Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.

Þingskjal 2  —  2. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991,
með síðari breytingum (flýtimeðferð).

(Lagt fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi 2013.)




1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:
    Nú lýtur ágreiningur í dómsmáli að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga og skal þá hraða meðferð slíks máls.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 1. janúar 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er unnið í innanríkisráðuneytinu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er kveðið á um að unnið verði að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð og mögulegt er þar sem óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verði að linna. Er frumvarp þetta liður í því að fullnægja þessu markmiði.
    Á fyrri þingum hafa verið flutt frumvörp sem kveða á um að mál er varða lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi gjaldmiðla og um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti, skuli sæta flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laganna um flýtimeðferð. Ljóst er að niðurstöður dómstóla undanfarið hafa að miklu leyti verið fordæmisgefandi fyrir stóran hluta ágreiningsmála er upp hafa risið um lögmæti fjárskuldbindinga sem um ræðir í frumvarpi þessu. Enn eru þó ýmis ágreiningsatriði óleyst og mikilvægt að niðurstaða í þeim málum fáist hið fyrsta. Er því lagt til í frumvarpi þessu að þeim málum þar sem ágreiningur er af því tagi sem lýst er í frumvarpinu megi veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum. Í þessari heimild felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Ekki er talin þörf á að kveða á um að málin skuli lúta þeim reglum sem kveðið er á um í XIX. kafla laganna þannig að dómari gefi út stefnu í málinu heldur er lögð áhersla á að málið fái eins skjóta meðferð og unnt er. Við það mat ber þó að hafa í huga að oft getur verið um flókin og umfangsmikil mál að ræða. Leysa þarf hið fyrsta úr þeirri óvissu sem enn ríkir í málum sem tengjast uppgjöri skulda heimila og fyrirtækja. Er því brýnt að veita dómara styrka stoð til að taka fram fyrir önnur mál þau mál sem lúta að ágreiningi á þessu sviði svo að leyst verði úr þeim á eins skjótan hátt og mögulegt er. Gert er ráð fyrir að heimild þessi sé til bráðabirgða á meðan greitt er úr þeim ágreiningi sem enn er til staðar og falli hún niður 1. janúar 2015.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála,
nr. 91/1991, með síðari breytingum (flýtimeðferð).

    Í frumvarpi þessu er lagt til að í þeim dómsmálum þar sem ágreiningur er uppi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga, skuli hraða meðferð slíkra mála og veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum. Í því felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að röðun þeirra mála sem bíða meðferðar hjá dómstólum skuli breytt eftir tilefni. Ekki verður því séð að slík breyting muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.