Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 35  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.), nr. 146/2012 (virðisaukaskattur á ferðaþjónustu).

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpinu felst tillaga um að virðisaukaskattur af útleigu hótel- og gistiherbergja og sölu af annarri gistiþjónustu verði 7% af skattskyldri veltu, eins og verið hefur frá árinu 2007, en ekki 14% eins og Alþingi samþykkti við afgreiðslu frumvarps þess sem síðar varð að lögum nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Lögfesting frumvarpsins felur í sér 535 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs á yfirstandandi ári og 1,5 milljarða kr. tap á því næsta. Ljóst er að verði frumvarpið að lögum muni það kalla á frekari tekjuöflun á öðrum sviðum eða frekari niðurskurð.
    Þá þykir 3. minni hluta frumvarpið enn sérkennilegra í ljósi blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar um erfiða stöðu ríkisfjármála hinn 12. júní síðastliðinn.
    Þær hækkanir sem ákveðnar voru á síðastliðnu löggjafarþingi með lögum nr. 146/2012 voru mildaðar úr 25,5% í 14% og gildistöku laganna frestað á grundvelli þeirra röksemda að búið væri að verðleggja gistingu á þessu ári. Á þeim forsendum má ætla að búið sé að gera ráð fyrir breytingunni og að tekið sé mið af henni í verðlagi gistiþjónustunnar frá 1. september 2013.
    3. minni hluti undirstrikar að almennt sé sjálfsagt að endurskoða heildstætt virðisaukaskattkerfið og skattlagningu á ferðaþjónustu. Mikilvægt er að tryggja nauðsynlegt fjármagn til uppbyggingar, varðveislu og viðhalds ferðamannastaða hér á landi. 3. minni hluti minnir á að í fjárfestingaráætlun fráfarandi ríkisstjórnar var gert ráð fyrir átaki til að efla innviði á ferðamannastöðum hér á landi með sérstöku 500 millj. kr. viðbótarframlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, auk þess sem 250 millj. kr. yrði varið til uppbyggingar í þjóðgörðum og á friðuðum svæðum. Nauðsyn slíkrar eflingar er augljós og brýn. Verði frumvarp þetta samþykkt er mikilvægt að umrædd framlög verði ekki skorin niður en ekkert kemur fram í frumvarpinu um hvort ríkisstjórnin hyggst fylgja eftir þeim áformum sem fram komu í fjárfestingaráætluninni.
    Ríkissjóður þarf á auknum skatttekjum að halda. Ljóst er að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu hefur minnst áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með á skuldir heimilanna og verðbólgu í landinu.
    3. minni hluti hvetur til heildarendurskoðunar á skattlagningu ferðaþjónustunnar og til herts skattaeftirlits. Þá leggur hann til að frumvarpið verði ekki samþykkt.

Alþingi, 24. júní 2013

Helgi Hjörvar.