Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.

Þingskjal 1  —  1. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.), nr. 146/2012 (virðisaukaskattur á ferðaþjónustu).

(Lagt fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi 2013.)




1. gr.

    A- og d-liður 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kemur fram að einfalda eigi skattkerfið á kjörtímabilinu. Einnig segir að neysluskatta eigi að jafna og einfalda. Þá kemur fram að falla eigi frá áformum fyrri ríkisstjórnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.
    Í stefnuyfirlýsingunni er vísað til þess að með 2. gr. laga nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.), voru gerðar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem varða gistiþjónustu. Með ákvæðinu var gerð sú breyting að útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta var felld í nýtt 14% skattþrep í virðisaukaskatti. Breytingin tekur gildi 1. september 2013 og nær til afhendingar og útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu frá og með þeim degi.
    Fjölmargar umsagnir bárust nefndasviði Alþingis um frumvarp til laga nr. 146/2012. Meðal þess sem gagnrýnt var voru áform um að fjölga skattþrepum í virðisaukaskatti. Þannig bentu Samtök ferðaþjónustunnar á að varasamt væri að flækja skattkerfið með því að bæta við nýju skattþrepi fyrir 608 lögaðila í gististarfsemi. Í sama streng tók embætti ríkisskattstjóra sem einnig benti á þann aukna kostnað sem breytingunni mundi fylgja bæði fyrir atvinnulífið og hið opinbera.
    Mikill uppgangur hefur verið í ferðaþjónustu á undanförnum árum og hefur ferðamönnum fjölgað umtalsvert milli ára. Á vef Ferðamálastofu má nálgast upplýsingar um hagtölur í ferðaþjónustu og þar kemur fram að frá árinu 2000 hefur fjöldi ferðamanna meira en tvöfaldast en það ár voru erlendir ferðamenn um 303 þúsund talsins. Heildarfjöldi erlendra ferðamanna var orðinn um 673 þúsund árið 2012 og var þar um að ræða 18,9% aukningu frá árinu 2011 en þá voru erlendir ferðamenn um 565 þúsund talsins. Frá árinu 2000 hefur árleg aukning gistinátta að jafnaði verið um 6,7% milli ára og var heildarfjöldi þeirra um 3,7 milljónir árið 2012.
    Ætla má að lægri virðisaukaskattur á gistiþjónustu hafi áhrif á eftirspurn og muni þannig gagnast ferðaþjónustunni við sitt markaðsstarf. Við mat á því hvernig skattleggja á greinina verður einnig að horfa til þess að meiri hluti gistinátta er enn sem komið er að sumarlagi sem óhjákvæmilega hefur ákveðið óhagræði í för með sér fyrir rekstraraðila. Verði frumvarpið að lögum lækka tekjur ríkissjóðs að óbreyttu um rúmlega 500 m.kr. frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2013. Þá er einnig áætlað að árið 2014 og eftirleiðis muni tekjur ríkissjóðs verða um 1,5 milljörðum kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Á móti því tekjutapi vegur, ef að líkum lætur, aukin eftirspurn og viðbótartekjur a.m.k. til lengri tíma litið.
    Með frumvarpinu er lagt til að sú breyting að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu frá og með 1. september 2013 öðlist ekki gildi og að virðisaukaskattsskylda vegna útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu verði áfram með sama hætti og nú er. Í því felst að útleigan mun bera 7% virðisaukaskatt en ekki 14% eins og hefði orðið frá og með 1. september 2013 að óbreyttum lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Við vinnslu frumvarpsins var það sent embætti ríkisskattstjóra til umsagnar. Embættið gerði ekki athugasemdir við frumvarpið og leiddi samráðið ekki til breytinga á frumvarpinu.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í
ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.), nr. 146/2012 (virðisaukaskattur á ferðaþjónustu).

    Með frumvarpinu er lögð til ein breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna breytingar sem gerð var á þeim með lögum nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.). Með þeirri lagasetningu var gerð sú breyting að útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta var felld í nýtt 14% skattþrep í virðisaukaskatti. Breytingin á að taka gildi 1. september 2013 og nær til afhendingar og útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu frá og með þeim degi. Með frumvarpinu er lagt til að framangreind breyting öðlist ekki gildi og að virðisaukaskattur vegna útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu verði áfram með sama hætti og nú er. Í því felst að útleigan mun bera 7% virðisaukaskatt en ekki 14% eins og hefði orðið frá og með 1. september 2013 að óbreyttum lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Verði frumvarpið að lögum er áætlað að ríkissjóður muni verða af tekjum sem nema 535 m.kr. árið 2013 og verða tekjur ríkissjóðs þá lakari en áætlað var í fjárlögum sem því nemur. Þá er áætlað að árið 2014 og eftirleiðis verði tekjur ríkissjóðs um 1,5 mia.kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóð. Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.