Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.

Þingskjal 3.  —  3. mál.Frumvarp til laga

um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014
(verðlagsbreytingar o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „54,88 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 56,55 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
             Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg

Kílómetragjald, kr.

Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg

Kílómetra-
gjald, kr.
10.000–11.000 0,29 21.001–22.000 6,98
11.001–12.000 0,90 22.001–23.000 7,59
12.001–13.000 1,50 23.001–24.000 8,20
13.001–14.000 2,12 24.001–25.000 8,80
14.001–15.000 2,73 25.001–26.000 9,40
15.001–16.000 3,34 26.001–27.000 10,02
16.001–17.000 3,94 27.001–28.000 10,63
17.001–18.000 4,54 28.001–29.000 11,24
18.001–19.000 5,15 29.001–30.000 11,85
19.001–20.000 5,76 30.001–31.000 12,45
20.001–21.000 6,38 31.001 og yfir 13,06
     b.      6. mgr. orðast svo:
             Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:

Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg

Kílómetra-
gjald, kr.

Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
5.000–6.000 8,56 18.001–19.000 22,60
6.001–7.000 9,26 19.001–20.000 23,62
7.001–8.000 9,97 20.001–21.000 24,66
8.001–9.000 10,68 21.001–22.000 25,68
9.001–10.000 11,37 22.001–23.000 26,70
10.001–11.000 12,38 23.001–24.000 27,72
11.001–12.000 13,71 24.001–25.000 28,75
12.001–13.000 15,02 25.001–26.000 29,77
13.001–14.000 16,33 26.001–27.000 30,79
14.001–15.000 17,64 27.001–28.000 31,82
15.001–16.000 18,95 28.001–29.000 32,85
16.001–17.000 20,26 29.001–30.000 33,87
17.001–18.000 21,59 30.001–31.000 34,88
31.001 og yfir 35,92

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2013, sem stendur frá 1. til 15. desember 2013, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir 1. janúar 2014.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2014 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir 1. janúar 2014 og fjölda gjaldskyldra daga eftir 1. janúar 2014.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

4. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „24,46 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 25,20 kr.

5. gr.

    Í stað fjárhæðanna „39,51 kr.“ og „41,87 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 40,70 kr.; og: 43,15 kr.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta,
með síðari breytingum.
6. gr.

    Í stað fjárhæðanna „5,75 kr.“, „5,00 kr.“, „7,10 kr.“ og „6,30 kr.“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: 5,90 kr.; 5,15 kr.; 7,30 kr.; og: 6,50 kr.

7. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „0,126 kr.“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,130 kr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.
8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „5.255 kr.“ og „126 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5.415 kr.; og: 130 kr.
     b.      Í stað fjárhæðanna „49.229 kr.“, „2,10 kr.“ og „77.495 kr.“ í 4. mgr. kemur: 50.705 kr.; 2,16 kr.; og: 79.820 kr.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „91,33 kr.“ í 1. tölul. kemur: 94,05 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „82,14 kr.“ í 2. tölul. kemur: 84,60 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „111,85 kr.“ í 3. tölul. kemur: 115,20 kr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „439,83 kr.“ í 1. tölul. kemur: 453,00 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „14,42 kr.“ í 2. tölul. kemur: 14,85 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „15,73 kr.“ í 3. tölul. kemur: 16,20 kr.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „552,48 kr.“ í 1. tölul. kemur: 569,05 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „27,62 kr.“ í 2. tölul. kemur: 28,45 kr.

VI. KAFLI

Breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit
með fjármálastarfsemi.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað „0,0292%“ í b-lið 1. tölul. 1. mgr. kemur: 0,02605%.
     b.      Í stað „0,404%“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 0,3234%.
     c.      Í stað „0,223%“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 0,1786%.
     d.      Í stað „0,0344%“ og „200.000 kr.“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: 0,0316%; og: 300.000 kr.
     e.      Í stað „0,0114%“, „1.200.000 kr.“, „1.930.000 kr.“, „3.370.000 kr.“, „6.260.000 kr.“ og „7.260.000 kr.“ í 9. tölul. 1. mgr. kemur: 0,01022%; 1.180.000 kr.; 1.900.000 kr.; 3.310.000 kr.; 6.150.000 kr.; og: 7.140.000 kr.
     f.      Í stað „0,0068%“ í 11. tölul. 1. mgr. kemur: 0,00606%.
     g.      Í stað „0,0088%“ í 12. tölul. 1. mgr. kemur: 0,00785%.
     h.      Í stað „6.000.000 kr.“, „3.000.000 kr.“ og „1.000.000 kr.“ í 2. málsl. 9. mgr. kemur: 3.000.000 kr.; 1.500.000 kr.; og: 500.000 kr.

VII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
13. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „9.604 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 9.911 kr.

14. gr.

    Í stað orðanna „2012 og 2013“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2012, 2013 og 2014.

15. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Vegna útreiknings á dvalarframlagi skv. 21. gr. er á tímabilinu 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 unnt að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins beri saman útreikning dvalarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Ef samanburðurinn sýnir aukna kostnaðarþátttöku heimilismanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta dvalarframlag vegna framangreinds tímabils til samræmis við það.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur
umboðsmanns skuldara, með síðari breytingum.

16. gr.

    Í stað „0,0343%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 0,0172%.

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki,
með síðari breytingum.

17. gr.

    Í stað orðanna „20 hundraðshlutum“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 15 hundraðshlutum.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.

18. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „18.800 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: 19.400 kr.

19. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. skal sérstakt gjald sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vera 17.800 kr. á árinu 2015 á hvern einstakling og lögaðila.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu,
með síðari breytingum.

20. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „18.800 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 16.400 kr.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó öðlast 3. mgr. 4. gr. og 2., 3. og 4. mgr. 7. gr. gildi 1. janúar 2014. Þá öðlast 1. og 2. mgr. 14. gr. gildi 1. janúar 2016.
     b.      Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2013“ í 2. mgr. kemur: 31. desember 2015.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 85/2008, um opinbera háskóla, með síðari breytingum.
22. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „60.000 kr.“ í a-lið 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: 75.000 kr.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
23. gr.

    20. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 1. mgr. og orðsins „tveimur“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: þrjá; og: þremur.
     b.      Í stað orðsins „tólf“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: níu.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „350.000 kr.“ í 3. mgr. kemur: 370.000 kr.
     b.      Í stað fjárhæðanna „94.938 kr.“ og „131.578 kr.“ í 7. mgr. kemur: 97.786 kr.; og: 135.525 kr.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 1. mgr. og orðsins „tvo“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: þrjá; og: þrjá.
     b.      Í stað orðsins „tólf“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: níu.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „57.415 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 59.137 kr.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 1. mgr. og orðsins „tvo“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: þrjá.
     b.      Í stað orðanna „allt að tólf“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: allt að níu.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „131.578 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 135.525 kr.

28. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

XV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „á árinu 2013“ í 1. málsl. kemur: á árunum 2013 og 2014.
     b.      Í stað ártalsins „2014“ í 2. málsl. kemur: 2015.

XVI. KAFLI

Brottfall laga nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs
vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum.

30. gr.

    Lög nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum, falla brott.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingum.
31. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 750 kr. á mánuði árið 2014 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
með síðari breytingum.

32. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2014 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.474,8 millj. kr. á árinu 2014. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 73,1 millj. kr. á árinu 2014.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
með síðari breytingum.

33. gr.

    19. og 22. gr. laganna falla brott.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Orðin „framkvæmd verðmiðlunar, þar með talið“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „verðmiðlunar og framleiðslugjalda“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: verðskerðingargjalda.
     c.      5. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „verðmiðlunar- og framleiðslugjöldum“ í 6. málsl. 1. mgr. kemur: verðskerðingargjöldum.
     e.      Í stað orðanna „verðmiðlunar- og framleiðslugjöldum svo og þeim gjöldum sem á eru lögð skv. 25. gr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: verðskerðingargjöldum.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Orðin „til framkvæmdar verðmiðlunar“ í 1. mgr. falla brott og í stað orðsins „lætur“ í sama málslið kemur: láta.
     b.      2. mgr. fellur brott.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Orðið „Verðmiðlunargjöld“ í 1. mgr. fellur brott.
     b.      Orðið „verðmiðlunargjöldum“ í 3. mgr. fellur brott.

37. gr.

    Orðin „sbr. þó 22. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. laganna falla brott.

38. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Uppsafnaðan halla verðtilfærslusjóðs 31. desember 2013 skal afurðastöð greiða í hlutfalli við hvern innveginn mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks eins og það var ákveðið fyrir árið 2013.

XX. KAFLI
Gildistaka.
39. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      1., 2., 4.–12., 16., 22., 23., 30., 31. og 33.–37. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014.
     b.      3., 14., 15., 19., 21., 29., 32. og 38. gr. öðlast þegar gildi.
     c.      13. og 18. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2014 vegna tekna ársins 2013.
     d.      17. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014 og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 vegna tekna ársins 2014.
     e.      20. gr. öðlast gildi 1. janúar 2016 og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2016 vegna tekna ársins 2015.
     f.      24.–28. gr. öðlast gildi 1. janúar 2014 og eiga við um foreldra barna sem fæðast eða eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2014 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í beinum tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Frumvarpið inniheldur margvíslegar breytingar á ýmsum lögum eins og nánar er rakið hér á eftir. Breytingar þessar eru allar forsendur sem lagðar eru til grundvallar áætlun fjárlagafrumvarpsins, bæði á tekjuhlið og gjaldahlið.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Má þar nefna hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, raforkuskatti, bifreiðagjaldi og gjaldi á áfengi og tóbak. Þá er lögð til hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Einnig er í frumvarpinu að finna tillögur að hækkunum á öðrum gjöldum eins og skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, sóknargjöldum og framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar.
    Í frumvarpinu er einnig að finna tillögur að breytingum sem eru liður í aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Á þetta við um breytingar á fjárhæðum greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, lagt er til að bæði hámarks- og lágmarksgreiðslur hækki en fallið er frá lengingu fæðingarorlofs. Einnig eru tillögur um lækkun skattfrádráttar til handa nýsköpunarfyrirtækjum og breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, m.a. um þróun útvarpsgjaldsins til næstu ára. Breytingar á gjaldtöku Fjármálaeftirlitsins eru af svipuðum toga sem og brottfall greiðslna vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga, þegar vinna liggur niðri vegna verkefnaskorts.
    Loks eru nokkrar tillögur af ólíkum toga sem fyrst og fremst ráðast af framkvæmdarlegum sjónarmiðum og er þá átt við breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs og tillögur er varða útreikning á kostnaðarþátttöku vistmanna í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Einnig er lögð til breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum í þeim tilgangi að leggja niður óþarft fyrirkomulag verðmiðlunar- og verðtilfærslukerfis í landbúnaði og um leið gera verðlagningu gagnsærri. Ætla má að með þessu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði betur gert kleift að takast á við samkeppni erlendis frá.
    Þá er lagt til að gjaldhlutfall vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara verði lækkað en gjaldið tekur mið af umfangi rekstrar stofnunarinnar.

3. Nánar um einstaka liði frumvarpsins.
1. Verðlagsuppfærsla einstakra skatta og gjalda.

    Í frumvarpinu er að finna tillögur um almenna 3% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári.

Bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki.
    Í frumvarpinu er lagt til að hækkun almenns og sérstaks vörugjalds á bensín, svo og olíugjalds, kílómetragjalds og bifreiðagjalds verði um 3%. Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 800 millj. kr. Jafnframt er lagt til að gjald af áfengi og tóbaki hækki til samræmis við verðlag, eða um 3%, og er sú hækkun talin skila um 530 millj. kr. samanlagt í viðbótartekjur árlega.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra er í samræmi við forsendur frumvarpsins sem þýðir að gjaldið verður 9.911 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2014. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega tæpum 60 millj. kr.

Umhverfis- og auðlindaskattar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, að raforkuskattur og kolefnisgjald af eldsneyti hækki í takt við verðlag eða um 3%. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun verði nálægt 160 millj. kr. Gjald af sölu á heitu vatni helst óbreytt, þ.e. 2% af útsöluverði.

2. Ýmsar breytingar.
    Auk þeirra tillagna sem þegar hefur verið fjallað um eru nokkrar tillögur af ýmsu tagi eins og nánar er fjallað um hér á eftir.

Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna.
    Lagt er til að við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða og að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Þá leiðir það til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2014.

Gjald vegna kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
    Lögð er til helmingslækkun gjaldhlutfalls af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara og er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 600 millj. kr. á árinu 2014.

Gjald vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins.
    Lagðar eru til breytingar á gjaldhlutföllum af álagningarstofnum skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem miðað er við þegar áætluð eru gjöld sem eiga að standa undir kostnaði vegna reksturs Fjármálaeftirlitsins á grundvelli lögbundins endurmats á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna eftirlitsskyldra aðila og mati á kostnaðardreifingu, sbr. 2. gr. laganna.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.
    Í frumvarpinu er lögð til lækkun á frádrætti sem nýsköpunarfyrirtæki geta fengið frá álögðum tekjuskatti. Lagt er til að frádrátturinn verði 15% af útlögðum kostnaði vegna nýsköpunarverkefna í stað 20% vegna rekstrarársins 2014. Sú breyting er talin lækka útgjöld ríkissjóðs um allt að 300 millj. kr. á árinu 2015. Þess má geta að árið 2012 nam umræddur stuðningur samtals 834 millj. kr., þar af voru 763 millj. kr. greiddar út með beinum hætti.
    Lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, fela í sér ríkisstyrkjakerfi í formi skattafsláttar til þeirra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði laganna. Öll ríkisstyrkjakerfi ber að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og fá samþykki fyrir þeim áður en lög um þau taka gildi. ESA veitti samþykki sitt fyrir kerfinu með ákvörðun sem dagsett er 23. mars 2011, nr. 88/11/COL. Samkvæmt sömu ákvörðun þarf að tilkynna allar fyrirhugaðar breytingar á kerfinu og fá samþykki fyrir þeim áður en lög þar um taka gildi. Þá breytingu sem felst í frumvarpinu þarf því að tilkynna til ESA og fá samþykki fyrir áður en það verður að lögum.

Ríkisútvarpið.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir að fjárveiting til Ríkisútvarpsins hækki um 215 millj. kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs og að því til viðbótar komi 104 millj. kr. sem ákvarðað er sem verðlagshækkun í frumvarpinu og nemur því hækkunin alls 319 millj. kr. Heildarframlag ríkissjóðs til Ríkisútvarpsins verður þar með 3.514 millj. kr. á árinu 2014. Skv. 1. tölul. 14. gr. laga nr. 23/2013, sem samþykkt voru á síðastliðnu vorþingi, verða tekjur af sérstöku gjaldi sem leggja skal á samhliða álagningu opinberra gjalda á tekjuskattsskylda einstaklinga og lögaðila markaðar Ríkisútvarpinu frá og með 1. janúar 2014 í stað þess að tekjurnar renni í ríkissjóð og að greitt sé framlag til starfseminnar samkvæmt þjónustusamningi um útvarp í almannaþágu. Áætlað er að á næsta ári verði álagðar tekjur af þessu sérstaka gjaldi 4.210 millj. kr. en að þar af innheimtist 3.910 millj. kr., sem er 715 millj. kr. hærra en framlag ríkissjóðs til fyrirtækisins í gildandi fjárlögum. Sem liður í ráðstöfunum til að falla frá nýjum og óhöfnum útgjöldum er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gildistöku fyrrgreindra ákvæða laganna verði frestað til 1. janúar 2016 en að eftir það verði útvarpsgjaldið markaður tekjustofn til félagsins. Framlagið til Ríkisútvarpsins er eigi að síður hækkað um 319 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu, eins og fyrr segir, og er þeirri aukningu ætlað að mæta tilteknum kostnaðarbreytingum hjá fyrirtækinu sem leiðir af öðrum ákvæðum lagasetningarinnar síðastliðið vor, svo sem varðandi aðgreiningu á starfsemi félagsins og dótturfyrirtækja og takmarkanir á kostun og hámarksauglýsingatíma. Í tengslum við þessi áform og í því skyni að lækka álögur á heimili og fyrirtæki hefur verið ákveðið að árið 2015 verði útvarpsgjaldið lækkað sem svarar til um 250 millj. kr. og aftur um sömu fjárhæð árið 2016 þannig að tekjur ríkissjóðs lækki þar með alls um 500 millj. kr. Varðandi árið 2014 er hins vegar lagt til að fjárhæð útvarpsgjalds hækki um 600 kr. frá gildandi lögum og nemi 19.400 kr. á hvern gjaldanda í stað 18.800 kr. Um er að ræða 3% hækkun í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar um 130 millj. kr.

Opinberir háskólar.
    Í frumvarpinu er lagt til að skrásetningargjald í opinbera háskóla verði hækkað úr 60.000 kr. í 75.000 kr. Áætlaðar viðbótartekjur af þeirri hækkun eru metnar 213 millj. kr. Ósk um hækkun skrásetningargjalda barst frá ríkisháskólunum með bréfi, dags. 26. ágúst 2013, til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Árið 2012 samþykkti Alþingi hækkun á skrásetningargjöldum úr 45.000 kr. í 60.000 kr. fyrir hvern nemanda og var sú breyting rökstudd með tölulegum upplýsingum úr bókhaldi Háskóla Íslands. Í beiðni ríkisháskólanna nú kom fram að samkvæmt rauntölum úr bókhaldi Háskóla Íslands hefði skrásetningargjaldið þurft að vera um 69.600 kr. til að nægja fyrir útgjöldum sem því væri ætlað að standa undir og samkvæmt rauntölum úr bókhaldi Háskólans á Akureyri árið 2012 væri kostnaðurinn um 80.000 kr. Í kjölfar viðræðna mennta- og menningarmálaráðuneytisins við ríkisháskólana var beiðni um hækkun skrásetningargjalda tekin fyrir á fundi í háskólaráði Háskóla Íslands í september sl. Ef miðað er við forsendur fjárlaga um verðlagsþróun má leiða rök að því að skrásetningargjaldið ætti að vera um 72.400 kr. árið 2013 og ríflega 75.000 kr. árið 2014 ef gert er ráð fyrir 4% hækkun verðlags milli áranna. Að framansögðu er því lagt til að hækka skrásetningargjaldið úr 60.000 kr. í 75.000 kr.

Aukatekjur ríkissjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að 20. tölul. 10. gr. laga nr. 88/1991 falli brott, en hann kveður á um gjald af útgáfu leyfisbréfa til leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur verið unnið að tillögum um að nýta heimild í 4. mgr. 21. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, þ.e. að fela háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli laga um háskóla og sinna menntun kennara eftir samningi við ráðuneytið, að annast útgáfu leyfisbréfa samkvæmt lögunum. Í tengslum við framangreint hefur komið í ljós að slík framkvæmd gæti reynst flókin vegna innheimtu og skila á gjaldi fyrir hvert leyfisbréf og því er hér lagt til að felldur verði brott 20. tölul. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs til þess að auðvelda útvistun verkefnanna til háskólanna. Tekjur af þessu gjaldi hafa verið óverulegar, kringum 2 millj. kr. á ári.

Fæðingar- og foreldraorlof.
    Lagt er til að hámarksgreiðsla sem foreldrar geta átt rétt á úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkuð úr 350.000 kr. í 370.000 kr. auk þess sem fallið verði frá lengingu fæðingarorlofs foreldra á vinnumarkaði. Verður fæðingarorlofið því áfram samtals níu mánuðir í stað tólf eins og hefði orðið að óbreyttu. Þá er lögð til 3% hækkun á fjárhæðum lágmarksgreiðslna laganna sem er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Að öllu samanlögðu eru þessar breytingar taldar lækka útgjöld í þessum málaflokki um 150 millj. kr.

Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Í lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, er mælt fyrir um að framlag ríkissjóðs skuli vera hluti af gjaldstofni tryggingagjalds og samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, mun hlutdeildin nema 0,13% af gjaldstofni tryggingagjaldsins frá og með árinu 2015. Í bráðabirgðaákvæði er hins vegar kveðið á um að á árinu 2013 nemi hlutdeildin 0,0325% og 0,0975% á árinu 2014. Miðað við núgildandi tryggingagjaldsstofn mundi 0,13% hlutdeild fela í sér 1,2 milljarða kr. framlag úr ríkissjóði á ári. Þar sem gert er ráð fyrir jafnháu framlagi bæði frá lífeyrissjóðum og atvinnurekendum mundi samanlagt framlag nema 3,6 milljörðum kr. á ári til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, sem er eini starfsendurhæfingarsjóðurinn sem starfræktur er samkvæmt ákvæðum laga nr. 60/2012, frá og með árinu 2015. Í tengslum við sértækar aðhaldsaðgerðir til að bæta afkomu ríkissjóðs á árinu 2014 er gert ráð fyrir að fyrirhugaðri hækkun á hlutdeild starfsendurhæfingarsjóða í tryggingagjaldinu úr 0,0325% í 0,0975% á árinu 2014 verði frestað þannig að framlag ríkissjóðs á árinu 2014 miðist við óbreytta hlutdeild í tryggingagjaldinu og nemi 315 millj. kr. Að óbreyttu hefði 0,0975% hlutdeild af gjaldstofni tryggingagjaldsins leitt til 629 millj. kr. hækkunar á framlagi ríkissjóðs en með þessari breytingu er komið í veg fyrir að þau útgjöld falli til á árinu 2014.

Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.
    Lagt er til að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga, þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts, verði felldar brott frá og með 1. janúar 2014 í samræmi við frumvarp til fjárlaga. Um er að ræða hluta af sértækum aðhaldsaðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs.

Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 728 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 750 kr. fyrir árið 2014. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2013, með breytingu á lögum nr. 91/1987 gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Samkvæmt ríkisreikningi námu sóknargjöld samtals 1.855 millj. kr. á árinu 2012.

Framlag til þjóðkirkjunnar.

    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2014 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 62,8 millj. kr. Lagt er til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs verði óbreytt í krónum talið árið 2014.

Lögbundið verðmiðlunargjald og verðtilfærslugjald.
    Tilgangurinn með þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, er að leggja niður óþarft fyrirkomulag verðmiðlunar- og verðtilfærslukerfis í landbúnaði og um leið gera verðlagningu gagnsærri. Ætla má að með þessu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði betur gert kleift að takast á við samkeppni erlendis frá. Með þessu mun opinber stuðningur við landbúnað samkvæmt fjárlögum lækka samtals um tæpar 383 millj. kr.
    Samkvæmt 19. gr. búvörulaga er lagt á verðmiðlunargjald, 0,65 kr. á hvern lítra af mjólk sem lögð er inn í afurðastöð innan greiðslumarks, en sú upphæð gerir rúmar 75 millj. kr. á þessu ári.
    Lagt er til í frumvarpinu að 19. gr. búvörulaga um álagningu verðmiðlunargjalds verði felld brott. Breytingunni er ætlað að færa form og ábyrgð rekstrar til afurðastöðvanna. Sú breyting sem hefur orðið á rekstrarumhverfi fyrirtækja í mjólkuriðnaði á undanförnum árum gerir þetta verðmiðlunarkerfi óþarft. Lagt er til að verðtilfærslugjald skv. 22. gr. búvörulaga verði afnumið og form og ábyrgð rekstrar færist til afurðastöðvanna. Nokkur forsaga er að baki verðtilfærslu milli einstakra mjólkurafurða. Á sínum tíma voru niðurgreiðslur á verði mjólkur og mjólkurafurða breytilegar sem hlutfall af verði hverrar afurðar. Niðurgreiðslur voru afnumdar árið 1992 en þess í stað teknar upp beinar greiðslur til bænda og var ákveðið, til að valda ekki röskun á markaði, að heimila tilfærslur á milli verðs einstakra afurða. Verðtilfærsla milli mjólkurafurða hefur verið stunduð allar götur síðan. Ljóst er hins vegar að þetta fyrirkomulag stuðlar að umdeilanlegri verðmyndun og tekur ekki nægjanlegt tillit til raunverulegs framleiðslukostnaðar. Allt að einu er það ekki talið eðlilegt að opinber stýring af þessu tagi ráði verðlagningu einstakra vörutegunda og vöruflokka þar sem verðlagning á einni vörutegund er notuð til þess að lækka eða hækka verð á annarri vörutegund.
    Jafnframt er lagt til að felldar verði brott greinar sem fjalla um framkvæmd verðmiðlunar og verða óþarfar að samþykktum þeim breytingum sem í frumvarpinu felast.

4. Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Krónutölugjöld og nefskattar eru mikilvægur hluti af tekjuáætlun fjárlaga ár hvert en samtals nemur þessi tekjuflokkur um 10% af heildarskatttekjum ríkisins á árinu 2013. Þessir skattar hækka ekki sjálfvirkt í takt við verðlag heldur þarf að breyta lögum eigi þeir að fá verðlagsuppfærslu.
    Erfitt er að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna, sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála og þar með tekjur ríkissjóðs, enda aðgerðirnar mjög margvíslegar. Þá eru áhrif þeirra bæði bein og óbein og koma ekki einungis fram á árinu 2014 heldur á næstu árum.
    Áhrif hækkana á krónutölugjöldum, eins og eldsneytisgjöldum og gjöldum af áfengi og tóbaki, koma að óbreyttu fram í hærra verðlagi. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2–0,3% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Hækkun annarra gjalda sem frumvarpið tekur til hefur einhver bein áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna til lækkunar. Áhrif þessara breytinga í heild gætu því mælst nálægt 0,3% til rýrnunar á kaupmætti ráðstöfunartekna ef áhrifin koma fram að fullu.

5. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við drög að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Við gerð þess var haft samráð við velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, innanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er gerð tillaga um 3% hækkun á olíugjaldi, úr 54,88 kr. á hvern lítra í 56,55 kr., í samræmi við verðlagsforsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að fjárhæð almenns kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds hækki um 3% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það hvernig kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri ef ekki er komið með ökutæki til álestrar innan álestrartímabila.

Um 4. og 5. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,74 kr. á hvern lítra, úr 24,46 kr. í 25,20 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 1,19 kr. á hvern lítra, úr 39,51 kr. í 40,70 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1,28 kr. á hvern lítra, úr 41,87 kr. í 43,15 kr. Þessi hækkun á bensíngjöldum nemur 3% sem er almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda í ársbyrjun 2014.

Um 6. gr.

    Greiða skal í ríkissjóð kolefnisgjald af eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna sem notað er á fljótandi eða loftkenndu formi eða í iðnaðarferlum þannig að sú notkun leiði til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna á fljótandi eða loftkenndu formi er átt við gas og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt kolvatnsefni.
    Lagt er til að fjárhæð kolefnisgjalds af eldsneyti hækki um 3% en það er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að skattur af raforku verði hækkaður úr 0,126 kr. í 0,130 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku í samræmi við verðlagsbreytingar.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bifreiðagjald hækki um 3% milli áranna 2013 og 2014 í samræmi við verðlagsbreytingar.

Um 9.–11. gr.

    Með greinunum er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds verði hækkuð um 3% í samræmi við verðlagshækkanir. Einnig er lagt til að almennt tóbaksgjald verði hækkað um 3%.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir lækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, Lánasjóðs sveitarfélaga, rekstrarfélaga, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og fjármálafyrirtækja sem eru undir stjórn slitastjórna. Lögð er til hækkun á fastagjaldi fagfjárfestasjóða, en að álagningarhlutföll annarra eftirlitsskyldra aðila standi í stað. Miðað er við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2014, sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur embættisins nemi um 2.168 millj. kr. á komandi ári. Í samræmi við 3. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er jafnframt tekið mið af áætluðum rekstrarafgangi stofnunarinnar í árslok 2013 að frádregnum varasjóði upp á 80 millj. kr. Þá er enn fremur lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði gert að hagræða í rekstri í samræmi við hagræðingarkröfur í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014. Innheimtunni er samkvæmt því ætlað að skila tekjum sem svara til um 1.580 millj. kr.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað í samræmi við almennar verðlagsbreytingar, eða um 3,2%, og nemi 9.911 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2014 vegna tekna ársins 2013.

Um 14. og 15. gr.

    Gert er ráð fyrir að við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 sé unnt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku vistmanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 120/2009. Með lögum nr. 166/2006 var dregið úr tengingum við tekjur maka vistmanna og þær síðar afnumdar með lögum nr. 120/2009. Sýni samanburðurinn aukna kostnaðarþátttöku vistmanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta vistunarframlag vegna ársins 2014 til samræmis við það. Sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir vistmanninn verður því ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans og útreikning vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um framlengingu á sams konar ákvæði að ræða. Gildandi ákvæði um heimild til samanburðar á útreikningi á kostnaðarþátttöku vistmanna samkvæmt eldri og yngri lögum, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI, rennur út 31. desember 2013.
    Þá er lögð til framlenging á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða VII þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóður aldraðra hafi tímabundna heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra. Ástæða þessara ráðstafana er fjárhagsvandi ríkissjóðs og sparnaðarkrafa fjárlagaheimilda.

Um 16. gr.

    Lögð er til breyting á 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara þar sem breyta þarf hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laganna. Með 1. mgr. 5. gr. laganna er lagt til grundvallar að allir gjaldskyldir aðilar skuli greiða sama hlutfall af álagningarstofni skv. 4. gr., sem eru öll útlán viðkomandi aðila í lok næstliðins árs miðað við ársreikning, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. Með fyrirkomulagi þessu er leitast við að tryggja sanngjarna skiptingu rekstrarkostnaðar á milli gjaldskyldra aðila með hliðsjón af umfangi útlána hvers og eins aðila á því tímabili sem tilgreint er í 4. gr. laganna. Þannig ber sá gjaldskyldi aðili sem hefur hæst hlutfall útlána af heildarútlánum allra gjaldskyldra aðila á viðkomandi tímabili mestan kostnað vegna reksturs umboðsmanns skuldara. Sá gjaldskyldi aðili sem hefur lægst hlutfall útlána ber að sama skapi minnstan kostnað vegna rekstursins. Er þá miðað við fjárhæðir útlána en ekki fjölda þeirra. Lagt er til að hlutfallið sem tilgreint er í 1. mgr. 5. gr. laganna lækki úr 0,0343% í 0,0172%. Miðast það hlutfall við rekstraráætlun umboðsmanns skuldara fyrir árið 2014 sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur embættisins nemi um 715 millj. kr. á næstkomandi ári. Í samræmi við 7. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara er jafnframt tekið mið af rekstrarafgangi síðasta árs, samtals um 114 millj. kr., sem skýrist af því að rekstrartap reyndist vera minna en áætlað var við gjaldtöku 2013, eða um 97 millj. kr. í stað 212 millj. kr. Samkvæmt framansögðu er innheimtunni ætlað að skila tekjum sem svara til um 600 millj. kr.

Um 17. gr.

    Lagt er til að skattfrádráttur frá álögðum tekjuskatti lækki úr 20% í 15% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna nýsköpunarfyrirtækja.

Um 18.–21. gr.

    Lagt til að frestað verði um tvö ár gildistöku 1. og 2. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.
    Þá er lagt til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds árið 2014 verði hækkuð um 600 kr., eða 3%, og nemi 19.400 kr. á hvern gjaldanda í stað 18.800 kr. samkvæmt gildandi lögum. Auk þess er lagt til að gjaldið lækki og nemi 17.800 kr. árið 2015 og 16.400 kr. árið 2016. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 22. gr.

    Í greininni er lagt til að skrásetningargjald í opinbera háskóla verði hækkað úr 60.000 kr. í 75.000 kr. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 23. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að 20. tölul. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs falli brott. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 24.–28. gr.

    Foreldrar fá 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili í fæðingarorlofi og er lagt til að hámarksgreiðslan sem foreldrar geta átt rétt á úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkuð úr 350.000 kr. í 370.000 kr. Mikilvægt er að röskun á tekjum heimilis verði sem minnst við tilkomu barns á heimili þannig að markmið laganna um að barn njóti samvista við báða foreldra sína nái fram að ganga og báðum foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnuþátttöku.
    Þá eru lagðar til breytingar á fjárhæðum lágmarksgreiðslna frá því sem er í gildi skv. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. einnig reglugerð nr. 1223/2011, um breytingu á reglugerð nr. 1208/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, með síðari breytingum. Um er að ræða hækkun sem nemur 3% og er það í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Að auki er lagt til að fallið verði frá þeim áætlunum að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði og að fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði verði áfram samtals níu mánuðir sem skiptist þannig að hvort foreldri um sig eigi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs og sameiginlegan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs sem foreldrar eiga kost á að ráðstafa milli sín að eigin vild. Gert er ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til öðlist gildi 1. janúar 2014 og taki til foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2014 eða síðar.

Um 29. gr.

    Með ákvæðinu er frestað til 2015 hækkun á mörkun tekna til atvinnutengdra starfsendurhæfingarsjóða úr 0,0325% í 0,0975% fyrir árið 2014. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 30. gr.

    Lagt er til að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga, þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts, falli brott frá og með 1. janúar 2014 í samræmi við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Um er að ræða útfærslu á sértækum aðhaldsaðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs.


Um 31. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 728 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 750 kr. fyrir árið 2014.

Um 32. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2014 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 62,8 millj. kr. og að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs verði það sama og á árinu 2013 eða 73,1 millj. kr.

Um 33. gr.

    Samkvæmt 19. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, er lagt svonefnt verðmiðlunargjald, að fjárhæð 0,65 kr., á hvern lítra af mjólk sem lögð er inn í afurðastöð innan greiðslumarks. Í greininni kemur fram að verðmiðlunargjaldi skuli varið til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöðvum í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur og til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum afurðum. Gjaldinu skuli einnig varið til að koma á hentugri verkaskiptingu milli afurðastöðva og til að jafna aðstöðu þeirra til að koma framleiðsluvörum sínum á markað. Við ráðstöfun tekna af verðmiðlunargjaldinu er heimilt að taka tillit til stærðar og staðsetningar afurðastöðva, svo unnt sé að styrkja sérstaklega rekstur þeirra þar sem það þykir hagkvæmur kostur vegna landfræðilegrar einangrunar.
    Á grundvelli þessarar heimildar hefur verðmiðlunargjaldi verið ráðstafað til að styrkja rekstur afurðastöðva á landsvæðum þar sem framleiðsluaðstæður hafa verið síður hagkvæmar en annars staðar á landinu. Þannig nutu minni afurðastöðvarnar góðs af verðmiðluninni á árum áður.
    Með lögum nr. 85/2004 var búvörulögum breytt í því skyni að gera afurðastöðvum í mjólkuriðnaði kleift að hagræða og mæta harðnandi samkeppni erlendis frá með sameiningu og samruna. Með stofnun nýs rekstrarfélags í mjólkuriðnaði, MS ehf., með þátttöku Mjólkursamsölunnar, Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga, hefur náðst veruleg hagræðing í rekstri, flutningum og aðföngum.
    Vegna stofnunar MS ehf. á sínum tíma eru forsendur fyrir verðmiðlun milli afurðastöðva breyttar, enda er nú um að ræða nána samvinnu í vinnslu og dreifingu milli þeirra tveggja helstu afurðastöðva sem starfa í landinu, þ.e. MS ehf. og mjólkursamlags KS. Frá því að MS ehf. tók til starfa hefur innheimt verðmiðlunarfé verið endurgreitt til þeirra lögaðila sem gjaldið er lagt á til samræmis við tillögur Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, skv. 4. mgr. 19. gr. búvörulaga.
    Af sömu ástæðu eru nú breyttar forsendur til innheimtu á gjaldi til að jafna flutningskostnað framleiðenda eða til styrktar á flutningi hráefnis og mjólkurvara milli afurðastöðva og til fjarlægari byggða landsins. Hér hefur enn fremur þýðingu að verðlagsnefnd búvöru ákveður heildsöluverð á tilteknum mjólkurafurðum án tillits til þess hvar varan er afhent og er dreifingarkostnaður því hluti af opinberu heildsöluverði. Í verðlagsnefnd sitja fulltrúar frá ASÍ, BSRB, Bændasamtökum Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til á lögunum er einnig ætlunin að færa form og ábyrgð rekstrar til afurðastöðvanna og afnema lögbundið verðtilfærslugjald sem fjallað er um í 22. gr. laganna með því að fella ákvæðið brott.

Um 34. gr.

    Orðalag greinarinnar stendur að mestu óbreytt en tillaga er gerð um að fella brott texta sem vísar til verðmiðlunargjalda og verðtilfærslugjalda sem lögð verði af skv. 33. gr. frumvarpsins.

Um 35. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna stendur að mestu óbreytt en felldur er brott texti sem vísar til verðmiðlunargjalda sem lögð eru af með 33. gr. frumvarpsins. Gerð er tillaga um að fella niður í heild sinni 2. mgr. 26. gr. laganna. Greinin fjallar um veitingu upplýsinga sem meðal annars snúa að verðmiðlunargjöldum. Efni 2. mgr. 26. gr. laganna tekur í raun aðeins til verðmiðlunargjalda en á ekki við um verðskerðingargjöld sem lögin fjalla áfram um, enda um að ræða eðlisólík gjöld.

Um 36. gr.

    Ákvæði 27. gr. stendur að mestu óbreytt en felldur er brott texti sem vísar til verðmiðlunargjalda. Ákvæðið gildir áfram um verðskerðingargjöld skv. 20. gr. laganna og verðjöfnunargjöld skv. 84. gr. laganna.

Um 37. gr.

    Í 33. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að ákvæði 22. gr. laganna sem fjallar um verðtilfærslugjöld verði fellt brott. Með þessari grein er lagt til að felld verði brott tilvísun í ákvæði 22. gr. laganna í 2. mgr. 29. gr. laganna.

Um 38. gr.

    Samkvæmt bókhaldi verðtilfærslusjóðs er áætlað að neikvætt eigið fé hans verði um 31 millj. kr. 31. desember 2013. Til að hægt sé að afnema verðtilfærslu um áramót er gert ráð fyrir að neikvæðum eftirstöðvum verði skipt á milli afurðastöðva í hlutfalli við hvern innveginn mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks eins og það var ákveðið fyrir árið 2013. Ekki þarf að gera sérstakar ráðstafanir varðandi verðmiðlunarsjóð þar sem síðustu ár hefur gjaldið verið lagt á en ráðstafað síðan aftur til sömu aðila og greiddu gjaldið.

Um 39. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga
fyrir árið 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem einkum snúa að breytingum á tekjuhlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014. Í frumvarpinu er að finna tillögur um almenna 3% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári. Má þar nefna hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, raforkuskatti, bifreiðagjaldi og gjaldi á áfengi og tóbak. Þá er lögð til hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi. Einnig er lögð til hækkun á skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, hækkun á sóknargjöldum og framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar en framlag til Kristnisjóðs stendur í stað. Loks er lögð til breyting á fjárhæðum greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en bæði hámarks- og lágmarksgreiðslur eru hækkaðar en fallið frá lengingu fæðingarorlofs.
    Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði er varða útreikning á kostnaðarþátttöku vistmanna í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Þá er í frumvarpinu lagt til að gjaldhlutfall vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara verði lækkað. Einnig er í frumvarpinu lagt til að eftirlitsgjald sem er markað og rennur að fullu til Fjármálaeftirlitsins verði lækkað í samræmi við fyrirliggjandi rekstraráætlun. Loks er að finna ákvæði um lækkun skattfrádráttar til handa nýsköpunarfyrirtækjum og breytingar á lögum um Ríkisútvarpið og lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um samtals 2,7 mia. kr. verði frumvarpið að lögum.
Milljónir kr.

2014


    Verðlagshækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám          1.680
    Hækkun vörugjalda á bensín, olíugjalds, kílómetragjalds, bifreiðagjalds          800
    Hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi          530
    Hækkun raforkuskatts og kolefnisgjalds af eldsneyti          160
    Hækkun útvarpsgjalds          130
    Hækkun gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra          60

    Ýmsar aðrar breytingar          1.063
    Óbreytt framlag ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða          629
    Sérstakt útvarpsgjald          500
    Hækkun skrásetningargjalds við opinbera háskóla          213
    Hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði          -150
    Hækkun sóknargjalda          -50
    Skuldbinding ríkissjóðs gagnvart þjóðkirkjunni          -63
    Hækkun á framlagi í Jöfnunarsjóðs sókna og Kirkjumálasjóð          -16
    Lækkun á gjaldahlutfalli vegna umboðsmanns skuldara          0
    Lækkun á eftirlitsgjaldi í samræmi við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins          0

     Samtals                    2.743

Verðlagshækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám.
    Gert er ráð fyrir að hækkun almenns og sérstaks vörugjalds á bensín, svo og olíugjalds, kílómetragjalds og bifreiðagjalds, skili ríkissjóði 800 millj. kr. Þá muni hækkun gjalds á áfengi og tóbaki skila um 530 millj. kr. samanlagt í viðbótartekjur árlega.
    Hækkun raforkuskatts og kolefnisgjalds af eldsneyti er talin leiða til þess að tekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun verði nálægt 160 millj. kr.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af hækkun útvarpsgjalds úr 18.800 kr. í 19.400 kr. eru áætlaðar um 130 millj. kr. og áætluð hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra er talin skila ríkissjóði aukalega tæpum 60 millj. kr.

Ýmsar aðrar breytingar.
    Lagt er til að fyrirhugaðri hækkun á markaðri hlutdeild starfsendurhæfingarsjóða í tryggingagjaldinu úr 0,0325% í 0,0975% á árinu 2014 verði frestað. Með því móti miðast framlag ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða á árinu 2014 við óbreytta hlutdeild í tryggingagjaldinu. Að óbreyttu hefði 0,0975% hlutdeild af gjaldstofni tryggingagjaldsins leitt til 629 millj. kr. hækkunar á framlagi ríkissjóðs en með þessari breytingu er komið í veg fyrir að þau útgjöld falli til á árinu 2014. Verði frumvarpið að lögum mun afkoma ríkissjóðs því batna um 629 millj. kr.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu fær Ríkisútvarpið tekjur af sérstöku gjaldi sem leggja skal á samhliða álagningu opinberra gjalda frá og með árinu 2014, skv. 93. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í frumvarpinu er mælt fyrir um frestun á gildistöku 1. og 2. mgr. 14. gr. laganna um mörkun tekna af útvarpsgjaldinu til tveggja ára. Þá er lagt til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds verði lækkuð á árinu 2015 í 17.800 kr. og árinu 2016 í 16.400 kr. Áætlað er að á næsta ári verði álagðar tekjur af þessu sérstaka gjaldi 4.210 millj. kr. en að þar af innheimtist 3.910 millj. kr., sem er 715 millj. kr. hærra en framlag ríkissjóðs til fyrirtækisins í gildandi fjárlögum. Á móti er framlagið til Ríkisútvarpsins hækkað um 215 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu, og munu því breytingarnar bæta afkomu ríkissjóðs um sem nemur 500 millj. kr. Í tengslum við þessi áform og í því skyni að lækka álögur á heimili og fyrirtæki hefur verið ákveðið að árið 2015 verði útvarpsgjaldið lækkað sem svarar til um 250 millj. kr. og aftur um sömu fjárhæð árið 2016 þannig að tekjur ríkissjóðs lækki þar með alls um 500 millj. kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að skrásetningargjald við opinbera háskóla verði hækkað úr 60.000 kr. í 75.000 kr. Gert er ráð fyrir að vegna breytinganna aukist tekjur ríkissjóðs um sem nemur 213 millj. kr.
    Lagt er til að hámarksgreiðsla sem foreldrar geta átt rétt á úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkuð úr 350.000 kr. í 370.000 kr. auk þess sem fallið verði frá lengingu fæðingarorlofs foreldra á vinnumarkaði. Þá er lögð til 3% hækkun á fjárhæðum lágmarksgreiðslna laganna. Gert er ráð fyrir að vegna breytinganna aukist útgjöld ríkissjóðs um sem nemur 150 millj. kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 728 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 750 kr. fyrir árið 2014. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2013, með breytingu á lögum nr. 91/1987 gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Ekki liggur fyrir hver áætlaður fjöldi í þjóðkirkjunni verður á næsta ári og er því erfitt að leggja mat á hver útgjaldaaukning ríkissjóðs verður vegna þessa. Miðað við óbreyttan fjölda munu framlög ríkisins til trúfélaga á árinu 2014 hækka um 50 millj. kr. Þessu til viðbótar mundu útgjöld ríkissjóðs hækka um 16 millj. kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna miðað við óbreyttan fjölda, en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld, og vegna kirkjumálasjóðs, sem reiknast á sama hátt sem 14,3% af sóknargjöldum.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2014 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 62,8 millj. kr. Lagt er til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni ekki skerðast á árinu 2014.
    Lögð er til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða VI og VII í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Þá leiðir það til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2014. Ekki liggja fyrir forsendur til að meta áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Lögð er til breyting á því hlutfalli af álagningarstofni skv. 4. gr. laga nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, sem miðað er við þegar gjald sem ætlað er að standi undir kostnaði vegna reksturs umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Lagt er til að hlutfallið sem tilgreint er í 1. mgr. 5. gr. laganna lækki úr 0,0343% í 0,0172% og munu tekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins nema um 600 millj. kr. á næsta ári. Á móti lækkar rekstrarkostnaður embættisins og í rekstraráætlun er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur embættisins nemi um 715 millj. kr. árið 2014. Í samræmi við 7. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara er jafnframt tekið mið af rekstrarafgangi síðasta árs, samtals um 114 millj. kr., og munu því tekjur af gjaldinu standa að fullu undir kostnaði og áhrif á afkomu ríkissjóðs eru því engin.
    Vegna álagðra gjalda sem renna til reksturs Fjármálaeftirlitsins er lögð til lækkun gildandi álagningarhlutfalla viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, Lánasjóðs sveitarfélaga, rekstrarfélaga, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og fjármálafyrirtækja sem eru undir stjórn slitastjórna. Lögð er til hækkun á fastagjaldi fagfjárfestasjóða, en að álagningarhlutföll annarra eftirlitsskyldra aðila standi í stað. Miðað er við rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2014, sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur embættisins nemi um 2.168 millj. kr. á næstkomandi ári. Í samræmi við 3. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er jafnframt tekið mið af áætluðum rekstrarafgangi stofnunarinnar í árslok 2013 að frádregnum varasjóði upp á 80 millj. kr. Innheimtunni er því samkvæmt framansögðu ætlað að skila tekjum sem svara til um 1.608 millj. kr. Tekjurnar eru að fullu markaðar og renna því að fullu til Fjármálaeftirlitsins og hefur breytingin því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Í frumvarpinu er lögð til lækkun á þeim frádrætti sem nýsköpunarfyrirtæki geta fengið frá álögðum tekjuskatti. Lagt er til að frádrátturinn verði 15% af útlögðum kostnaði vegna nýsköpunarverkefna í stað 20%. Breytingarnar taka gildi fyrir rekstrarárið 2014 og hafa því einungis áhrif á afkomu ríkissjóðs árið 2015 eða við uppgjör ársins 2014. Breytingarnar hafa því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs árið 2014 en gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs dragist saman sem nemur 300 millj. kr. árið 2015.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um brottfall 20. tölul. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, sem fjallar um leyfi til leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara, til þess að auðvelda útvistun verkefnanna til háskólanna. Gert er ráð fyrir að breytingarnar hafi óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Þær ráðstafanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni að öllu samanlögðu um 2,7 milljarða kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu. Þær eru í samræmi við forsendur sem settar eru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki í skattkerfinu við að koma þessum breytingum í framkvæmd verði ekki verulegur og að hann rúmist innan fjárheimilda ráðuneytisins.