Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1248  —  429. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um náttúruvernd.

Frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.



    Á fundum fyrir nefndinni og í umsögnum sem henni bárust komu fram miklar athugasemdir við frumvarpið. Helstu ágreiningsefni snerust að ákvæðum um almannarétt og akstur utan vega. Einnig snerist gagnrýni á frumvarpið um ákvæði um framandi tegundir, um heimild til að tjalda, náttúruumdæmi, náttúruverndarnefndir og náttúrustofur. Þá var nokkuð gagnrýnt að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga við undirbúning frumvarpsins. 1. minni hluti leggur ríka áherslu á náttúruvernd og tekur undir markmiðsgreinar laganna og mikilvægi náttúruverndarlaga til að ná þessum markmiðum. 1. minni hluti ítrekar mikilvægi þess að sem flestir komi að breytingum á náttúruverndarlögum, þau séu skýr og taki til ólíkra sjónarmiða.
    Fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins bendir á í umsögn sinni að kostnaður við frumvarpið geti orðið yfir 100 millj. kr. á ári verði það samþykkt óbreytt. 1. minni hluti bendir á að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu geri Náttúrufræðistofnun Íslands til dæmis ráð fyrir því að þurfa meiri fjármuni heldur en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Í ljósi mikilla athugasemda við fyrirliggjandi frumvarp leggur 1. minni hluti til að það verði ekki samþykkt á yfirstandandi þingi, að ríkisstjórn vinni málið betur og taki mið af þeim fjölmörgu athugasemdum sem borist hafa.

Óskýrar orðaskilgreiningar.
    Ýmsar orðaskilgreiningar í frumvarpinu eru óljósar, villandi og/eða rangar, úr því þarf að bæta. Bent er á að óskýr lagasetning skilar ekki tilsettum árangri, leiðir til ágreinings og færir dómstólum aukin völd.
     Ræktað land: Í frumvarpinu fól skilgreining á „ræktuðu landi“ það í sér að eldri tún voru í raun óræktað land og stór hluti af túnum bænda var í raun ekki skilgreindur sem ræktað land. Meiri hluti nefndarinnar hefur gert tilraun til þess að skilgreina orðið ræktað land en þessi skilgreining er á engan hátt fullnægjandi. Vissulega eru til landsvæði, tún, engjar, mýrar og önnur svæði sem ekki hafa verið „ræktuð“ (samkvæmt skilgreiningu í breytingartillögu er ræktað land það land sem aldrei hefur verið sléttað, þurrkað, fengið áburðargjöf, jarðvinnslu eða sáningu). Þetta land getur verið land sem er nýtt til beitar fyrir búfénað, t.d. hross og nautgripi, og ætti því að flokkast sem „ræktað land“ eða land í notkun. Frumvarpið heimilar til dæmis tjöldun almennings til skamms tíma á slíkum landsvæðum enda væri þetta svæði flokkað sem „óræktað land“. Skynsamlegra væri að tala um nytjaland og land sem ekki er nytjað.
     Steind: Í frumvarpinu og í gildandi náttúruverndarlögum er orðið skilgreint sem fast efni með ákveðna samsetningu, oftast kristallað, sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og ekki hefur orðið til af mannavöldum. Þessi skilgreining er röng og því eðlilegt að hugað sé að breytingum. Steind er steind hvernig sem hún hefur orðið til og því óeðlilegt að setja inn skilgreiningu í lagatexta um annað. Til eru iðnaðardemantar, gler og ýmsir kristallar og margt fleira sem vissulega telst sem steindir þótt hafi verið gerðar af völdum manna. Ef slíkt eru ekki steindir, hvað er það þá? Borðsalt getur verið náttúrulegt og gert af mannavöldum, hvort er það steind eða ekki?
     Steingervingar: Samkvæmt skilgreiningu á orðinu, bæði í frumvarpinu og gildandi lögum, þá eru þetta leifar eða steingerðar leifar lífveru eða för eftir hana sem finnast í jarðlögum. Bent er á að samkvæmt skilgreiningunni er skeljasandur steingervingar. Síðar í frumvarpinu (62. gr.) og í gildandi náttúruverndarlögum (40. gr.) er lagt bann við að fjarlægja steingervinga úr jarðlögum, hvort sem er á landi eða í sjó, nema slíkt sé gert í þágu jarðfræðirannsókna. 1. minni hluti telur mikilvægt að þessu ákvæði verði breytt og skilgreiningin verði yfirfarin.
     Tegund er í frumvarpinu skilgreind sem „ákveðinn hópur lífvera sem afmarkaður er samkvæmt líffræðilegum viðmiðum“. Orðið tegund á ekki eingöngu við um lífverur. Bæði eru til bergtegundir og margar tegundir steinda. Auk þess eru til steingervingar og leifar lífvera sem skiptast í tegundir þótt þær séu ekki „afmarkaðar samkvæmt líffræðilegum viðmiðum“ heldur einnig eftir því hvar þær finnast, aldri þeirra og útliti (svo sem ýmsar gerðir olía, kola, frumstæðra lífvera frá eldri jarðsögulegum tíma). Slíkum náttúrufyrirbrigðum er skipt niður í tegundir. Í athugasemdum í frumvarpinu er orðið tegund ekki skýrt frekar út. Einnig á þessi athugasemd við fleiri atriði í frumvarpinu, svo sem skilgreiningu á búsvæði.
     Framandi lífverur: Miðað er við lífverur sem fluttar hafa verið til landsins eftir árið 1750. Meiri hlutinn breytir þessu í „miðja átjándu öld“. Bent hefur verið á að hreindýr voru flutt til landsins 1777 og þau sem nú lifa fyrir austan voru flutt til landsins 1787. Það er spurning hvort það sé eðlilegt skilyrði fyrir framandi tegund að hún hafi flust til landsins af völdum manna. Fugl sem flýgur til landsins eftir 1750 er samkvæmt ákvæðinu ekki framandi tegund en komi fuglinn á skipi er hann framandi tegund.
     Óbyggðir: Hér vantar stærðartakmörk og nánari skýringar. Vatnsmýrin er óbyggt svæði og mannvirki eru þar lítt áberandi. Sama má segja um Elliðaárdal, Heiðmörk, Geldinganes og fleiri svæði sem engum dettur í hug að kalla óbyggðir. Óbyggðir eru í almennum skilningi stór landsvæði fjarri byggðu bóli. Þrátt fyrir breytingartillögu meiri hlutans um að sett sé inn skilgreining á óbyggðum víðernum ( ósnortin víðerni í gildandi náttúruverndarlögum) þá breytir það ekki mikilvægi þess að skilgreina betur orðið óbyggðir.
     Náttúruminjar: Skilgreining á þessu er: náttúrufyrirbæri sem ákveðið hefur verið að vernda með friðlýsingu, friðun eða með öðrum hætti eða sem tekin hefur verið afstaða til að rétt sé að vernda.
     a.      Í fyrsta lagi fellur skilgreiningin ekki að almennum skilningi á orðinu í íslensku máli, en orðið er notað yfir ýmis almenn náttúruleg fyrirbrigði hvort sem þau eru vernduð eða ekki.
     b.      Í orðinu náttúruminjasafn er allt annar skilningur lagður í orðið náttúruminjar og þá átt við gripi sem fengnir eru úr eða sem tengjast náttúrunni á einn eða annan hátt. Ekki getur talist eðlilegt að sama orð hafi mismunandi merkingar eftir lagabálkum. Væri skilgreiningin lögfest mætti skilja orðið náttúruminjasafn sem stofnun sem hafi það hlutverk að safna og varðveita náttúrufyrirbrigði sem ákveðið hefur verið að vernda með friðlýsingu – nokkuð sem brýtur í bága við tilgang náttúruverndarlaga.
     Þéttbýli er í frumvarpinu skilgreint sem „svæði afmarkað með sérstökum merkjum sem tákna þéttbýli og/eða svæði sem fellur undir skilgreiningu skipulagslaga á hugtakinu“. Varla getur það nægt að setja upp skilti til að afmarka þéttbýli. Skilgreining í skipulagslögum er skýr, eðlilegra er að sú skilgreining verði notuð.
    Það eru nokkur orð í frumvarpinu sem ekki eru skilgreind í 5. gr. og telur 1. minni hluti mikilvægt að þau séu skilgreind.
     Vötn: Það vantar skilgreiningu á orðinu. Í almennu máli geta vötn bæði átt við straumvötn og stöðuvötn. Eru t.d. lindir og volgrur hluti af þessari skilgreiningu?
     Vöktun: Orðið er mikið notað í texta frumvarpsins (74. gr. og víðar) og þarf að vera skýrt hvað það merkir.
     Skipgengt vatn: Óljóst hvað átt er við. Hvernig skip er átt við og hvaða stærð? Er átt við að skip þurfi að geta siglt upp í vatnið eða er nóg að skip geti siglt á vatninu sé það flutt þangað?
     Óræktað land: Það er mikilvægt að skilgreina hvað er óræktað land. 1. minni hluti telur að það sé ekki nóg að segja „land sem ekki er ræktað“. Skynsamlegra væri að nota hugtökin nytjaland og land sem ekki er nytjað í stað orðanna ræktað og óræktað land.

Undanþágur frá banni við akstri utan vega.
    Fyrsti minni hluti er fylgjandi því að í gildi séu skýrar reglur varðandi akstur utan vega og hefur bæði á þessu þingi og síðasta löggjafarþingi lýst vilja sínum í þá veru. Hins vegar er mikilvægt að slíkt sé vel útfært, gangi upp bæði lagalega og í framkvæmd. 1. minni hluti hefur einnig lagt áherslu á að undanþágur vegna atvinnustarfsemi, björgunarstarfa o.fl. séu skýrar.
    Margir umsagnaraðilar hafa gagnrýnt það að í lagatexta komi ekki skýr ákvæði um undanþágur vegna aksturs utan vega. Fjölmargir aðilar þurfa starfs síns vegna að aka utan vega og yfirleitt er um að ræða akstur á léttum fjórhjólum sem ekki skemma land sé þeim ekið af skynsemi. Það er mikilvægt að slíkar undanþágur sé skýrar og að þær séu samdar í samráði við þá aðila sem málið varða. Sú hefur því miður ekki verið raunin og 1. minni hluti telur að gera þurfi breytingar á þessu.
    Samkvæmt tillögum meiri hlutans fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. Æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eru mikilvægur þáttur í starfsemi þeirra og getur reynsluleysi við raunverulegar aðstæður verið dýrkeypt. 1. minni hluti telur mikilvægt að björgunarsveitum sé veitt rýmri heimild til æfinga utan vega.
    Í tillögum meiri hlutans er lagt til að þeir (að bændum undanskildum) sem þurfi að aka utan vega vegna starfa sinna skuli halda sérstaka skrá um þann akstur og að Umhverfisstofnun eigi að hafa aðgang að þessum upplýsingum þegar þess er óskað. 1. minni hluti telur að þetta ákvæði muni engu skipta og bendir á að þeir sem á annað borð skemmi land með utanvegaakstri muni ekki skrá slíkt í sérstakar skrár.

Utanvegaakstur vegna landbúnaðarstarfa.
    Meiri hlutinn leggur til að teknar verði inn undanþágur sem finna má í reglugerð nr. 508/2005 en sú reglugerð fjallar um um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum. Meiri hlutinn hlýtur að eiga við reglugerð nr. 528/2005 en sú reglugerð fjallar um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands. Þegar þessar tillögur eru skoðaðar og settar í samhengi við fyrirliggjandi frumvarp koma fram öfgafull sjónarmið, skilningsleysi á aðstæðum og/eða mistök.
     1.      Í nefndaráliti er það ítrekað að þessi undanþága eigi einungis við um bændur en ekki um „hjálparmenn“ sem þýðir að bændur geta t.d. ekki fengið aðstoð frá fólki við smalamennsku og önnur bústörf.
     2.      Í breytingartillögu meiri hlutans er einnig tekið fram að aksturinn megi einungis vera á ræktuðu landi. Þetta er tekið beint úr reglugerð nr. 528/2005. Þegar þetta er skoðað í samhengi við skýringar á ræktuðu landi sem skilgreint er sem land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum, þá er í raun verið að banna akstur utan vega.
     3.      Í breytingartillögu kemur einnig fram að heimildin nái einungis til landsvæða utan miðhálendisins (einnig úr reglugerð nr. 528/2005). Með því orðalagi sem breytingartillagan felur í sér er í raun verið að undanskilja mjög stóran hluta af fjalllendi og afréttum.
     4.      Í breytingartillögu er tekin fram undanþága hvað varðar akstur innan miðhálendisins. Tekið er fram að við eftirleitir sé mögulegt að sækja fé inn á miðhálendið ef sýnt er að ekki sé hægt að ná gripunum með öðru móti og að farið sé á farartækjum sem einungis séu á sex hjólum. Ekki liggur fyrir hvaða vísindalegu rök búa þarna að baki.
    Meiri hlutinn leggur til að bændum sé heimilaður akstur utan vega vegna landbúnaðarstarfa. Þegar takmarkanir eru skoðaðar og settar í samhengi við lagatextann kemur hins vegar fram að í raun er með öllu verið banna akstur utan vega vegna landbúnaðarstarfa.

Kortagrunnur vegna aksturs utan vega.
    Frumvarpið leggur til að komið verði upp gagnagrunni um vegi og slóða. 1. minni hluti er fylgjandi því að unnið verði að kortlagningu vegslóða en bendir hins vegar á þann kostnað sem því fylgir. Slíkur kortagrunnur mundi vera styrk stoð og hvatning til minni utanvegaaksturs, sem oft og tíðum verður vegna misskilnings eða ónógrar þekkingar. Í fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir því að ólöglegt verði að fara um aðra slóða en þá sem eru í umræddum kortagrunni, slíkt jafngildi utanvegaakstri. Fjölmargir aðilar hafa gert athugasemdir við þessa grundvallarbreytingu. Alvarlegt mál er ef ferðamaður er jafn ólöglegur á vegi/slóða sem ekinn hefur verið áratugum saman og í ósnortinni og gróinni náttúru, af þeirri ástæðu einni að slóðinn er ekki inni á kortagrunni. Hætta er á að slóðar „gleymist“ eða hljóti ekki faglega meðferð, t.d. vegna þekkingarskorts þeirra sem að skráningu kortagrunns vinna og lendi þar með ekki inni á korti.
    Um leið og 1. minni hluti lýsir yfir stuðningi við að komið verði upp sérstökum kortagrunni þá er lýst efasemdum um að þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til verksins séu nægilegar. Því er mikilvægt að ræða almennt um forgangsröðun fjármagns áður en ákvörðun um auknar fjárveitingar er tekin. 1. minni hluti telur að sú hugmyndafræði sé ekki sú eina rétta að kortagrunnurinn verði nýttur í þeim tilgangi sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. að akstur á öllum vegslóðum sem ekki eru tilgreindir í kortagrunni sé refsiverður. 1. minni hluti telur að mögulegt sé að ná víðtækri sátt um þetta mál en til þess þarf að kalla alla aðila að borðinu og vinna að málinu með samráði og 1. minni hluti lýsir sig fullkomlega tilbúinn til að taka þátt í slíkri vinnu.

Fræðsla og kynning á náttúrunni.
    Öflugt náttúruminjasafn er ein meginforsenda fyrir því að fræðsla um náttúruna verði aðgengileg almenningi. Í öllum vestrænum löndum og víðar skipta slík söfn miklu máli í náttúruvernd og fræðslu um náttúruna. Ríkisstjórnin hefur eins og kunnugt er ákveðið að veita hundruð milljóna króna til uppbyggingar á náttúruminjasýningu í Perlunni en þegar ný lög um náttúruvernd eru skrifuð vekur sérstaka athygli að Náttúruminjasafni Íslands er ekki ætlað neitt hlutverk og er stofnunin hvergi nefnd í frumvarpinu. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir því að fræðsluhlutverk um náttúruna (13. gr.) sé bæði á vegum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Náttúruminjasafn Íslands er samkvæmt lögum sett á stofn sérstaklega til að sinna fræðsluhlutverki og óþarft að svo margar ríkisstofnanir sinni sama hlutverki. Eðlilegt er að fræðsluhlutverk verði á hendi Náttúruminjasafns og hafi sú stofnun samvinnu við hinar stofnanirnar enda verða fjármunir best nýttir á þann hátt.

Brot á stjórnarskrá.
    Nokkrir umsagnaraðilar telja að lögin feli í sér stórfellda skerðingu á eignarráðum yfir landi og að hún fari í bága við stjórnarskrána þar sem mælt er fyrir um friðhelgi eignarréttar. 1. minni hluti hefur efasemdir um að þessi sjónarmið standist en tekur þó ekki afstöðu til þeirra sjónarmiða að svo komnu máli, en telur mikilvægt, og lagði til við vinnslu málsins, að þetta yrði skoðað í samráði við sérfræðinga í eignarrétti áður en frumvarpið yrði að lögum.

Náttúrustofur skrifaðar út úr frumvarpinu.
    Fyrsti minni hluti tekur undir gagnrýni Samtaka náttúrustofa á frumvarpið en samtökin telja að frumvarpið gangi gegn anda laga nr. 60/1992 með því að gera ekki ráð fyrir meiri aðkomu náttúrustofa að stjórn náttúruverndarmála og vöktun.
    Fyrsti minni hluti telur að náttúrustofur gegni mikilvægu hlutverki í náttúruvernd og auki tengsl náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda. Mikilvægur hluti af náttúruvernd er að koma samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun í formlegra ferli og að verkefnum þessara ríkisstofnana verði beint til náttúrustofa í meira mæli en nú er.
    Í minnisblaði Samtaka náttúrustofa kom fram að formlegt samstarf náttúrustofa við Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun hafi verið lítið og í flestum tilfellum voru ekki í gangi nein formleg samstarfsverkefni á árinu 2012. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar kom fram hjá forsvarsmönnum samtaka náttúrustofa að náttúrustofur væru í raun skrifaðar út úr lögunum og bentu samtökin á ýmsar breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur ákveðið að taka ekki inn í frumvarpið.

Stjórnsýsla náttúruverndarmála.
    Í frumvarpinu er stjórnsýsluhlutverk sem ætti að vera hjá Umhverfisstofnun oft flutt til Náttúrufræðistofnunar. Það teljast úreltir stjórnunarhættir að sama stofnun bæði rannsaki, úrskurði og eigi hlutdeild í að veita leyfi. Leyfisveitingar eiga að vera hjá Umhverfisstofnun sem fær umsagnir hjá þeim aðilum sem hæfastir eru, en það er ekki alltaf Náttúrufræðistofnun. Fjölmargir umsagnaraðilar gagnrýna þetta í frumvarpinu.
    Gerð er sérstök athugasemd við þau mörgu hlutverk sem Náttúrufræðistofnun eru falin með lögunum. Það er að rannsaka, vakta, halda skrár og gefa umsagnir auk þess að sjá um C-hluta náttúruminjaskrár. Náttúrufræðistofnun er rannsóknarstofnun og nóg að bæta vöktunarhlutverki við það hlutverk. Stjórnsýsluhlutverk er betur komið hjá Umhverfisstofnun sem og umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár.

57. gr.
    Þessi grein frumvarpsins byggist á 37. gr. gildandi náttúruverndarlaga en greininni er mikið breytt. Í greininni eru talin upp ákveðin vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar. Þessi svæði eru:
     a.      votlendi, svo sem hallamýrar, flóar, flæðimýrar, rústamýrar, 10.000 m 2 að flatarmáli eða stærri, stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m 2 að flatarmáli eða stærri, og sjávarfitjar og leirur,
     b.      birkiskógar sem einkennast af náttúrulegri nýliðun og aldursdreifingu, þar sem eru m.a. gömul tré og þar sem vex dæmigerður botngróður birkiskóga, svo og leifar slíkra skóga.
    Eftirtaldar jarðminjar njóta sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr.:
     a.      eldvörp, eldhraun, gervigígar og hraunhellar sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma,
     b.      fossar og umhverfi þeirra í allt að 200 metra radíus frá fossbrún,
     c.      hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum.
    Óheimilt verður með öllu að raska þessum svæðum nema brýna nauðsyn beri til og aðrir kostir séu ekki fyrir hendi.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir harðlega þessa breytingu og bendir á að þetta banni til dæmis með öllu framræslu lands sem er stærra en 1 ha ef mögulegt sé að rækta tún annars staðar. Vegagerðin benti á að þessi breyting geti unnið mjög gegn viðhaldi og nýlagningu vega vegna þess að alltaf sé mögulegt að leggja vegi annars staðar. Sambærileg gagnrýni kom úr fleiri áttum.
    Einnig hefur verið bent á að efasemdir séu um að Náttúrufræðistofnun geti verið umsagnaraðili um framkvæmdaleyfi, sbr. 57. gr. Bent er á að hagsmunir stofnunarinnar vegna rannsókna og síðan umsagnir um leyfisveitingar geti skarast.
    Fyrsti minni hluti leggur til að þetta ákvæði verði óbreytt frá gildandi náttúruverndarlögum.

Reglugerðarheimildir.
    Frumvarpið felur í sér u.þ.b. 20 reglugerðarheimildir en þessar heimildir eru 16 í núgildandi náttúruverndarlögum. 1. minni hluti mótmælir þessari þróun og telur mikilvægt að reglugerðarákvæðum verði fækkað í frumvarpinu.

Kostnaður og skipting fjármuna.
    Samkvæmt úttekt fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum megi reikna með að útgjöld ríkissjóðs á þessu ári aukist um 24 millj. kr. en um 48 millj. kr. árin eftir það og að þau muni aukast í 105,5 millj. kr. á ári verði náttúruverndarumdæmum fjölgað í sjö.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að Náttúrufræðistofnun Íslands þurfi 9 millj. kr. árlega til að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni er ætlað með frumvarpinu. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Náttúrufræðistofnun Íslands telji sig þurfa meiri fjármuni heldur en frumvarpið gerir ráð fyrir. Gerir stofnunin ráð fyrir því að þurfa 30 millj. kr. árlega auk 5–6 millj. kr. eingreiðslu við samþykkt frumvarpsins. Þetta er athyglisvert í samanburði við þróun fjárveitinga til stofnunarinnar á undanförnum fjórum árum þar sem kemur fram að fjárveitingar hafa aukist mjög mikið til stofnunarinnar líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það er einnig umhugsunarefni hversu mikil gagnrýni er á aukið vægi Náttúrufræðistofnunar í umsögnum og spurning hvaða rök búa almennt að baki því að flytja verkefni til stofnunarinnar sem ekki eiga þar heima.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Að lokum.
    Þær athugasemdir sem 1. minni hluti hefur rakið hér að framan eru á engan hátt tæmandi og ljóst að hægt væri að nefna mjög mörg fleiri atriði sem mikilvægt er að tekin séu til skoðunar áður en frumvarp þetta verður að lögum. 1. minni hluti leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem taki mið af þeim athugasemdum sem fram hafa komið áður en málið er lagt aftur fram á Alþingi.

Alþingi, 14. mars 2013.

Ásmundur Einar Daðason.