Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 634. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1319  —  634. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923,
og lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu,
með síðari breytingum (samræming reglna um vatnsréttindi).


Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Ingvi Már Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ástráður Haraldsson, Kristín Haraldsdóttir, Skúli Thoroddsen frá Orkustofnun, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Örn Bergsson frá Landssamtökum landeigenda og Elías Blöndal Guðjónsson frá Bændasamtökum Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Karli Axelssyni, Landssambandi veiðifélaga og Landssamtökum landeigenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins og Sambandi garðyrkjubænda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar annars vegar á vatnalögum, nr. 15/1923, og hins vegar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 (auðlindalögum). Meginefni frumvarpsins lítur að því að útvíkka gildissvið vatnalaga og afmarka gildissvið auðlindalaga nánar þannig að hin fyrrnefndu taki til grunnvatns og kveði á um rétt landeigenda yfir því. Að auki er lögð til breyting á gildissviði auðlindalaga þannig að í þeim felist heimildir til að veita rannsóknarleyfi til undirbúnings raforkuvinnslu innan sem utan netlaga.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga eru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið enda telur sambandið eðlilegt að vatnalög taki til grunnvatns og nýtingar þess. Í umsögn Orkustofnunar koma sambærileg sjónarmið fram.
    Aðrir umsagnaraðilar virðast líta svo á sem frumvarpið feli í sér grundvallarbreytingu á eignarréttarlegri stöðu grunnvatns og grunnvatnsréttinda, í raun og veru sé með frumvarpinu ráðgert að afnema beinan eignarrétt landeigenda að grunnvatni.
    Í umsögn Orkustofnunar er sérstaklega nefnt að með tillögum frumvarpsins sé ekki verið að hnika til eða takmarka gildandi auðlindanýtingu grunnvatns frá því sem verið hefur. Þar kemur efnislega einnig fram það mat að ekki felist í frumvarpinu neinar meginbreytingar á auðlindalögum.
    Á fundi nefndarinnar kom það mat fram að frumvarpið fæli ekki í sér breytingu á eignarréttarlegri stöðu grunnvatns. Þannig væri aðeins verið að koma ákvæðum um allar gerðir vatns fyrir í samræmdum lagabálki með þá hugsun að leiðarljósi að draga úr hættu á að rof verði milli réttarreglna um yfirborðsvatn og grunnvatn. Var sérstaklega áréttað við þetta tilefni að ekki væru lagðar til breytingar á ákvæðum um jarðhita heldur aðeins ákvæðum um grunnvatn, heitt og kalt.
    Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að með setningu auðlindalaga hafi umfjöllun um grunnvatn verið slitin úr tengslum við vatnalög. Getur meiri hlutinn ekki á annað fallist en að sú breyting hafi verið óheppileg í ýmsum skilningi. Að mati meiri hlutans er eðlilegt að Alþingi leggi sitt af mörkum til að tryggja að þróun laga er varðar vatn verði samræmd.
    Meiri hlutinn tekur undir með þeim sem telja að frumvarpið feli ekki í sér þá breytingu á auðlindanýtingu grunnvatns sem sumir virðast óttast enda verður ekki betur séð en að umráða- og hagnýtingarréttur landeigenda yfir grunnvatni verði áfram tryggður.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 20. mars 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Björn Valur Gíslason,


frsm.

Björgvin G. Sigurðsson.




Oddný G. Harðardóttir.


Ólína Þorvarðardóttir.