Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 30. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 67  —  30. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (samkomudagur reglulegs Alþingis haustið 2013).


Frá forsætisráðherra.


1. gr.

    Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 1. gr. skal reglulegt Alþingi 2013, 143. löggjafarþing, koma saman þriðjudaginn 1. október, sbr. 35. gr. stjórnarskrárinnar. Sama dag lýkur 142. löggjafarþingi sem var sett 6. júní 2013.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta felur í sér að samkomudegi nýs þings haustið 2013 verður frestað frá öðrum þriðjudegi í september (10. september), eins og lög ákveða núna, til þriðjudagsins 1. október 2013, eða um þrjár vikur. Er það gert til þess að betra ráðrúm fáist til þess að undirbúa fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 til framlagningar á þingsetningarfundi haustið 2013, svo og þær skattalagabreytingar og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem því fylgja, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Ákvæði 42. gr. stjórnarskrárinnar bindur saman þingsetningardaginn og framlagningu fjárlagafrumvarps.
    Jafnframt er ráðgert að yfirstandandi sumarþingi, 142. löggjafarþingi, verði frestað frá júlíbyrjun fram til annars þriðjudags í september, þ.e. 10. september, en þá verði haldnir þingfundir í nokkra daga. Að þeim fundadögum loknum verður 142. löggjafarþingi þá enn frestað til 1. október, þ.e. fram til þess að nýtt löggjafarþing verður sett eins og ákvæði þessa frumvarps mælir fyrir um.
    Í 1. mgr. 35. gr. stjórnarskrárinnar eru ákvæði um samkomudag reglulegs Alþingis en þar segir að hann skuli vera 1. október ár hvert. Þeirri tímasetningu má samkvæmt ákvæði 2. mgr. sömu greinar breyta með lögum. Svo var gert með lögum nr. 84/2011 (um breytingu á þingsköpum) og samkomudagurinn þá ákveðinn annar þriðjudagur í september. Aðstæður að þessu sinni eru hins vegar óvenjulegar þar sem kosningar fóru fram í lok apríl, ný ríkisstjórn var mynduð undir lok maímánaðar og nýkjörið þing kom fyrst saman 6. júní. Hafa þingstörf nú dregist fram yfir þann tíma sem sumarhlé þingsins á að hefjast að öllu jöfnu, þ.e. 1. júlí. Er því illframkvæmanlegt að ljúka eðlilegri vinnu við fjárlagafrumvarp og við frumvörp um skattamál og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir 10. september. Af þeim ástæðum er frumvarp þetta flutt.
    Samkomudegi Alþingis hefur áður verið breytt til bráðabirgða eftir 1991 þegar gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um samkomudaginn var sett. Það var gert í góðu samkomulagi árið 1992. Var samkomudeginum þá flýtt til 17. ágúst (í stað 1. október) til þess að skapa betra rými á haustþingi til umræðna um EES-samninginn sem svo var endanlega samþykktur í janúar 1993. Frumvarp þetta er samið með hliðsjón af þeirri lagabreytingu.