Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1271, 141. löggjafarþing 195. mál: Ábyrgðasjóður launa (staðfesta vinnuveitanda og miðlun upplýsinga, EES-reglur).
Lög nr. 26 21. mars 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum (viðvarandi starfsemi í fleiri en einu ríki og miðlun upplýsinga).


1. gr.

     Í stað 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur staðfestu í einu aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum og hefur jafnframt viðvarandi starfsemi hér á landi veita lögin ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi. Við ákvörðun um ábyrgð sjóðsins skv. 2. málsl. skal kanna hvort áður hafi verið teknar ákvarðanir vegna sömu krafna launamanna í einhverju af framangreindum ríkjum.

2. gr.

     Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ábyrgðasjóður launa skal gefa lögmætri stofnun sem ábyrgist greiðslur á kröfum launamanna í bú vinnuveitanda í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í Sviss eða í Færeyjum allar nauðsynlegar upplýsingar sem sjóðurinn kann að hafa vegna krafna hlutaðeigandi launamanna í bú vinnuveitanda.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2013.