Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 672. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1211  —  672. mál.




Fyrirspurn



til utanríkisráðherra um skaðabótaábyrgð í tengslum við úrgangs- og spilliefni
frá bandaríska varnarliðinu á Heiðarfjalli í Langanesbyggð.

Frá Árna Þór Sigurðssyni.


     1.      Telur ráðherra að landeigendur á Heiðarfjalli á Langanesi geti átt rétt á skaðabótum vegna úrgangs- og spilliefna frá bandaríska varnarliðinu í ljósi meginreglna umhverfisréttar er varða réttarstöðu almennings, upplýsingaskyldu stjórnvalda og fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og þær kvaðir birtast í íslenskri löggjöf, sem og í ljósi ákvæða alþjóða- og milliríkjasamninga, svo sem 73. gr. EES-samningsins, 15. meginreglu Ríó-samningsins, 7. meginreglu Stokkhólms-yfirlýsingarinnar og 4. tölul. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB?
     2.      Telur ráðherra að íslensk stjórnvöld geti komið til móts við landeigendur vegna hugsanlegra krafna, þ.m.t. vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar varnarliðsins utan samninga, með vísan til ákvæða skilasamningsins frá árinu 1971?
     3.      Hvert er pólitískt viðhorf ráðherrans til þeirrar staðreyndar að íslensk stjórnvöld hafi, fyrir hönd allra íslenskra borgara, fallið frá kröfum á hendur bandarískum stjórnvöldum vegna afnota af umræddu landsvæði?
     4.      Telur ráðherra eðlilegt að staðlað ákvæði af þessu tagi í skilasamningi, sem byggist á bótaákvæði í viðauka varnarsamnings Íslands við Bandaríkin, eigi að leiða til þeirrar pattstöðu sem málið hefur verið í liðin ár?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Athygli hefur verið vakin á meintum mannréttindabrotum vegna úrgangs- og spilliefna frá bandaríska varnarliðinu í ratsjárstöðinni á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli við Langanes. Landeigendur hafa árum saman reynt að fá bandarísk hernaðaryfirvöld til að fjarlægja úrgangsefnin af eign sinni en án árangurs.