Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 629. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1297  —  629. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (skattlagning á lágskattasvæðum og starfsmannaleigur).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þá hefur nefndinni borist umsögn um málið frá ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt annars vegar og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda hins vegar. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að breytingartillögurnar eru tilkomnar vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) er varða annars vegar skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum eða hinar svokölluðu CFC-reglur (e. Controlled Foreign Corporation). ESA hefur lýst þeirri skoðun að hinar svokölluðu CFC-reglur standist ekki skoðun í ljósi dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins séu andstæðar staðfesturéttinum skv. 31. gr. EES-samningsins. Í 2. tölul. 4. mgr. 57. gr. a sé ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu „raunveruleg atvinnustarfsemi“ og skilgreining hugtaksins í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 46/2009 sé of þröng. Nefndin bendir á að til að koma móts við athugasemdir ESA sé nú lagt til að hugtakið „raunveruleg atvinnustarfsemi“ verði skilgreint í reglugerð. Einnig er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um það í 5. mgr. ákvæðisins að tap sé eingöngu hægt að færa á móti hagnaði lögaðila á lágskattasvæði (CFC-félaga) sem eru í eigu íslenskra félaga eða einstaklinga. Nefndin bendir á að í umsögn ríkisskattstjóra um málið var vakin athygli nefndarinnar á því að embættið hefur frá lögfestingu 57. gr. a tekjuskattslaga „túlkað ákvæðið þannig að tap sem myndast í rekstri CFC-félags megi eingöngu færa á móti hagnaði sem myndast síðar hjá sama CFC-félagi.“ Í því samhengi vill nefndin árétta að hér er því ekki um efnisbreytingu frá núverandi ástandi að ræða heldur áréttingu og ítarlegri skilgreiningu á reglu sem ákvæðið felur nú þegar í sér. Þriðja breytingin er sú að fella brott skyldu ráðherra til að birta lista yfir þau lönd og svæði sem skattlagning skv. CFC-ákvæðinu tekur til.
    Hins vegar snúa athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA að skyldum starfsmannaleigu. Það er álit ESA að íslenskar reglur sem kveða á um það að notendafyrirtæki beri ábyrgð sem launagreiðandi, hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, brjóti í bága við EES-samninginn samkvæmt formlegri tilkynningu stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2012. ESA telur að í íslensku reglunni felist mismunun þar sem ekki er kveðið á um það í ákvæðinu að það taki jafnt til innlendra sem erlendra starfsmannaleiga með staðfestu í öðru ríki innan EES, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum. Samkvæmt orðanna hljóðan eigi ákvæðið eingöngu við í tilviki erlendra starfsmannaleiga.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið upplýst um það að ekki hafi reynt á ákvæðið í framkvæmd en það hafi þó frá samþykkt þess verið túlkað á þá leið að það taki jafnt til innlendra sem erlendra starfsmannaleiga með staðfestu í öðru ríki innan EES, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum enda hafi það verið ætlunin frá upphafi. Nefndin vekur athygli á að í frumvarpinu er tekinn af vafi í þessu efni með því að kveða á um það að hvort tveggja sé um innlendar og erlendar starfsmannaleigur að ræða í því tilviki er notendafyrirtæki ber ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu. Það er mat nefndarinnar að breytingar þessar séu til þess fallnar að koma að öllu leyti til móts við athugasemdir þær sem borist hafa frá ESA og hér hafa verið raktar stuttlega en ítarlegar er greint frá í athugasemdum við frumvarpið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Eygló Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. mars 2013.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.Skúli Helgason.


Pétur H. Blöndal.


Lilja Mósesdóttir.