Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1257  —  417. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum (greiðslumiðlun).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju.
    Eftir að nefndin afgreiddi málið til 2. umræðu komu fram ábendingar um að gera þyrfti ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar kom það álit fram að gefa þyrfti lengri frest til aðlögunar að þeim breytingum sem frumvarpið hefði í för með sér. Í því sambandi var sérstaklega vísað til 5. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um brottfall laga um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa, nr. 17/1976, með síðari breytingum. Hins vegar var bent á að í frumvarpinu væri lagt til að II. kafli laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, yrði felldur brott en ekki væri lögð til breyting á 16. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um innheimtu samkvæmt II. kafla og yfirlit yfir greiðslumiðlun.
    Nefndin ræddi framangreindar ábendingar. Mat hennar er að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim. Af þeim sökum leggur nefndin annars vegar til breytingu á 4. gr. frumvarpsins þannig að frumvarpið fái lagagildi 1. júní 2013. Hins vegar leggur nefndin til þá breytingu á 16. gr. laganna að þar verði kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglur um framkvæmd laganna.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      16. gr. laganna orðast svo:
                      Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.
     2.      Í stað orðanna „1. janúar“ í 4. gr. komi: 1. júní.

    Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Sigurður Ingi Jóhannsson.