Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 597. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1249  —  597. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um heimilisofbeldi.


    Ríkisstjórnin samþykkti í september 2006 aðgerðaáætlun um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem tók til áranna 2006–2011. Í skýrslu velferðarráðherra frá árinu 2011 um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum (þingskjal 1214 á 139. löggjafarþingi) er að finna yfirlit yfir aðgerðir. Svör þau sem hér fara á eftir byggjast á skýrslunni.

     1.      Hvernig er háttað skráningu mála vegna heimilisofbeldis?
    Í samræmi við framangreinda aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum lét velferðarráðuneytið gera rannsókn á árunum 2009–2011, m.a. á viðbrögðum hjá félagsþjónustu og barnavernd, grunnskólum, heilbrigðisþjónustu, lögreglu og ellefu félagasamtökum við málum sem þangað bárust og snerust um heimilisofbeldi. Sérstaklega var spurt um skráningu. Hjá félagsþjónustu og barnavernd var rætt við starfsfólk hjá fjórum þjónustumiðstöðvum í Reykjavík, svo og í Reykjanesbæ, Ísafjarðarbæ, Húnaþingi vestra, á Akureyri, í Norðurþingi, Fjarðabyggð, Mýrdalshreppi og Vestmannaeyjum.
    Almennt skorti skráningu. Á fyrrgreindum stöðum skráir félagsþjónustan heimilisofbeldi ekki markvisst. Málin eru unnin út frá þeim erindum sem berast og sjaldgæft virðist að kona óski gagngert eftir aðstoð vegna ofbeldis. Upplýsingar í dagálum er ekki unnt að kalla fram sjálkrafa. Skráning hjá barnaverndinni var að nokkru leyti skipulegri. Þær breytingar sem Barnaverndarstofa hefur gert á skráningu tilkynninga hjá barnaverndarnefndum geta ekki gefið nákvæmar upplýsingar um fjölda barnaverndarmála sem tengjast heimilisofbeldi.
    Rætt var við skólastjóra tíu grunnskóla, Grunnskóla Akraness, Grunnskóla Siglufjarðar, Hallormsstaðaskóla, Háteigsskóla í Reykjavík, Hjallaskóla í Kópavogi, Hrafnagilsskóla í Eyjafirði, Hvolsskóla á Hvolsvelli, Ingunnarskóla í Reykjavík, Nesskóla í Neskaupstað og Snælandsskóla í Kópavogi.
    Þegar orðið var vart við að barn hafði orðið vitni að ofbeldi heima hjá sér var því máli vísað til funda nemendaverndarráðs, sem haldnir eru reglulega, en engin sérstök skráning er hjá skólunum að öðru leyti. Málin voru ávallt tilkynnt barnaverndarnefnd.
    Hvað heilbrigðisþjónustu varðar var rætt við starfsmenn heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi, í Breiðholti, Ólafsvík, Vík, á Eskifirði og Akureyri, svo og hjá mæðravernd Landspítala, bráðamóttöku Landspítala, Sjúkrahúsi Akureyrar, félagsráðgjafa á Sjúkrahúsi Akureyrar og Sjúkrahúsinu Vogi svo og áfallamiðstöð Landspítala og neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis
    Ljóst var af þeim viðtölum sem fram fóru að núverandi skráningarkerfi heilbrigðisstofnana verður ekki nýtt til að meta umfang ofbeldisins eða hvort breytingar verða á alvarleika. Ekkert samræmi er í því hvort eða hvernig það er skráð að kona búi við eða hafi búið við heimilisofbeldi. Ef ofbeldi nákomins er gefið upp sem ástæða, svo sem komu á bráðamóttöku, er það að sjálfsögðu skráð. Ef önnur ástæða er hins vegar gefin í upphafi er skráningu ekki breytt síðar, jafnvel þótt í ljós komi að ekki var sagt rétt frá í upphafi.

     2.      Eru til samræmdar verklagsreglur innan félagsþjónustu og barnaverndar um viðbrögð og afgreiðslu mála vegna heimilisofbeldis? Ef ekki, er setning slíkra reglna fyrirhuguð?
    Samræmdar verklagsreglur eru ekki til. Ein af tillögum til úrbóta eftir fyrrgreinda rannsókn felur einmitt í sér að félagsþjónusta og barnavernd setji sér verklagsreglur svo að unnt verði að sinna málaflokknum betur og markvissar. Í tillögunni segir að verklagsreglurnar þyrftu annars vegar að snúa að viðbrögðum og því sem gert er þegar mál berast og hins vegar að því hvað sé hægt að gera til að koma betur auga á þessi mál.

     3.      Fyrir hvaða aðgerðum til að draga úr heimilisofbeldi hefur ráðherra beitt sér?
    Bent er á framangreinda skýrslu velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Fljótlega eftir samþykkt áætlunarinnar var tekið til við að hrinda henni í framkvæmd. Helstu aðgerðir eru þessar:
          Útgáfa fræðslurita. Gefin hafa verið út fimm fræðslurit, eitt ætlað til kennslu á háskólastigi, en önnur ætluð starfsmönnum félagsþjónustu og barnaverndar, heilbrigðisstarfsmönnum, þar af eitt ætlað ljósmæðrum sérstaklega, og eitt fyrir lögreglu. Þessum fræðsluritum hefur verið dreift til bókasafna og viðkomandi stofnana, auk þess sem þau eru aðgengileg á heimasíðu velferðarráðuneytisins.
          Rannsóknir. Gerðar hafa verið sex rannsóknir, þar af ein viðamikil símakönnun þar sem tekið var 3.000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá meðal kvenna á aldrinum 18–80 ára. Könnunin byggðist á erlendum spurningalista: „The International Violence against Women Survey“. Hinar fimm kannanirnar beindust að því hvernig viðkomandi stjórnvöld og félagasamtök bregðast við þegar þangað berast mál um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Framangreind fimm stjórnvöld eru tilgreind í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hér að framan.
          Fræðsla. Haldnir hafa verið fræðslufundir með viðkomandi aðilum auk þess sem Jafnréttisstofa hefur haldið fræðslufundi fyrir almenning.
          Aðgerðaáætlanir sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa verið hvött til að gera sínar eigin aðgerðaáætlanir.
          Sérstakt átaksverkefni á Suðurnesjum. Þar sem rannsóknin sýndi að ofbeldi gegn konum var algengra á Suðurnesjum en á öðrum landsvæðum, en annars var lítill munur eftir landsvæðum, tók velferðarráðuneytið upp viðræður við sveitarstjórnir á Suðurnesjum um að koma þar af stað sérstöku átaksverkefni. Í framhaldi af því ákváðu félagsþjónustur á Suðurnesjum að taka verkefnið föstum tökum. Gerð var aðgerðaáætlun í samstarfi við Suðurnesjavakt velferðarráðuneytis. Áætlunin var unnin náið með hjúkrunarfræðingum og skólunum. Félagsþjónustur á Suðurnesjum gáfu út kynningarbækling um heimilisofbeldi og lögreglan á Suðurnesjum hefur hafið formlegt samstarf við félagsþjónustur á svæðinu. Nánari upplýsingar um átaksverkefnið á Suðurnesjum er að finna á heimasíðu velferðarráðuneytisins í upplýsingum um velferðarvaktina.
          Karlar til ábyrgðar. Verkefnið um meðferð karla, þar sem körlum sem beitt hafa konur sínar ofbeldi er boðið upp á meðferð hjá sálfræðingum, er mikilvægt forvarnaverkefni. Verkefnið hefur verið samfellt í gangi síðan haustið 2007. Beiðnum um meðferð hefur fjölgað. Þjónustan er fyrst og fremst veitt á höfuðborgarsvæðinu, en einnig hafa sálfræðingarnir farið út á land eftir því sem fjármagn hefur leyft.
          Áfallaþjónusta við börn. Barnaverndarstofa hefur komið á fót tilraunaverkefni sem felur í sér áfallaþjónustu við börn sem búa við heimilisofbeldi. Í verkefninu felst að sérhæfður barnaverndarstarfsmaður fer inn á heimili þegar lögregla er kölluð til vegna heimilisofbeldis og börn eru á staðnum. Verkefni barnaverndarstarfsmannsins er að huga að barninu sérstaklega og veita því stuðning innan tveggja sólarhringa. Tilraunaverkefni þetta er nú í gangi á höfuðborgarsvæðinu.
          Kvennaathvarfið. Í öllum rannsóknunum kom fram mikil ánægja með Kvennaathvarfið sem hefur verið starfrækt frá árinu 1982. Starfsemin er traust í sessi. Hún er mestmegnis fjármögnuð úr ríkissjóði.
          Áfengisstefna. Í áðurnefndri skýrslu velferðarráðherra er að finna tillögu um að stjórnvöld beiti markvissri áfengisstefnu sem hafi það að markmiði að draga úr áfengisneyslu og ölvun og öllu ofbeldi sem áfengisneysla getur valdið. Vitað er að hún getur skaðað aðra en sjálfan neytandann, bæði ókunnuga og nákomna, fullorðna og börn. Efling barnaverndar er sértæk aðgerð til að styðja þau börn sem hafa mátt þola neysluvanda foreldra. Í samræmi við framangreint er nú á lokastigi könnun á aðgerðum barnaverndar vegna barna sem bíða tjón af áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Það þýðir að könnuð er sú áhætta sem börn eru í vegna neyslu foreldra. Könnunin verður birt á vormánuðum 2013.

     4.      Er starfandi sérstakt fagteymi eða samráðsvettvangur aðila sem vinna í málaflokknum?
    Þær aðgerðir sem fram koma í skýrslu velferðarráðherra eru eins konar rammaáætlun um aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Lagt er til að sérstakt samstarfsteymi innan stjórnsýslunnar verði stofnað og starfi í þrjú ár, enda ljóst að það er langtímaverkefni að efla forvarnir gegn heimilisofbeldi. Þegar þetta er ritað er unnið að því að skipa samstarfsteymið. Það skal skila skýrslu til velferðarráðherra og greina frá þeim verkefnum sem það vinnur að. Í teyminu verða fulltrúar frá ríki, þ.e. frá velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, lögreglu og Jafnréttisstofu, svo og frá sveitarfélögum og félagasamtökum.

     5.      Hversu mörg tilvik heimilisofbeldis voru skráð á árunum 2003–2013 hjá lögreglu? Hversu mörg af þessum tilvikum leiddu til ákæru? Hversu margar ákæranna leiddu til sakfellingar, hversu margar til sýknu og hversu mörgum var vísað frá dómi?
    Samkvæmt málaskrárkerfi lögreglunnar er heimilisofbeldi skilgreint sem verkefnaflokkur en ekki brot þar sem lögin kveða ekki sérstaklega á um slíkt. Ef hins vegar er um brot að ræða eins og líkamsárás og -meiðingar (217. og 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/ 1940) er það einnig skráð undir málið.
    Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda heimilisófriðarmála sem tilkynnt voru til lögreglu á árunum 2004 til 1. mars 2013. Hafa ber í huga að í lok árs 2005 voru settar verklagsreglur um skráningu á heimilisófrið og heimilisofbeldi. Í verklagsreglunum var m.a. skilgreint betur en áður hvaða mál teljast til heimilisófriðar. Fækkunina árið 2006 má að einhverju leyti rekja til setningar verklagsreglnanna sem hafði þau áhrif að mál voru síður skráð sem heimilisófriður. Þessi skráningarhegðun lagaðist árið 2007. Sjá má verklagsreglurnar á eftirfarandi slóð: www.logreglan.is/upload/files/Heimilisofbeldi_verklagsreglur.pdf.
    Ekki liggur fyrir hversu mörg tilvik heimilisófriðar leiddu til sakfellingar, hversu mörg til sýknu og hversu mörgum var vísað frá dómi. Eins og áður greinir er heimilisófriður skráður sem verkefnaflokkur í máli. Þess vegna þarf að fara í gegnum allar skýrslur þar sem skráður var „heimilisófriður“ til að komast að því um hvaða brot var grunur, hvort ákært hafi verið og síðan hvernig málið fór fyrir dómstól.
    Á eftirfarandi mynd og töflu má sjá fjölda heimilisófriðarmála sem tilkynnt voru til lögreglu á árunum 2004 til 1. mars 2013. (Gögn um árin 2004–2012 voru tekin út 19. janúar 2013 og gögn fyrir janúar og febrúar 2013 þann 1. mars. 2013.)

Heimilisófriður, fjöldi tilvika.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Ár Heimilisófriður
– ágreiningur
Heimilisófriður
– ofbeldi
Heimilisófriður alls
2004 770 215 985
2005 908 299 1.207
2006 609 294 903
2007 1.116 272 1.388
2008 1.108 263 1.371
2009 984 261 1.245
2010 926 296 1.222
2011 895 312 1.207
2012 967 327 1.294
Jan/feb. 2013 182 62 244


     6.      Hversu oft hefur verið tekin ákvörðun um nálgunarbann frá því að það úrræði var lögleitt?
    Eftir að lög nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, voru sett hafa átta tilfelli verið skráð samkvæmt málaskrárkerfi lögreglunnar. (Gögnin voru tekin út 7. mars 2013 og miðað var við dagsetningu brots.)