Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.

Þingskjal 4  —  4. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla,
og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands,
með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta,
strandveiðar, gjaldtökuheimildir, viðurlög).

(Lagt fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi 2013.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þeir bátar einir geta öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 20 brúttótonn, eins og þau eru reiknuð samkvæmt eftirfarandi reglu: Brúttótonn (BT) = K 1 . V. Stuðullinn K 1 reiknast = 0,2 + 0,02 . log 10V. Rúmmálið V reiknast = a . (Lm . Bs . D). Stuðullinn a reiknast = 0,5194 + 0,0145 . Lm, þó ekki minni en 0,60. Mesta lengd (Lm) er heildarlengd skipsins, þ.m.t. allir fastir hlutar bolsins, svo sem skriðbretti, perustefni, skutgeymar og hlífðarlistar sem teljast hluti bolsins. Hins vegar skal ekki mæla gúm- eða trélista til hlífðar, stýrisfjaðrir, utanborðsvélar eða utanborðsdrif né annan auðlosanlegan búnað, svo sem handrið, jafnvægisstýri, hlífðargrindur við utanborðsdrif og þess háttar. Skráningarbreidd skips (Bs) skal mæld í þilfarshæð eða þar sem breidd þess er mest neðan þilfars á þilfarsskipum en þar sem breidd bolsins er mest á opnum skipum. Breiddin skal mæld á innri hlið síðu á skipum með málmbyrðing, en ytri hlið á skipum úr öðru efni. Mótuð dýpt skips (D) skal mæld lóðrétt á miðri lengd skipsins. Óheimilt er að stækka bátana þannig að þeir verði stærri en þessu nemur.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „ráðherra með reglugerð“ í 2. mgr. kemur: Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum.
     b.      Við 7. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þar er m.a. heimilt að setja nánari skilyrði um eignarhald. Ef eigandi fiskiskips er lögaðili er heimilt að kveða á um að lögskráðir sjómenn á fiskiskipinu eigi tiltekna lágmarkseignarhlutdeild í lögaðilanum. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild nema að einu strandveiðileyfi.

3. gr.

    Í stað orðanna „15 brúttótonn“ í 6. mgr. 12. gr. laganna kemur: þeim stærðarmörkum sem kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr.

4. gr.

    Í stað orðanna „15 brúttótonn“ í 8. mgr. 15. gr. laganna kemur: þeim stærðarmörkum sem kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr.

5. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist nýr málsliður sem verður 2. málsl. og orðast svo: Ef veiðitímabili er lokið áður en ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis tekur gildi, eða gildistíma sviptingar lýkur, skal leyfissvipting samkvæmt ákvörðuninni gilda við útgáfu næsta veiðileyfis.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeir bátar sem hafa veiðileyfi með krókaaflamarki og eru stærri en nemur hámarksstærð skv. 2. mgr. 4. gr. laganna, við gildistöku þessara laga, skulu halda leyfi sínu til veiða með krókaaflamarki. Verði bátar þessir stækkaðir eftir gildistöku laga þessara skal veiðileyfi þeirra með krókaaflamarki falla úr gildi frá og með næstu fiskveiðiáramótum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla,
með síðari breytingum.

7. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ólögmætur er sá sjávarafli sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur eða fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi skv. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands séu fyrir hendi, svo og afli sem 2. mgr. 7. gr. laga þessara tekur til.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands,
með síðari breytingum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Orðin „sem veitt hefur verið“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                  Ef veiðitímabili er lokið áður en ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis tekur gildi, eða gildistíma sviptingar lýkur, skal leyfissvipting samkvæmt ákvörðuninni gilda við útgáfu næsta veiðileyfis. Þar til réttaráhrifum leyfissviptingar lýkur er hvorki heimilt að flytja réttindi grásleppuveiðileyfis af bát né réttindi grásleppuveiðileyfis til viðkomandi báts.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „1. og 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 1.–3. mgr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með þessu frumvarpi, sem samið er í ráðuneyti sjávarútvegsmála, eru lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum. Frumvarpið er efnislega byggt á frumvarpi sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Það er nú endurflutt að teknu tilliti til hluta þeirra breytinga sem meiri hluti atvinnuveganefndar lagði til að yrðu gerðar á frumvarpinu ( þingskjal 1133 – 447. mál). Við undirbúning frumvarpsins hefur verið haft samráð við innanríkisráðuneytið, Landssamband smábátaeigenda og Siglingastofnun. Helstu efnisatriði frumvarpsins eru sem hér segir:

A. Endurskoðun reglna um hámarksstærð krókaaflamarksbáta.
    Með 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á ákvæðum um stærðir krókaaflamarksbáta. Samkvæmt lögum nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var einvörðungu heimilt að flytja krókaaflahlutdeild á bát sem var undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum hefði hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Með 6. gr. laga nr. 85/2002, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, voru þessi stærðarmörk hækkuð í 15 brúttótonn. Við breytinguna komu þau ákvæði í lög um stjórn fiskveiða sem nú standa óbreytt í 2. málsl. 6. mgr. 12. gr. gildandi laga og hljóða svo: „Krókaaflahlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki.“
    Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2002 sagði að 6 brl. eða 6 brúttótonna takmörkunin væri „talin of þröng, m.a. af öryggisástæðum“. Þá sagði einnig að breyting á stærðarmörkum væri reist á tillögum nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem starfaði samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 1/1999, um breyting á lögum um stjórn fiskveiða (svonefndrar endurskoðunarnefndar) (þskj. 882, 127. löggjafarþing 2001–2002). Við þetta má bæta að allnokkur umræða varð um stærðarmörkin við meðferð frumvarpsins í þinginu og í sjávarútvegsnefnd þingsins. Viðmiðunin við 15 brúttótonn var þannig niðurstaða samkomulags með þingmönnum í ríku samráði við hagsmunaaðila. 1
    Þegar liðin eru 10 ár frá þessum ákvörðunum er áhugavert að skoða þróun greinarinnar hvað snertir fjölda báta innan krókaaflamarkskerfisins:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af þessari mynd má ráða að krókaaflamarksbátum (með hlutdeild) hefur fækkað allnokkuð frá fiskveiðiárinu 2004/2005, þegar þeir voru yfir 600 talsins, en sú fjölgun sem þá varð á sér skýringar í því að dagabátar komu inn í krókaaflamarkskerfið. Sóknardagabátarnir öðluðust krókaaflahlutdeild í áföngum, en flestir komu inn í kerfið við upphaf fiskveiðiársins 2004/2005, en það var jafnframt síðasta fiskveiðiár sóknardagabátanna, sbr. lög nr. 74 7. júní 2004. Greinilegt er að hlutdeildarbátum hefur fækkað nokkuð samhliða því að viðskipti hafa orðið með hlutdeildir, en hugsanlegt er að skerðing þorskkvóta hafi ýtt undir slík viðskipti. Þá bendir fjölgun hlutdeildarlausra báta til þess að lítið sé um úreldingu á bátum sem síðan kann að tengjast nýjum möguleikum til nýtingar þeirra með strandveiðum. Þetta segir þó ekki nema hálfa söguna. Hlutdeildir í krókaaflamarki hafa safnast hjá stærri fyrirtækjunum smám saman og 30 fyrirtæki ráða yfir um 60,8% krókaaflahlutdeildar í þorskígildum talið (frétt á vef Fiskistofu, dags. 23. janúar 2013). Hafa verður í huga í þessu sambandi að breytingar á reglum um hámarksstærðir krókaaflamarksbáta geta haft veruleg áhrif á þessa þróun, einkum ef veiðigeta stærstu bátanna mundi aukast að mun.
    Nokkuð hefur verið um nýsmíði krókaaflamarksbáta á síðustu árum. Bátarnir hafa tekið verulegum breytingum, m.a. með yfirbyggðri vinnuaðstöðu og breytingu á búnaði. Vekja má athygli á því að reglur um mælingu á stærð þeirra eru séríslenskar og e.t.v. óheppilegar sem viðmiðun innan fiskveiðistjórnarkerfis. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 527/1997 um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum er brúttótonnatala hvers skips sem styttra er en 15 metrar ákvörðuð með því að margfalda lengd þess í öðru veldi við breidd þess og stuðulinn 0,031. Af þeim sökum er mögulegt að auka veiðigetu bátanna með því að gera þau breiðari (og styttri) en ella væri jafnvel ástæða til. Við þetta bætist sú tilhneiging að setja utan á bátana ýmiss konar svalir, kassa og síðustokka sem ekki reiknast með við mælingu þeirra samkvæmt verklagsreglum Siglingastofnunar. Þess má einnig geta að lokaðir skutgeymar teljast með í skráningarlengd, og það hefur leitt sumar útgerðir til þess að loka skutgeymum, án vitundar Siglingastofnunar, en með réttu á það að auka skráningarlengd og skráð brúttótonn hlutaðeigandi báts. Eins má nefna að þverþil hefur verið sett aftan við op í stefni og skráningarlengd hefur verið mæld að þverþilinu. Oft hefur farið mikill tími í umræður og ýmiss konar túlkanir á reglum um skráningarlengdir. Það er löngu tímabært að huga að endurskoðun þeirra.
    Verði 1. gr. frumvarpsins lögfest verður veiðileyfi með krókaaflamarki aðeins gefið út á báta sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 20 brúttótonn samkvæmt reiknireglu frumvarpsgreinarinnar. Sú regla er sú sama og sett er í Evrópusambandinu með reglugerð ráðsins (EB) nr. 2930/86 um skráningu fiskiskipa, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 3259/94, og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 95/84/EB (sbr. 1. tölul. viðauka I við ákvörðunina um skip sem smíðuð eru eftir 1995). Verði sett viðmiðun um 20 brúttótonn, eins og lagt er til í frumvarpsgreininni, getur krókaaflabátur sem er nálega 15 metrar að lengd mest orðið um 4,10 metrar að breidd, enda sé hann 1,85 m á dýpt, en það er meðaldýpt báta sem eru stærri en 15 brúttótonn (mælt eftir þeirri reglu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins).
    Þau mál sem nú eru skráð á bátum undir 15 metrum að mestu lengd, eru mesta lengd, skráningarlengd breidd og mótuð dýpt. Því má auðveldlega nota þau mál til að ákvarða brúttótonn samkvæmt þeirri reglu sem lögð er til um hámarksstærðir. Í núgildandi reglum og þeim Evrópureglum, sem hafðar eru til hliðsjónar, er allur auðlosanlegur búnaður, svo sem handrið, utanborðsdrif og stýri, undanþegin mælingum á mestu lengd. Skráð breidd samkvæmt núverandi reglum er mesta breidd bátsins og er í langflestum tilvikum einnig miðskipa. Hugsanlegt er í nokkrum tilvikum að mesta breiddin sé á öðrum stað en miðskipa. Það mun þá þýða endurmælingu á breiddinni. Af þessu leiðir að ekki er þörf á útgáfu nýrra mælibréfa til þeirra báta sem nú hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki.
    Við athugun hefur komið í ljós að einungis átta bátar á íslenskri skipaskrá, sem eru undir 15 metrum að lengd, mælast stærri en 20 brúttótonn með þeirri reglu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins. Einungis einn þessara báta hefur veiðileyfi með krókaaflamarki, en hann mælist 23,31 brúttótonn. Verði frumvarpið að lögum mun um veiðileyfi þessa báts og aflaheimildir fara samkvæmt ákvæði til bráðabirgða.
    Við undirbúning þessa frumvarps hafa komið fram andstæð sjónarmið sem leitast hefur verið við að sætta. Annars vegar eru sjónarmið heildarsamtakanna Landssambands smábátaeigenda sem hafa verið eindregið andsnúin breytingum á reglum um hámarksstærðir krókaaflamarksbáta með þeim rökum að með því væri gengið gegn þeirri sátt sem náðist um stærð þeirra á Alþingi vorið 2002. Hins vegar eru sjónarmið sem einkum gætir hjá eigendum stærstu línubátana sem hafa beitningarvélar um borð sem þrengt geta að annarri vinnuaðstöðu. Þeir hafa eindregið óskað eftir því að hámarksstærð bátanna verði aukin, en hægast er um þetta að vísa til umsagna sem bárust atvinnuveganefnd við meðferð sambærilegs frumvarps á 141. löggjafarþingi 2012–2013 (þingskjal 1133 – 447. mál). Með ákvæðum 1. gr. frumvarpsins er leitast við að koma til móts við sjónarmið þessara aðila, án þess að raska hámarksstærðum krókaaflamarksbáta að mun. Þá hefur einnig verið litið til þeirrar einföldunar sem felst í tillögu um að taka upp evrópskar skráningarreglur fyrir þennan fiskiskipaflokk.

B. Breytingar á reglum um strandveiðar.
    Með 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á reglum um strandveiðar. Annars vegar er mælt skýrt fyrir um að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar með auglýsingu þegar viðmiðunarafla er náð, en það er í samræmi við eðlilega framkvæmd, sbr. nú 5. mgr. 4. gr. reglugerðar um strandveiðar fiskveiðiárið 2012/2013. Hins vegar er lagt til að heimilt verði að setja nánari ákvæði um eignarhald á fiskiskipum á strandveiðum, til að varna því að sami eða sömu aðilar geri út fleiri en einn strandveiðibát, en það stríðir gegn markmiðum strandveiða.

C. Heimildir Fiskistofu til leyfissviptinga vegna grásleppu- eða strandveiða.
    Með 5. og 8. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði skýrt á um í lögum að ákvörðun um sviptingu leyfis til ýmist veiða á grásleppu eða samkvæmt strandveiðileyfi geti öðlast gildi, að öllu leyti eða að hluta til, frá og með næsta útgáfudegi veiðileyfis þess fiskiskips sem ákvörðunin beinist að. Vegna þeirra krafna sem gera verður til skýrleika viðurlagaheimilda er naumast hægt að líta svo á að fullnægjandi lagaheimild sé fyrir hendi, að óbreyttu, til slíkrar viðurlagaákvörðunar, þ.e. til að ákveða að viðurlög teljist frá heimiluðum veiðitíma fiskiskips á næsta heimilaða fiskveiðitímabili. Þetta er einkum bagalegt hvað varðar veiðar sem einungis eru heimilaðar lítinn hluta ársins þar sem sú staða getur komið upp, vegna eðlilegs málsmeðferðartíma, að leyfi sé fallið úr gildi (veiðitímabili lokið) áður en ákvörðun liggur fyrir.
    Verði frumvarpið að lögum mundi koma skýrt fram í ákvörðun Fiskistofu um sviptingu leyfis að hvaða leyti ákvörðunin tekur til þess leyfis sem veitt hefur verið. Það getur verið að öllu leyti, að hluta, eða að engu leyti, allt eftir því hversu mikið er eftir af viðkomandi veiðitímabili. Sé tímabilið að hluta eða öllu leyti þegar liðið er í ákvörðuninni vísað til þess leyfis sem kann að verða veitt síðar við útgáfu næsta veiðileyfis viðkomandi aðila, í samræmi við þær tillögur sem 5. og 8. gr. frumvarpsins hafa að geyma. Að auki er með tillögunni kveðið á um að þar til að réttaráhrifum leyfissviptingar er lokið sé óheimilt að flytja grásleppuveiðileyfi á viðkomandi bát.

D. Gjaldálagning vegna tegunda sem ekki eru aflamarkssettar.
    Í 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, er mælt fyrir um álagningu sérstaks gjalds vegna landaðs afla „sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur“. Það má draga í efa að þessi efnisafmörkun heimildar til álagningar gjalds, sem sett var með 17. gr. laga nr. 163/2006, um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlagaákvæði), sé nægilega skýr þannig að fullnægi kröfum stjórnsýsluréttar til gjaldtökuheimilda þegar kemur að veiðum á fiskstofnum sem ekki hafa verið aflahlutdeildarsettir en sæta öðrum takmörkunum á veiðum. Gott dæmi um þetta er lúðustofninn (hvítlúða), en nauðsynlegt reyndist að kveða á um allsherjarbann við veiðum á lúðu í ársbyrjun 2012, sbr. nú reglugerð nr. 470/2012. Verði tillaga 7. gr. frumvarpsins lögfest mun gildissvið laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla víkka þannig að ótvírætt verður heimilt að leggja gjald samkvæmt lögunum á landaðan lúðuafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lögð til ný regla um hámarksstærð krókaaflamarksbáta, en um forsendur hennar vísast til almennra athugasemda. Þess skal þó getið að orðalag greinarinnar um aðferðir við mælingu báta fylgir ákvæðum í reglugerð nr. 527/1997 um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum.

Um 2. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða sem varða strandveiðar. Fiskistofa mun annast framkvæmd þessara ákvæða, en þau munu hafa nokkurn kostnað í för með sér fyrir stofnunina og þá aðila sem sækjast munu eftir leyfi til strandveiða og verða að sæta kröfum um að leggja fram upplýsingar með umsókn sinni um eignarhald í félögum sem gera munu út strandveiðibáta.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að reglur um tilfærslu krókaaflamarkshlutdeilda taki mið af tillögum um hámarksstærð krókaaflamarksbáta. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar, sbr. þó athugasemd við 3. gr.

Um 5. gr.

    Með greininni er kveðið nánar á um heimildir Fiskistofu til leyfissviptinga vegna grásleppu- eða strandveiða þegar veiðitímabili er lokið, sjá einnig 8. gr. Nánar vísast til almennra athugasemda.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að við lögin verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að þeir bátar sem hafa veiðileyfi með krókaaflamarki og eru stærri en nemur hámarksstærð skv. 2. mgr. 4. gr. laga um stjórn fiskveiða, sbr. 1. gr. þessa frumvarps, skuli halda leyfi sínu til veiða með krókaaflamarki en verði bátar þessir stækkaðir, eftir samþykkt frumvarpsins, skuli þeir sviptir veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með næstu fiskveiðiáramótum. Í almennum athugasemdum er rakið að hér virðist einungis um einn bát að ræða sem samkvæmt þessu getur að óbreyttu ekki keypt til sín krókaaflahlutdeildir eða krókaaflamark, sbr. 3. og 4. gr. þessa frumvarps. Tekið skal fram að í þessu felst engin breyting fyrir útgerð bátsins, enda er honum þetta þegar óheimilt þar sem hann er stærri en 15 brúttótonn samkvæmt gildandi skráningarreglum.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa en gefnar eru í almennum athugasemdum.

Um 8. gr.

    Með greininni er kveðið nánar á um heimildir Fiskistofu til leyfissviptinga vegna grásleppu- eða strandveiða þegar veiðitímabili er lokið, sjá einnig 5. gr. Nánar vísast til almennra athugasemda.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006,
um stjórn fiskveiða, lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts
sjávarafla, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands,
með síðari breytingum (stærðarmörk krókaflamarksbáta,
strandveiðar, gjaldtökuheimildir, viðurlög).

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Frumvarpið er efnislega byggt á frumvarpi sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi, en náði þá ekki fram að ganga. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu frá núgildandi lögum eru í fyrsta lagi þær að lagðar eru til breytingar á ákvæðum um stærðir krókaaflamarksbáta. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á reglum um strandveiðar þar sem gert er ráð fyrir nánari ákvæðum um eignarhald á fiskiskipum á strandveiðum ásamt því að skerpa á reglum um framkvæmd strandveiða og er reiknað með að eftirlitshlutverk Fiskistofu vegna leyfisveitinga aukist við þetta. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heimildir Fiskistofu til leyfissviptinga vegna grásleppu- eða strandveiða verði gerð skýrari. Í fjórða lagi er svo gert ráð fyrir að lagastoð fyrir gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, verði styrkt þannig að ótvírætt sé að heimilt verði að leggja á gjald samkvæmt lögunum á söluandvirði landaðs lúðuafla, sem veiðst hefur sem meðafli, en vegna slæms ástands lúðustofnsins voru beinar veiðar á lúðu bannaðar í ársbyrjun 2012. Nokkuð hefur verið um það að lúða hafi veiðst sem meðafli og á árinu 2012 var landað rúmum 35 tonnum af lúðu samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Meðalverð á lúðu á fiskmörkuðum undanfarna mánuði hefur verið um 800–1.000 kr.kg. Ef gert er ráð fyrir að veiðar og verð á lúðu verði í líkingu við það sem var árið 2012 má gera ráð fyrir að tekjur vegna álagningar á lúðuafla geti verið í kringum 29 m.kr. á ári.
    Gera má ráð fyrir að breytingar á verkefnum Fiskistofu, sem í frumvarpinu felast, verði óverulegar og muni rúmast innan gildandi fjárheimilda stofnunarinnar. Þá má áætla að velta Verkefnasjóðs sjávarútvegsins geti aukist um 29 m.kr. vegna tekna af söluandvirði landaðs afla á lúðu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Rétt er að athuga til hliðsjónar að frá og með 1. september 2001 var auk krókaaflamarkskerfis fyrir hendi sóknarkerfi smábáta með framseljanlegum sóknardögum. Tekið var skýrt fram að slíkir bátar væru ekki 6 brúttótonn eða stærri, og var sérstaklega tekið fram að óheimilt væri að stækka þá yfir þau mörk, sbr. 1. gr. laga nr. 3 31. janúar 2002. Með lögum nr. 74 7. júní 2004 voru sóknarbátarnir færðir í krókaaflamarkskerfið og við upphaf fiskveiðiársins 2005/2006 voru ákvæði um stærðarmörk þeirra felld úr gildi, enda höfðu þau enga þýðingu lengur, sbr. 1. gr. laga nr. 42 12. júní 2006.