Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 5  —  5. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Guðmundur Steingrímsson.


1. gr.

    Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 79. gr. er heimilt, fram til 30. apríl 2017, að breyta stjórnarskránni með eftirfarandi hætti: Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Til þess að frumvarpið teljist samþykkt þarf það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst atkvæði 40 af hundraði allra kosningarbærra manna, og skal það staðfest af forseta lýðveldisins og telst þá gild stjórnarskipunarlög. Í heiti frumvarps til stjórnarskipunarlaga á þessum grundvelli skal koma fram tilvísun til ákvæðis þessa.
    Um þjóðaratkvæðagreiðsluna fer samkvæmt lögum.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi er nýkjörið Alþingi hefur samþykkt þau.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er samhljóða frumvarpi því til stjórnarskipunarlaga sem samþykkt var á 141. löggjafarþingi. Er það lagt óbreytt fyrir Alþingi á ný að afstöðnum almennum alþingiskosningum í samræmi við 79. gr. stjórnarskrárinnar.