Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 24  —  4. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla,
og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands,
með síðari breytingum (stærðarmörk krókaaflamarksbáta,
strandveiðar, gjaldtökuheimildir, viðurlög).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Meiri hluti nefndarinnar leggur til verulegar breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Það gerir hann í skugga þeirrar staðreyndar að frumvarpsgreinin er afurð málamiðlana á milli hóps sem barðist fyrir breytingum og hóps sem vildi standa vörð um óbreytta smábátaútgerð á Íslandi.
    Á síðasta löggjafarþingi fjallaði nefndin um frumvarp sem hafði að geyma ákvæði um stærðarmörk krókaaflamarksbáta (447. mál á 141. löggjafarþingi). Við það tilefni kom afstaða Landssambands smábátaeigenda skýrt í ljós, m.a. að aðalfundir aðildarfélaga sambandsins hefðu í október 2012 svarað því neitandi hvort breyta ætti stærðarmörkum krókaaflamarksbáta. Taldi sambandið ljóst að slík breyting mundi veikja krókaaflamarkskerfið. Á fundum nefndarinnar í vor ítrekaði sambandið framangreint sjónarmið. Þá kom einnig fram að sambandið teldi róttækar breytingar á stærðarmörkunum geta falið í sér eðlisbreytingu á krókaaflamarkskerfinu, farið yrði úr smábátakerfi með áherslu á sjálfbærar og náttúruvænar veiðar yfir í útgerð í verksmiðjustíl.
    Allt fram til gildistöku laga nr. 3/2002, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var óheimilt að veita bátum sem væru 6 brúttótonn eða stærri leyfi til handfæra með dagatakmörkunum auk þess sem óheimilt var að stækka báta sem fengið höfðu slík leyfi. Ákvæðinu var næst breytt með lögum nr. 85/2002 þar sem 6 brúttótonna viðmiðinu var breytt í 15 brúttótonn. Hinn 28. apríl 2008 ritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið bréf þar sem fram kom að skv. 5. mgr. 12. gr. og 8. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða væri aðeins heimilt að færa krókaaflamark og krókaaflahlutdeild til báta sem væru undir 15 brúttótonnum að stærð en færi bátur yfir 15 brúttótonna stærðarmörkin gæti hann haldið leyfi til veiða í krókaaflamarki en ekki flutt til sín aflaheimildir í krókaaflamarki. Í kjölfar bréfsins var einn bátur, Bíldsey SH 65, stækkaður upp fyrir framangreind stærðarmörk. Allar götur síðan hefur þrýstingur á hækkun stærðarmarka krókaaflamarksbáta verið mikill.
    Á fundum nefndarinnar var ítrekað bent á að skipstjórnar-, vélstjóra- og stýrimannaréttindi fyrir smáskip miðist við 12 m skráningarlengd. Gera má ráð fyrir að stærri bátar muni í einhverjum tilvikum krefjast fleiri sjómanna með umfangsmeiri réttindi.
    Minni hlutinn telur að þar sem meiri hlutinn ákvað að leggja til svo róttækar breytingar á stærðarmörkum krókaaflamarksbáta hefði verið rétt að skapa eitthvert mótvægi til að tryggja að eðli kerfisins breyttist ekki um of. Að mati minni hlutans hafa tillögurnar skapað verulega hættu á að samþjöppun krókaaflamarks á fáar hendur og forsendur krókaaflamarkskerfisins bresti. Smábátaútgerð hefur verið skilgreind á alþjóðlegum grundvelli. Hún nýtur sérstöðu og ekki er heimilt að færa krókaaflamark upp í aflamarkskerfið heldur eingöngu öfugt. Þannig hefur tilvist þess verið tryggð. Að mati minni hlutans er veruleg hætta á að í framhaldinu aukist þrýstingur á opnun milli kerfanna.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er að finna tillögu um svokallaðan Byggðastofnunarbyggðakvóta. Þá tillögu styður minni hlutinn. Þessa tillögu lagði meiri hluti atvinnuveganefndar fram nær orðrétta á síðasta þingi en hún var ekki afgreidd. Vandi þeirra byggðarlaga sem slíkum kvóta er ætlað að mæta er alvarlegur. Betur hefði farið á því að hann hefði verið Byggðastofnun til ráðstöfunar fyrr og tillagan hefði verið samþykkt fyrir þingfrestun í vor, það er í raun sorglegt að svo varð ekki.
    Að lokum harmar minni hlutinn að í frumvarpinu er ekki að finna tillögu um að tryggja strandveiðum fasta hlutdeild í heimiluðum heildarafla. Slíka tillögu lagði meiri hluti atvinnuveganefndar til á síðasta löggjafarþingi. Samþykkt hennar hefði tryggt grundvöll strandveiðikerfisins og eðlilega hlutdeild þess í auðlind í eigu þjóðarinnar.

Alþingi, 19. júní 2013.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.