Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 671. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1210  —  671. mál.




Fyrirspurn



til utanríkisráðherra um úrgangs- og spilliefni frá bandaríska
varnarliðinu á Heiðarfjalli á Langanesi.

Frá Árna Þór Sigurðssyni.


     1.      Telur ráðherra að Bandaríkin hafi uppfyllt ákvæði varnarsamnings síns við Ísland frá 8. maí 1951, þ.m.t. 2. málsl. 8. gr. viðbætis í viðauka við hann, um að þau skuli „eftir því sem við verður komið flytja burtu úrgangsefni, eyða þeim eða á annan hátt ganga frá þeim“ við lok samnings á Heiðarfjalli á Langanesi?
     2.      Telur ráðherra rétt að láta meta á ný meint óafturkræf áhrif á vistkerfi H-2 svæðisins á Heiðarfjalli eða mengun af völdum efna sem geta skaðað heilsu manna og lífvera, fara í nýjar rannsóknir, mengunarmælingar og mat á mengunarhættu – m.a. ofan við vatnsból á svæðinu – í ljósi þess að ráðuneytið lét hreinsa svæðið sumarið 1974, auk þess að láta safna saman lauslegu járni og spýtum árið 1975, og að aðstæður á Heiðarfjalli voru síðast skoðaðar af hálfu ráðuneytisins fyrir 24 árum, árið 1989?
     3.      Telur ráðherra rétt að láta meta hvaða óþægindi og hætta stafa mögulega af efnunum, afla þeirra upplýsinga sem kunna að skipta máli fyrir framvindu og úrlausn málsins og gera grein fyrir hvaða leiðir séu færar svo ljúka megi málinu með viðunandi hætti?
     4.      Telur ráðherra að rétt sé að grípa til ráðstafana svo koma megi í veg fyrir óafturkræf áhrif á vistkerfi eða mengun af völdum efna sem geti skaðað heilsu manna og lífvera, svo sem með því að fjarlægja úrgangsefnin?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Athygli hefur verið vakin á mögulegri mengun og hættu af völdum úrgangs- og spilliefna frá bandaríska varnarliðinu í ratsjárstöðinni á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli við Langanes. Landeigendur hafa árum saman reynt að fá bandarísk hernaðaryfirvöld til að fjarlægja úrgangsefnin af eign sinni en án árangurs.