Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 97  —  28. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar og
Edwards H. Huijbens um tekjulækkun ríkissjóðs.


     1.      Af hversu miklum tekjum verður ríkissjóður á ári við að framlengja ekki gildistíma svonefnds auðlegðarskatts? Hefur verið gripið til eða stendur til að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs af þessum sökum?
    Samkvæmt núgildandi lögum verður auðlegðarskattur lagður á í síðasta sinn gjaldárið 2014 á grundvelli eignastöðu gjaldenda í árslok 2013. Verði skatturinn ekki framlengdur í núverandi mynd verða áætluð bein áhrif á tekjur ríkissjóðs 9,7 milljarðar kr. árið 2015 að öðru óbreyttu.
    Rétt er að árétta að hér er um bein áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs að ræða. Hafa verður í huga að brottfall auðlegðarskatts mundi að óbreyttu auka ráðstöfunartekjur einstaklinga og þar með almenna eftirspurn, þ.m.t. fjárfestingar og einkaneyslu, sem aftur mundi skila sér í auknum veltusköttum hjá ríkissjóði. Á hinn bóginn er útilokað að meta þau áhrif í krónum og aurum, auk þess sem þau koma fram á lengri tíma en einu ári.

     2.      Af hversu miklum tekjum verður ríkissjóður á ári vegna fyrirhugaðrar lækkunar á veiðigjöldum miðað við áætlun veiðigjaldanefndar um væntanlegar tekjur? Hefur verið gripið til eða stendur til að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs af þessum sökum?
    Í lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, er sérstakri nefnd, veiðigjaldsnefnd, falið að ákvarða sérstakt veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár sem ráðherra birtir ásamt almennu veiðigjaldi í reglugerð fyrir 15. júlí ár hvert. Vegna hnökra í eldri lagasetningu tókst veiðigjaldsnefnd ekki að afla nauðsynlegra gagna til að meta mætti auðlindarentu veiða og vinnslu, sem er undirstaðan í álagningu sérstaka veiðigjaldsins, í tæka tíð fyrir komandi fiskveiðiár. Þessi staða kallaði á breytingar á lögunum sem samþykktar voru í júní sl. í þá veru að álagning almenna og sérstaka veiðigjaldsins var fastsett fyrir fiskiveiðiárið 2013/2014 með líkum hætti og á nýliðnu fiskveiðiári 2012/2013.
    Eins og segir í greinargerð með umræddri lagabreytingu er með þessu verið að skapa svigrúm til endurskoðunar laganna á komandi þingi í ljósi stefnumótunar ríkisstjórnarinnar og þeirrar gagnrýni sem að þeim hefur beinst, sem og þeim erfiðleikum sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra. Við fastsetningu gjaldanna var við það miðað að innheimt veiðigjöld næmu 9,8 milljörðum kr. á árinu 2014. Þetta felur í sér lækkun gjaldsins frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði reiknað með, eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu.

Áhrif á tekjuáætlun ef veiðigjöld nema 9,8 milljörðum kr.
2013/2014 og 2014/2015, milljarðar kr.

2013 2014
Rekstrargrunnur Greiðslugrunnur Rekstrargrunnur Greiðslugrunnur
Fjárlög 2013 13,5 12,6 16,2 14,5
Eftir breytingar (frumvarp) 10,3 11,7 9,8 9,8
Munur -3,2 -0,9 -6,4 -4,7

    Einnig þarf að horfa til þess að veiðigjöld teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að öðru óbreyttu ætti því lækkun veiðigjalda að auka tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja um allt að 20% af lækkun veiðigjalda, þar sem lægri veiðigjöld leiða til minni frádráttar frá tekjum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Af hversu miklum tekjum verður ríkissjóður á ári vegna ákvörðunar Alþingis um að hætta við hækkun virðisaukaskatts á gistingu? Hefur verið gripið til eða stendur til að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs af þessum sökum?
    Hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu úr 7% í 14% átti að taka gildi 1. september 2013. Áhrif þess að falla frá hækkuninni á tekjuáætlun ríkissjóðs eru sýnd í töflunni hér fyrir neðan. Í tölunum er ekki tekið tillit til þess hagræðis sem fellst í því að falla frá fjölgun skattþrepa í virðisaukaskatti.

Tekjuáhrif 14% virðisaukaskatts í stað 7%
á gistiþjónustu, millj. kr.

Rekstrargrunnur Greiðslugrunnur
2013 535 535
2014 1.400 1.400

    Nú er unnið að gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014 og munu áform ríkisstjórnar til að mæta fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs liggja fyrir 1. október nk. Það svar á einnig við um fyrri liði fyrirspurnarinnar.