Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 490. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1346  —  490. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011
(eignarhaldsreglur og endurbætur).

(Eftir 2. umræðu, 26. mars.)


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      3. tölul. orðast svo: Ábyrgðarmaður er starfsmaður fjölmiðils sem ber ritstjórnarlega ábyrgð á efni og efnisvali og ákvarðar hvernig það er skipulagt, t.d. ritstjóri, dagskrárstjóri eða útvarpsstjóri. Ef fjölmiðlaveita er einstaklingur telst sá einstaklingur sjálfkrafa ábyrgðarmaður.
     b.      7. tölul. fellur brott.
     c.      9. tölul. orðast svo: Evrópskt efni er það hljóð- og myndmiðlunarefni sem fellur undir n-lið 1. tölul. 1. gr. og 2., 3. og 4. tölul. sömu greinar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/13/ESB frá 10. mars 2010 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlaþjónustu.
     d.      Á eftir 19. tölul. kemur nýr töluliður sem orðast svo: Fyrirsvarsmaður er einstaklingur sem fer með yfirstjórn fjölmiðlaveitu.

2. gr.

    Á eftir orðunum „alla fjölmiðla“ í 1. málsl. 3. gr. laganna kemur: og fjölmiðlaveitur með staðfestu hér á landi.

3. gr.

    A-liður 1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: útsendingin brýtur augljóslega, verulega og alvarlega gegn banni um að kynda undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða þjóðernis og gegn ákvæðum 28. gr.

4. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 3. mgr., svohljóðandi:
    Fjölmiðlanefnd er heimilt að ljúka málum vegna brota á lögum þessum með birtingu álits. Á það jafnt við um erindi sem fjölmiðlanefnd berast og þau sem hún tekur upp að eigin frumkvæði.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Tilkynning skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og með upplýsingum um viðkomandi fjölmiðlaveitu, þ.m.t. heiti, kennitölu, lögheimili, netfang og vefsetur, heiti fjölmiðils eða fjölmiðla sem hún starfrækir, ábyrgðarmann, fyrirsvarsmann, ritstjórnar- eða dagskrárstefnu, kallmerki ef við á og eignarhald.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrirsvarsmaður fjölmiðlaveitu skal vera ríkisborgari í EES-ríki, lögráða og fjár síns ráðandi.

6. gr.

    Í stað orðanna „lögaðilum og einstaklingum“ í 1. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: fjölmiðlaveitu.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      B-liður 1. mgr. orðast svo: nöfn og heimilisföng ábyrgðarmanns og fyrirsvarsmanns.
     b.      F-liður 1. mgr. orðast svo: eignarhald og yfirráð fjölmiðlaveitu.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                 Umsækjandi um almennt leyfi skal láta í té vottorð um heimilisfesti, lögræði og búsforræði sitt og ábyrgðarmanns, og vottorð fyrirtækjaskrár um stofnun og tilvist félags, þegar við á.
     d.      Við bætist ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                 Skylt er að veita fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo að rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar. Ákvæðið á einnig við um skráningu skv. 14. gr. og eigendaskipti skv. 22. gr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
             Í reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði skal m.a. fjallað um:
                  a.      starfsskilyrði viðkomandi blaða- og fréttamanna ritmiðla og hljóð- og myndmiðla, þ.m.t. stjórnenda á því sviði, við að framfylgja ritstjórnar- eða dagskrárstefnu fjölmiðlaveitunnar,
                  b.      starfshætti sem ætlað er að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði viðkomandi blaða- og fréttamanna, þ.m.t. stjórnenda á því sviði, gagnvart eigendum fjölmiðlaveitunnar,
                  c.      skilyrði áminningar og uppsagnar viðkomandi blaða- og fréttamanna, þ.m.t. stjórnenda á því sviði.
     b.      Á eftir orðunum „til staðfestingar“ í 3. mgr. kemur: og skulu þær birtar á heimasíðu viðkomandi fjölmiðlaveitu.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 26. gr. laganna:
     a.      2. málsl. orðast svo: Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.
     b.      Í stað orðanna „í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni“ í 3. málsl. kemur: í fréttum og fréttatengdu efni.

10. gr.

    27. gr. laganna orðast svo:
    Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðrar háttsemi. Einnig er þeim óheimilt að kynda með markvissum hætti undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.

11. gr.

    A-liður 2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Eftir kl. 22 föstudags- og laugardagskvöld og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar og til kl. 5 á morgnana er heimilt að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að á undan því sé birt skýr viðvörun og það sé auðkennt með sjónrænu merki, þegar um miðlun myndefnis er að ræða, allan þann tíma sem efninu er miðlað.

12. gr.

    Við 45. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjölmiðlaveita, sem hefur einkarétt á sjónvarpsútsendingum frá innlendum og erlendum viðburðum sem vekja mikinn áhuga meðal almennings, skal veita öðrum fjölmiðlaveitum með myndmiðlun og með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu aðgang að stuttum myndskeiðum að eigin vali frá viðkomandi sjónvarpsútsendingum.
    Þessi stuttu myndskeið má aðeins nota í almennum fréttaþáttum og í myndmiðlun eftir pöntun ef sami dagskrárliður er í boði í seinkaðri útsendingu frá sömu fjölmiðlaveitu.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna :
     a.      Orðið „viðurlög“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      C-liður 1. mgr. orðast svo: Í öðrum tilvikum ber ábyrgðarmaður fjölmiðils ábyrgð á efni sem miðlað er.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
     a.      Orðið „viðurlög“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      C-liður 1. mgr. orðast svo: Í öðrum tilvikum ber ábyrgðarmaður fjölmiðils ábyrgð á efni sem miðlað er.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „lögaðila“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjölmiðlaveitur.
     b.      Á eftir c-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: 17. gr. um skil á upplýsingum um eignarhald og yfirráð.
     c.      F-liður 1. mgr. orðast svo: 27. gr. um hvatningu til refsiverðrar háttsemi.
     d.      Í stað orðsins „útvarpsstöð“ í 2. mgr. kemur: fjölmiðlaveitu.

16. gr.

    G-liður 1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo: 27. gr. um bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „hljóð- og myndmiðlunar“ í b-lið 1. mgr. kemur: skilyrði.
     b.      E-liður 1. mgr. orðast svo: Nánari fyrirmæli um framkvæmd og málsmeðferð vegna flutnings hljóð- og myndefnis skv. VII. kafla, þar á meðal nánari skilyrði um aðgang að stuttum myndskeiðum og notkun þeirra skv. 45. gr.

18. gr.

    Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, X. kafli A, Eignarhald fjölmiðla o.fl., með þremur nýjum greinum, 62. gr. a – 62. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (62. gr. a.)

Eftirlit með fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun.

    Samkeppniseftirlitið getur gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á fjölræði og/eða fjölbreytni í fjölmiðlun almenningi til tjóns. Með aðstæðum er m.a. átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þ.m.t. uppbyggingu fyrirtækja sem á honum starfa. Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins geta falist í úrræðum til breytinga á skipulagi ef sýnt þykir að ekki séu fyrir hendi önnur og jafnárangursrík úrræði sem eru minna íþyngjandi fyrir aðila. Samkeppniseftirlitið skal afla umsagnar fjölmiðlanefndar áður en það grípur til aðgerða á grundvelli þessa ákvæðis.
    Fjölmiðlanefnd getur beint tilmælum til Samkeppniseftirlitsins um að grípa til aðgerða skv. 1. mgr. Berist Samkeppniseftirlitinu tilmæli frá fjölmiðlanefnd þar að lútandi ber því að taka málið til rannsóknar og efnislegrar umfjöllunar.

    b. (62. gr. b.)

Samrunaeftirlit.

    Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna sem a.m.k. ein fjölmiðlaveita með minnst 100 millj. kr. ársveltu á Íslandi á aðild að.
    Samruni telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar:
     a.      vegna samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja eða hluta úr fyrirtækjum sem áður störfuðu sjálfstætt,
     b.      þegar fyrirtæki tekur yfir annað fyrirtæki,
     c.      vegna þess að einn eða fleiri aðilar, sem þegar hafa yfirráð yfir a.m.k. einu fyrirtæki, eða eitt eða fleiri fyrirtæki ná beinum eða óbeinum yfirráðum, í heild eða að hluta, yfir einu eða fleiri fyrirtækjum til viðbótar með því að kaupa verðbréf eða eignir, með samningi eða öðrum hætti,
     d.      með stofnun fyrirtækis um sameiginlegt verkefni sem gegnir til frambúðar allri starfsemi sjálfstæðrar efnahagseiningar.
    Yfirráð skv. 2. mgr. skapast af rétti, með samningum eða með einhverjum öðrum hætti sem annaðhvort sérstaklega eða samanlagt, og með hliðsjón af staðreyndum eða lagalegum atriðum sem við eiga, gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á fyrirtæki, einkum með:
     a.      eignarhaldi eða rétti til að nota eignir fyrirtækis, allar eða að hluta,
     b.      rétti eða samningum sem veita afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnana fyrirtækis.
    Yfirráð öðlast aðilar sem:
     a.      eru rétthafar eða eiga tilkall til réttar samkvæmt samningum þar að lútandi, eða
     b.      þrátt fyrir að vera ekki handhafar slíks réttar eða eiga ekki tilkall til réttar samkvæmt slíkum samningum hafa möguleika til að beita slíkum réttindum.
    Ef um er að ræða samruna í skilningi a-liðar 2. mgr. eða öflun sameiginlegra yfirráða í skilningi c-liðar sömu málsgreinar skulu aðilar samrunans eða þeir sem ná sameiginlega yfirráðum, eftir því sem við á, ganga sameiginlega frá tilkynningu um samrunann.
    Eignist fyrirtæki ráðandi hlut í öðru fyrirtæki skal fyrirtækið sem stóð að yfirtökunni ganga frá tilkynningu um samruna. Sé um yfirtökuboð í fyrirtæki að ræða skal bjóðandi ganga frá tilkynningu.
    Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað. Samruni sem fellur undir ákvæði laga þessara skal ekki koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Telji fjölmiðlanefnd verulegar líkur á að samruni, sem þegar hefur átt sér stað og uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. um veltu, geti dregið umtalsvert úr fjölræði og/eða fjölbreytni í fjölmiðlun getur nefndin farið þess á leit við Samkeppniseftirlitið að það krefji samrunaaðila um tilkynningu um samrunann.
    Við mat á lögmæti samruna skv. 1. mgr. skal Samkeppniseftirlitið taka til skoðunar hvort samruni kunni að hafa skaðleg áhrif á fjölræði og/eða fjölbreytni í fjölmiðlun á þeim markaði eða mörkuðum sem viðkomandi fjölmiðlaveita eða fjölmiðlaveitur starfa á. Samkeppniseftirlitið skal afla umsagnar fjölmiðlanefndar um áhrif samrunans að því leyti. Samkeppniseftirlitið getur ógilt samruna sem kann að hafa skaðleg áhrif á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun eða sett slíkum samruna skilyrði sem miða að því að draga úr þeim skaðlegu áhrifum.

    c. (62. gr. c.)

Málsmeðferð, viðurlög o.fl.

    Um form og efni tilkynninga um samruna, málsmeðferð, viðurlög, kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og annað skv. 62. gr. a og 62. gr. b gilda ákvæði samkeppnislaga og reglur settar með stoð í þeim ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
    Heimild samkeppnislaga til að tilkynna samruna með styttri tilkynningu gildir ekki um samruna skv. 62. gr. b.

19. gr.

    63. gr. laganna orðast svo:
    Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/13/ ESB frá 10. mars 2010 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.