Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 30. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 75  —  30. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991,
með síðari breytingum (samkomudagur reglulegs Alþingis haustið 2013).

Frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið en með því er lagt til að næsta löggjafarþing, 143. þing, komi saman 1. október. Í 35. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að reglulegt Alþingi komi saman þann dag en jafnframt að samkomudegi þingsins megi breyta með lögum. Slík breyting var gerð á þingsköpum Alþingis með lögum nr. 84/2011 og samkomudagur Alþingis ákveðinn annar þriðjudagur í september ár hvert. Fyrsta þing samkvæmt hinni nýju reglu var 141. þing sem var sett 11. september 2012.
    Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar skal þegar er reglulegt þing er saman komið leggja fyrir það frumvarp til fjárlaga. Þessi regla er áréttuð í 25. gr. þingskapa en þar er einnig að finna ákvæði um að samhliða fjárlagafrumvarpi eigi að leggja fram frumvörp um breytingar á lögum sem útgjöld og tekjur fjárlagafrumvarpsins byggjast á. Þetta nýmæli hefur ekki enn komið til framkvæmda en átti að taka gildi í 1. september 2013. Gildandi lög gera því ráð fyrir að hinn 10. september 2013 komi 143. löggjafarþing saman og þá sé lagt fram fjárlagafrumvarp, svo og frumvörp um áætlaðar tekjuöflunaraðgerðir og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum. 1. minni hluti áréttar að mikilvægt er að nægt ráðrúm sé til að undirbúa þessi frumvörp. Vanda þarf til verka og leggja ber raunhæf frumvörp fyrir þingið. Í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi er bent á að illframkvæmanlegt sé að ljúka eðlilegri vinnu við þessi frumvörp fyrir 10. september nk. Mikilvægt er að lögð séu fram heildstæð og raunhæf frumvörp svo að umfjöllun þings og þingnefnda geti verið skilvirk og fagleg.
    Samkvæmt 35. gr. stjórnarskrárinnar skal löggjafarþing standa „til jafnlengdar næsta árs“. Verði frumvarpið óbreytt að lögum ætti 143. löggjafarþing því að standa til 1. október 2014 og nýtt þing gæti þá ekki hafist í samræmi við 4. mgr. 1. gr. þingskapa. Ljóst er þó að ekki er ætlun að breyta samkomudegi Alþingis nema þetta eina sinn. Leggur 1. minni hluti því til breytingu á frumvarpinu til að tryggja að unnt verði að hefja 144. löggjafarþing annan þriðjudag í september 2014.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. bætist ný efnismálsgrein, svohljóðandi:
    143. löggjafarþing skal standa fram til samkomudags reglulegs Alþingis 2014, annars þriðjudags septembermánaðar það ár, sbr. 4. mgr. 1. gr.

Alþingi, 4. júlí 2013.

Brynjar Níelsson,
frsm.
Karl Garðarsson.
Pétur H. Blöndal.

Willum Þór Þórsson.