Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 8  —  8. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna
um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir,
Oddný G. Harðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Guðbjartur Hannesson, Kristján L. Möller.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem fram fari samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2014.
    Jafnframt ályktar Alþingi að þær úttektir sem framkvæmdarvaldið hefur boðað á stöðu samninga og þróun innan Evrópusambandsins skuli unnar í samvinnu þings og ríkisstjórnar. Heimilt skal að kveðja til vinnunnar bæði erlenda og innlenda sérfræðinga. Niðurstöður úttektanna liggi fyrir 1. desember 2013 og verði þá þegar lagðar fram til umræðu á Alþingi og kynntar þjóðinni sameiginlega af Alþingi og ríkisstjórn til undirbúnings þjóðaratkvæðagreiðslu við sveitarstjórnarkosningarnar 2014.

Greinargerð.

    Skýr vilji umtalsverðs meiri hluta íslensku þjóðarinnar samkvæmt margítrekuðum skoðanakönnunum stendur til þess að viðræðum við Evrópusambandið verði lokið og besti fáanlegur samningur borinn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt liggur fyrir að þeir stjórnmálaflokkar sem meiri hluta hafa á Alþingi og mynda ríkisstjórn Íslands hafa lýst yfir að hlé verði gert á viðræðunum og þær ekki upp teknar nema fyrir liggi skýr vilji meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.
    Formenn beggja stjórnarflokkanna hafa hins vegar einnig gefið skýrt til kynna fyrir hönd sinna flokka að þeir séu fylgjandi því að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram á fyrri helmingi nýhafins kjörtímabils. Þannig lýsti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, yfir á opnum fundi 23. mars sl. að hann teldi heppilegt að hún yrði haldin á fyrri hluta nýhafins kjörtímabils. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur margítrekað sagt að frá hans bæjardyrum sé tímasetning ekki aðalatriði og sagt skýrt að hann sé ekki mótfallinn því að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna fari fram fyrr en seinna.
    Eins og staðan hefur þróast hafa því allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi lýst því með afdráttarlausum hætti að þeir séu fylgjandi því að þetta djúpstæða ágreiningsmál verði útkljáð með þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Hlé skapar óvissu meðal þjóðarinnar um framhald málsins, og áframhaldandi ágreining. Því telja flutningsmenn þingsályktunartillögunnar að það þjóni óskráðri friðarreglu þingsins og sé því farsælt fyrir vellíðan og hagsmuni þjóðarinnar að þing og ríkisstjórn sammælist um að eyða þessari óvissu sem fyrst. Farsælast sé því fyrir alla að útkljá deiluna um framhald viðræðnanna með þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verði við fyrstu hentugleika.
    Í þingsályktunartillögunni er því lagt til að nauðsynlegum úttektum, sem ríkisstjórnin hefur boðað, verði lokið í samvinnu þings og ríkisstjórnar fyrir 1. desember 2013, niðurstöðurnar teknar til rækilegrar umræðu á Alþingi og samhliða kynntar þjóðinni til að vekja umræður um kosti og galla aðildar. Í framhaldinu verði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningum til að tryggja að sem stærstur hluti þjóðarinnar taki þátt í atkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna.
    Undangengin ár hafa einkennst af hörðum átökum milli andstæðra fylkinga á Alþingi, sem gegnsýrt hafa samfélagið. Virðing Alþingis og traust á því hafa að sama skapi rýrnað. Ríkur vilji er til þess meðal þess Alþingis sem kosið var 27. apríl sl. að hverfa frá braut ágreinings og ófriðar. Gagnkvæmur vilji virðist vera til staðar milli andstæðra fylkinga á Alþingi til að innleiða ný vinnubrögð sátta og samvinnu – einnig í málum þar sem málefnalegur ágreiningur ríkir. Flutningsmenn fagna yfirlýsingum forustu stjórnarflokkanna í þessa átt, sem m.a. voru ítrekaðar margsinnis í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og spegluðust ríkulega í ræðum fulltrúa allra flokka við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra.
    Í anda þess samráðs sem boðið er upp á af beggja hálfu leggja því flutningsmenn til að þingið og ríkisstjórnin vinni saman að gerð þeirra tveggja úttekta sem ríkisstjórnin telur forsendur þjóðaratkvæðagreiðslu, og sömuleiðis að kynningu niðurstaðnanna meðal þjóðarinnar.
    Rík rök standa til þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrr en seinna. Mikilvægur árangur hefur þegar náðst í viðræðunum. Nú þegar er búið að opna til samninga 27 kafla af þeim 33 sem um þarf að semja, um 11 þeirra er þegar búið að ljúka samningum, samningar voru fram að kosningum í gangi um 16 kafla, samningsafstöður í tveimur köflum til viðbótar hafa verið afhentar frá Íslands hendi, gerð samningsafstöðu í landbúnaði er langt komin, og undirbúningur varðandi sjávarútvegskaflann er kominn vel áleiðis án þess að meiri háttar ágreiningur hafi komið upp í samningahópi um sjó, þar sem fulltrúar ólíkra hagsmunahópa og viðhorfa eiga sæti.
    Þá liggur jafnframt fyrir það álit erlendra ráðgjafa íslensku ríkisstjórnarinnar, Torben Foss, ráðgjafa íslensku ríkisstjórnarinnar, og helsta samningamanns Noregs um fiskveiðimál í seinni samningum Norðmanna, ásamt Knut Almestad, fyrrverandi forseta ESA, að sérstaða Íslands umfram Noreg og breytt viðhorf meðal fiskveiðiþjóða Evrópusambandsins geri að verkum að miklar líkur séu á því að Íslendingar nái fram helstu samningsmarkmiðum sínum, svo sem um sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði fyrir Ísland.
    Tekist hefur að gjörbreyta afstöðu Evrópusambandsins í lykilköflum. Það speglast m.a. í sérstökum fordæmalausum bréfum frá formennskuríkjum til samninganefnda um landbúnað og byggðamál, þar sem lögð er rík áhersla á að sérstaða Íslands verði tekin til greina þegar kemur til samninga. Þá má rifja upp að í Íslandsskýrslu ESB frá 2010 er beinlínis gengið út frá því að verði Ísland aðili muni það hafa í för með sér umtalsverðar (e. significant) breytingar á sjávarútvegsstefnu sambandsins, sem undirstrikar að ESB gerir sér nú grein fyrir að sambandið mun þurfa að semja um breytingar á sinni eigin fiskveiðistjórn við inngöngu Íslands.
    Mikilvægir áfangar náðust einnig á fundum sl. vetur þar sem Stefan Fühle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, lýsti fullum skilningi á kröfum Íslendinga um bann við innflutningi á lifandi dýrum, sem talið var að yrði eitt erfiðasta viðfangsefni samninganna. Sömuleiðis gaf Karel de Gucht, viðskiptastjóri sambandsins, út opinbera yfirlýsingu um að yrði af aðild Íslands yrði forræði og eignarhald Íslendinga á orkulindum sínum öldungis óbreytt.
    Hætta er á að þessi árangur úr viðræðunum tapist við hlé, og því meiri sem hléið verður lengra.
    Ekki eru síður rök fyrir að fá úr skorið sem fyrst með þjóðaratkvæðagreiðslu hvort viðræðum verður fram haldið, til að eyða óvissu um framtíðarstefnu Íslands til lengri tíma í gengis- og peningamálum. En þau eru nátengd aðildarumsókninni, eins og forsætisráðherra undirstrikaði í skrifuðum texta stefnuræðu sinnar. Fyrirkomulag gengis- og peningamála er sá þáttur efnahagsstefnunnar sem mestu mun ráða um samkeppnisstöðu Íslands á komandi árum, þar sem úrlausnarefnin eru ærin, og því mjög þýðingarmikið að skýrt sé hverjir séu valkostir þjóðarinnar og hverjir ekki.
    Seðlabanki Íslands tók með gjaldmiðilsskýrslu sinni frá sumrinu 2011 af skarið með að í myntmálum eru raunhæfir valkostir Íslands aðeins tveir: krónan, sem alltaf mun búa við einhvers konar höft, eins og fjármála- og efnahagsráðherra hefur nýlega lýst, eða taka upp evru á réttum tíma. Það er eðlileg lýðræðisleg krafa að þjóðin fái að velja um þessa þætti og fái sjálf að skera úr um hvort sá valkostur sem felst í upptöku evru verður þróaður áfram. Mikið er í húfi, fyrir utan stöðugleikann sem evrunni fylgdi, og má í því sambandi benda á nýlega birta útreikninga sem byggjast á því að vextir á Íslandi mundu lækka um 1,5% að jafnaði sem samsvarar á ári vaxtasparnaði fyrir heimili, fyrirtæki og hið opinbera upp á 90–110 milljarða á ári. Ótalinn er þá sparnaður í viðskiptakostnaði sem Seðlabankinn mat á tugi milljarða árlega.
    Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna eyðir þeirri óvissu sem lýst er í framangreindri umfjöllun. Flutningsmenn telja að úr því sem komið er sé best fyrir hagsmuni Íslands að henni verði eytt sem fyrst og þjóðin skeri úr um hvort hún vill halda áfram samningum um aðild eða taka næsta mál á dagskrá – uppbyggingu Íslands utan Evrópusambandsins á grundvelli íslensku krónunnar.