Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 12  —  12. mál.
Tillaga til þingsályktunarum frestun á innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að senda tilmæli til Íbúðalánasjóðs og áskorun til lífeyrissjóða og fjármálastofnana um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Greinargerð.


    Í aðdraganda alþingiskosninganna og í tengslum við myndun núverandi ríkisstjórnar voru gefin út mjög afdráttarlaus loforð um aðgerðir í þágu skuldugra heimila, þar á meðal var heitið verulegri lækkun á höfuðstól lána. Þetta hefur skapað væntingar en jafnframt leitt til óvissu.
    Nú hefur komið á daginn að engar tillögur liggja fyrir og að þær aðgerðir sem gripið verður til í sumar eru innihaldsrýrar og hafa eftir því sem séð verður enga þýðingu í bráð. Þannig er óljóst hvaða þýðingu lögfesting á flýtimeðferð dómsmála í gengislánum hefur, sbr. nýtt frumvarp innanríkisráðherra þar að lútandi, þar sem tafir í slíkum málum verða fremur raktar til málsaðila dómsmálanna en til dómstólanna, auk þess sem dómstólar eru nú í réttarhléi fram á haust. Því skal einnig haldið til haga að skammir frestir geta valdið þeim lántakendum tjóni sem eru í baráttu við fjármálafyrirtæki með her sérfræðinga, bæði lögmanna og sérfræðinga í endurútreikningum. Ákvæði frumvarpsins mun ekki leysa neinn verulegan vanda enda hafa stefnumarkandi dómsmál í raun verið að uppistöðu til unnin eins hratt og unnt er með samkomulagi aðila, sbr. nýjan dóm Hæstaréttar (Plastiðjan gegn Landsbankanum).
    Eftir sem áður er staðhæft að verulegra aðgerða sé að vænta sem muni rétta hlut lántakenda. Fyrir fólk sem komið er í greiðsluþrot eða er í þann veginn að missa heimili sitt skiptir sköpum að fá boðaða úrlausn sem allra fyrst, megi það verða til að forða frá heimilismissi eða gjaldþroti. Einnig skal halda því til haga að ákveðin biðstaða hefur myndast á fasteignamarkaði og í úrvinnslu greiðsluerfiðleikamála. Er ástæðan m.a. væntingar einstaklinga til þess að fá lausn sinna mála og er mikilvægt að koma til móts við þann hóp. Ef úrræði ríkisstjórnarinnar ganga eftir gæti ákveðinn hópur fengið lausn sinna mála án greiðsluerfiðleikaúrræða, svo sem greiðsluaðlögunar eða gjaldþrots. Af þessum sökum er mikilvægt að kanna þessa leið til að einstaklingar geti notið þessara úrræða og hlýtur það að vera auðsótt þar sem ríkisstjórnin hefur gefið loforð um skjótar efndir.
    Þess vegna er hér lagt til að á meðan tillögur ríkisstjórnarinnar eru í vinnslu verði Íbúðalánasjóði gefin fyrirmæli um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum send samsvarandi áskorun.