Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.

Þingskjal 2  —  2. mál.


Frumvarp til laga

um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014
(tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur,
launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað „25,8%“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 25%.
     b.      Í stað „25,8%“ tvívegis í 4. tölul. 1. mgr. kemur: 25%.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „100.745 kr.“ í 2. mgr. kemur: 180.000 kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „100.000 kr.“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: 125.000 kr.

2. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „100.000 kr.“ í 2. málsl. a-liðar 8. tölul. 70. gr. laganna kemur: 125.000 kr.

3. gr.

    Í stað orðanna „árunum 2011, 2012 og 2013“ í ákvæði til bráðabirgða XXXVIII í lögunum kemur: árunum 2011, 2012, 2013 og 2014.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2013“ í 1.–5. mgr. kemur: 2013 og 2014.
     b.      Í stað orðanna „og 2012“ í 1.–5. mgr. kemur: 2012 og 2013.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
5. gr.

    Við 12. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um barnableiur og laust bleiufóður sem falla undir tollskrárnúmer 9619.0011.

6. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2013“ í ákvæði til bráðabirgða X í lögunum kemur: 31. desember 2014.

7. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2014“ í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 1. janúar 2015.

8. gr.

    Í stað dagsetningarinnar ,,31. desember 2013“ í 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum kemur: 31. desember 2014.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „2,05%“ í 1. mgr. kemur: 1,35%.
     b.      Í stað „5,29%“ í 3. mgr. kemur: 5,90%.

10. gr.

    Í stað „1,28%“ í 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 0,65%.

11. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     a.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 2. gr. skal atvinnutryggingagjald vera 1,45% í staðgreiðslu á árinu 2014 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 vegna tekna ársins 2014.
     b.      Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 2. gr. skal almennt tryggingagjald vera 6,04% í staðgreiðslu á árunum 2014 og 2015 og við álagningu opinberra gjalda á árunum 2015 og 2016 vegna tekna áranna 2014 og 2015.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum.
12. gr.

    Í stað „0,25%“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 0,05%.

13. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattskylda þessi tekur einnig til lögaðila sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið við yfirráðum yfir með því að skipa honum skilanefnd eða bráðabirgðastjórn og lögaðila sem héraðsdómur hefur skipað slitastjórn samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
     b.      B-liður 2. mgr. fellur brott.

15. gr.

    Í stað „0,041%“ í 4. gr. laganna kemur: 0,145%.

16. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Skattkrafa á grundvelli laga þessara nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, með síðari breytingum.
17. gr.

    Í stað „6,75%“ í 6. gr. laganna kemur: 4,5%.

VII. KAFLI
Gildistaka.
18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      1., 2. og 10. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 vegna tekna ársins 2014 og við staðgreiðslu opinberra gjalda á því ári eftir því sem við á.
     b.      3., 4., 6.–8. og 11. gr. öðlast þegar gildi.
     c.      5., 9., 12., 13. og 17. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014.
     d.      14.–16. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2014 vegna tekjuársins 2013 og skulda í lok þess árs.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Undirbúningur fjárlagavinnu fyrir árið 2014 samhliða endurskoðun á áætlun fjárlaga fyrir árið 2013 hófst fljótlega eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við stjórnartaumunum í lok maí á þessu ári. Óaðskiljanlegur hluti af þeim undirbúningi var áform um mögulegar skattabreytingar á þessu ári og komandi árum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. um skattumhverfið:
    „Skattar einstaklinga og fyrirtækja standa undir nauðsynlegri þjónustu við samfélagið allt. Með stöðugu og skynsamlegu skattkerfi er unnt að hvetja einstaklinga til að nýta starfskrafta sína og fyrirtækin til að færa út kvíarnar, fjölga störfum og fjárfesta.
    Gerð verður úttekt á skattkerfinu og skattkerfisbreytingum undanfarinna ára og lagðar fram tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum.
    Með einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata verður rekstur fyrirtækja einfaldari og skilvirkari. Með lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu má ná fram mikilvægum kjarabótum sem útfærðar verða nánar í samráði við aðila vinnumarkaðarins og með hliðsjón af öðrum efnahagsaðgerðum, svo sem afnámi gjaldeyrishafta.
    Mikilvægt er að auka framleiðslu og fjölga störfum og í þeim tilgangi verða gerðar breytingar á skattaumhverfi fyrirtækja. Skattkerfið og rekstrarumhverfi fyrirtækja þarf að vera fyrirsjáanlegt svo þau eigi hægara um vik að gera áætlanir og sjái sér hag í að fjárfesta.
    Ríkisstjórnin mun því leitast við að veita upplýsingar um hvernig skattar og það regluverk sem fyrirtæki starfa eftir muni þróast til framtíðar.
    Á kjörtímabilinu verður tryggingagjald lækkað, lágmarksútsvar afnumið og tekjuskattskerfið tekið til endurskoðunar. Neysluskattar verða jafnaðir og einfaldaðir og vörugjöld endurskoðuð.“
    Snemma í fjárlagaferlinu kom í ljós að horfur í fjármálum ríkisins voru umtalsvert lakari en fram kom í fjárlögum ársins 2013, bæði vegna lægri tekna og aukinna útgjalda. Til dæmis stefnir í að hefðbundinn tekjustofn eins og virðisaukaskattur verði 5,5 milljörðum kr. lægri en áætlað hafði verið og skatttekjur í heild 8,7 milljörðum kr. undir fjárlagaáætlun 2013. Þessi þróun takmarkar það svigrúm sem til staðar er til að lækka skatta þegar á næsta ári. Ákveðin skref eru þó tekin í þá átt í þessu frumvarpi í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þau skref er rétt að líta á sem fyrsta áfanga í heildarendurskoðun íslenska skattkerfisins til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu sem hér er kynnt er að finna tillögur að efnisbreytingum á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.
    Helstu breytingar frumvarpsins eru þessar:
          Miðþrep í tekjuskatti einstaklinga lækkar úr 25,8% í 25%. Tekjur ríkissjóðs lækka um allt að 5 milljarða kr.
          Frítekjumark vegna vaxtatekna hækkar úr 100.000 kr. í 125.000 kr. Tekjur ríkissjóðs lækka um 200 millj. kr.
          Virðisaukaskattur af einnota barnableium lækkar úr 25,5% í 7%. Tekjur ríkissjóðs lækka um 200 millj. kr.
          Atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa sem hlutfall af launakostnaði lækka samanlagt um 0,1 prósentustig. Tekjur ríkissjóðs lækka um 1 milljarð kr.
          Fjársýsluskattur lækkar úr 6,75% í 4,5%. Tekjuáhrif eru neikvæð um 1,1 milljarð kr.
          Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki hækkar úr 0,041% í 0,145%. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð verða skattskyld. Tekjur ríkissjóðs hækka um 14,3 milljarða kr. Þar af nemur skattur á lögaðila í slitameðferð 11,3 milljörðum kr.
    Samanlögð áhrif þessara tillagna á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2014 eru talin verða 7 milljarðar kr. til hækkunar. Að frátöldum sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð nema áhrifin 4,3 milljörðum kr. til lækkunar. Þá er ekki horft til óbeinna áhrifa vegna aukinna ráðstöfunartekna hjá velflestum heimilum sem ættu að skila sér í auknum veltusköttum og þar með hærri tekjum hjá ríkissjóði. Rétt er að taka fram að hækkun á frítekjumarki vaxtatekna hefur ekki áhrif fyrr en á árinu 2015.
    Til viðbótar þeim tillögum sem þegar hafa verið nefndar inniheldur frumvarpið nokkrar efnisminni tillögur um framlengingu á gildandi ákvæðum í lögum um tekjuskatt og virðisaukaskatt eins og nánar er lýst hér á eftir.

3. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
3.1 Tekjuskattur, skatthlutfall, frítekjumörk, vaxta- og barnabætur.
     Miðþrep tekjuskatts lækkar. Samkvæmt gildandi lögum er tekjuskattur einstaklinga lagður á í þremur þrepum, auk útsvars. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2.897.702 kr. árstekjum einstaklings (241.475 kr. á mánuði) er reiknaður 22,9% skattur. Af næstu 5.976.406 kr. (498.034 kr. á mánuði) er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8.874.108 kr. (739.509 kr. á mánuði). Við þessi hlutföll bætist útsvar sem er mishátt eftir sveitarfélögum. Meðalútsvar á árinu 2013, innheimt í staðgreiðslu, er 14,42%. Persónuafsláttur á hvern einstakling er 581.820 kr. á ári, eða 48.485 kr. á mánuði. Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars eru samkvæmt því 135.330 kr. á mánuði að teknu tilliti til greiðslu 4% lögbundins iðgjalds í lífeyrissjóð, en sé einungis horft á tekjuskatt til ríkisins að frádregnum persónuafslætti eru skattleysismörkin 220.547 kr. á mánuði. Það þýðir að einstaklingur sem er með liðlega 220 þús. kr. í skattskyldar tekjur á mánuði eftir að 4% lífeyrissjóðsiðgjald hefur verið dregið frá greiðir einungis útsvar eins og sést í eftirfarandi töflu.

2013
Krónur
Tekjur á mánuði 220.547
4% iðgjald í lífeyrissjóð -8.822
Staðgreiðslustofn 211.725
Skattur í neðsta þrepi – 22,9% 48.485
Persónuafsláttur -48.485
Tekjuskattur í ríkissjóð 0
Útsvar í staðgreiðslu – 14,42% 30.530
Ráðstöfunartekjur að frádregnu útsvari 181.195

    Þessir tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga eru lagðir á og innheimtir sem ein órofa heild að teknu tilliti til persónuafsláttar og gerir skattborgarinn sjaldnast greinarmun á því hvort skattgreiðslan hans rennur í ríkissjóð eða til sveitarfélaga. Fjölgun þrepa í tekjuskattskerfinu hefur flækt kerfið til muna og gert samspil þessara tekjustofna jafnvel óskýrara en áður. Þá eru greiðendur sem einungis greiða tekjuskatt í neðsta þrepi hlutfallslega mjög fáir vegna nýtingar persónuafsláttar samanborið við annað þrepið. Eins og fram kemur í töflunni greiða einstaklingar ekki nettótekjuskatt í ríkissjóð fyrr en skattskyldar tekjur fara yfir tæp 212 þús. kr. á mánuði en tekjuviðmiðunarmörk neðsta þrepsins eru rúmlega 241 þús. kr. á mánuði. Lausleg athugun sýnir að kringum 15% framteljenda greiða eingöngu tekjuskatt til ríkisins í neðsta þrepi.
    Að mati ríkisstjórnarinnar kallar þessi staða á heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu, þ.m.t. á samspili tekjuskatts og útsvars, bæði álagningar og innheimtu. Stefnt er að því að breytingar sem af þeirri endurskoðun mun leiða komi fram í áföngum. Í fyrsta áfanga sem kemur til framkvæmda strax um næstu áramót verður miðþrepið í tekjuskattlagningu einstaklinga lækkað úr 25,8% í 25%. Miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins gæti sú ráðstöfun aukið ráðstöfunartekjur heimilanna um allt að 5 milljarða kr. á næsta ári og enn meira á árunum 2015–2017, en hún skerðir jafnframt tekjur ríkissjóðs um sömu fjárhæð. Megnið af tekjuskatti einstaklinga er innheimt í miðþrepinu og mun aðgerðin því hafa jákvæð áhrif á flest heimili. Ekki er áformað að breyta persónuafslætti eða þrepamörkum tekjuskatts á árinu 2014 umfram hækkun vísitölu neysluverðs eða launavísitölu í samræmi við gildandi ákvæði tekjuskattslaganna.
    Í eftirfarandi töflu eru sýnd dæmi um áhrif af lækkun á skatthlutfalli miðþrepsins úr 25,8% í 25%. Miðað er við að skipting tekna milli hjóna sé 300 þús. kr. á mánuði hjá hinum tekjulægri og 500 þús. kr. hjá hinum tekjuhærri.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



















    Eins og fram kemur í töflunni mun lækkun skatthlutfallsins í miðþrepinu lækka tekjuskatt einstaklings með 400 þús. kr. mánaðartekjur um 1.140 kr. á mánuði eða tæplega 14 þús. kr. á ári. Ráðstöfunartekjur viðkomandi einstaklings hækka um sömu fjárhæð, eða liðlega 0,3%. Sambærileg breyting kemur fram hjá hjónum eins og sjá má af töflunni, en samanlagður tekjuskattur þeirra lækkar um rúmlega 27 þús. kr. á ári.
     Frítekjumark vaxtatekna. Einnig er lagt til í frumvarpinu að frítekjumark vaxtatekna hjá einstaklingum, hvort sem þeir bera ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu hér á landi, hækki í 125.000 kr. í stað 100.000 kr. Frítekjumark vegna vaxtatekna einstaklinga var tekið upp árið 2010 og hefur staðið óbreytt í 100.000 kr. á ári síðan þá. Áformað er að hækka frítekjumarkið í 125.000 árið 2014 sem þýðir að einstaklingar þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum að fjárhæð 125.000 sem þeir ávinna sér á næsta ári. Um er að ræða eðlilega verðuppfærslu á þessum viðmiðunarmörkum frá árinu 2010, auk þess sem raunávöxtun í formi vaxta hefur lækkað verulega undanfarin ár. Aðgerðin felur í sér að heimilin halda eftir 200 millj. kr. á ári sem annars hefðu runnið í ríkissjóð í formi fjármagnstekjuskatts. Sem fyrr segir hefur þessi breyting ef hún verður að lögum ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs fyrr en 2015.
     Frítekjumark barna. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að frítekjumark hjá börnum undir 16 ára aldri hækki í 180.000 kr. í stað 100.745 kr., en umrædd viðmiðunarmörk hafa haldist óbreytt frá árinu 2004. Hér er í raun á ferðinni verðlagsuppfærsla til samræmis við hækkun skattleysismarka á tímabilinu 2004–2013 og mun hækkunin ef af verður koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 vegna tekna ársins 2014, en einnig við staðgreiðslu á árinu 2014. Skatthlutfallið sjálft helst óbreytt, eða 4%. Börn njóta ekki persónuafsláttar.
     Vaxtabætur. Vaxtabætur fá þeir sem hafa greitt vaxtagjöld af lánum sem þeir hafa tekið til kaupa á eigin húsnæði, hvort sem um er að ræða hefðbundin íbúðarkaup, húsbyggingu eða kaupleigu. Einnig mynda lán Íbúðalánasjóðs sem tekin eru vegna verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði stofn til vaxtabóta og það gera einnig lán vegna greiðsluerfiðleika á lánum til öflunar húsnæðis. Einungis er hægt að fá vaxtabætur vegna greiddra vaxta.
    Í lok árs 2010 voru gerðar margvíslegar breytingar á útreikningsreglum vaxtabóta í því skyni að draga úr fyrirsjáanlegum vexti þeirra, jafnframt því að bótunum var í meira mæli beint til þeirra fjölskyldna sem voru með lægri tekjur og eignir. Þessar reglur áttu að gilda í tvö ár, þ.e. við álagningu opinberra gjalda 2011 og 2012, en ákvæðið var síðan framlengt til ársins 2013. Að óbreyttum lögum munu því vaxtabótareglurnar færast í sitt fyrra horf um næstu áramót og við það mun stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifast á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta (tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur). Við það verða tekjujöfnunaráhrif kerfisins minni, en þá þarf að hafa í huga að vaxtabótakerfið hefur legið undir því ámæli (AGS, OECD) að það hvetji til skuldasöfnunar. Séð frá þeim sjónarhóli er almennur stuðningur með lægri fjárhæðum betri. Inn í þessa ákvörðun blandast einnig umræða um samspil vaxtabótakerfisins við húsaleigubótakerfið, en fyrri ríkisstjórn hafði þau áform uppi að sameina þessi tvö kerfi í eitt húsnæðisbótakerfi. Síðast en ekki síst kunna aðgerðir stjórnvalda til stuðnings heimilum að hafa veruleg áhrif á stöðu íbúðareigenda og þannig á vaxtabótakerfið þegar horft er til framtíðar. Þessa þætti þarf alla að skoða í samhengi áður en ákvörðun er tekin um framtíð vaxtabótakerfisins. Í ljósi þess er lagt til í frumvarpinu að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins haldist óbreyttar milli áranna 2013 og 2014. Lausleg áætlun sýnir að útgjöld vegna vaxtabóta gætu lækkað um 1 milljarð kr. væri bráðabirgðaákvæðið ekki framlengt með óbreyttum reglum.
     Barnabætur. Í bráðabirgðaákvæði XXXVIII í tekjuskattslögunum segir að skuldajöfnun barnabóta í móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé óheimil á árunum 2011 til 2013. Rökin fyrir upptöku þessa ákvæðis voru m.a. þau að með því væri komið til móts við barnmargar fjölskyldur í greiðsluvandræðum. Í frumvarpinu er lagt til að umrætt bráðabirgðaákvæði verði framlengt út árið 2014, en það hefði að óbreyttu fallið úr gildi í lok árs 2013.

3.2 Virðisaukaskattur.
     Barnableiur. Í lok árs 2012 var samþykkt sú breyting á virðisaukaskattslögunum að margnota bleiur og bleiufóður sem falla undir tollskrárnúmer 9619.0091 færu úr efra þrepi virðisaukaskatts (25,5%) í það neðra (7%) frá og með 1. júlí 2013. Nú er áformað að færa einnig einnota bleiur og laust bleiufóður úr efra þrepi í það neðra, en þær vörur falla undir tollskrárnúmer 9619.0011. Aðgerðin er í þágu barnafólks. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs lækki um 200 millj. kr. á ári vegna aðgerðarinnar.
    Sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytis hafa á undanförnum vikum verið að skoða hugmynd um lækkun virðisaukaskatts á barnaföt almennt, en á þessu stigi er ekki talið skynsamlegt að taka stærra skref en lækkun hans á bleium. Á hinn bóginn er vert að nefna þau áform stjórnvalda að ráðast í heildarendurskoðun á gildandi lögum um virðisaukaskatt.
     Endurgreiðslur virðisaukaskatts af íbúðarhúsnæði. Frá árinu 2010 hefur verið í gildi bráðabirgðaákvæði XV í lögum um virðisaukaskatt sem heimilar víðtækari endurgreiðslur á virðisaukaskatti til þeirra sem eru að byggja eða endurnýja íbúðarhúsnæði en áður var. Annars vegar hækkaði endurgreiðsluhlutfallið úr 60% í 100% og hins vegar var endurgreiðslustofninn breikkaður. Auk hinnar hefðbundnu endurgreiðslu af launum manna við vinnu við íbúðarhúsnæði á byggingarstað nær heimildin nú einnig til frístundahúsnæðis og enn fremur þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu íbúðar- og frístundahúsnæðis. Þá nær heimildin líka til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Samkvæmt tölum ríkisreiknings fyrir árið 2012 námu endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis 4,7 milljörðum kr. sem svarar til 3% af heildartekjum af virðisaukaskatti áður en tillit er tekið til endurgreiðslna.
    Að óbreyttu hefði umrædd endurgreiðsluheimild fallið úr gildi um næstu áramót og við hefði tekið regla um 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts sem takmarkast við nýbyggingar og endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Í því frumvarpi sem hér er kynnt er lagt til að bráðabirgðaákvæði XV í virðisaukaskattslögunum verði framlengt um eitt ár til viðbótar til að sporna við frekari atvinnuleysi í byggingariðnaði og sömuleiðis svartri vinnu, sbr. átakið „Allir vinna“.
     Hópferðabifreiðar. Allt frá árinu 2001 hefur verið til staðar bráðabirgðaheimild til að endurgreiða 2/ 3hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni. Markmið þessarar endurgreiðslu hefur verið að hraða sem kostur er endurnýjun þessa flokks ökutækja með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Gera má ráð fyrir að heildarendurgreiðslur á árinu 2013 geti numið um 370 millj. kr.
    Í þessu frumvarpi er að finna tillögu um að umrædd heimild verði framlengd til ársloka 2014. Nú eru uppi áform um heildarúttekt á skattumhverfi ökutækja, bæði út frá kaupum og notkun, og mun skattaleg meðferð hópferðabifreiða og almenningsvagna verða hluti af þeirri úttekt.
     Rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar. Í bráðabirgðaákvæði gildandi laga um virðisaukaskatt njóta umhverfisvænar bifreiðar ákveðins krónutöluafsláttar upp að tilteknu hámarki sem að óbreyttu hefði fallið niður um áramót. Hér er hins vegar lagt til að þessar sérreglur um útreikning virðisaukaskatts við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði framlengdar um eitt ár í því skyni að örva eftirspurn almennings eftir umhverfisvænum ökutækjum.

3.3 Atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa.
    Áformaðar eru ýmsar breytingar á launatengdum gjöldum sem lögð eru á laun og hvers konar hlunnindi tengd vinnuframlagi viðkomandi. Miðað við tillögur frumvarpsins ætti heildarkostnaður fyrirtækja af þeim gjöldum að lækka um 0,1 prósentustig að öðru óbreyttu á árinu 2014, 0,1 prósentustig til viðbótar á árinu 2015 og 0,14 prósentustig á árinu 2016. Gjöldin sem hér um ræðir eru atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa. Áætlað tekjutap ríkissjóðs af þessari ráðstöfun, verði hún lögfest, er talið verða nálægt 1 milljarði kr. á árinu 2014, liðlega 2 milljörðum kr. árið 2015 og 3,8 milljörðum kr. þegar áhrifin verða að fullu komin fram á árinu 2016. Ábyrgðargjaldið flokkast ekki til tryggingagjalds en er engu síður lagt á sama stofn og tryggingagjöldin og hefur því sams konar áhrif á launakostnað hjá atvinnurekendum.
     Atvinnutryggingagjald. Í frumvarpinu er lagt til að atvinnutryggingagjald verði lækkað úr 2,05% í 1,45% eða um 0,6 prósentustig á árinu 2014. Í kjölfar mikillar útgjaldaaukningar af völdum aukins atvinnuleysis eftir efnahagshrunið 2008 var tekin ákvörðun um að hækka atvinnutryggingagjaldið úr 0,65% í 2,21% um mitt ár 2009. Gjaldið var svo hækkað aftur á árinu 2010 eða um 1,6 prósentustig til viðbótar og nam þá 3,81%. Á árunum 2012 og 2013 hefur fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs farið minnkandi og samhliða því var atvinnutryggingagjaldið lækkað í tvígang eða í 2,45% árið 2012 og loks 2,05% árið 2013. Í ljósi framangreindrar þróunar er lagt til í þessu frumvarpi að gjaldið verði nú lækkað enn frekar í tveimur áföngum. Fyrri áfangi kemur til framkvæmda á árinu 2014 þegar gjaldið lækkar úr 2,05% í 1,45%, en sá seinni á árinu 2015 þegar gjaldið lækkar um 0,1 prósentustig til viðbótar og verður 1,35%.
     Almennt tryggingagjald. Eins og komið hefur fram hér að framan voru markaðar tekjur Ábyrgðasjóðs launa og Atvinnuleysistryggingasjóðs hækkaðar á árunum 2009–2012 og hefur þetta leitt til þess að staða sjóðanna er orðin sterk. Á sama tíma hefur hlutdeild almenna tryggingagjaldsins í að fjármagna vaxandi fjárþörf almannatrygginga veikst og er því lagt til að það verði hækkað úr 5,29% í 6,04% á árinu 2014 til þess að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að almenna gjaldið lækki um 0,14 prósentustig á árinu 2016 og verði 5,9%, en haldist óbreytt í 6,04% á árinu 2015.
    Þá er einnig lagt til að sá hluti almenna tryggingagjaldsins sem hefur hingað til runnið til Fæðingarorlofssjóðs verði lækkaður úr 1,28% í 0,65% á árinu 2014 og muni sá mismunur sem verður til vegna þeirrar lækkunar renna til fjármögnunar lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga.
     Gjald í Ábyrgðasjóð launa. Gjald í Ábyrgðasjóð launa var 0,1% á fyrri hluta árs 2009 og hafði þá staðið óbreytt frá árinu 2006 en fram að þeim tíma hafði gjaldið verið 0,04%. Í kjölfar efnahagshrunsins var gjaldið hækkað í áföngum úr 0,1% í 0,25% auk þess sem það var hækkað tímabundið á árinu 2012 í 0,3% til að vinna upp neikvæða sjóðstöðu gagnvart ríkissjóði. Sú hækkun átti að gilda út árið 2014. Nú er hins vegar útlit fyrir að staða sjóðsins verði orðin jákvæð á ný í lok þessa árs. Í ljósi þess er lagt til í frumvarpinu að gjald í Ábyrgðasjóð launa verði lækkað varanlega úr 0,25% í 0,05%. Jafnframt er gerð tillaga um að tímabundin hækkun gjaldsins verði afnumin.

3.4 Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki og almennur fjársýsluskattur.
    Í frumvarpinu er að finna tvíþætta breytingu á sértækri skattlagningu fjármálafyrirtækja. Annars vegar er lögð til hækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki sem í daglegu tali er kallaður bankaskattur. Auk þess er gildissvið hans víkkað þannig að fjármálafyrirtæki í slitameðferð verði skattskyld. Hins vegar er lögð til lækkun á fjársýsluskatti, m.a. til mótvægis við hækkun bankaskattsins.
     Hærri bankaskattur og breiðari skattstofn. Bankaskattur er lagður á fyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki og önnur félög sem hafa leyfi til að taka við innlánum. Stofn skattsins er heildarskuldir samkvæmt skattframtali. Meðal markmiða bankaskatts er að afla tekna til að standa straum af þeim kostnaði sem fellur til við að skapa aðstæður fyrir fjármálalegan stöðugleika sem er mikilvægur liður í því að tryggja stöðugt umhverfi á íslenskum fjármálamarkaði til frambúðar. Rétt þykir að þau fyrirtæki sem skapa hvað mesta kerfislæga áhættu í krafti stærðar sinnar greiði hluta þess kostnaðar.
    Áformað er að hækka skattinn úr 0,041% í 0,145% í ársbyrjun 2014. Einnig er áformað að breyta lögunum þannig að þau taki einnig til lögaðila í slitameðferð sem eru samkvæmt gildandi lögum undanþegnir skattinum. Þannig mun skatturinn m.a. verða lagður á kröfur föllnu bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans gamla eins og þær standa í reikningum búanna í lok hvers árs. Sú breyting breikkar stofn skattsins til muna en í nýlegri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika kemur fram að kröfur í þrotabú föllnu bankanna séu um 7.800 milljarðar kr. Engin rök eru talin standa til þess að umræddir lögaðilar séu undanþegnir þessari skattlagningu, m.a. í ljósi þess gríðarlega kostnaðar sem íslenska þjóðarbúið hefur orðið fyrir vegna gjaldþrota gömlu bankanna.
    Áætlað er að hækkun skattsins auki tekjur ríkissjóðs um 14,3 milljarða kr. árið 2014 og 14,5 milljarða kr. árið 2015. Á árunum 2016–2017 er áætlað að hækkunin auki tekjur ríkissjóðs um 3,3 og 3,5 milljarða kr. Á árunum 2014–2015 er áætlað að 11,3 milljarðar kr. komi frá þrotabúum föllnu bankanna og afgangurinn frá innlendum fjármálafyrirtækjum sem greiða skattinn. Þrjú stærstu innlendu fjármálafyrirtækin hafa hingað til borið rúmlega 90% af skattinum. Hér er gengið út frá þeirri forsendu að í lok 2015 verði slitameðferð föllnu bankanna að fullu lokið.
     Lækkun almenns fjársýsluskatts. Almennur fjársýsluskattur er lagður á allar tegundir launa og önnur skattskyld hlunnindi fjármálafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og vátryggingafélaga, auk Íbúðalánasjóðs. Skatturinn var fyrst lagður á árið 2012 og var skatthlutfallið þá 5,45%. Árið 2013 var skatthlutfallið hækkað í 6,75%. Nú er áformað að lækka skatthlutfallið í 4,5% sem mun skerða tekjur ríkissjóðs um 1,1 milljarð kr. árið 2014. Aðgerðin er mótvægi við hækkun bankaskatts sem fjallað er um hér að framan. Hún léttir skattbyrði af öllum fyrirtækjum sem greiða skattinn en þó sérstaklega verðbréfafyrirtækjum og vátryggingafélögum sem ekki greiða bankaskatt. Í hækkun bankaskatts og lækkun fjársýsluskatts felst hliðrun á skattbyrði frá smærri fyrirtækjum til þeirra stærri, enda skapa þau síðarnefndu að öllu jöfnu meiri kerfislæga áhættu á íslenskum fjármálamarkaði.

4. Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Verði framangreindar tillögur lögfestar eins og lýst er hér að framan má ætla að skatttekjur ríkissjóðs aukist um 7 milljarða kr. strax á næsta ári. Sú tala mun hins vegar lækka um 0,2 milljarða kr. á árinu 2015 vegna hærra frítekjumarks vaxtatekna. Samanlögð áhrif tillagnanna nema því 6,8 milljörðum kr. til hækkunar, en 4,2 milljörðum kr. til lækkunar að frátöldum sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Árétta þarf að hér er einungis um að ræða mat á beinum áhrifum tillagnanna, sbr. umfjöllun í kafla 2 hér að framan.
    Lækkun tekjuskatts um allt að 5 milljarða kr. mun hafa bein áhrif á ráðstöfunartekjur heimila og sama gildir um 0,2 milljarða kr. lækkun fjármagnstekjuskatts. Tilfærsla á einnota barnableium í neðra þrep virðisaukaskatts ætti að koma fram sem 14–15% lækkun á útsöluverði þessarar vöru ef áhrifum lækkunarinnar er að öllu leyti velt út í verðlag. Áhrif þess á vísitölu neysluverðs eru fremur lítil, eða 0,01%, en geta að sama skapi verið veruleg þegar í hlut eiga fjölskyldur með ung börn. Hjá þeim gætu ráðstöfunartekjur aukist um nokkur þúsund krónur á mánuði. Samanlagt gætu breytingar á tekjuskatti einstaklinga, fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti af bleium aukið kaupmátt ráðstöfunartekna um 0,5–0,6% þegar áhrif þeirra eru að fullu komin fram.
    Skattar á fyrirtæki munu samanlagt hækka um tæplega 1 milljarð kr. samkvæmt tillögum frumvarpsins, sé einungis horft til ársins 2014, að frátöldum bankaskattinum á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Sé hins vegar horft fram til ársins 2016 munu fyrirtækjaskattar lækka um 1,6 milljarða kr. þegar breytingar á tryggingagjaldi verða að fullu komnar til framkvæmda. Þær breytingar sem hér er lýst ættu að hafa jákvæð áhrif á gang efnahagslífsins, ekki síst hjá vinnuaflsfrekum atvinnugreinum, og með því ætti að skapast svigrúm til kjarabóta og aukinna ráðstöfunartekna til lengri tíma litið.

5. Samráð.
    Við gerð þessa frumvarps var fyrst og fremst stuðst við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í a- og b-lið 1. gr. er gert ráð fyrir breytingu til lækkunar á tekjuskattshlutfalli manna í miðþrepi úr 25,8% í 25%.     
    Í c-lið 1. gr. er lögð til hækkun á frítekjumarki hjá börnum undir 16 ára aldri. Lagt er til að frítekjumarkið verði 180.000 kr. í stað 100.745 kr. áður og kemur hækkunin til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 vegna tekna ársins 2014 og við staðgreiðslu opinberra gjalda á því ári.
    Í d-lið 1. gr. og 2. gr. er gert ráð fyrir að frítekjumark vaxtatekna hjá einstaklingum, hvort sem þeir bera ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu hér á landi, hækki í 125.000 kr. í stað 100.000 kr. þannig að ekki leggist skattur á þær vaxtatekjur. Ekki er tekið tillit til frítekjumarks í staðgreiðslu heldur einungis við álagningu opinberra gjalda.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil út árið 2014.

Um 4. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að tímabundin hækkun á vaxtabótum sem að óbreyttu hefði fallið niður um næstu áramót verði framlengd um eitt ár. Því er ártalinu 2014 bætt við ákvæði til bráðabirgða XLI í lögunum, en það hefur að geyma ákvæði um vaxtabætur á árunum 2011, 2012 og 2013. Gert er ráð fyrir að ákvæðið komi til framkvæmda við ákvörðun á fyrirframgreiðslu vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2014. Til nánari skýringar vísast í almennar athugasemdir frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 12. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna sem kveði á um að virðisaukaskattur af barnableium og lausu bleiufóðri, sem falla undir tollskrárnúmer 9619.0011, skuli vera 7% í stað 25,5%. Pappírsbleiur og laust bleiufóður munu því bera 7% virðisaukaskatt eins og er í tilviki margnota bleia og bleiufóðurs sem falla undir tollskrárnúmer 9619.0091.

Um 6. gr.

    Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis X í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði framlengdur út árið 2014, en að óbreyttu hefði það runnið út í árslok 2013. Ákvæðið kveður á um heimild til endurgreiðslu 2/ 3hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis XV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði framlengdur til 1. janúar 2015, en að óbreyttu hefði það runnið út um áramót. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og eigendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Jafnframt nær sama heimild til byggjenda/eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu/endurbótum eða viðhaldi þess háttar húsnæðis. Heimildin nær einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts er talin hafa reynst vel og orðið þess valdandi að fleiri heimili hafi ráðist í framkvæmdir en ella.

Um 8. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ákvæði XXIV til bráðabirgða verði framlengt út árið 2014. Ákvæðið kveður á um að við útreikning virðisaukaskatts við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar sé heimilt að lækka tollverð vegna innflutnings eða telja til undanþeginnar veltu vegna skattskyldrar sölu innan lands fjárhæð upp að ákveðnu hámarki að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í ákvæðinu.

Um 9. gr.

    Í a-lið er lagt til að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, atvinnutryggingagjald, verði lækkaður úr 2,05% í 1,35%. Sú breyting kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 2015, sbr. bráðabirgðaákvæðið sem lagt er til með a-lið 11. gr.
    Í b-lið er lagt til að almennt tryggingagjald verði hækkað úr 5,29% í 5,9%. Sú breyting kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 2016, sbr. bráðabirgðaákvæðið sem lagt er til með b-lið 11. gr.
    Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að sá hluti almenns tryggingagjalds sem rennur til Fæðingarorlofssjóðs verði lækkaður úr 1,28% í 0,65%. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu eru lögð til tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem kveða á um hlutfall atvinnutryggingagjalds á árinu 2014 og hlutfall almenns tryggingagjalds á árunum 2014 og 2015. Atvinnutryggingagjald verður 1,45% á árinu 2014 og almennt tryggingagjald verður 6,04% árin 2014 og 2015.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gjald í Ábyrgðasjóð launa verði lækkað úr 0,25% í 0,05%. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 13. gr.

    Í ljósi þess að lagt er til í 12. gr. frumvarpsins að gjald í Ábyrgðasjóð launa skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 88/2003 verði lækkað varanlega er lagt til að ákvæði til bráðabirgða II í lögunum verði fellt brott, en þar var gjald í Ábyrgðasjóð launa tímabundið ákvarðað 0,3% af gjaldstofni fyrir árin 2012, 2013 og 2014.

Um 14. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að þeir lögaðilar sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið við yfirráðum yfir með skipun skilanefndar eða bráðabirgðastjórnar og þeir lögaðilar sem héraðsdómur hefur skipað slitastjórn samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, verði skattskyldir samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Einnig er lagt til að þeir aðilar sem sæta slitameðferð skv. 101. gr laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, verði ekki sérstaklega undanþegnir skattskyldu.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki verði hækkað úr 0,041% í 0,145%.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að skattkröfur á grundvelli laga nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, njóti rétthæðar við gjaldþrotaskipti skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Um 17. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að skatthlutfall fjársýsluskatts samkvæmt lögum nr. 165/2011 lækki úr 6,75% í 4,5%.

Um 18. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga
fyrir árið 2014 (tekjuskattur einstaklinga, virðisaukaskattur,
launatengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.
    Helstu breytingar frumvarpsins eru þessar:
          Miðþrep í tekjuskatti einstaklinga lækkar úr 25,8% í 25%. Tekjuáhrif eru neikvæð um allt að 5 mia.kr.
          Frítekjumark vegna vaxtatekna er hækkað úr 100.000 kr. í 125.000 kr. Tekjuáhrif eru neikvæð um 200 m.kr.
          Virðisaukaskattur af einnota barnableium lækkar úr 25,5% í 7%. Tekjuáhrif eru neikvæð um 200 m.kr.
          Atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa sem hlutfall af launakostnaði lækka samanlagt um 0,1 prósentustig. Tekjuáhrif eru neikvæð um 1 mia.kr.
          Fjársýsluskattur lækkar úr 6,75% í 4,5%. Tekjuáhrif eru neikvæð um 1,1 mia.kr.
          Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki hækkar úr 0,041% í 0,145%. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð verða skattskyld. Tekjuáhrif eru jákvæð um 14,3 mia.kr. Þar af nemur skattur á lögaðila í slitameðferð 11,3 mia.kr.
    Samanlögð áhrif þessara tillagna á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2104 eru talin verða um 7,0 mia.kr. til hækkunar. Að frátöldum sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð nema áhrifin 4,3 mia.kr. til lækkunar. Þá er ekki horft til óbeinna áhrifa vegna aukinna ráðstöfunartekna hjá velflestum heimilum sem ættu að skila sér í auknum veltusköttum og þar með hærri tekjum hjá ríkissjóði. Rétt er að taka fram að hækkun á frítekjumarki vaxtatekna hefur ekki áhrif fyrr en á árinu 2015.
    Til viðbótar þeim tillögum sem þegar hafa verið nefndar inniheldur frumvarpið nokkrar efnisminni tillögur um framlengingu á gildandi ákvæðum í lögum um tekjuskatt og virðisaukaskatt eins og nánar er lýst hér á eftir.

Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir.
    Í fyrsta lagi verður miðþrep í tekjuskattlagningu einstaklinga lækkað úr 25,8% í 25% frá og með næstu áramótum verði frumvarpið að lögum. Miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins gæti sú ráðstöfun aukið ráðstöfunartekjur heimilanna um allt að 5 mia.kr. á næsta ári og enn meira á árunum 2015–2017, en hún skerðir jafnframt tekjur ríkissjóðs um sömu fjárhæð.
    Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að frítekjumark vaxtatekna hjá einstaklingum, hvort sem þeir bera ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu hér á landi, hækki í 125.000 kr. í stað 100.000 kr. Aðgerðin felur í sér að heimilin halda eftir 200 m.kr. á ári sem annars hefðu runnið í ríkissjóð í formi fjármagnstekjuskatts. Verði frumvarpið að lögum mun breytingin ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs fyrr en 2015.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að frítekjumark hjá börnum undir 16 ára aldri hækki í 180.000 kr. í stað 100.745 kr. Verði frumvarpið að lögum mun breytingin ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs fyrr en 2015.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að færa einnota bleiur og laust bleiufóður úr efra þrepi virðisaukaskatts í það neðra, en þær vörur falla undir tollskrárnúmer 9619.0011. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs lækki um 200 m.kr. á ári vegna aðgerðarinnar.
    Í fimmta lagi eru áformaðar ýmsar breytingar á launatengdum gjöldum sem lögð eru á laun og hvers konar hlunnindi tengd vinnuframlagi viðkomandi. Miðað við tillögur frumvarpsins ætti heildarkostnaður fyrirtækja af þeim gjöldum að lækka um 0,1% að öðru óbreyttu á árinu 2014, 0,1% til viðbótar á árinu 2015 og 0,14% á árinu 2016. Gjöldin sem hér um ræðir eru atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa. Áætlað tekjutap ríkissjóðs af þessari ráðstöfun verði hún lögfest er talið verða nálægt 1 mia.kr. á árinu 2014, liðlega 2 mia kr. árið 2015 og 3,8 mia.kr. þegar áhrifin verða að fullu komin fram á árinu 2016.
    Í sjötta lagi er að finna í frumvarpinu hækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki sem í daglegu tali er kallaður bankaskattur, auk þess sem gildissvið hans er víkkað þannig að fjármálafyrirtæki í slitameðferð verði skattskyld. Áformað er að hækka bankaskattinn úr 0,041% í 0,145% í ársbyrjun 2014. Einnig er áformað að breyta lögunum þannig að þau taki einnig til lögaðila í slitameðferð sem eru samkvæmt gildandi lögum undanþegnir skattinum. Sú breyting breikkar stofn skattsins til muna. Áætlað er að hækkun skattsins auki tekjur ríkissjóðs um 14,3 mia.kr. árið 2014 og 14,5 mia.kr. árið 2015. Á árunum 2016–2017 er áætlað að hækkunin auki tekjur ríkissjóðs um 3,3 og 3,5 mia.kr. Á árunum 2014–2015 er áætlað að 11,3 mia.kr. komi frá þrotabúum föllnu bankanna og afgangurinn frá innlendum fjármálafyrirtækjum sem greiða skattinn. Hér er gengið út frá þeirri forsendu að í lok 2015 verði slitameðferð föllnu bankanna að fullu lokið.
    Í sjöunda lagi er áformað að lækka skatthlutfall á almennum fjársýsluskatti í 4,5%, en skatturinn er lagður á allar tegundir launa og önnur skattskyld hlunnindi fjármálafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og vátryggingafélaga auk Íbúðalánasjóðs. Verði frumvarpið að lögum mun það skerða tekjur ríkissjóðs um 1,1 mia.kr. árið 2014.

Ýmsar aðrar breytingar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins haldist óbreyttar milli áranna 2013 og 2014 og munu því engin áhrif verða á afkomu ríkissjóðs.
    Í öðru lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði XXXVIII í tekjuskattslögunum sem kveður á um að skuldajöfnun barnabóta í móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé óheimil á árunum 2011 til 2013 verði framlengt út árið 2014. Ekki eru forsendur til að meta hver áhrif frumvarpsins verða á útgreiddar barnabætur og þar með afkomu ríkissjóðs, verði frumvarpið að lögum, en allar líkur eru á að áhrifin verði minni háttar.
    Í þriðja lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði XV í virðisaukaskattslögunum verði framlengt um eitt ár til viðbótar til að sporna við frekara atvinnuleysi í byggingariðnaði og sömuleiðis svartri vinnu, sbr. átakið „Allir vinna“. Lög um virðisaukaskatt verða því óbreytt að þessu leyti milli ára og mun því framlenging á bráðabirgðaákvæðinu ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Í fjórða lagi hefur allt frá árinu 2001 verið til staðar bráðabirgðaheimild til að endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni. Í þessu frumvarpi er að finna tillögu um að umrædd heimild verði framlengd til ársloka 2014 og hefur það engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Í fimmta lagi er bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum um virðisaukaskatt þar sem umhverfisvænar bifreiðar njóta ákveðins krónutöluafsláttar upp að tilteknu hámarki sem að óbreyttu hefði fallið niður um áramót. Hér er lagt til að þessar sérreglur um útreikning virðisaukaskatts við innflutning og skattskylda sölu umhverfisvænna bifreiða verði framlengdar um eitt ár. Verði frumvarpið að lögum haldast gildandi lög óbreytt og hefur það ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Þær ráðstafanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni að öllu samanlögðu um 7 mia.kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu. Þær eru í samræmi við forsendur sem settar eru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki í skattkerfinu við að koma þessum breytingum í framkvæmd verði ekki verulegur og að hann rúmist innan fjárheimilda ráðuneytisins.