Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 14. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 117  —  14. mál.

3. umræða.


Tillaga til rökstuddrar dagskrár


í málinu: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands
og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar upplýsingar
um skuldir heimila og fyrirtækja).


Frá Helga Hrafni Gunnarssyni, Svandísi Svavarsdóttur,
Guðbjarti Hannessyni og Páli Val Björnssyni.


    Með frumvarpinu er gengið á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og umsagnir þeirra sérfræðinga og gesta sem hafa komið fyrir nefndina. Fram er komið að þær persónuupplýsingar sem frumvarpið fjallar um falla ótvírætt undir friðhelgi einkalífs einstaklinga og sú vinnsla sem í frumvarpinu felst felur þannig í sér afskipti af þeim réttindum. Í frumvarpinu skortir útskýringar á því hvers vegna þörf er talin á svo viðurhlutamiklum afskiptum af friðhelgi einkalífs og efasemdir eru uppi um nauðsyn þess að komið sé á fót jafnvíðtækum opinberum gagnagrunni til að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga.
    Frumvarpið er ekki forsenda fyrir úrlausn skuldavanda heimila og fyrirtækja þar sem sérfræðihópur um skuldavanda heimilanna á að skila tillögum í nóvember næstkomandi en fyrir liggur að Hagstofa Íslands muni ekki skila fyrstu niðurstöðum fyrr en í mars á næsta ári.
    Markmið frumvarpsins og tilgangur eru ekki nægilega skýr og miklar efasemdir um hvort þessi óljósu markmið teljast nægilega veigamikil rök til að ganga á friðhelgi einkalífs með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, sérstaklega í ljósi þess að til að takmarka megi mannréttindi þurfa rök að vera veigamikil og tilgangurinn brýnn.
    Gæta þarf meðalhófs, ekki hefur verið sýnt fram á með sannfærandi hætti að úrtak skili ekki sömu eða sambærilegum niðurstöðum. Enn fremur hafa hugmyndir um aðrar vægari aðgerðir komið fram sem fela ekki í sér skerðingu á friðhelgi einkalífs en slíkar hugmyndir hafa ekki hlotið umræðu í nefndinni.
    Þrátt fyrir þá vinnu sem hefur farið fram á vettvangi nefndarinnar eru enn miklir vankantar á frumvarpinu. Þá hefur ekki verið gengið úr skugga um hvort og hvernig frumvarpið samræmist ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum og Evrópulöggjöf um vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga og við vinnslu og frjálsa miðlun persónuupplýsinga.
    Þegar litið er til þess hvaða gæðakröfur löggjöf þarf að uppfylla er ljóst að frumvarpið hefur ekki fengið nægjanlega umfjöllun og krefst ítarlegri yfirferðar. Engin ástæða er til að hraða málinu á sumarþingi í ljósi þess að gögnin verða ekki nýtt fyrr en eftir að starfshópar um skuldavandann hafa lokið störfum og skilað tillögum sínum. Áréttað er að fram kemur í áliti minni hluta nefndarinnar að hann óskaði eftir að frumvarpið yrði endurbætt og bauð fram krafta sína við það, svo að hægt væri að uppfylla stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífs og alþjóðlega samninga.
    Verði frumvarpið að lögum verða tölfræðiupplýsingar um fjárhagsstöðu einstaklinga og lögaðila allar hjá einni stofnun og talið er að því fylgi aukin hætta á að hún verði fyrir netárás.
    Með hliðsjón af framanrituðu samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.