Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1217  —  283. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um velferð dýra.

Frá atvinnuveganefnd.


     1.      Inngangsmálsliður 3. gr. orðist svo: Í lögum þessum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra er merking orða sem hér segir.
     2.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilkynnandi skv. 1. mgr. getur óskað eftir því að nafni hans verði haldið leyndu gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða lögreglu. Ef líklegt má telja að hagsmunir viðkomandi skaðist ef greint er frá nafni hans skal fallast á ósk um nafnleynd. Ef ekki eru forsendur til þess að fallast á nafnleynd er tilkynnanda heimilt að draga tilkynningu sína til baka.
     3.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

             Tilkynningarskylda þeirra sem hafa afskipti af dýrum.

                 Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum dýra og verður var við aðstæður eins og lýst er í 1. mgr. 8. gr. er skylt að tilkynna það Matvælastofnun.
                 Sérstaklega er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að fylgjast með meðferð dýra, aðbúnaði dýra, aðgerðum og meðhöndlun dýra, dýrahaldi, aðferðum við dýrahald og útbúnaði dýra eftir því sem við verður komið og gera Matvælastofnun viðvart ef ætla má að aðstæður dýrs séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 8. gr.
                 Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
     4.      Við 9. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um þær kröfur sem gera skal um getu og hæfni umráðamanna dýra, svo sem um menntun.
     5.      11. gr., ásamt fyrirsögn, orðist svo:

             Úttekt.

                 Umfangsmikið og tæknivætt dýrahald eða starfsemi er skylt að tilkynna til Matvælastofnunar áður en starfsemi hefst. Óheimilt er að hefja slíka starfsemi áður en skilyrði sem sett eru um húsakost, búnað og þekkingu, sbr. 10. gr. og 29.–32. gr., eru uppfyllt og þau tekin út af Matvælastofnun.
                 Ráðherra skal með reglugerð ákvarða í hvaða tilvikum fisk-, alifugla-, svína- og loðdýraeldi og hvaða tæknivædda dýrahald eða starfsemi skal vera tilkynningaskylt og falla undir grein þessa.
     6.      12. gr. orðist svo:
                 Öll starfsemi sem lög þessi ná til skal háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Að jafnaði skulu eftirlitsheimsóknir eiga sér stað eigi sjaldnar en annað hvert ár. Umfang og tíðni eftirlits skal að öðru leyti byggt á áhættuflokkun.
                 Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um eftirlit og framkvæmd þess.
     7.      C-liður 13. gr. orðist svo: tryggja grasbítum beit á grónu landi á sumrin.
     8.      Við 15. gr.
                  a.      Orðin „og geldingar grísa“ í fyrri málslið 3. mgr. falli brott.
                  b.      Síðari málsliður 3. mgr. falli brott.
                  c.      Orðin „og gelding grísa yngri en vikugamalla samfara verkjastillandi lyfjagjöf“ í d-lið 4. mgr. falli brott.
     9.      Við 17. gr.
                  a.      Í stað fyrri málsliðar 1. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Við flutning á dýrum ber að tryggja velferð dýra eins og fært er. Gæta skal þess við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið.
                  b.      Í stað orðanna „umönnun og gæslu“ í síðari málslið 2. mgr. komi: umönnun, aðbúnað og gæslu.
                  c.      2. og 3. málsl. 3. mgr. orðist svo: Þá skal ráðherra setja fyrirmæli er tryggja velferð búfjár í tengslum við flutninga. Einnig skal ráðherra setja nánari ákvæði um flutning búfjár frá brottfararstað til áfangastaðar, þ.m.t. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé, þ.m.t. um hleðslubúnað þeirra.
     10.      Í stað 3. málsl. 2. mgr. 20. gr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka sem er hluti af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum og hlotið hefur samþykki heilbrigðisnefndar sveitarstjórnar á viðkomandi veiðisvæði. Samþykkið skal grundvallað á almennum leiðbeiningum um gildruveiði minka sem Umhverfisstofnun gefur út.
     11.      Við fyrri málslið 4. mgr. 21. gr. bætist: og undanþágur frá merkingarskyldu.
     12.      4. mgr. 23. gr. orðist svo:
                 Við handsömun dýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim limlestingum, kvölum eða óþarfa ótta. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um hvaða aðferðir eru heimilar við handsömun dýra.
     13.      Í stað orðsins „heimilt“ í fyrri málslið 24. gr. komi: skylt.
     14.      Við 25. gr.
                  a.      Í stað orðsins „Matvælastofnun“ í 2. og 3. málsl. 1. mgr. komi: Umhverfisstofnun.
                  b.      Á eftir orðunum „Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: og Matvælastofnunar.
     15.      2. mgr. 30. gr. orðist svo:
                 Ráðherra skal setja reglugerð um kröfur um aðbúnað villtra dýra í dýragörðum. Í henni skal m.a. kveðið sérstaklega á um aðbúnað þeirra einstöku tegunda villtra dýra sem algengt er að haldin séu í dýragörðum hér á landi.
     16.      Í stað orðanna „útgáfu leyfa“ í 1. mgr. 32. gr. komi: vinnu við úrvinnslu tilkynninga.
     17.      Við 33. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „fara“ í 1. málsl. 1. mgr. 33. gr. komi: í eftirlitsheimsóknir.
                  b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fylgja skal ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.
                  c.      Í stað orðanna „eða umsjónarmanns“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: eða umráðamanns samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar.
                  d.      Á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Matvælastofnun er heimilt að framkvæma rannsókn skv. 1. og 2. mgr. með aðstoð lögreglu.
     18.      34. gr. ásamt fyrirsögn orðist svo:

             Stöðvun starfsemi.

                 Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða stöðva starfsemi þegar um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Við stöðvun starfsemi er heimilt að leita aðstoðar lögreglu.
     19.      Á eftir 34. gr. komi sex nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
             a.     (36. gr.)

                  Dagsektir og úrbætur á kostnað umráðamanns.

                      Matvælastofnun er heimilt að beita dagsektum gagnvart umráðamanni. Kveða skal á um hámark dagsekta í reglugerð sem ráðherra setur. Dagsektir, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu, renna í ríkissjóð og má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.
                      Matvælastofnun er heimilt að gera kröfur um úrbætur. Láti umráðamaður dýra ekki skipast við tilmæli Matvælastofnunar getur stofnunin látið vinna úrbætur á hans kostnað.
             b.     (37. gr.)

                  Vörslusvipting dýra og haldlagning.

                      Matvælastofnun er heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests, og sér Matvælastofnun um framkvæmd vörslusviptingar en er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Við vörslusviptingu skal Matvælastofnun ákveða hvort dýrin skuli flutt burt eða þeim haldið þar sem þau eru. Matvælastofnun er heimilt að láta aflífa dýr sem stofnunin hefur umráð yfir vegna vörslusviptingar að liðnum tveimur sólarhringum takist hvorki stofnuninni né eiganda að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýr. Matvælastofnun telst vera umráðamaður dýra á meðan vörslusvipting stendur yfir og er skylt að annast um þau og sjá um brottflutning á dýrum sem tekin hafa verið úr vörslu umráðamanns, auk þess sem hún ber ábyrgð á fóðrun, umhirðu og aðbúnaði dýranna, allt á kostnað umráðamanns. Matvælastofnun tekur ákvörðun um hvort aflétta skuli vörslusviptingu dýra eða ráðstafa þeim með öðrum hætti að virtum andmælarétti aðila máls þar sem honum skal gefinn kostur á að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu á kostnaði við geymslu, fóður og umhirðu fyrir dýrin uns dómur fellur, sbr. 40. gr. Matvælastofnun skal ráðstafa dýrunum og getur látið bjóða dýr upp, selt þau til lífs eða slátrunar eða látið aflífa þau sé ekki unnt að ráðstafa þeim á annan hátt.
                      Matvælastofnun er heimilt að leggja hald á tæki og tól sem standast ekki kröfur 32. gr. til að koma í veg fyrir slæma meðferð á dýrum.
                      Sláturleyfishöfum er skylt að taka slík dýr án tafar til slátrunar óski Matvælastofnun þess.
             c.     (38. gr.)

                  Úrbætur þola ekki bið.

                      Telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið getur stofnunin tekið dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Framangreindar aðgerðir skulu gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Matvælastofnun er ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið.
                      Aflífun samkvæmt grein þessari skal framkvæmd af Matvælastofnun en henni er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Sláturleyfishöfum er skylt að taka slík dýr án tafar til slátrunar óski Matvælastofnun þess.
             d.     (39. gr.)

                  Tímabundið bann við dýrahaldi.

                      Telji Matvælastofnun það nauðsynlegt, til að stöðva eða koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum, getur hún fyrirvaralaust og til bráðabirgða svipt umráðamann heimild til þess að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 44. gr.
             e.     (40. gr.)

                  Kostnaður af þvingunaraðgerðum.

                      Heimilt er að krefja umráðamann dýra og aðila sem er ábyrgur fyrir starfsemi sem lögin ná til um endurgreiðslu kostnaðar vegna 37.–39. og 44. gr. Kröfum um kostnaðarendurgreiðslu fylgir lögveð Matvælastofnunar og lögreglustjóra í dýrum. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta. Þá er Matvælastofnun og lögreglu heimilt að innheimta kostnað vegna þvingunaraðgerða með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar. Ekki er skylt að greiða bætur til eiganda dýrs vegna aflífunar á dýrinu eða annarrar ráðstöfunar á því í samræmi við lögin.
             f.     (41. gr.)

                  Ágreiningsefni um aðgerðir.

                      Nú vill umráðamaður dýrs ekki hlíta því að dýr sé tekið úr vörslu hans eða að hann sé til bráðabirgða sviptur heimild til að hafa eða sjá um dýr og getur hann þá borið ágreiningsefnið undir dómstóla, hvort sem er sérstaklega eða í sakamáli sem höfðað kann að vera á hendur honum. Slíkt frestar þó ekki aðgerðum eða framkvæmd slíkra ákvarðana skv. 37. gr. og 39. gr.
     20.      35. gr. orðist svo:
                 Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á mann eða lögaðila sem brýtur gegn eftirfarandi ákvæðum og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra:
                  a.      banni skv. 6. gr.,
                  b.      skyldu skv. 14. gr.,
                  c.      banni skv. 15. gr.,
                  d.      banni skv. 16. gr.,
                  e.      skyldu skv. 17. gr.,
                  f.      banni skv. 18. gr.,
                  g.      banni skv. 19. gr.,
                  h.      banni skv. 20. gr.,
                  i.      skyldu og banni skv. 21. gr.,
                  j.      banni skv. 23. gr.,
                  k.      banni skv. 26. gr.,
                  l.      banni skv. 27. gr.,
                  m.      banni skv. 28. gr.,
                  n.      skyldu skv. 29. gr.,
                  o.      skyldu skv. 30. gr.,
                  p.      skilyrði skv. 31. gr.,
                  q.      skyldu skv. 32. gr.
                 Stjórnvaldssektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfaldur sá hagnaður sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum, þó aldrei hærri en 5 millj. kr. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Matvælastofnunar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
                 Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
                 Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Réttur þessi tekur þó ekki til synjunar um afhendingu dýra. Matvælastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
                 Heimild Matvælastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
                 Nú vill aðili ekki una ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfða innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Matvælastofnunar. Málshöfðun frestar hvorki réttaráhrifum ákvörðunar Matvælastofnunar né heimild til aðfarar.
                 Frestur skv. 5. mgr. rofnar þegar Matvælastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
                 Ekki skal beita öðrum refsiviðurlögum þegar stjórnvaldssekt er beitt.
     21.      Orðin „11. eða“ í 1. mgr. 36. gr. falli brott.
     22.      Í stað orðanna „opinberu máli“ í 4. málsl. 37. gr. komi: sakamáli.
     23.      38. gr. orðist svo:
                 Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári ef:
                  a.      hann vanrækir tilkynningarskyldu skv. 8. gr.,
                  b.      hann vanrækir umönnunarskyldur skv. 14. gr.,
                  c.      hann brýtur gegn bannákvæðum skv. 15. gr.,
                  d.      hann þjálfar dýr án þess að þau hafi til þess líkamlegt heilbrigði eða notar dýr í keppni og sýningar eða á annan hátt án þess að þau hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
                  e.      hann meðhöndlar dýr sem eru notuð í keppni og sýningar eða á annan hátt með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu andstætt velferð þeirra,
                  f.      hann beitir dýr sem eru notuð í keppni og sýningar eða á annan hátt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta,
                  g.      hann vanrækir skyldur til að tryggja dýrum aðbúnað skv. 29. gr. eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli hennar,
                  h.      hann brýtur ákvæði 16., 18.–28., 31. og 32. gr. eða gegn stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra.
                 Nú er brot skv. 1. mgr. stórfellt eða ítrekað og skal maður þá sæta fangelsi allt að tveimur árum nema brot teljist meiri háttar svo að það varði refsingu skv. 174. gr. almennra hegningarlaga.
                 Brot skv. 1. og 2. mgr. varða mann refsiábyrgð ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
                 Gera má lögaðila sekt vegna brots skv. 1. eða 2. mgr. óháð sök fyrirsvarsmanns lögaðilans, starfsmanns hans eða annars á hans vegum í starfsemi lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin sömu skilyrðum, enda hafi verið framið brot skv. 1. eða 2. mgr. í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.
                 Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. eru manni refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
                 Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar.
                 Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Matvælastofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Matvælastofnun á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
                 Með kæru Matvælastofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Matvælastofnunar um að kæra mál til lögreglu.
                 Matvælastofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr.
                 Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Matvælastofnun í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Matvælastofnunar sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
                 Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.
     24.      Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2013“ í 1. málsl. 40. gr. komi: 1. janúar 2014.
     25.      Viðauki falli brott.