Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 39. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 101  —  39. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.



Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa nefnd með þátttöku hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka er geri tillögu að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu. Nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014.

Greinargerð.

    Rannsóknir á stöðu hinsegin fólks hér á landi og úttekt Evrópudeildar alþjóðasamtaka hinsegin fólks, ILGA-Europe, á stöðu og framkvæmd málefna hinsegin fólks í Evrópulöndum sýnir að þessi mál eru að mörgu leyti í góðu horfi hér á landi og það er gleðilegt að á Alþingi hefur iðulega náðst samstaða meðal ólíkra stjórnmálaafla um réttarbætur í þágu hinsegin fólks sem sýnir að það á sér víða málsvara. En þrátt fyrir þetta væri óráð að telja að ekki sé þörf fyrir að gera betur. Athygli vakti vorið 2013, þegar kynnt var svokallað regnbogakort ILGA-Europe, sem er mælikvarði á lagalega stöðu hinsegin fólks í Evrópulöndum, að Ísland var þar í 10. sæti af 49 ríkjum sem athuguð voru. Með 56 stig var Ísland á svipuðum stað og Danmörk en nokkru neðar en Noregur og Svíþjóð. Stóra-Bretland hlaut hæsta einkunn með 77 stig. Meðal þess sem kannað var þegar kortið var útbúið var virðing fyrir funda-, félaga- og tjáningarfrelsi, löggjöf og stefna gegn mismunun, hælisveitingar, lagaleg staðfesting á kyni, vernd gegn hatursorðræðu og fjölskylduviðurkenning. Athuganir ILGA-Europe benda til þess að hérlendis vanti enn nokkuð upp á að tryggja hinsegin fólki fyllstu réttindi og að tilvera þess og lífshættir njóti virðingar og verndar á borð við það sem gagnkynhneigðum er tryggt.
    Meðal þess sem kom fram á hátíðarfundi Samtakanna ´78 sumarið 2013 var að ástæða væri til að fylgja eftir hinni þörfu löggjöf um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunvarvanda, nr. 57/2012. Mikilvægt þykir að reynslan af löggjöfinni verði greind og nýtt til frekari umbóta á stöðu transfólks, m.a. með lagabreytingum ef þörf þykir. Einnig er mikilvægt að skoða aðra löggjöf þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Má þar sérstaklega nefna lög um mannanöfn og þjóðskrá þannig að unnt verði að bera nafn þvert á skráð kyn og lög um ættleiðingar þannig að hægt verði að jafna rétt allra á þeim vettvangi. Þá er ljóst að unnt er að gera betur þegar kemur að fræðslu um málefni hinsegin fólks hvort sem er í skólum, á almennum vettvangi samfélagsins eða meðal hinsegin fólks og aðstandenda þeirra. Þá ber að nefna að varnir gegn hatursorðræðu eru ófullkomnar í íslenskri löggjöf og sjálfsagt er að laga eyðublöð og önnur skráningarform hins opinbera að þeirri staðreynd að ekki eru allir landsmenn gagnkynhneigðir.
    Mikilvægt er að nýtt verði reynsla þeirra frjálsu félagasamtaka sem hafa sinnt málefnum hinsegin fólks á undanförnum árum og áratugum, svo sem Samtakanna ´78 og Félags hinsegin stúdenta, þegar að því kemur að miðla fræðslu og ráðgjöf til hinsegin fólks, aðstandenda þeirra og almennings.
    Talsvert margar úttektir og skýrslur hafa verið gerðar um málefni hinsegin fólks á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd á undanförnum árum. Má þar m.a. nefna niðurstöður samanburðarrannsókna á mismunun og lagalegri stöðu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks á Íslandi sem aðgengilegar eru á vef Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, skýrslu Evrópuráðsins um mismunum á grundvelli kynhneigðar og kynferðis í Evrópu, og fyrrgreinda ársskýrslu Evrópudeildar alþjóðasamtaka hinsegin fólks, ILGA-Europe. Margvíslegar upplýsingar liggja því fyrir um það með hvaða hætti er best unnt að bæta stöðu hinsegin fólks á Íslandi og einboðið er að nota þær sem fyrst í því skyni.