Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 673. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1212  —  673. mál.




Fyrirspurn



til umhverfisráðherra um úrgangs- og spilliefni á Heiðarfjalli á Langanesi.

Frá Árna Þór Sigurðssyni.


     1.      Hvert er mat ráðherra á umfangi úrgangs- og spilliefna á Heiðarfjalli á Langanesi, þ.m.t. í vatnsbólum, og telur ráðherrann óþægindi eða hættu stafa af efnunum?
     2.      Telur ráðherra rétt að láta meta á ný meint óafturkræf áhrif á vistkerfi svæðisins eða mengun af völdum efna sem geta skaðað heilsu manna og lífvera, gera nýjar rannsóknir, mengunarmælingar og mat á mengunarhættu – m.a. ofan við vatnsból – í ljósi þess að afmarkaðar athuganir á mengunarhættu voru framkvæmdar á svæðinu árin 1991, 1993 og síðast fyrir 19 árum, árið 1994?
     3.      Telur ráðherra tilefni til vöktunar umhverfisins á svæðinu, t.d. kerfisbundinnar vöktunar á efnainnihaldi grunnvatns innan áhrifasvæðis úrgangsefnanna, sbr. viðmið og meginreglur umhverfisréttarins?
     4.      Telur ráðherra að landeigendur á umræddu svæði geti átt rétt á skaðabótum í ljósi meginreglna umhverfisréttar er varða réttarstöðu almennings, upplýsingaskyldu stjórnvalda og fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og þær kvaðir birtast í íslenskri löggjöf, sem og í ljósi ákvæða alþjóða- og milliríkjasamninga, svo sem 73. gr. EES-samningsins, 15. meginreglu Ríó-samningsins, 7. meginreglu Stokkhólms-yfirlýsingarinnar og 4. tölul. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB?
     5.      Telur ráðherra ástæðu til að láta meta:
                  a.      hvort meint umhverfistjón á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli á Langanesi (sbr. einnig efni fyrirspurna á þskj. 1210 og 1211 á 141. löggjafarþingi) falli undir skilgreiningar 3. gr. laga um umhverfisábyrgð og ef ekki, hvort endurskoða þurfi skilgreiningarnar,
                  b.      hvort rétt hafi verið að láta undantekningu gilda þannig að ákvæði laga um umhverfisábyrgð nái ekki til starfsemi sem veldur umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á tjóni þegar megintilgangur starfseminnar er landvarnir eða alþjóðlegt öryggi og ef ekki, hvort endurskoða þurfi undantekningarákvæði laganna, og
                  c.      hvort ástæða sé til að endurskoða orðalag 3. mgr. 31. gr. laga um umhverfisábyrgð, sem innleiðir í íslenskan rétt greiðslureglu umhverfisréttarins um að fyrningarfrestur bótakrafna vegna mengunartjóns, sem fellur undir lögin, getur aldrei orðið lengri en 30 ár frá því að atburður sem orsakaði tjónið eða hættuna á tjóni varð, í því ljósi að Heiðarfjallssvæðinu var skilað fyrir 42 árum síðan?
     6.      Hvernig telur ráðherra að megi koma til móts við ætluð réttarbrot gagnvart landeigendum á umræddu svæði, svo sem vegna óafturkræfra áhrifa á vistkerfi eða mengun af völdum efna sem geta skaðað heilsu manna og lífvera, svo ljúka megi málinu með viðunandi hætti?


Skriflegt svar óskast.