherra við fyrrverandi formann bankaráðs Seðlabanka Íslands um fyrrgreint lán. Bentu formennirnir á að lánveitingin varðaði mikla fjárhagslega hagsmuni ríkissjóðs og gjaldeyrisvaraforða landsins er falla undir málasvið nefndanna.
    Í svarbréfi aðstoðarseðlabankastjóra og staðgengils aðallögfræðings, dags. 27. apríl 2012, er vísað til 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, þar sem fram komi að þagnarskylda hvíli á bankaráðsmönnum, seðlabankastjóra og fleiri aðilum og að þau gögn sem formennirnir óski eftir aðgangi að falli undir 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands og því sé þagnarskylda um þær upplýsingar. Að mati bankans virðist bréfið vera sent á grundvelli 1. mgr. 51. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Telja bréfritarar að hvergi komi fram hvaða mál sé til umfjöllunar sem kalli á þá gagnaöflun sem um ræðir. Ekki komi fram hvort tilskilinn lágmarksfjöldi þingmanna í hvorri nefnd fyrir sig standi að baki beiðni um upplýsingar og af bréfi formannanna verði ekki ráðið að fyrir hendi séu slíkir hagsmunir að þeir víki til hliðar hinni ríku þagnarskyldu Seðlabanka Íslands. Því er ósk formannanna hafnað.
    Í 51. gr. þingskapalaga kemur fram að aðeins er heimilt að takmarka aðgang nefndar að gögnum að hagsmunir hennar af því að kynna sér efni þeirra eigi að víkja fyrir mun ríkari opinberum hagsmunum eða einkahagsmunum. Rökstyðja skal slíka synjun skriflega. Að mati meiri hluta fjárlaganefndar hafa slíkar röksemdir ekki komið fram.
    Formenn efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar ítrekuðu erindi sitt í bréfi til Seðlabankans 23. maí 2012. Var m.a. vísað til þeirra skilyrða sem uppfylla þarf til að unnt sé að neita þingnefnd um gögn skv. 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga. Einnig var minnt á að beiðni nefndanna lyti að því að upplýsa hvernig tveir embættismenn stóðu að tiltekinni ákvörðun sem hafði gífurlega alvarleg áhrif á fjárhagsstöðu Seðlabankans og ríkissjóðs. Þá var bent á að Seðlabankanum væri heimilt að biðja um trúnað og skyldu þá nefndarmenn kynna sér gögnin á lokuðum fundi án þess að fara með þau út af fundinum. Vakin var athygli á því að Seðlabankinn hefði áður veitt Alþingi aðgang að sambærilegum gögnum, sbr. bréf bankans dags. 18. janúar 2011 um símtal seðlabankastjóra við seðlabankastjóra breska seðlabankans um efnahagsástandið á Íslandi haustið 2008.
    Seðlabankinn svaraði erindi formanna nefndanna með bréfi dags. 25. júní 2012. Í því kemur m.a. fram að aðstoðarseðlabankastjóri og aðallögfræðingur bankans telji að ekkert liggi fyrir um að tiltekið mál sé til meðferðar hjá nefndunum. Enga tilvísun sé að finna til málsnúmers eða málsheitis. Þá telja þeir að engin bókun eða önnur formleg ákvörðun virðist liggja því til staðfestingar að um formlegt mál sé að ræða. Þeir virðast draga í efa að tiltekinn lágmarksfjöldi nefndarmanna hafi krafist aðgangs að upplýsingum þar sem engar bókanir eða önnur gögn séu dregin fram því til staðfestingar. Fulltrúar Seðlabankans telja að forsætisráðherra Íslands á hverjum tíma sé ekki embættismaður í skilningi þess orðs, heldur sé þar um að ræða oddvita ríkisstjórnar sem sitji í skjóli meirihlutavalds á Alþingi. Bankinn dregur þó ekki í efa að seðlabankastjóri hafi verið embættismaður á þeim tíma sem um ræðir. Með þessum hætti virðist Seðlabankinn reyna að draga í efa að Alþingi hafi aðkomu að þeim gögnum sem fyrir liggja um ákvarðanatöku þessara starfsmanna ríkisins. Enn fremur telur bankinn að ekki sé um nægjanlega ríka hagsmuni að ræða, sem reyndar er einhliða skilgreining bankans, þar sem Alþingi hafi þegar eftirlit með Seðlabankanum í gegnum bankaráð bankans. Telur bankinn að þar sem kveðið sé á um eftirlit Alþingis í ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, sem verði þá að skoðast sem sérlög gagnvart almennum ákvæðum um eftirlit þingsins samkvæmt þingskapalögum, nr. 55/1991, beri að líta svo á að rekist þessi lög á gangi lög nr. 36/2001 framar. Telja fulltrúar bankans að það eftirlit sem löggjafinn hafi ákveðið að skuli vera með Seðlabankanum sé virkt og fyrir hendi. Vart þarf að taka það fram að meiri hlutar efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar eru ósammála þessu, eins og fram hefur komið á fundum nefndanna og fjárlaganefnd hefur kannað og staðfest er í fundargerð nefndarinnar.
    Formaður fjárlaganefndar ritaði Seðlabankanum lokabréf um málið 28. janúar sl. þar sem farið er yfir röksemdir bankans og þeim hafnað. Jafnframt var bankanum tilkynnt að nefndin mundi flytja Alþingi skýrslu þá sem hér er flutt um málið. Í bréfinu segir:
     Í bréfi Seðlabankans frá 25. júní sl. er því haldið fram að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 50. gr. laga um þingsköp Alþingis (sbr. nú 1. mgr. 51. gr.) fyrir afhendingu umrædds gagns. Þannig sé ekki um tiltekið mál að ræða í skilningi ákvæðisins, ekki liggi fyrir að lágmarksfjöldi nefndarmanna hafi krafist aðgangs og ekki séu fyrir hendi nægilega ríkir hagsmunir til að víkja til hliðar þagnarskyldu bankans skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
    Hvað viðkemur þeirri afstöðu Seðlabankans að ekki sé um að ræða formlegt mál sem er til meðferðar hjá fjárlaganefnd skal áréttað að þingnefnd er heimilt hvenær sem er á starfstíma sínum að fjalla um mál sem heyrir undir málefnasvið hennar þó að þingið hafi ekki sérstaklega vísað því þangað, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga um þingsköp Alþingis. Umrædd beiðni og það sem býr að baki henni, telst mál í skilningi ákvæðisins eða tiltekið mál skv. 1. mgr. 51. gr. sömu laga. Ekki skiptir máli hvernig staðið var að bókun málsins í málaskrá þingsins eða hvernig til þess hefur verið vitnað í samskiptum við Seðlabanka Íslands. Þá liggur fyrir að mál þetta hefur verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd enda hafa fulltrúar Seðlabankans m.a. mætt á sameiginlegan fund nefndanna. Sú beiðni sem hér er ágreiningur um tengist því tvímælalaust máli sem nefndin hefur til umfjöllunar enda heyrir umrædd lánveiting klárlega undir starfssvið fjárlaganefndar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis.
    Þá verður að telja að það heyri undir og sé á ábyrgð formanna nefndanna að tryggja að lágmarksfjöldi nefndarmanna hafi krafist aðgangs í skilningi 1. mgr. 50. gr. þingskapalaga og að ekki þurfi að upplýsa Seðlabankann sérstaklega um hvort svo sé eða standa honum reikningsskil í þeim efnum.
    Það er mat Seðlabankans að gera verði ríkar kröfur til skilnings á orðinu mál í 1. mgr. 50. gr. þingskapalaga og að það verði „að vera fyrir hendi einhver málsmeðferð, og málsgrundvöllur, svo að ákvæði um upplýsingarétt þingnefndar geti þokað lögákveðinni þagnarskyldu,“ eins og fram kemur í svari bankans. Að mati nefndanna er erfitt að sjá fyrir að mál geti verið öllu þýðingarmeiri en það mál sem hér er til umfjöllunar og að það varði Alþingi eða einstakar nefndir þess miklu að geta fengið sem bestar upplýsingar um það, hyggist þingið t.d. bregðast við með nýrri lagasetningu eða leggja fram sérstaka skýrslu um athuganir sínar, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um þingsköp Alþingis. Eins og áður hefur komið fram getur það ekki haft þýðingu fyrir afdrif eða niðurstöðu máls þessa hvernig staðið hefur verið að skráningu þess eða hvort eða hvernig vitnað var til þess í samskiptum aðila. Þá verður að telja að grundvöllur þessa máls (málsgrundvöllur) sé vel undirbyggður enda lýtur hann að því að fá upplýsingar um staðreyndir málsins, þar á meðal á hvaða sjónarmiðum var byggt, í þeim tilgangi að Alþingi geti sinnt lögbundnum eftirlitsskyldum sínum. Leggja verður áherslu á að hér er ekki um að ræða einkamálefni heldur mál sem varðar alla landsmenn. Það eru því augljóslega fyrir hendi nægilega ríkir hagsmunir fyrir því að Alþingi fái þær upplýsingar sem um er beðið í skilningi 1. mgr. 50. gr. þingskapalaga.
    Af hálfu Seðlabankans er vísað til þess að ekki séu til staðar nægilega ríkir almannahagsmunir sem réttlæti að vikið verði frá þagnarskylduákvæðum laga um Seðlabanka Íslands. Er þá vísað til þess að bankinn lúti sérstöku eftirliti bankaráðs bankans, en lög bankans séu sérlög og gangi því framar ákvæðum þingskapa. Tekur bankinn fram að ekki verði séð að umfjöllun bankaráðs bankans hafi kallað á sérstakar aðgerðir af hálfu ráðsins. Í þeim skilningi séu ekki til staðar nægilega ríkir hagsmunir. Að mati fjárlaganefndar gætir hér ákveðins misskilnings af hálfu bankans. Það er engum vafa undirorpið að þrátt fyrir sjálfstæði Seðlabankans telst hann hluti af opinberri stjórnsýslu og sætir þannig t.d. einnig eftirliti umboðsmanns Alþingis (sbr. UA 1349/1995) og Ríkisendurskoðunar.
    Eins og Seðlabankinn bendir á fer bankaráð bankans, sem kosið er af Alþingi, með eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Því eftirliti verður ekki jafnað við eftirlit Alþingis. Engar vísbendingar eru í lögum um að Alþingi hafi fengið bankaráði Seðlabankans, sem er hluti af innra skipulagi hans, eftirlitshlutverk sitt. Það er því ekki hægt að fallast á þá ályktun sem fram kemur í bréfi Seðlabankans frá 25. júní sl. að lög um Seðlabanka Íslands séu sérlög gagnvart fyrirmælum í þingsköpum Alþingis og að þar með sé bankinn undanskilinn eftirliti Alþingis. Hér verður auk þess að undirstrika að eftirlitshlutverk Alþingis hefur verið áréttað sérstaklega með nýlegum breytingum sem gerðar voru á þingsköpum Alþingis, sbr. lög nr. 84/2011.
    Eðli málsins samkvæmt fer almennt ekki vel á að þingið sé að hafa afskipti af einstökum ákvörðunum bankans enda miði löggjöf þjóða að því að tryggja sem mest sjálfstæði seðlabanka, eins og gert hefur verið hér á landi. Ekki er þó unnt að fallast á eins og áður segir að hægt sé að túlka sjálfstæði hans á þann veg að ákvæði um þagnarskyldu í lögum um hann gangi framar eða víki til hliðar ákvæðum um eftirlitsheimildir þingsins í máli af þeim toga sem hér er til umfjöllunar enda öll málsatvik sérstæð og einstök. Í þessu samhengi skal bent á að ákvæði 52. gr. laga um þingsköp Alþingis leiða beinlínis til þess að þagnarskyldar upplýsingar sem bankinn býr yfir verði afhentar þingnefndum þrátt fyrir ákvæði 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands.
    Þegar horft er til seinni hluta 1. mgr. 51. gr. þingskapa verður ekki séð að Seðlabankinn hafi lagt sérstakt mat á þá hagsmuni sem gefi til kynna að upplýsingaréttur fjárlaganefndar eigi að víkja fyrir mun ríkari opinberum hagsmunum eða einkahagsmunum. Samkvæmt þessu hefur meðferð Seðlabanka Íslands á kröfu fjárlaganefndar um afhendingu á umræddu gagni ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 51. gr. þingskapa.
    Eins og áður er fram komið er ætlunin að afla upplýsinga um hvernig staðið var að umræddri lánveitingu og hver áhrif þess yrðu á stöðu Seðlabankans og fjárhag ríkissjóðs ef hún tapaðist að hluta eða öllu. Á fyrrnefndum fundi með fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd gerði seðlabankastjóri grein fyrir lánveitingunni og aðdraganda hennar og upplýsti að ekki hefði verið unnið samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um lánveitingar. Það hafi m.a. ekki unnist tími til að ganga frá lánsskjölum í tengslum við lánveitinguna og veði í danska FIH-bankanum. Þá voru áhöld um hvort lánið hafi verið veitt að höfðu samráði við þáverandi forsætisráðherra í símtali sama dag og lánið var veitt, en málefni bankans heyrðu á þessum tíma undir forsætisráðuneytið. Áður hafði komið fram í bréfi Seðlabankans, dags. 1. mars sl., að umrætt lán hefði verið veitt að höfðu samráði við forsætisráðherra. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum virðist umrætt símtal vera það eina sem fyrir liggur um lánveitinguna.
Ástæðu þess að lán að jafnvirði u.þ.b. 77,5 ma.kr. var veitt úr Seðlabanka Íslands þvert á allar lánareglur.
    Að mati fjárlaganefndar skiptir máli að staðreyna sem best fyrirliggjandi upplýsingar og að henni verði afhent útskrift af þeim hluta samtalsins sem varðar lánveitinguna. Fjárlaganefnd tók málið fyrir á fundum sínum 21. september 2012 þar sem fram kom skýr vilji meiri hluta nefndarmanna að kalla eftir útskrift af framangreindum símtölum fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóra sem varða ákvörðun um áður nefnda lánveitingu.
    Fjárlaganefnd mun flytja Alþingi skýrslu um mál þetta 20. febrúar nk.
og sem væntanlega verður tekin til umræðu í þinginu í kjölfarið. Fjárlaganefnd gerir ráð fyrir að Seðlabankinn hafi veitt umbeðnar upplýsingar fyrir þann tíma.

Ráðstöfun lánsins.
    Með framangreindri lánveitingu var stærsta hluta gjaldeyrisvaraforða Íslands á þeim tíma ráðstafað til Kaupþings hf. sem var síðan yfirtekið af Fjármálaeftirlitinu 9. október 2008. Á bls. 160 í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, aðspurður við skýrslutöku um hvernig þeim fjármunum hefði verið ráðstafað, „[...] stærsta einstaka greiðslan sem fer út úr bankanum er rúmlega, u.þ.b. 200 milljónir evra til sænska seðlabankans, það er stærsta einstaka, held ég, greiðslan sem fer út úr Kaupþingi þessa síðustu viku til tíu daga, annars erum við að leggja inn, „ supporta“ okkur í Lúxemborg vegna innlánsáhlaups sem er þar. Það er áhlaup í Finnlandi, það er áhlaup í Noregi, það er það sem er að gerast, það eru repo-viðskiptin okkar [...].“ Auk framangreinds láns frá 6. október 2008 lánaði Seðlabankinn Kaupþingi 73 milljónir evra 2. sama mánaðar vegna fyrirhugaðrar aðkomu Kaupþings að Sparisjóði Mýrasýslu, sem átt hafði í nokkrum fjárhagserfiðleikum, og 200 milljónir norskra króna með svokölluðum spot-samningi 8. sama mánaðar.

Sala danska FIH-bankans, endurgreiðsla lánsins.
    Seðlabanki Íslands átti veð í 99,89% hlut í danska bankanum FIH Erhvervsbank A/S (FIH) til tryggingar þrautavaraláni sem Kaupþing fékk hjá Seðlabanka Íslands í október 2008 að fjárhæð 500 milljónir evra. 18. september 2010 náðist samkomulag við hóp fjárfesta sem samanstendur af dönsku lífeyrissjóðunum ATP og PFA, sænska tryggingafyrirtækinu Folksam og fyrirtækinu CPDyvig um að fjárfestahópurinn keypti 99,89% hlut í FIH.
    Söluverðið nam samtals 5 milljörðum danskra króna (sem nemur 103 milljörðum íslenskra króna eða 670 milljónum evra á söludegi) og samanstendur af staðgreiðslu að fjárhæð 1,9 milljarðar danskra króna (sem nemur um 39 milljörðum íslenskra króna eða um 255 milljónum evra), auk fjárhæðar sem nemur allt að 3,1 milljarði danskra króna (sem nemur um 64 milljörðum íslenskra króna eða um 415 milljónum evra) sem verður leiðrétt með tilliti til þess taps sem FIH verður fyrir vegna eigna á efnahagsreikningnum þann 30. júní 2010 þar til 31. desember 2014 auk þess sem mögulegur hagnaður FIH af Axcel III sjóði kemur til hækkunar. Enn fremur verður til greiðslu fjárhæð sem tengd verður afkomu fjárfestahópsins af þessari fjárfestingu til 31. desember 2015.
    Seðlabankastjóri taldi að þessi niðurstaða væri ágæt miðað við aðstæður. Seðlabankinn fékk strax talsverða fjárhæð í erlendum gjaldeyri þegar frágangi viðskiptanna var lokið auk möguleika á að endurheimta veð sitt að fullu þegar fram líða stundir. Viðskipti þessi voru háð samþykki viðeigandi eftirlitsstofnana. Fjárlaganefnd óskaði nánari upplýsinga um stöðu innheimtunnar með tölvupósti, dags. 14. febrúar 2013. Í honum sagði:
    „Eins og fram kemur í bréfi formanns fjárlaganefndar frá 28. janúar sl. mun hann leggja fyrir Alþingi skýrslu 20. febrúar nk. um þrautavaralán til Kaupþings hf. Óskað er eftir upplýsingum um eftirfarandi atriði sem formaðurinn hyggst birta í skýrslunni, auk þeirra upplýsinga sem óskað er eftir í fyrrgreindu bréfi:
     1.      Hvað hefur verið greitt mikið af eftirstöðvum söluverðs FIH-bankans, 64 ma.kr.?
     2.      Hve háar fjárhæðir er líklegt að innheimtist af þessum hluta söluandvirðisins?
     3.      Hve hátt tap hefur verið bókfært vegna sölunnar?
     4.      Hversu hátt tap er gert ráð fyrir að verði alls gjaldfært vegna sölunnar?
     5.      Hver er staðan af mögulegum hagnaði af Axcel sjóði?
     6.      Hver er staða greiðslu sem tengd verður afkomu fjárfestahópsins af þessari fjárfestingu til 31. desember 2015?“

Niðurlag.
    Fyrir liggur að 6. október 2008 lánaði Seðlabanki Íslands Kaupþingi hf. 500 milljónir evra til fjögurra daga og við þá lánveitingu hafi lánareglur Seðlabankans verið brotnar. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá Seðlabankanum hefur um helmingur lánsins verið endurgreiddur og óvíst hverjar endanlegar heimtur verða. Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans mun þáverandi seðlabankastjóri hafa haft samráð við þáverandi forsætisráðherra um lánveitinguna í símtali þeirra á milli sama dag og lánið var veitt. Það liggur og fyrir að upptaka af símtalinu er til í Seðlabankanum. Ætla má að seðlabankastjóri og forsætisráðherra hafi báðir verið vel meðvitaðir um stöðu Kaupþings hf. 6. október 2008 og að gríðarleg áhætta væri því fylgjandi ákvörðun um að lána bankanum slíka upphæð án fullnægjandi trygginga. Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir um aðdraganda hrunsins og falls íslenska fjármálakerfisins má draga þá ályktun að þörfina fyrir þrautavaralánið til Kaupþings hf. hafi ekki borið eins skyndilega að og upphaflega var talið. Því hafi aðdragandinn og þar með tækifæri Seðlabankans til að undirbúa lánveitinguna með nauðsynlegri skjalagerð verið rýmri en áður var talið.
    Fjárlaganefnd hefur óskað eftir útskrift af fyrrgreindu símtali í þeim tilgangi að varpa ljósi á ástæður þess að ákveðið var að lána svo háa upphæð til Kaupþings hf. án fullnægjandi trygginga. Seðlabankinn hefur ítrekað neitað fjárlaganefnd um þær upplýsingar eins og rakið hefur verið hér að framan.
    Mikilvægt er að Alþingi verði upplýst um hvort með lánveitingunni hafi verið tekin meiri áhætta með fjármuni ríkisins en forsendur voru fyrir á þeim tíma. Það er sömuleiðis mikilvægt að Alþingi fái fullnægjandi upplýsingar um ástæður lánveitingarinnar og forsendurnar að baki henni. Seðlabanki Íslands hefur ítrekað neitað að veita fjárlaganefnd upplýsingar sem máli geta skipt um lánveitinguna, ástæður hennar og framkvæmd. Ekki verður séð að Seðlabanki Íslands geti skaðast af því að veita umbeðnar upplýsingar, þvert á móti má ætla að trúverðugleiki bankans geti verið í húfi með því að leyna þeim fyrir þinginu. Það er því ekki aðeins sjálfsögð og eðlileg krafa að Seðlabankinn upplýsi þingið án tafar um alla þætti þessa máls heldur skylda hans að gera það.
    Að mati meiri hluta fjárlaganefndar á ekki að vera ástæða til óþarfa vangaveltna um mál af þessu tagi. Auðveldlega má koma í veg fyrir slíkt með því að Seðlabankinn upplýsi þingið um málið eins og óskað hefur verið eftir. Það hefur enn ekki verið gert.
    Meiri hluta fjárlaganefndar er því ekki unnt að upplýsa nánar um aðdraganda og ástæðu þess að stórum hluta gjaldeyrisvaraforða landsins var ráðstafað með þeim hætti sem greint hefur verið frá hér að framan.
    Þó svo að eftirliti Alþingis með framkvæmdarvaldinu sé beint að hlutaðeigandi ráðherra, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar og 49. gr. þingskapa, eru sjálfstæðar ríkisstofnanir, líkt og Seðlabanki Íslands, ekki undanþegnar þingeftirliti. Er slíkum stofnunum því skylt að afhenda nefndum þingsins gögn í þágu athugana sinna á einstökum málum, sbr. 51. gr. þingskapalaga. Í þessu ljósi telur meiri hluti fjárlaganefndar rétt að vekja athygli Alþingis á málinu, en yfir stendur vinna á vegum þingskapanefndar við endurskoðun laga um þingsköp Alþingis.
    Meiri hluti fjárlaganefndar felur Alþingi nú að taka ákvörðun um framhald þess máls og að Seðlabanki Íslands verði krafinn um fullnægjandi upplýsingar um 500 milljóna evra (nærri 77,5 ma.kr.) lánveitingu til Kaupþings hf. 6. október 2008.

Alþingi, 20. febrúar 2013.Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Valgerður Bjarnadóttir.Lúðvík Geirsson.


Höskuldur Þórhallsson.