Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 24. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 93  —  24. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn
Björns Vals Gíslasonar um afslátt af veiðigjöldum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mikill afsláttur af veiðigjaldi hefur verið veittur til félags eða einstaklings með atvinnurekstur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum:
     a.      í heild,
     b.      eftir útgerðarflokkum,
     c.      eftir félögum, skipt niður á einstök félög,
     d.      eftir einstaklingum með atvinnurekstur, skipt niður á einstaklinga?


Um a-lið.
    Með reglugerð nr. 838/2012, um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds, er mælt fyrir um heimild Fiskistofu til að ákveða hverju sjávarútvegsfyrirtæki, að uppfylltum nánari skilyrðum, tiltekinn hámarksrétt, í krónum talinn, til lækkunar sérstaks veiðigjalds. Reiknuð heildarfjárhæð lækkunar sérstaks veiðigjalds á hverju fiskveiðiári ræðst af því hversu hátt sérstaka veiðigjaldið er, enda getur lækkun álagningar á hvert útgerðarfélag að hámarki numið öllu álögðu sérstöku veiðigjaldi. Hámarksréttur hvers félags tekur breytingum milli fiskveiðiára í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs. Réttur til lækkunar sérstaks veiðigjalds fellur niður að fimm árum liðnum og ella ef gjaldandi veiðigjalds selur eða lætur með öðrum hætti frá sér keypta aflahlutdeild. Um þetta eru nánari fyrirmæli í 10. gr. reglugerðar nr. 838/2012.
    29. ágúst 2013 nam heildarlækkun sérstaks veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2012/2013 um 2.720 millj. kr. Þetta er umtalsvert meiri afsláttur en gert var ráð fyrir við setningu laga um veiðigjöld, nr. 74/2012, en þá var talið að þessi ívilnun mundi nema um 1.500 millj. kr. fyrir fiskveiðiárið. Í september verður lagt sérstakt veiðigjald á landaðan afla sem er utan aflamarkskerfis. Ekki er hægt að segja til um á þessari stundu hversu mikil sú álagning verður eða hversu miklar lækkanir verða á þeirri álagningu. Fiskistofa mun birta upplýsingar um heildarálagningu og heildarfjárhæð lækkana fiskveiðiársins 2012/2013 þegar álagningu er að fullu lokið.

Um b-lið.
    Ef lækkun veiðigjalds er skipt eftir útgerðarflokkum samkvæmt lögum nr. 74/2012, þá nam lækkunin 2.717.129.868 kr. vegna botnfisks (99,912% lækkunarréttar) og 2.392.088 kr. vegna uppsjávarfisks (0,088% lækkunarréttar). Um 22% lækkunar eru vegna krókabáta, 30% vegna skuttogara og 48% vegna annarra aflamarksbáta.

Um c- og d-lið.
    Ákvarðanir um lækkun sérstaks veiðigjalds eru m.a. byggðar á upplýsingum úr skattframtölum sem afhentar eru Fiskistofu í trúnaði. Í lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, er ekki mælt fyrir um heimild til birtingar á upplýsingum um álagningu veiðigjalda. Þá sýnist ljóst að upplýsingar um lækkun veiðigjalda hjá einstökum gjaldendum geta talist til upplýsinga um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt og eðlilegt er að fari leynt, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Af þeim sökum verða ekki veitt svör við þessum hluta fyrirspurnarinnar.