Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 48. máls.

Þingskjal 113  —  48. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (innri endurskoðun, skilyrði til greiðslu örorkulífeyris, meðferð framlags til starfsendurhæfingar, fjárfestingarheimildir, leyfilegur
munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 142. löggjafarþingi 2013.)




1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögum þessum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað.

2. gr.

    Á eftir 5. mgr. 15. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans.

3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí“ í 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: 15. maí.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      2. málsl. fellur brott.
     b.      Á eftir orðinu „endurskoðanda“ í 3. málsl. kemur: aðila sem annast innri endurskoðun.

5. gr.

    2. tölul. 3. mgr. 29. gr. laganna orðast svo: að ákveða hvernig innri endurskoðun skuli háttað, annaðhvort með því að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila.

6. gr.

    Í stað orðanna „innra eftirlit“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna kemur: innri endurskoðun.

7. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Rekstur, innra eftirlit og innri endurskoðun.

8. gr.

    Við 36. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú greiðir launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags, með því að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og skal sjóðnum þá heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum þessarar greinar.

9. gr.

    2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur reglugerð um form og efni fjárfestingarstefnu skv. 36. gr. og 36. gr. a og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar.

10. gr.

    3. málsl. 6. mgr. 40. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Orðin „og innra eftirliti, sbr. 35. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „VII. kafla laga um ársreikninga“ í 3. mgr. kemur: IX. kafla laga um ársreikninga.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      Á undan ártalinu „2011“ í 2. mgr. koma ártölin: 2008, 2009, 2010.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. og með vísan til 2. mgr. þessa ákvæðis er lífeyrissjóði heimilt að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í allt að sex ár frá og með árinu 2008.

13. gr.

    Í stað ártalsins „2013“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2014.

14. gr.

    Í stað orðanna „og 2015“ í ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 2015, 2016 og 2017.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lagt til að hugtakanotkun, þegar fjallað er um endurskoðun, verði færð til samræmis við notkun hugtaka í löggjöf á fjármálamarkaði, en þar er hugtakið „innri endurskoðun“ notað yfir það sem er nefnt „innra eftirlit“ á nokkrum stöðum í lögum nr. 129/1997. Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóði verði veitt heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í þriðja lagi er ráðherra falin heimild til þess að kveða nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögunum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Í fjórða lagi er lagt til að framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2016 og 2017. Í fimmta lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga, með skuldabréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum 36. gr. og í sjötta lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár eða til 31. desember 2014. Þá eru lagðar til tvær breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum. Fyrri breytingin er til þess að taka af allan vafa um vægi fyrra ákvæðis til bráðabirgða VI með vísan til fimm ára reglunnar í 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Með síðari breytingunni er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilt að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í sex ár frá og með árinu 2008. Að auki eru lagðar til smávægilegar breytingar sem varða m.a. reglugerðarheimildir, tilkynningar og fresti.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ákvæðin í 1.–11. gr., 13. og 14. gr. voru upphaflega í frumvörpum sem lögð voru fram á 141. löggjafarþingi (469. og 625. mál) en náðu ekki fram að ganga. Bæði frumvörpin voru unnin að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða. Þá hefur verið haft samráð við Fjármálaeftirlitið vegna ákvæðis a-liðar 12. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða nánar á um þau atriði sem eiga að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Þau atriði eru ekki talin upp í lögunum með beinum hætti en verða hins vegar leidd af ákvæðum laganna.


Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að binda greiðslu örorkulífeyris því skilyrði að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem geti bætt heilsufar hans, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins í þá veru. Samsvarandi ákvæði er í 16. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lagt er til að öðrum lífeyrissjóðum verði heimilt að byggja á slíkum sjónarmiðum og í því sambandi er sérstaklega litið til laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, þar sem m.a. er mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að frestur lífeyrissjóða til þess að skila tryggingafræðilegri athugun til Fjármálaeftirlitsins verði færður fram, eða til 15. maí ár hvert. Undanfarin ár hefur Fjármálaeftirlitið beint þeim tilmælum til lífeyrissjóða að flýta skýrsluskilum vegna tryggingafræðilegra athugana og því er þessi breyting lögð til.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að birting tilkynningar um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða í Lögbirtingablaði verði lögð af, enda þykir upplýsingagjöf lífeyrissjóða til sjóðfélaga skv. 2. mgr. 18. gr. laganna fullnægjandi, m.a. þegar litið er til upplýsinga er lúta að breytingum á samþykktum.
    Í b-lið er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að tilkynningarskylda gagnvart Fjármálaeftirlitinu tekur jafnt til breytinga á endurskoðanda og þeim aðila sem annast innri endurskoðun lífeyrissjóðs.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að ákvæði 2. tölul. 3. mgr. 29. gr. laganna lúti að því verkefni stjórnar að ákveða hvernig fyrirkomulagi innri endurskoðunar verði háttað, annaðhvort með því að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar, sem hefur það verkefni með höndum að annast innri endurskoðun, eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til þess að annast þá endurskoðun.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að orðin „innri endurskoðun“ komi í stað orðanna „innra eftirlit“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna og í því sambandi er vísað er til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Um 7. gr.

    Hér er lagt er til að heiti VI. kafla laganna endurspegli þá breyttu hugtakanotkun sem lögð er til í frumvarpi þessu.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðendur inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga, með útgáfu skuldabréfa sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum 36. gr. Þau skuldabréf sem hér er vísað til teljast til hreinnar eignar í skilningi 7. mgr. 36. gr.
    Aðilar, sem tryggðu starfsmenn í sjóðum með bakábyrgð ríkis eða sveitarfélags, ábyrgjast í einhverjum mæli hver fyrir sinn hóp greiðslur úr þeim. Stjórnum sjóðanna hafa verið veittar heimildir ýmist í lögum eða samþykktum til þess að taka við skuldabréfum til greiðslu á skuldbindingum sem verða leiddar af þessari ábyrgð launagreiðenda. Það þykir rétt að veita þessum lífeyrissjóðum heimildir til þess að eiga slík skuldabréf óháð ákvæðum 36. gr. með vísan til þess að það er mikilvægt að launagreiðendur eigi þess kost að greiða skuld sína við lífeyrissjóð með skuldabréfi og að jafnræðis launagreiðenda sé gætt í því tilliti. Með sama hætti er það mikilvægt fyrir lífeyrissjóðinn að fá skuldbindinguna greidda með skilgreindu greiðsluflæði. Það ákvæði sem hér er lagt til hefur ekki áhrif á stöðu bakábyrgðaraðila.

Um 9. og 10. gr.

    Í greinunum eru lagðar til breytingar á ákvæðum 2. mgr. 37. gr. og 3. málsl. 6. mgr. 40. gr. laganna þar sem í ákvæðunum er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji reglur, annars vegar um form og efni fjárfestingarstefnu skv. 36. gr. og 36. gr. a og hvernig henni skuli skilað til eftirlitsins og hins vegar um form og efni skýrslna um úttekt á eignasöfnum síðasta árs og fjárfestingarstefnu. Ráðherra hefur fjallað um þessi atriði í reglugerð nr. 916/2009, um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar, sem sett var með stoð í 56. gr. laganna. Ákvæði reglugerðarinnar hafa því leyst þær reglur sem ákvæðin kveða á um af hólmi og því eru þessar breytingar lagðar til.

Um 11. gr.

    Til samræmis við lagfæringar á hugtakanotkun um endurskoðendur, innri endurskoðun og innra eftirlit er í a-lið lagt til að orðin „og innra eftirliti, sbr. 35. gr.“ falli brott.
    Í b-lið er lagt til að tilvísun til laga um ársreikninga verði breytt með vísan til þess að IX. kafli laga nr. 3/2006, um ársreikninga, kom í stað VII. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga. Kaflarnir eru efnislega samhljóða.

Um 12. gr.

    Í a-lið er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að lífeyrissjóðum hafi verið heimilt að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga í tryggingafræðilegum athugunum fyrir árin 2008, 2009 og 2010, þegar fimm ára reglan í 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna er virt, án þess að bregðast við með breytingum á samþykktum sjóðanna. Ákvæðið um að heimilt væri að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga var fyrst sett í 13. gr. laga nr. 171/2008, um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Ákvæðið tók tvívegis breytingum, fyrst með 39. gr. laga nr. 130/2009, um ráðstafanir í skattamálum, þar sem mælt var fyrir um að árið 2009 skyldi koma í stað ársins 2008, og síðar með 41. gr. laga nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, þar sem mælt var fyrir um að árið 2010 skyldi koma í stað ársins 2009. Núgildandi ákvæði til bráðabirgða VI, þar sem mælt er fyrir um að miða skuli við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga fyrir árin 2011, 2012 og 2013 þegar metið er hvort lífeyrissjóður falli undir 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna, kom í stað eldra ákvæðisins. Það liggur því fyrir að það var heimilt að miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga árin 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012 og það verður enn fremur heimilt að miða við 10% mun fyrir árið 2013. Með vísan til þess er lagt til að öll umrædd ár verði tilgreind í ákvæðinu til þess að taka af allan vafa.
    Í b-lið er lagt til að heimilt verði að miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í sex ár í röð. Á undanförnum missirum hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins unnið að tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Nokkur atriði eru enn óútkljáð í þeirri vinnu. Því þykir rétt að að veita aðilum aukinn tímafrest til þess að leiða mál til lykta og því er lagt til að lífeyrissjóðum verði veitt aukið svigrúm til þess að hafa meiri mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga en nemur 10% í allt að sex ár frá og með árinu 2008.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að heimild til að lífeyrissjóður eigi allt að 20% af hlutafé í samlagshlutafélagi verði framlengd um eitt ár, til ársloka 2014.
    Lífeyrissjóðir hafa í talsverðum mæli fjárfest í samlagshlutafélögum undanfarin ár enda hentar það félagsform sjóðunum að mörgu leyti vel. Samlagshlutafélögin sjálf hafa síðan fjárfest í ýmsum eignum og þannig verið umgjörð um fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Samlagshlutafélagaformið hentar að ýmsu leyti síður fyrir félög með mjög marga eigendur en hlutafélagaformið. Færa má rök fyrir því að hið almenna 15% þak á eign í einstöku félagi sem veitt er undanþága frá með þessu ákvæði ætti e.t.v. ekki að eiga við um fjárfestingar lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum. Auðveldara er fyrir lífeyrissjóði að standa að samlagshlutafélagi ef hlutdeild hvers og eins má vera allt að 20% en ef hún má eingöngu vera 15% vegna þess að færri sjóðir þurfa að koma að hverju félagi. Hér er þó ekki lagt til að almennu reglunni verði breytt en að undanþáguákvæðið verði hins vegar framlengt í ljósi þess að unnið er að endurskoðun lagaákvæða um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í nefnd sem fjármála- og efnahagsráðherra sett á fót í upphafi árs.

Um 14. gr.

    Í greininni er byggt á því að framlög lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar verði ekki núvirt fyrr en niðurstöður þeirrar heildarúttektar á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, liggja fyrir. Frestur til þess að framkvæma umrædda úttekt var framlengdur um tvö ár í meðförum Alþingis og því er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XV verði breytt til samræmis við framlenginguna.

Um 15. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
með síðari breytingum (innri endurskoðun, skilyrði til greiðslu örorkulífeyris, meðferð framlags til starfsendurhæfingar, fjárfestingarheimildir,
leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, o.fl.).

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á hugtakanotkun. Frumvarpið tryggir að þegar fjallað er um endurskoðun sé hugtakanotkun til samræmis við löggjöf á fjármálamarkaði, en þar er hugtakið „innri endurskoðun“ notað yfir það sem er nefnt „innra eftirlit“ á nokkrum stöðum í lögum nr. 129/1997. Í öðru lagi veitir frumvarpið lífeyrissjóði heimild til þess að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu. Í þriðja lagi er ráðherra falin heimild til þess að kveða nánar á um þau atriði sem eiga samkvæmt lögunum að koma fram í reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað.
    Í fjórða lagi er lagt til að framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2016 og 2017. Í núverandi lögum er kveðið á um að slíkt framlag lífeyrissjóða verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrir árin 2012–2015, og er því um að ræða framlengingu á tímabilinu til og með 2017. Með þessu er átt við að þegar tryggingafræðileg athugun fer fram sé ekki reiknað með því að framlögin verði til frambúðar. Ef reiknað væri með slíku útstreymi allt það tímabil sem athugunin nær yfir mundu lífeyrisskuldbindingar sjóðanna aukast umtalsvert sem gæti leitt til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga og því er reynt með þessu bráðabirgðaákvæði að draga úr hættu á því. Vonir standa til þess að með atvinnutengdri starfsendurhæfingu megi draga úr útgreiðslum sjóðanna vegna örorkubóta á móti þannig að tryggingafræðileg staða þeirra verði ekki lakari. Gert er ráð fyrir því að framlög atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins verði endurskoðuð fyrir árslok 2015 og að þá verði athugað hver áhrifin hafa verið á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og hvort framlög til starfsendurhæfingarverkefna hafa skilað tilætluðum árangri.
    Í fimmta lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð, sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga, með skuldabréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð takmörkunum 36. gr. Í sjötta lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár eða til 31. desember 2014.
    Þá eru lagðar til tvennar breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum. Fyrri breytingin er lögð til til þess að taka af allan vafa um vægi fyrra ákvæðis til bráðabirgða VI með vísan til fimm ára reglunnar í 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Með síðari breytingunni er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilt að hafa meiri en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í 6 ár frá og með árinu 2008. Að auki eru lagðar til smávægilegar breytingar sem varða m.a. reglugerðarheimildir, tilkynningar og fresti.
    Sú breyting sem helst hefur áhrif á fjárhag ríkissjóðs felst í því að lengja þann samfellda tíma sem lífeyrissjóðir geta haft 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga frá og með árinu 2008 úr 5 árum í 6 ár. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu A-deildar LSR í lok árs 2012 er heildarstaða hennar neikvæð um 12,6% og er það fimmta árið sem tryggingafræðileg staða sjóðsins er neikvæð um meira en 10%. Með því er því varnað að grípa þurfi til ráðstafana á næsta ári vegna neikvæðrar stöðu A-deildarinnar með öðrum hætti eins og með hækkun á iðgjöldum sem ríkissjóður greiðir af launum opinberra starfsmanna. Í reglum um A-deild sjóðsins er kveðið á um að deildin skuli á hverjum tíma eiga eignir til að mæta skuldbindingum sínum. Samkvæmt lögum nr. 1/1997, um LSR, ákveður stjórn sjóðsins árlega iðgjald launagreiðenda þannig að eignir dugi til greiðslu á skuldbindingum í samræmi við niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar. Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum hefði þurft að hækka iðgjaldið úr 15,5% í a.m.k. 16,5% eða um 1 prósentustig til að ná tryggingafræðilegri stöðu A-deildar inn fyrir 10% markið á yfirstandandi ári. Árlegur kostnaður hins opinbera af 1 prósentustigs hækkun iðgjalds nemur liðlega 1 milljarði króna. Þar af væri hlutur ríkissjóðs nálægt 70% eða um 700 m.kr. Um 30%, eða 300 m.kr., kæmi í hlut sveitarfélaganna. Velta má upp fleiri leiðum til að rétta við tryggingafræðilega stöðu A-deildar en hækkun iðgjalds en erfitt er að leggja mat á hver kostnaðurinn yrði fyrir ríkissjóð við útfærslu annarra leiða. Því má gera ráð fyrir, a.m.k. til skemmri tíma litið, að með lengingu á fimm ára reglunni um eitt ár verði afkoma ríkissjóðs um 700 m.kr. betri en ella hefði orðið. Með þessari frestun gefst meiri tími til að vinna að varanlegri úrlausn á stöðu A-deildar LSR í heildstæðu samhengi við lífeyrisréttindi og kjaramál á vinnumarkaði. Í tengslum við fjárhagsvanda A- og B-deildar LSR hefur verið starfandi starfshópur sem í eiga sæti, auk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðherra, fulltrúar BHM, BSRB, KÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk starfshópsins er að fara yfir stöðu sjóðanna og koma með tillögur að framtíðarlausn. Einnig hefur verið samstarf við aðila á vinnumarkaði um málefni lífeyrissjóða og uppbyggingu lífeyriskerfisins almennt þar sem leitast verður við að ná sameiginlegri framtíðarsýn í þeim efnum. Var í því skyni skipuð nefnd allra hagsmunaaðila til að koma með tillögur þar að lútandi. Nefndirnar munu halda áfram störfum og er stefna stjórnvalda að sú vinna geti skilað framtíðarskipulagi lífeyrisréttinda þannig að eitt samræmt lífeyriskerfi verði í gildi fyrir bæði almenna launþega og opinbera starfsmenn.