Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1332  —  179. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til umferðarlaga.Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fundi hennar komu Sigurbergur Björnsson og Katrín Þórðardóttir frá innanríkisráðuneytinu, Haraldur Þórarinsson og Halldór H. Halldórsson frá Landssambandi hestamannafélaga, Guðbrandur Bogason, Guðmundur Ágústsson og Jón Haukur Edwald frá Ökukennarafélagi Íslands, Kristján Ólafur Guðnason, Guðbrandur Sigurðsson og Stefán Eiríksson frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Kolbrún Benediktsdóttir frá ríkissaksóknara, Ágúst Mogensen og Sævar Helgi Lárusson frá rannsóknarnefnd umferðarslysa, Árni Davíðsson, Morten Lange og Páll Guðjónsson frá Landssamtökum hjólreiðamanna, Stefán Erlendsson frá Vegagerðinni, Vilhjálmur K. Karlsson og Ingunn Ólafsdóttir frá Isavia, Jón Baldursson og Lilja Sigrún Jónsdóttir frá embætti landlæknis, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Árni Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Lísbet Einarsdóttir frá Samtökum verslunar og þjónustu, Jón R. Pálsson frá Samtökum atvinnulífsins, Vigdís Halldórsdóttir, Valgeir Pálsson og Páll Þórhallsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Björn Þór Rögnvaldsson og Magnús Guðmundsson frá Vinnueftirlitinu, Már Guðnason frá Alþýðusambandi Íslands, Drífa Snædal frá Starfsgreinasambandi Íslands, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Þorbjörn Jónsson og Dögg Pálsdóttir frá Læknafélagi Íslands, Guðmundur Kári Kárason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Ólafur W. Stefánsson. Á símafundum voru Gunnar Valur Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Bjarni Stefánsson og Erna Jónmundsdóttir.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Ákærendafélagi Íslands, Árna Davíðssyni, Ásbirni Ólafssyni, Bergljótu Rist, Brynjólfi Jóhanni Bjarnasyni, embætti landlæknis, Guðmundi A. Arasyni, Hagsmunahópi faggildra fyrirtækja innan SVÞ, Háskóla Íslands, Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, Ingvari Ingvarssyni, Isavia ohf., Konráð Adolphssyni og Eddu Gunnarsdóttur, Landssambandi hestamannafélaga, Landssamtökum hjólreiðamanna, Læknafélagi Íslands, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglustjórafélagi Íslands, Ólafi W. Stefánssyni, rannsóknarnefnd umferðarslysa, ríkissaksóknara, Samtökum atvinnulífsins o.fl. (frá SA, SAF, SI og SVÞ), Samtökum fjármálafyrirtækja, Starfsgreinasambandi Íslands, Svavari Kjarrval Lútherssyni, sýslumanninum á Blönduósi, sýslumanninum í Bolungarvík, Theodór Kr. Þórðarsyni, umboðsmanni barna, Umferðarstofu, Vegagerðinni, Vinnueftirlitinu og Ökukennarafélagi Íslands. Einnig barst nefndinni fjölpóstur og undirskriftalisti.
    Líkt og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið skipaði samgönguráðherra nefnd 1. nóvember 2007 um endurskoðun umferðarlaga. Í nefndina voru skipuð þau Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður, Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneyti, Gunnar Narfi Gunnarsson, lögfræðingur í dómsmálaráðuneyti, Jón Haukur Edwald, Ökukennarafélagi Íslands, Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, Ólafur Guðmundsson, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, og Signý Sigurðardóttir, Samtökum verslunar og þjónustu. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var henni falið að taka gildandi umferðarlög, nr. 50/ 1987, með síðari breytingum, til heildarendurskoðunar og semja frumvarp til nýrra umferðarlaga á grundvelli tillagna nefndarinnar. Við gerð frumvarpsins var lagt til grundvallar að stefnt væri að því að færa gildandi ákvæði til nútímalegra horfs með því að taka mið af reynslu síðastliðinna tveggja áratuga og þróun í umferðarmálum.
    Einnig var markmiðið að lagfæra þau ákvæði í gildandi ákvæðum sem eru óskýr eða haldin annmörkum, einkum að teknu tilliti til breytinga á mannvirkjagerð í umferðinni og á umferðarmenningunni. Þá átti að stuðla að frekari aðlögun umferðarlöggjafar að alþjóðlegum samningum um umferðarmál, m.a. með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur orðið á alþjóðavettvangi frá samningu gildandi laga. Tekið var til athugunar hvort og þá að hvaða marki gera skyldi breytingar á þeirri almennu framsetningu gildandi laga að ráðherra sé veitt víðtækt vald til að setja nánari fyrirmæli um einstök atriði í stjórnvaldsfyrirmæli og jafnframt leitast við að lögfesta í ríkari mæli í umferðarlögunum sjálfum grundvallarefnisreglur á einstökum sviðum. Samhliða því var leitast við að útfæra reglugerðarheimildir ráðherra sem eftir standa með heildstæðari og skýrari hætti. Að lokum var stefnt að því að taka til skoðunar og gera tillögur um tilteknar efnisbreytingar á ákvæðum gildandi laga, einkum um viðurlög við brotum á umferðarlögum, með það í huga að gera þær hátternisreglur sem gilda í umferðinni skilvirkari og auka varnaðaráhrif þeirra. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi á 138. löggjafarþingi (2009–2010) en varð ekki útrætt. Frumvarpið var að nýju lagt fyrir 139. löggjafarþing (2010–2011), en nokkrar breytingar voru gerðar á því frá fyrra frumvarpi. Frumvarpið var einnig lagt fram á 140. löggjafarþingi (2011–2012) í núverandi mynd en ekki var mælt fyrir því og hlaut það því ekki efnislega meðferð.
    Umhverfis- og samgöngunefnd átti fjölmarga fundi með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila á sviði umferðarmála hér á landi og tók á móti helstu sérfræðingum þjóðarinnar á þessu sviði til að veita nefndinni upplýsingar og koma með ábendingar. Meiri hlutinn hefur fjallað um málið og telur frumvarpið að mörgu leyti mikið framfaraskref fyrir umferðarmenningu á Íslandi. Í kjölfar umfjöllunar um málið og skoðunar á þeim athugasemdum sem nefndinni bárust leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingartillögur.

Stjórnvaldssektir skv. 92. gr.
    Í umsögnum hefur því verið haldið fram að með ákvæði 92. gr. frumvarpsins um stjórnvaldssektir verði réttaröryggi bifreiðarstjóra skert. Innanríkisráðuneytið bendir á, í minnisblaði sínu til nefndarinnar, að í athugasemdum við XVI. kafla frumvarpsins séu rök færð fyrir því að réttaröryggi sé viðhaldið þrátt fyrir breytinguna. Þar segir m.a.: ,,[M]eð ákvæðum í þessum kafla frumvarpsins og XVII. kafla um stjórnvaldssektir Vegagerðarinnar vegna ýmissa brota ökumanna sem aka ökutækjum sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd lagt til að gerð verði sú grundvallarbreyting frá gildandi lögum að brot á ákvæðum laganna um aksturs- og hvíldartíma ökumanna um stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, um búnað slíkra ökutækja og um hleðslu, frágang og merkingu farms, að undanskildum hættulegum farmi, sbr. 78. gr., skuli almennt séð ekki sæta viðurlögum í formi refsinga, þ.e. fjársekta eða fangelsis, heldur varði slík brot stjórnvaldssektum sem ákveðnar verða af Vegagerðinni í samræmi við eftirlitshlutverk hennar samkvæmt þessari grein. Með því er lagt til að refsikennd viðurlög við brotum af þessu tagi séu sett í farveg hefðbundinna stjórnsýslumála þar sem upphafleg stjórnvaldsákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar sé tekin hjá Vegagerðinni, en að sú ákvörðun sé síðan kæranleg til samgönguráðherra. Er þá horft til þess að brot á umræddum reglum eru í eðli sínu byggð á tiltölulega fastmótuðum og hlutlægum reglum. Þá verður talið að almennu réttaröryggi sé viðhaldið með því að Vegagerðin verður nú við framkvæmd þessara mála til undirbúnings ákvörðun um hvort leggja skuli á stjórnvaldssekt að fylgja reglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, m.a. um rannsókn mála og um andmælarétt og upplýsingarétt aðila máls, ásamt óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar, sbr. 2. mgr. 90. gr. frumvarpsins. Má einnig vænta þess að mál af þessu tagi fái með þessu fyrirkomulagi skjótvirkari afgreiðslu. Þá er tryggt að ákvörðun Vegagerðarinnar um álagningu stjórnvaldssektar geti hverju sinni fengið endurskoðun á grundvelli stjórnsýslukæru hjá viðkomandi ráðuneyti, eins og fyrr greinir, sbr. nánar 6. mgr. 92. gr. frumvarpsins. Ef aðili máls er áfram ósáttur við lúkningu slíkra mála getur hann í samræmi við grundvallarreglur íslensks réttar, sbr. 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, skotið máli til dómstóla eða leitað til umboðsmanns Alþingis, sbr. lög nr. 95/1997, um umboðsmann Alþingis.“
    Í minnisblaði innanríkisráðuneytisins er vísað í skýrslu nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum frá árinu 2006 og umfjöllun hennar um málsmeðferð við álagningu stjórnvaldssekta. Þar kemur fram að það brjóti hvorki gegn ákvæðum stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu að stjórnvaldi sé fengið vald til þess að rannsaka mál og leggja stjórnvaldssektir á í tilefni af lögbroti enda eigi maður þess kost að bera málið undir dómstól sem hefur fullar endurskoðunarheimildir.
    Að mati nefndarinnar ætti almennt að vera hægt að halda uppi viðhlítandi réttaröryggi við meðferð slíkra mála með eftirfarandi úrræðum: 1) Þess sé gætt, þar sem því verður við komið, að sami starfsmaður rannsaki almennt ekki mál og taki ákvörðun um hvort lagðar skuli á stjórnvaldssektir. 2) Að vandað sé til rannsóknar og allrar meðferðar slíkra mála hjá stjórnvöldum. 3) Hægt sé að kæra ákvörðun um stjórnvaldssektir til æðra stjórnvalds og/eða bera hana undir dómstóla sem hafi fullar endurskoðunarheimildir í slíkum málum. Enn fremur sé það mikilvægt að geta borið ákvörðunina undir umboðsmann Alþingis. Það er Vegagerðarinnar að búa svo um hnútana að fyrstu tvö úrræðin séu nýtt. Sem fyrr segir gerir frumvarpið ráð fyrir kæruheimild til ráðuneytisins, svo og að hægt sé að bera ákvörðunina undir dómstóla. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn þó á að eins og ákvæði 6. mgr. 92. gr. er orðað segir að heimilt sé að kæra ákvörðun um stjórnvaldssekt skv. 3. mgr. til ráðherra innan mánaðar frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Telur meiri hlutinn að fella ætti brott orðin „skv. 3. mgr.“ til að tryggja að ákvæði 6. mgr. eigi við um allar stjórnvaldsákvarðanir Vegagerðarinnar. Því er lagt til að 1. málsl. 6. mgr. 92. gr. hljóði svo: Heimilt er að kæra ákvörðun um stjórnvaldssekt til ráðherra innan mánaðar frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
    Meiri hlutinn vekur athygli á að í 92. gr. er mælt fyrir um að Vegagerðin geti lagt stjórnvaldssekt á ökumann sem brotið hefur gegn ákvæðum a–d-liðar 1. mgr. Hægt er að orða lagaheimildir um stjórnvaldssektir svo að stjórnvald geti lagt á eða skuli leggja á stjórnvaldssektir í tilefni af ákveðnum lögbrotum. Í fyrra tilvikinu hafi stjórnvaldið ákveðið svigrúm. Meiri hlutinn bendir á að almennt eiga stjórnvöld að hafa svigrúm til þess að láta mál niður falla standi til þess málefnaleg sjónarmið. Skilyrði eru því fyrir hendi til þess að fella mál sem eru til meðferðar hjá Vegagerðinni niður rétt eins og hjá lögregluyfirvöldum. Í þessu sambandi er jafnframt minnt á andmælarétt aðila.
    Þá hefur það verið gagnrýnt að rannsókn nokkurra brotaflokka samkvæmt umferðarlögum sé með frumvarpinu tekin úr höndum lögreglu. Meiri hlutinn bendir á að horft er til þess að brot á umræddum reglum eru í eðli sínu byggð á tiltölulega fastmótuðum og hlutlægum reglum. Snýr eftirlitið að vigtun ökutækja, álestri og úrvinnslu gagna úr ökuritum og skoðun á frágangi farms og hleðslu.
    Í 101. gr. frumvarpsins er fjallað um sviptingu ökuréttar vegna ítrekaðra brota gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Þar segir: „Nú hefur ökumaður tvívegis áður sætt stjórnvaldssekt á grundvelli a-liðar 1. mgr. 92. gr. og brýtur að nýju gegn ákvæðum IX. kafla um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og er þá heimilt að svipta hann ökurétti til farþega- og farmflutninga í samræmi við ákvæði 100. gr.“ Hefur meiri hlutinn skoðað þetta ákvæði nánar og metur það of íþyngjandi að svipta ökumann ökurétti til farþega- og farmflutninga varanlega. Leggur meiri hlutinn því til að þess sé gætt að einungis verði heimilt að svipta ökumanninn ökuréttindum tímabundið.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að málsmeðferð er almennt kostnaðarminni þegar stjórnvöld leggja á stjórnsýsluviðurlög en þegar dómstólar dæma menn eða lögaðila til refsingar. Kostnaður hins brotlega, t.d. vegna aðstoðar lögmanna, er oftast einnig minni þegar um stjórnsýsluviðurlög er að ræða.
    Bent hefur verið á að ekki hafi verið áætlaður kostnaður við eftirlit, álagningu og innheimtu. Fordæmi eru fyrir því að kveðið sé á um í lögum að stjórnvaldssektir renni í ríkissjóð, að frádregnum kostnaði við álagningu og/eða innheimtu. Meiri hlutinn er sammála því mati innanríkisráðuneytisins að kostnaður við eftirlitið sé þáttur sem færi betur á að undanskilja frá ákvæðinu og áætla heldur fjárheimildir til stofnunarinnar til að standa straum af eftirlitinu. Einnig tekur meiri hlutinn undir gagnrýni á að sektirnar beri dráttarvexti. Leggur meiri hlutinn til að felldir verði brott 2. og 3. málsl. 5. mgr. 92. gr. Þá leggur meiri hlutinn til að greininni sé breytt á þann veg að 1. málsl. málsgreinarinnar, sem stendur þá einn eftir, orðist svo: Stjórnvaldssekt skv. 4. mgr. rennur í ríkissjóð.

Ákvæði um reiðstíga.
    Eins og fram hefur komið í umsögnum og í umræðu á Alþingi vilja hestamenn tryggja réttarstöðu ríðandi umferðar í umferðarlögunum þannig að akstur vélknúinna ökutækja á reiðstígum verði bannaður. Þeir hafa bent á að ekki sé að finna skilgreiningu á reiðvegum eða neitt er varðar réttarstöðu hestaumferðar á skilgreindum reiðvegum, stígum eða slóðum. Að þeirra mati verði að rúmast í nýjum umferðarlögum ákvæði þess efnis að akstur vélknúinna ökutækja sé óheimill á skilgreindum reiðstígum og slóðum. Hugtakið reiðstígur er hvorki í umferðarlagafrumvarpinu né í núgildandi umferðarlögum. Meiri hlutinn gerir af þessu tilefni tillögu að breytingu á 16. gr. frumvarpsins þannig að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 16. gr.: Sama á við um almenna reiðstíga sem skipulagðir hafa verið á vegum sveitarfélags og eru merktir sem slíkir.

Ákvæði 3. mgr. 27. gr.
    Meiri hlutinn bendir á að æskilegt sé að hugtakið „svipaðir staðir“ í ákvæði 27. gr. um stöðvun ökutækis og lagningu þess verði fjarlægt. Samkvæmt upplýsingum sem nefndinni hafa borist hefur það valdið vandkvæðum í framkvæmd að skýra hugtakið. Ákvæðið var tekið til endurskoðunar í kjölfar ábendingar frá umboðsmanni Alþingis og hefur innanríkisráðuneytið unnið að breytingartillögu í samráði við Bílastæðasjóð. Með hliðsjón af ábendingum umboðsmanns Alþingis og þeim málum þar sem reynt hefur á túlkun hugtaksins „svipaðir staðir“ er lagt til að hugtakinu „grassvæði“ verði bætt við. Um leið þykir nauðsynlegt að mæla fyrir um að ekki megi leggja á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Að framansögðu leggur meiri hlutinn til að ákvæði 3. mgr. 27. gr. orðist svo: Eigi má stöðva vélknúið ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu eða hjólastíg, nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 81. gr. Sama á við um umferðareyjar og grassvæði.
    Meiri hlutinn tekur undir athugasemdir sem Bílastæðasjóður gerir við frumvarpið og leggur til að ákvæði 3. mgr. 110. gr. í nýju frumvarpi að umferðarlögum verði breytt og fært aftur til fyrra horfs. Til viðbótar vekur ráðuneytið athygli á síðasta málslið 2. mgr. 110. gr. þar sem segir: Gjald samkvæmt þessari grein skal renna til samgöngumála í viðkomandi sveitarfélagi. Síðan segir í 1. málsl. 6. mgr. 110. gr.: „Ráðherra setur nánari reglur um hvernig gjaldið skuli lagt á og innheimt, þar á meðal um greiðslu- og kærufrest og ráðstöfun gjaldsins til samgöngumála.“ Hefur Bílastæðasjóður lagt til að ákvæði 1. málsl. 6. mgr. 110. gr. verði breytt þannig að það hljóði svo: Ráðherra setur nánari reglur um hvernig gjaldið skuli lagt á og innheimt, þar á meðal um greiðslu- og kærufrest. Með breytingunni yrðu felld brott lokaorð málsliðarins: og ráðstöfun gjaldsins til samgöngumála. Með breytingunni yrði það ekki ráðherra að útfæra nánar reglur um ráðstöfun gjaldsins til samgöngumála. Meiri hlutinn styður þessa tillögu.

Umráðamaður/eigandi.
    Þá kemur fram gagnrýni í umsögnum um að skilgreiningu vanti í frumvarpið á hugtakinu umráðamaður. Tekur meiri hlutinn undir það og telur æskilegt að samhljóða skilgreiningu á hugtakinu sé að finna í umferðarlagafrumvarpinu og frumvarpi til laga um ökutækjatryggingar sem lagt hefur verið fram á yfirstandandi þingi. Leggur meiri hlutinn því til að nýrri orðskýringu verði bætt við 3. gr. frumvarpsins, svohljóðandi: Umráðamaður: Sá sem með samþykki eiganda ökutækis hefur umráð yfir því. Aðili telst ekki umráðamaður nema hann sé skráður sem slíkur í ökutækjaskrá.
    Hugtakið umráðamaður er sett innan sviga á eftir eiganda í 49., 68., 72., 110., 111. og 112. gr. frumvarpsins. Í umsögnum hefur verið bent á að það sé til þess fallið að valda vafa. Meiri hlutinn telur æskilegt að eigandi beri þá ábyrgð og skyldur sem fylgja ökutækjaeign enda eðlileg og réttmæt krafa að eigandi ökutækis beri ábyrgð á því. Eigandi skal bera ábyrgð á greiðslu trygginga, bifreiðagjalda og vanrækslugjalds og bera ábyrgð á skoðun og skráningu. Meiri hlutinn fellst á þetta og leggur því til að þar sem orðalagið eigandi (umráðamaður) kemur fyrir verði eingöngu eigandi. Meiri hlutinn telur þó ekki það sama eiga við um 49. gr. um upplýsingagjöf. Meiri hlutinn leggur til að ákvæði 1. mgr. 49. gr. verði orðað með eftirfarandi hætti: Eiganda, eða eftir atvikum umráðamanni ökutækis, er skylt, þegar lögreglan krefst þess, að gera grein fyrir hver hafi stjórnað því á tilteknum tíma.

Lífsýnataka.
    Í 48. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldur ökumanns vélknúins ökutækis til að gangast undir öndunarpróf og láta í té lífsýni. Leggur meiri hlutinn til að tekið verði mið af sjónarmiðum Læknafélags Íslands og embættis landlæknis um 3. málsl. 3. mgr. 48. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að gætt sé laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, einkum ákvæða 53. gr. um valdheimildir lögreglu við rannsókn mála og sýnatöku. Með vísan til þess telur hann að valdbeitingarheimild í lokamálslið 3. mgr. 48. gr. sé óþörf og leggur til að hún verði felld brott.

Ákvæði 9. mgr. 55. gr.
    Meiri hlutinn leggur til, að svo stöddu, að felld verði brott ákvæði 9. mgr. 55. gr. frumvarpsins sem segir að ökumenn sem stjórna ökutækjum í C1-, C-, D1- og D-flokki til farþega- og farmflutninga skuli gangast undir endurmenntun á fimm ára fresti samkvæmt reglum sem ráðherra setur í reglugerð. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að það á rætur sínar að rekja til tilskipunar 2003/59/EB sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 760/2006. Ber Íslandi að framfylgja ákvæðum hennar á grundvelli EES-samningsins. Starfshópur sá sem vitnað er til í athugasemdunum hefur í haust unnið að því að leita leiða til að tilskipunin hafi sem vægust áhrif á íslenskt atvinnulíf og atvinnubílstjóra sem starfa hér á landi, m.a. með tilliti til kostnaðar, skipulags og tilhögunar námsins. Er það mat nefndarinnar að ráðlegt sé að hinkra þar til tillögur starfshópsins liggja fyrir.

Ákvæði 2. mgr. 99. gr.
    Í nokkrum umsögnum sem borist hafa til nefndarinnar hefur verið bent á vankanta við ákvæði 2. mgr. 99. gr. frumvarpsins. Bent hefur verið á að skýrleika ákvæðisins sé ábótavant og að framkvæmdin sem fylgi ákvæðinu verði flókin. Með hliðsjón af umsögnunum er lagt til að ákvæði 2. mgr. 99. gr. gildi um sektir sem eru að lágmarki 30.000 kr. Til þess að gera ákvæðið skýrara leggur meiri hlutinn til að við 1. málsl. 2. mgr. bætist: til viðbótar við afsláttinn sem tilgreindur er í 1. mgr. Þá hefur verið bent á að ekki sé æskilegt að lækka sektir með þessum hætti vegna hvers kyns brota.
    Leggur meiri hlutinn til að nýrri málsgrein verði bætt við þar sem kveðið verði á um að réttur til afsláttar gildi ekki um brot gegn ákvæðum 45. gr. (bann við ölvunarakstri), 46. gr. (bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna), 55. gr. (ökumaður ekur sviptur ökuréttindum eða án þess að hafa öðlast ökuréttindi fyrir bifreið og bifhjól) og 59. gr. (ökumaður ekur sviptur ökuréttindum eða án þess að hafa öðlast ökuréttindi fyrir dráttarvél, vinnuvél, létt bifhjól í flokki I og torfærutæki). Einnig leggur meiri hlutinn til að bætt verði við 100. gr. sem mælir fyrir um sviptingu ökuréttar. Í þeim tilfellum sem ökumaður ekur langt yfir leyfilegum hámarkshraða er hann sviptur ökurétti samkvæmt því ákvæði. Með þessu er miðað við að ákvæðið eigi aðeins við í tilvikum sem hægt er að ljúka með sektarboði/sátt á vettvangi. Það gildir ekki um sektargerðir, dóma og viðurlagaákvarðanir. Að teknu tilliti til þeirra umsagna sem fram hafa komið um ákvæðið er gert ráð fyrir að vinna þyrfti verklagsreglur í framhaldinu við útfærslu á ákvæðinu.
    Ákvæði 2. mgr. 99. gr. orðist því svo: Heimilt er að veita sakborningi sem hefur tekjur undir hálfum öðrum lágmarkslaunum allt að 25% afslátt af upphaflegri sektarfjárhæð, til viðbótar við afsláttinn sem tilgreindur er í 1. mgr. Við útreikning skal miðað við tekjur sem fram koma á skattskýrslu síðasta almanaksárs fyrir brotið.
    Ákvæði 3. mgr. 99. gr. orðist því svo: Réttur til afsláttar gildir ekki um brot gegn ákvæðum 45., 46., 55. og 59. gr. Sama gildir ef ökumaður hefur verið sviptur ökurétti skv. 100. gr.

Skráning vinnuvéla.
    Nefndinni bárust athugasemdir er varða skráningu vinnuvéla hjá Umferðarstofu og Vinnueftirlitinu. Kom fram við umfjöllun málsins að markmiðum frumvarpsins yrði ekki náð að óbreyttu núverandi fyrirkomulagi skráningarmála hjá stofnununum. Því leggur meiri hlutinn áherslu á að ákvæði varðandi skráningarskyldu ökutækja verði látin standa óbreytt. Meiri hlutinn bendir þó á að innanríkisráðuneytið hefur upplýst hana um að þegar er hafin vinna, í samstarfi við Umferðarstofu og Vinnueftirlitið, við að leita leiða til að hagræða í þessum málum þannig að skráning og skoðun vinnuvéla geti farið fram á einum stað án þess að markmiðum frumvarpsins sé stofnað í hættu. Gert er ráð fyrir að sú vinna taki nokkurn tíma og verður framkvæmd þeirrar lausnar sem fundin verður að vera háð breytingartillögum þegar þar að kemur.
    Torfærutæki eru ekki skoðunarskyld samkvæmt núgildandi umferðarlögum og telja má víst að þau kæmust ekki í gegnum skoðun þar sem búnaður þeirra er allt annar og minni en ökutækja sem skráð eru til þess að vera í almennri umferð. Meiri hlutinn leggur því til að síðari málsliður 1. mgr. 72. gr. orðist svo: Ákvæðið gildir þó ekki um dráttarvélar, létt bifhjól í flokki I, torfærutæki og vinnuvélar.

Öryggis- og verndarbúnaður barna.
    Í 74. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði er varða öryggisbelti og annan öryggis- og verndarbúnað í bifreiðum. Ákvæðunum er m.a. ætlað að innleiða skyldur íslenska ríkisins samkvæmt Evrópureglum, nánar tiltekið tilskipun 91/671/EBE, eins og henni var breytt með tilskipun 2003/20/EB. Í ljós hefur komið við nánari skoðun, og samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA, að 74. gr. frumvarpsins felur ekki í sér fullnægjandi innleiðingu á fyrrgreindum reglum. Leggur meiri hlutinn því til að eftirfarandi verði fellt brott: Í 2. mgr. 74. gr. falli brott síðari málsliðurinn: „Ef slíkur búnaður er ekki í bifreið skal nota öryggisbelti fyrir barnið.“ Í 3. mgr. 74. gr. falli brott eftirfarandi: „… sem búin er uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið“. Málsgreinin hljóði því svona: Barn sem er undir 150 sm á hæð má ekki vera farþegi í framsæti bifreiðar.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. mars 2013.Ólafur Þór Gunnarsson,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Skúli Helgason.Pétur Georg Markan.


Álfheiður Ingadóttir.