Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 51. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1292  —  51. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um bætt skattskil.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og umsagnir hafa borist frá Alþýðusambandi Íslands, Bergi Ragnarssyni, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Með tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að leggja fram aðgerðaáætlun um bætt skattskil eigi síðar en 1. maí 2013. Áætluninni er ætlað að ná til skatteftirlits, skattrannsókna og markvissra viðbragða gegn undanskotum frá sköttum. Þá skal í henni koma fram mat á því hvort undanskot hafi aukist og þá hvernig, hvort gera þurfi lagabreytingar og þá hverjar til að draga úr og vinna gegn undanskotum, hvernig eftirlitsaðgerðum verði helst háttað og hvaða aðrar aðgerðir séu til þess líklegar að stemma stigu við undanskotum frá sköttum.
    Þá er lagt til að við gerð áætlunarinnar skuli haft samráð við embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra og leitað viðhorfa hjá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öðrum hagsmunaaðilum, eftir því sem tilefni þykir til.
    Nefndin telur mikilvægt að skattskil og eftirlit með þeim verði bætt. Líkt og fram kemur í greinargerð með fyrirliggjandi tillögu styðja rannsóknir og skýrslur þá fullyrðingu að þegar vel áraði í þjóðfélaginu hafi undanskot frá skatti verið umtalsverð og að eftir hrun fjármálakerfisins 2008 hafi undanskot frá skatti aukist. Átakið „Leggur þú þitt af mörkum?“ sem Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og ríkisskattstjóri stóðu sameiginlega að sumarið 2011 hefur enn fremur sýnt fram á að mörgu er ábótavant í skattskilum fyrirtækja og að mörg þeirra eru með óskráða starfsmenn á launum. Að mati þeirra sem stóðu að átakinu er tap samfélagsins vegna vangreiddra skatta eingöngu og annarra gjalda fyrirtækja með undir 1 milljarð kr. í veltu á ári um 14 milljarðar kr. árlega. Sambærilegt átak var gert árið 2012 og gaf það til kynna að svört atvinnustarfsemi færi vaxandi og að ástandið væri enn verra en á árinu 2011. Þá var nefndinni kynnt að athuganir sem ríkisskattstjóri hefur gert á undanförnum missirum gefi augljósar vísbendingar um að svört atvinnustarfsemi og dulið hagkerfi sé býsna fyrirferðarmikið og að öllum líkindum talsvert meira um sig en áður hefur verið.
    Svört atvinnustarfsemi hefur ekki einungis í för með sér að sameiginlegir sjóðir samfélagsins verði af fjármunum í formi skatta sem aftur eykur byrðar á aðra skattgreiðandi einstaklinga og fyrirtæki heldur koma einnig til greiðslur úr þessum sameiginlegu sjóðum til einstaklinga sem ekki eiga lögbundinn rétt á slíkum greiðslum enda er algengt að einstaklingar sem stunda svarta atvinnustarfsemi þiggi einnig atvinnuleysisbætur. Skattundanskot auka því mjög misræmi í samfélaginu, skekkja samkeppnisstöðu og raska þar með jafnvægi í öllu þjóðfélaginu. Brýnt er að takast á við það alvarlega þjóðfélagsvandamál sem skattsvik skapa með markvissum aðgerðum og telur nefndin að fagna beri efni fyrirliggjandi tillögu.
    Nefndin telur jákvætt að kveðið sé á um samráð í tillögunni og brýnt að leitað verði til ríkisskattstjóra en frá því að skatteftirlit ríkisskattstjóra var sameinað á einn stað í ársbyrjun 2010 hefur eftirlit verið markvissara og skilað meiri árangri en áður, en betur má ef duga skal. Nefndin leggur því áherslu á að við gerð aðgerðaáætlunarinnar verði leitað í þá þekkingu og reynslu sem skapast hefur. Þá er áréttað að með „öðrum hagsmunaaðilum“ er m.a. átt við aðila vinnumarkaðarins en þeir hafa látið þessi mál sig miklu varða undanfarin ár, sbr. fyrrnefnt átak, og því mikilvægt að horft verði til þeirrar þekkingar og upplýsinga sem þeir búa yfir. Þá hefur nefndin fengið upplýsingar um að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi mál af þessu tagi verið til umræðu og beinir nefndin til fjármála- og efnahagsráðherra að leita viðhorfa ráðuneytisins sem og annarra hlutaðeigandi ráðuneyta sem tengjast málaflokknum, svo sem velferðarráðuneytis en atvinnuleysistryggingar heyra m.a. undir það.
    Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið fyrir nefndinni, að auka þurfi eftirlitsheimildir opinberra aðila til að sporna við skattsvikum, áréttar nefndin að sérstaklega er tekið fram í tillögunni að bætt skattskil feli í sér aukið skatteftirlit. Það mun því ávallt koma til sérstakrar og ítarlegrar skoðunar hvernig unnt sé að bæta og auka skatteftirlit.
    Bent hefur verið á að það vinnufyrirkomulag sem lagt er til í tillögunni taki langan tíma og tímafrekt sé að stefna mörgum aðilum saman til að vinna áætlunina. Nefndin áréttar mikilvægi þess að samráð sé haft við þá aðila sem þekkja til málsins og telur brýnt að það sé viðhaft til að aðgerðaáætlunin sé raunsæ og taki á þeim vandamálum sem til staðar eru.
    Í tillögunni er lagt til að aðgerðaáætlunin liggi fyrir eigi síðar en 1. maí 2013. Nefndin telur brýnt að aðgerðaáætlunin liggi fyrir sem fyrst enda um að ræða brýnt mál fyrir samfélagið auk þess sem ávinningur aðgerða til að bæta skattskil getur numið háum fjárhæðum fyrir bæði ríki og sveitarfélög, en komið hafa fram upplýsingar um að þær geti numið tugum milljarða á hverju ári. Þá fjármuni væri unnt að nýta til mikilvægra verkefna ríkis og sveitarfélaga í almannaþjónustu. Í ljósi þess skamma tíma sem er til umráða og til að tryggja að nægur tími gefist til nauðsynlegs samráðs og greiningarvinnu leggur nefndin þó til breytingu þess efnis að áætlunin liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2013.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Í stað orðanna „1. maí 2013“ í 3. mgr. komi: 1. október 2013.

    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. mars 2013.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.



Skúli Helgason.


Eygló Harðardóttir.


Lilja Mósesdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Guðlaugur Þór Þórðarson.