Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 27  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991,
með síðari breytingum (flýtimeðferð).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd, Ástu S. Helgadóttur og Hjörleif Gústafsson frá umboðsmanni skuldara og Þorgeir Inga Njálsson frá dómstólaráði. Umsagnir bárust frá ASÍ, dómstólaráði, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, umboðsmanni skuldara og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um að þegar ágreiningur í dómsmáli lýtur að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga þá skuli meðferð slíks máls hraðað. Gert er ráð fyrir að heimild þessi sé til bráðabirgða á meðan greitt er úr þeim ágreiningi sem enn er til staðar og falli hún niður 1. janúar 2015.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram að nokkur ágreiningsatriði um lögmæti fjárskuldbindinga væru enn óleyst og mikilvægt væri að niðurstaða í þeim málum fáist hið fyrsta. Jafnframt var nefndinni tjáð að ágreiningsmál er varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja hefðu fengið hraðari málsmeðferð hjá dómstólunum upp að nokkru marki en brýnt væri að veita dómara styrka lagastoð til þess að taka fram fyrir önnur mál sem lúta að ágreiningi á þessu sviði. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.
    Í nefndinni var nokkuð rætt um málsforræðisreglu einkamálaréttarfars en samkvæmt henni er aðilum einkamáls almennt frjálst að ráðstafa sakarefni málsins með einhliða athöfnum eða athafnaleysi af sinni hálfu. Nefndin áréttar að frumvarpið víkur málsforræðisreglunni ekki til hliðar. Nefndin bendir á að í frumvarpinu felist sú heimild til handa dómara að sjá til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Þetta á bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.
    Fram kom í máli umsagnaraðila að til þess að tryggja að mál sem frumvarpinu er ætlað að ná til fái raunverulega flýtimeðferð færi betur á því að vísa um meðferð til XIX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um flýtimeðferð. Nefndin ræddi þetta nokkuð og bendir á að fái mál flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna, er dómara m.a. heimilt að ákveða styttri þingfresti en ella. Nefndin vill í þessu sambandi árétta þau sjónarmið sín að flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna er ekki til þess fallin að henta slíkum ágreiningsmálum sem hér um ræðir þar sem þau eru í flestum tilfellum umfangsmikil og flókin en fram kom í umsögn dómstólaráðs að við Héraðsdóm Reykjavíkur eru til meðferðar um það bil 60 mál af framangreindum toga.
    Það er mat nefndarinnar að gefa verði dómstólunum og aðilum máls visst svigrúm í þessum efnum, skoða verði hvert mál fyrir sig og varast verði að flýtimeðferðin komi niður á málsmeðferðinni.
    Nefndin bendir á að nauðsynlegt sé að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsemi dómstólanna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Helgi Hrafn Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Svandís Svavarsdóttir skrifar undir mál þetta með fyrirvara sem lýtur að því að þrátt fyrir að yfirlýst markmið frumvarpsins, um að greiða fyrir afgreiðslu dómstóla á málum sem hafa fordæmisgildi um uppgjör gengistryggðra lána, sé í sjálfu sér eftirsóknarvert, enda mikilvægt að þeim málum sé flýtt eins og kostur er, hefur komið fram að dómstólar hafa þegar sett þessi mál í forgang. Verður því ekki séð að frumvarp þetta breyti miklu um núverandi stöðu, hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstólana sjálfa.
    

Alþingi, 20. júní 2013.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Guðbjartur Hannesson.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir,


með fyrirvara.



Vilhjálmur Árnason.


Elsa Lára Arnardóttir.